Mímir - 01.05.1984, Side 17

Mímir - 01.05.1984, Side 17
hársrætur“ (bls. 496). Honum er eingöngu lýst utan frá í þessu síðasta atriði sögunnar, en þó er augljóst að hann á í harðri baráttu við sjálfan sig. Hann er orðinn gjörólíkur þeim montna og hégómlega strákling sem birtist í upphafi sög- unnar. Hann er ómanneskjulegur, heilagur og hryllilegur í senn og næstum ótrúlega grimmur, þegar hann hrindir Diljá frá sér. Steinn Elliði er aðalpersóna sögunnar og helsta ráðgáta hennar og viðfangsefni. Lýsingin á honum miðar að því að svara spurningunni: Hver er hann? Hann spyr sjálfur og um leið sögumaður og lesendur. Þrátt fyrir glæsileik og gáfur er Steinn Elliði hetja sem orkar tvímælis. Takmarkalaus áhugi hans á sjálfum sér og skeytingarleysi um aðra kemur glöggt fram í sögunni. Steinn er að leita að lífsviðhorfi sem hann geti aðhyllst, en hann er einnig að leita að sjálfum sér. Áberandi þema í lýsingunni á hon- um er annars vegar það sem hann þykist vera, hins vegar það sem hann er. Vandi hans er ekki síst fólginn í því að hann er ófær um að vera einlægurog sannur. b) Diljá Þegar Diljá kemur fyrst til sögunnar er hún ekki nema sautján ára. í lýsingunni á henni er dregið fram, hvað hún er ung og fersk og hrein: „Var- irnar þvalar af æsku og ósnortni, gljúpar og rauðar. . . Slíkur var líkaminn allur: nýsprott- inn, ferskur og meyr, líkt og ax á vorakri" (bls. 8). Og hún er barnaleg og saklaus: „En hana skorti enn hinn síreiðubúna kvikleik tísku- meyarinnar til að kunna að svara fimlega“ (bls. 28). Eins og í lýsingu á Steini er áhersla lögð á fallegt útlit og þó einkum á æsku Diljár. Les- andi er ekki varaður gagngert við þrestum í skapgerð hennar eins og þegar Steinn var kynntur til sögunnar. Samt er þetta eins konar viðvörun: „Þótt augu hennar væru enn úng og skær, vóru þau samt eigi sneydd þessum höfuga tíbrárgráma, sem tíðum er einkenni sefaveilla." (bls. 8). Tilfinningum hennar er lýst ákaflega vel: Hann var ekki framar bemskuvinur og leik- bróðir; það var hið eina sem hún fann. Hann var annað og meir; hún fann svo greinilega, að hann var úngur karlmaður. — Það skelfdi hana að finna á armi sér sterka hönd hans; hún titraði öll. (bls. 32) í lýsingunni á Diljá er jafnan lögð áhersla á kvenlegt aðdráttarafl hennar: Hún hafði hnept kápunni upp í háls, en sat í fremur ókæmum stellíngum, eins og frumvaxta meyum er títt: þandi skaut sitt, svo kápufaldur- inn nam við hnéskeljamar ofanvert, en sterkir kálfamir komu gleitt fram undan, og knjáliðirn- ir, furðu digrir, vóru ekki vitund varir um sig, enda þótt þeir sýndust fullsterkir til að standa undir þroskuðum móðurlendum. Þessi frjálsa, blygðunarlausa stellíng gat ekki um annað vitn- að en meydóm, sem of er skýlaus og ósnortinn til að kunna að ugga að sér. (bls. 29—30) Sögumaður bendir á ögrandi stellingu þessarar ungu, ástföngnu stúlku, en leggur um leið áherslu á hreinleika hennar og sakleysi. Hún er alltof óreynd til að hafa rænu á að leggja snörur fyrir karlmenn. f lýsingunni á henni er enn- fremur lögð áhersla á sterk tengsl hennar við náttúruna: „Og hún lá fyrir framan hann úng og fögur, grúfði sig niður í gróskuþrúngið vorgres- ið, sjálf ekki annað en persónugervíng hinnar frjóu, jarðnesku moldar.“ (bls. 58). Bréf Diljár til Steins gefa ekki bara lýsingu á honum sem barni. Þau lýsa Diljá sjálfri og til- finningum hennar. Bréf þessi eru mjög per- sónuleg eins og dagbók ungrar stúlku. Hún talar í fyrstu persónu um þá hluti sem hún mundi aðeins trúa sínum besta vini fyrir og kannski ekki einu sinni honum. Bréfin bera þess glögglega merki að hún er unglingur, sumar hugmyndir hennar eins og milli svefns og vöku og þegar hún hugsar um lífið, togast á von og ótti. Eím bréfin segir hún sjálf: Það lýsir ekki af þeim nein dýrð. Þau eru ekki annað en andvökuríngl úngrar stúlku. Ég skrifa af því, að það liggur svo illa á mér. Mér leiðist svo mikið. Ég er svo úng, svo óstyrk, svo hrædd, svo ein. Einginn skilur mig. (bls. 65) 17

x

Mímir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Mímir
https://timarit.is/publication/1937

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.