Mímir - 01.03.1967, Page 8
hann í neinu. Ég hef aðeins löngun til að auka
dálitlu við ummæli hans. Ég styðst þar ekki við
eigin rannsóknir, heldur norsk sögurit, sem í
þessu tilviki segja talsvert meira um íslenzka
sögu en hin íslenzku.
II
I fjórðu grein samnings Svía og Dana, sem
undirritaður var í Kiel 14. janúar 1814, er
ákveðið, að Danakonungur skuli fá Svíakonungi
í hendur konungsríkið Noreg. Svo að ekkert fari
á milli mála, er alllöng og fremur ruglingsleg
skýrgreining á konungsríkinu Noregi — og síð-
an er skotið inn: „Grænland, Færeyjar og Is-
land ekki meðtalin.” Svo lítið lagðist fyrir það
ríkjasamband, sem Hákon konungur gamli lagði
sig svo fram um að koma á á þrettándu öldinni,
að það er hér afnumið í einni innskotssetningu í
samningi, sem hvorki Norðmenn né Islendingar
eiga nokkurn hlut að.
Ef nokkur Danakonungur hefur nokkru sinni
verðskuldað það að kallast einvaldur, þá var það
Friðrik konungur sjötti á árum Napóleonsstyrj-
aldanna. Þó benda líkur til, að það hafi ekki ver-
ið hann, sem réði örlögum Islands að þessu sinni,
heldur fulltrúi hans við samningana í Kiel,
diplómatinn Edmund Bourke. Svo mikið er víst,
að í þeim fyrirmælum, sem Bourke hafði með
sér frá konungi um samningagerðina, þar sem
gert er ráð fyrir að gefa upp allan Noreg, er ekki
minnzt á, að reynt skuli að skilja hjálendurnar
undan. Danakonungur hefur væntanlega gert
ráð fyrir, að fulltrúi Svía myndi heimta, að þessi
lönd fylgdu Noregi og ekki ætlað sér að leggja
kapp á að koma í veg fyrir það. Síðan hefur
Bourke dottið í hug að reyna að bjarga því, sem
bjargað yrði, og hafa þessar iítilvægu hjálendur
af Svíum. Fulltrúi Svía virðist ekki hafa gert
sér grein fyrir, að Noregur ætti neinn sögulegan
rétt á þeim, og ef til vill hefur hann ekki talið
ómaksins vert að tefja samningana við að kynna
sér þetta atriði. Svíum lá ekki svo lítið á að ljúka
samningunum við Dani. Þeir áttu mikinn her-
styrk tepptan í Holstein til að ógna Dönum, og
bandamenn Svía voru orðnir óþolinmóðir að fá
hann suður í álfu til baráttunnar gegn Napóle-
on.
Norskir sagnfræðingar þessarar aldar virðast
almennt fallast á það — og þó með nokkurri
tregðu — að Danakonungur hafi haft rétt til
þess að skilja þessi lönd frá Noregi. Annars er til
lítils að tala um rétt í þessu sambandi. Réttind-
um einvaldskonunga til þess að ráðstafa löndum
sínum voru í rauninni lítil takmörk sett, og þær
þjóðréttarkröfur, sem var svo mjög á lofti hald-
ið á 19- öld, voru í rauninni aldrei annað en
áróðurstæki. Það reyndist unnt að finna réttar-
grundvöll fyrir svo að segja hverri kröfu og
hverjum verknaði, og þegar til kastanna kom,
var það sjaldnast réttarstaðan, sem úrslitum réði.
Norðmenn samtímans gátu hins vegar ekki
fallizt á, að Danakonungur hefði rétt til að
halda skattlöndum Noregs eftir, er hann afsal-
aði sér valdi yfir ríkinu sjálfu. Oll uppreisn
þeirra árið 1814 var reist á þeirri kenningu, að
konungi væri óheimilt að fá vald sitt yfir Nor-
egi í hendur konungi annars ríkis. Þeir viður-
kenndu því ekki Kielarsamninginn að öðru leyti
en því, að Danakonungur hefði lagt niður kon-
ungdóm sinn yfir Noregi; meira hafði hann ekki
rétt til að gera. En þá töldu Norðmenn, að vald
konungs hlyti að renna til norsku þjóðarinnar.
Samkvæmt þessari skoðun var rökrétt að neita
rétti konungs til þess að skipta norska konungs-
ríkinu og skilja skattlönd þess undan.
III
Aðskilnaður skattlandanna frá Noregi olli
talsverðri óánægju þar í landi og varð til þess
að magna þá gremju, sem þar ríkti í garð Dana
eftir samningagerðina í Kiel. Var talsvert um
þetta rætt og ritað meðal almennings, og átti
Gísli Johnson, íslenzkur prestur í Noregi, einna
mestan þátt í að vekja Norðmenn til umhugs-
unar um þetta. En norskir stjórnmálamenn áttu
einnig eftir að taka málið upp og krefja Dani
þessara landa. Verður nær eingöngu fjallað um
þá hlið málsins hér.
Krafa Norðmanna til Islands, Grænlands og
Færeyja kom þó ekki fram strax. Þann tíma, sem
8