Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1970, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1970, Blaðsíða 14
Það var óskaplegur hiti í herberginu, þegar ég vaknaði við það, að sterk sólin skein í augun. Það íór ekki milli mála, að ég var kominn til Mallorca. Hitinn gerði það að verkum, að hið fyrsta sem mér kom í hug, var að fá mér hressandi steypibað. Á meðan ég var í baðinu heyrði ég að barið var að dyrum og kallað kvenmannsröddu: „Possible, poss- ible!“ Þegar ég svaraði ekki var hurðin opnuð og barið aftur á baðherbergisdyrnar: „Possible, possible!" Ég muldraði eitthvað í baðinu um leið og dyrnar voru opnaðar, en í sömu svifum var plasttjöldunum svipt frá steypibaðinu og brosleitt stúlkuandlit spurði: „Possible?" Þannig hófust kynni mín og herbergisþernunnar. Hún kunni ekki stakt orð utan spænskunnar og ekki fer mikið fyrir spænskukunnáttu minni, svo possible var eiginlega eina orðið, sem við skildum bæði, enda notaði hún það á hverjum morgni, þegar hún vildi vita hvort óhætt væri að koma inn. Upp frá okkar fyrsta fundi kallaði ég hana Senjoritu Possible, enda veit ég ekki enn þann dag í dag hvað hún heitir réttu nafni. —★— Við vorum 60—70 saman, sem höfðum komið til Mallorca þá um nóttina með þotu Flugfélagsins, Gull- faxa, en skipulagning ferðarinnar var í höndum ferðaskrifstofunnar Úrvals. Hópurinn skiptist niður á nokkur hótel, en einna ílestir voru samt á hóteli mínu, Barbados, sem er á Magaluf-ströndinni. Að loknum morgunverði komst ég að raun um það, að allstór hópur Islendinga var einnig á sama hóteli frá ferðaskrifstofunni Sunnu. Þar sem ég hafði aldrei komið til Mallorca fyrr, reyndi ég að afla mér hag- nýtra upplýsinga hjá einum Sunnu-farþeganum, sem hafði verið þarna nokkurn tíma og reyndar oft komið til eyjarinnar áður. Sá, sem ég hitti að máli, var kaupmaður úr Reykja- vík, kolbrúnn af sólinni. Mér hafði verið sagt, að leigubílar væru dýrir og spurði því kaupmanninn, hvernig hægt væri að komast til Palma með strætis- vagni. „pao er enginn vandi“, svaraði kaupmaðurinn, „þvi strætó stoppar hér rétt við hornið á hótelinu." „Það er mjög þægilegt," svaraði ég, „en getur þú sagt mér númerið á strætisvagninum, svo ég viti hvaða vagn ég á að taka.“ Kaupmaðurinn hugsaði sig um smástund, en sagði svo: „Þú skalt bara taka vagn númer 80.“ Hann hugsaði sig um aftur stundarkorn og bætti svo við: „En heyrðu, þú skalt passa þig á þvi, að allir strætis- vagnar hér á Mallorca eru númer 80.“ —★— Fyrsta eða annan daginn var unnið björgunarafrek. Einn úr hópnum, Einar Einarsson, múrarameistari úr Reykjavik, gekk út að sundlauginni fyrir utan hótelið til að fá sér ferskt loft fyrir kvöldmatinn. Heyrði hann þá eitthvað kallað á óskiljanlegu tungu- máli og í sömu svifum stökk upp kona við sundlaug- ina og baðaði út handleggjunum. Einar sá þá, að eldri maður var i sundlauginni og sökk hann til botns. Einar stakk sér til sunds i öllum fötum og tókst honum að ná manninum og koma honum að laugarbarminum. Þá hafði drifið að fólk og voru lífg- unartilraunir hafnar á manninum, sem mun hafa verið Itali. Lifnaði hann fljótlega við og var hjálpað til herbergis sins. Ekki var Einari þökkuð björgunin að öðru leyti en því, að þjónn nokkur kom hlaupandi með bakka fullan af hvers konar ljúfum veigum og bauð Einari að drekka að vild. —★— 1 Úrvalshópnum var margt skemmtilegt fólk og tókst fljótlega ágætur kunningsskapur með því. Dag- lega gerðust skemmtilegar sögur og var ekki legið á því að endursegja þær og endurbæta. Ein fyrsta sagan var sögð af Reykvíkingi nokkrum, sem hafði brugðið sér niður að ströndinni. Hann hafði með sér vindsæng, ýtti henni á flot, lá