Mímir - 01.05.1984, Qupperneq 19
eilífðin hafði hirt þá eins og hverja aðra dána
hljóma. Svipur hennar lýsti ekki framar af fjálg-
um þrám og órættum draumum. Augu hennar
vóru eins og silfrað flos eða brotið blý. — Hún
var kona há og faunguleg, líkamsformin ávöl og
mjúk, svo að hver smæsta hreyfíng líkamans
varð að formfögrum leik og kom því betur í Ijós,
sem klæði hennar vóru nærskornari. Hvelfdur
barmurinn og hinar mjúku lendar, þrýstnar og
sterkar, töluðu án afláts í heillandi þokka sínum
um ofurfyllíng kvenlegrar frjósemi. (bls. 380)
Sögumaður lætur ekkert tækifæri ónotað til að
minna á og draga fram kvenlegan vöxt hennar
og fegurð. Allt útlit hennar á að bera vott um
frjósemi og líf. Hún er nú orðin sú kventýpa í
verkum Halldórs Laxness, sem Sveinn Skorri
Höskuldsson kallar „kynósa" konur.8
Þegar Steinn Elliði hefur játað henni ást sína
á sinn sérkennilega hátt, fer hún til hans um
nótt. Lýsingin á henni þá er mjög athyglisverð,
hvergi kemur betur fram það viðhorf að konan
sé dulmögnuð og nátengd hinum óskiljanlegu
frumöflum náttúrunnar:
Hún staðnæmist í dyrunum og sleppir enn ekki
hendinni af hurðarhúninum, en heldur áfram að
stara. Viðjar skynseminnar eru brotnar, blindur
náttúrukrafturinn birtist í þessum
næturaugum ... Persónuleikur hennar er gufað-
ur út í tómið, þángað sem öll form gufa, hún er
ekki leingur manneskja, en vitrast hér sem lík-
amníng nafnlausra ragna í mynd hinnar fyrstu
og hinstu lífveru, blindrar, hugsunarlausrar og
skelfílegrar. (bls. 433)
í áttundu bók gerist allt mjög hratt og lýsingar
eru æði snubbóttar. Þeir hörmulegu atburðir
sem gerast í lífi Diljár koma fram í bréfi frá
henni sjálfri til Steins. Hún hafði farið til eigin-
manns síns, játað framhjáhaldið, hann framið
sjálfsmorð, hún síðan misst fóstrið sem Steinn
hafði gert henni og síðast en ekki síst, fallið í
ónáð Ylfingamóður og þar hrundi síðasta stoð-
in.
Hún á nú enga von aðra en þá að Steinn taki
8. Sveinn Skorri Höskuldsson: „í leit að kvenmynd eilífðar-
innar", Skirnir, 1972.
hana að sér. Hún fer því suður til Rómar og er
sagt frá því á þennan hátt:
Rómaborg í allri helgi sinni hefur furðu Iítið að-
dráttarafl fyrir únga, vansvefta konu, sem ferð-
ast hefur dagfari og náttfari í þrjá sólarhrínga til
þess að heimta elskhuga sinn úr tröllahöndum.
(bls. 486)
Hér fer ekki milli mála, að sá sem segir söguna,
lítur á málin með augum Diljár að þessu sinni.
Frá sjónarmiði Steins var hún komin til að
reyna að vekja „dýrið í manninum“, komin til
að „gánga í lið með þeim hluta veru minnar,
sem Drottinn býður mér að sigrast á vegna ríkis
himnanna“ (bls. 486). Þetta er sjónarmið
Steins, ekki sögumanns.
í fyrri hluta bókarinnar er Diljá fyrst og
fremst lýst sem hinni hreinu mey, ímynd sak-
leysis og hreinleika. Henni er bæði lýst utan frá
og séð inn í huga hennar. Þegar henni er lýst
utan frá, er jafnan lögð áhersla á kvenlegan
þokka hennar og tengir sögumaður slíkan
þokka aldrei við synd og saurlífi, heldur við líf
og frjósemi.
í lýsingunni á henni er að finna tvær alda-
gamlar týpur bókmenntanna, Maríuna, sak-
lausa og hreina, og kynveruna hoidlegu. Hinu
kynferðislega í fari hennar er hins vegar Iýst á
jákvæðan hátt, ólíkt viðhorfi Steins, og minnir á
náin tengsl hennar við náttúruna og uppruna
lífsins.
Aberandi munur á henni og Steini Elliða er
að hún reynir aldrei að vera annað en hún er,
hún er bara hún sjálf. Steinn Elliði er orðsins
maður, hann er annaðhvort sítalandi eða sí-
skrifandi. Diljá er aftur á móti ekki sú sem talar,
heldur sú sem er. Þetta kemur m.a. fram þegar
sögumaður talar um að hún hafi verið „fákunn-
andi í orðsins list, en fjálgur harmurinn og hin
ángráða blíða vóru orðum máttugri í svip henn-
ar“ (bls. 57). Sjálf segir hún: „Orðin segja aldrei
hjarta manns. . . Mig lángar að tala alt öðru
máli en því sem orðin ná yfir“ (bls. 67).
Fyrst og síðast er í lýsingu Diljár minnt á að
hún er manneskja. „Augun í þessu mannsbarni
vóru heit af þjáningu“ (bls. 59) segir snemma í
19