Mímir - 01.03.1967, Qupperneq 12
vald Svíakonungs eða hina norsku stjórnarskrá.
Þetta var að vísu verjandi, ef litið var á hjálend-
urnar sem hluta norska ríkisins, og þótt fulltrúar
þeirra væru ekki kvaddir til við samningu stjórn-
arskrárinnar, hljóta aðstæðurnar að afsaka það.
En sé litið þannig á málin, verður lítið sam-
ræmi í að afsala sér kröfunni til skattlandanna
gegn eftirgjöf af skuldakröfum frá Dana hálfu.
Það verður þá skipting norska ríkisins, sala á
hluta þess, án þess að þjóðir þær, er þessa hiuta
byggja, séu nokkuð um spurðar. Afstaða Norð-
manna gagnvart íbúum Færeyja, Islands og
Grænlands er því ekki svo ýkja frábrugðin þeirri
afstöðu til Norðmanna, sem lýsir sér í Kielar-
samningnum.
Einhver kynni að vilja áfellast Norðmenn
fyrir fyrir þessa tvöföldu afstöðu. I rauninni er
það ástæðulaust. Þetta sýnir aðeins, hve lítils
virði hinar réttarfarslegu röksemdir voru, þegar
til kastanna kom. Kenningin um fullveldi þjóð-
arinnar var Norðmönnum nauðsynleg til þess að
réttlæta baráttuna gegn Kielarsamningnum, en
ósanngjarnt væri að ætlast til, að þeir héldu
henni á lofti, þar sem hún ekki hentaði.
Einnig verður að hafa í huga, að skuldamálið
var Norðmönnum ekkert grín. Þeir höfðu liðið
mjög tilfinnanlegan skaða af styrjöldinni, og
efnahagur ríkisins var gjörsamlega í rúst. Þeim
var lífsnauðsyn að gera allt til þess að sleppa sem
bezt frá skuldaskiptunum, og þá var eðlilegt, að
þeir reyndu að nota sér þann rétt, sem þeir þótt-
ust hafa til skattlanda sinna, en vissu, að þeir
fengju aldrei viðurkenndan til fulls. Norðmenn
sluppu líka tiltölulega vel, miðað við það, sem
þeim var ætlað í fyrstu, en hvort það hefur að
nokkru leyti verið að þakka landvinningastefnu
Hákonar konungs gamla, er ekki ljóst. Líklega
hefur kröfu þeirra verið of linlega fylgt, til þess
að hún hefði veruleg áhrif á málalokin.
Það kann að virðast undarlegt, þegar litið er
yfir sögu Napóleonsstyrjaldanna í heild og
stöðu Dana í þeim, að þeir skyldu ekki missa
yfirráð sín yf ir Islandi lengur en eina hundadaga.
Hér hafa að nokkru verið rakin tildrög þess,
hvað Svíþjóð og Noregi viðkemur. Onnur saga
væri svo, hvers vegna við sluppum við að kom-
ast undir yfirráð Breta. Þó er freistandi að ætla,
að meginorsök þess, að Danir héldu Islandi, sé
ein. Landið hefur ekki verið talið þess virði að
leggja sig mjög eftir því. Þess vegna hélt það
áfram að heyra undir sömu krúnu og áður.
Engum ráðandi manna í Svíþjóð hefur þótt
ómaksins vert að benda fulltrúa Svíakonungs í
Kiel árið 1814 á, að Island tilheyrði hinum
norska hluta af veldi Danakonungs. Og af sömu
ástæðu urðu síðari kröfur til Islands aldrei veru-
legt alvörumál. Danir, sem vissu, hvað Islands-
verzlunin gat gefið af sér, hafa ef til vill metið
landið meira en aðrir. Það er hugsanlegt, að van-
mat annarra á landi og þjóð hafi forðað okkur
frá að ganga kaupum og sölum milli þjóðhöfð-
ingja álfunnar.
HEIMILDIR:
Grein þessi styðst við ýmis rit um norska sögu á þessu
tímabili, en yfirleitt hefur ekki verið leitað til frum-
heimilda. Einkum hef ég haft not af eftirtöldum rit-
um:
Det norske folks liv og historie gjennem tiilene VII.
Tidsrummet 1770 til omkring 1814 av Sverre
Steen (Oslo 1933).
— VIII. Tidsrummet 1814 til omkring 1840 av
Wilhelm Keilhau (Oslo 1929).
Sverre Steen, 1814 (Det frie Norge [I]; Oslo 1951).
— Krise og avsþenning (Det frie Norge III; Oslo
1954).
Vart folks historie VI. Bernt A. Nissen, Det nye
Norge grunnlegges (Oslo 1964).
12