svo í leti og lét hugann reika. Áður en varði var hann steinsofnaður og segir sagan, að þegar hann vaknaði aftur hafi vindsængina rekið langt út á Palma-flóann. Sagt er, að ferðalangnum hafi ekki brugðið við það, því hann var flugsyndur, en mestar áhyggjur hafi hann haft / af því, að hann var með mest af peningum sínum í hattkúfi á kollinum. Allt fór þó vel, en ekki var þeirri vindsæng ýtt á flot aftur svo vitað sé. —★— Einn ferðalangurinn hafði gleymt að taka með sér sundskýlu að heiman. Fljótlega eftir komuna hafði hann orð á því, að það dygði ekki að vera sundskýlu- laus. Gerði hann ítrekaðar tilraunir til að fara í bæjarreisu til að kaupa sundskýlu, en dag eftir dag fórst það fyrir. Hann tafðist við sundlaugina með glas i hendi. Eftir matinn var ekki unnt að fara í búðir þar sem þær eru lokaðar kl. 2—4. Síðdegis rann ferðalangnum oft í brjóst, svo það tók þvi ekki að fara i búðir, þegar hann vaknaði aftur. Einn ferða- félaginn tók þá að sér að fara með kunningja sinn morgun nokkurn til Magaluf til að tryggja að hann fengi sundskýlu. Þegar þangað var komið þurftu þeir að fá sér bjór og annan til viðbótar. Áður en varði var búið að loka búðunum, svo þeir urðu að sitja áfram á veitingastaðnum og gæða sér á bjór, þangað til að búðir opnuðu aftur. Kl. 4 sátu þeir enn að sumbli, en áður en búðum var lokað um kvöldið röltu þeir af stað í sundskýluleit. Loks fundu þeir búð, þar sem skýlur voru í úrvali. Hinn sundskýlu- lausi var mjög vandfýsinn á varninginn og brá þá stúlkan i búðinni á það ráð að hjálpa honum við að máta sundskýlu, en félaginn beið á meðan og gætti barns hennar. Þaö voru ánægðir og brosleitir félagar, sem komu á hótel Barbados um kvöldmatinn og þótt- ust hafa gert góða ferð. Næsta morgun var nýja sundskýlan reynd i Miðjarðarhafinu, en um hádegis- bilið tók eigandinn heiftarlega magapest og var sund- skýlan ekki notuð oftar í ferðinni. Lá hún til þerris i 10 daga á svölunum. Nokkrir Islendingar bjuggu á lúxushóteli (5 stjörnu) skammt frá Palma. Einn þeirra, æringi mikill, brá sér á markað í borginni. Sá hann þar til sölu lifandi andarunga sem voru svo hræódýrir, að honum fannst hann ekki geta verið þekktur fyrir annað en að kaupa eins og þrjú stykki. Stakk hann ungunum í vasa sína. Þegar íslendingurinn kom aftur á hótelið sitt voru tveir yfirstéttar Bretar í anddyr- inu og skeggræddu saman. Þeir hrukku í kút, þegar þeir heyrðu ámátlegt tíst í ungunum, en gátu ekki áttað sig á hvaðan það kom. Islendir.gurinn var á vappi i kringum Bretana á meðan þeir reyndu að finna út, hvaðan þessi furðuhljóð bárust. Þegar hon- um fannst Bretarnir nægilega ruglaðir snaraðist Is- lendingurinn út að sundlauginni og sleppti andarung- unum til sunds svo lítið bar á. Fjaðrafokið, sem varð við sundlaugina, feykti brott hinum ígulvirðulega svip hótelsins, hefðarfrúrnar skriktu, lordarnir púss- uðu einglyrnin og hótelstjórinn fékk taugaáfall. En íslendingurinn læddist á brott hæstánægður með árangurinn. Á Barbados-hóteli var eldri kona, virðuleg og vel efnum búin. Hún var ein á ferð og var ein yngismær sett með henni i herbergi. Gamla konan var ekki sátt við allt sem fram fór á þessu erlenda hóteli og fannst óþarfi að ausa fé í Spanjólana. Á hverjum morgni pantaði hún te með morgunverðinum. Þegar hún hafði lokið snæðingi svipaðist hún um í salnum til að sjá, hvort nokkur fylgdist með henni. Þegar hún var viss um að svo væri ekki, seildist hún i skjóðu sína og dró upp Pepsi-Cola flösku og hellti soðna vatninu, sem hún fékk með teinu, í flöskuna. 46 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 22. desember 1970

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.