Morgunblaðið - 04.12.2007, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 04.12.2007, Blaðsíða 30
30 ÞRIÐJUDAGUR 4. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Nú þegar elsku afi er dáinn þá rifjast upp svo margar minningar. Þegar hann bjó í Eskihlíðinni passaði hann oft Sigga sem minnist þess með söknuði og sérstaklega að fara og spila golf með afa sínum auk þess sem hann kenndi honum að tefla á þessum árum áður en hann veiktist. Ekki muna öll barnabörnin hans afa eftir honum sem sjómanni en Siggi man vel eftir honum sem skipstjóra á Bjarna Sæm. og er sérlega eftir- minnileg siglingin um Sundin með honum. Meðan hann var heill heilsu kom hann alltaf í mat á þriðjudögum en það voru grjónagrautsdagar á heim- ilinu. Þannig að þótt afi kæmi í heim- sókn einu sinni í viku þá fékk hann alltaf það sama að borða, hvað ætli hann hafi haldið um mataræði fjöl- skyldunnar? Þegar við vorum yngri spilaði hann við okkur Lúdó og Yatzy en einnig var hann ágætis skákmaður og tefldi reglulega þó hann leyfði okk- ur oftast að vinna. Seinna meir reynd- um við að kenna honum Uno og var það gjarnan spilað þegar hann var í heimsókn en með misjöfnum árangri því hann lærði spilið illa og svindlaði alltaf óvart. „Gula hættan“ var við- kvæði afa í hvert sinn sem hann setti út gult spil. Afi mundi ævinlega eftir öllum af- mælisdögum og hann var alltaf hjá okkur á jólunum og við vitum ekki hvernig jólin verða án hans. Það er erfitt að hugsa sér jólaboð án þess að hann taki upp munnhörpuna og spili jólalög. Einhvern veginn fannst manni að afi mundi alltaf lifa, að hann yrði alltaf hjá okkur. Þó voru veikindi hans síðustu árin augljós enda eru núna liðin fjórtán ár frá fyrsta hjarta- áfallinu en síðast í október var hann lagður inn á sjúkrahús. Afi var hins vegar alltaf bjartsýnn og reyndar ótrúlegt hvað hann þoldi, lífsgleðin virtist alltaf sigra veikindin. Það kom þó að því að náttúrulögmálin hefðu yf- irhöndina enda fátt jafn víst og að ein- hvern tíma munum við deyja. Það er þó ekki alltaf slæmt og er afi okkar loksins kominn á betri stað til ömmu sem fór þangað fyrir svo mörgum ár- um og við fengum aldrei að kynnast. Við kveðjum afa Sigurð með söknuði og yljum okkur við allar góðu minn- ingarnar sem við eigum um hann. Sigurður Kári, Arnbjörg Soffía og Ragnar Auðun. Kveðja frá Hafrannsóknastofnuninni Í dag er til grafar borinn Sigurður Kr. Árnason, fyrrverandi skipstjóri á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmunds- syni. Þó svo að Sigurður hafi hætt störfum sem skipstjóri áður en sá sem þetta ritar tók við forystu á Hafrann- sóknastofnuninni man hann enn sög- ur af þessum grandvara og áreiðan- lega skipstjóra sem falin hafði verið sú mikla ábyrgð að stjórna flaggskipi stofnunarinnar með áhöfn og rann- sóknafólki. Víst er að bæði stjórnend- ur og aðrir starfsmenn gátu reitt sig á að skipið væri í öruggum höndum Sig- urðar skipstjóra, en oft var unnið við erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæð- ur á sjó úti. Sigurður kom til starfa við veiðar- færarannsóknir á Hafrannsókna- stofnuninni fyrir tæpum fjórum ára- tugum síðan, er þær voru um það bil að hefjast. Naut þar mikillar reynslu hans af störfum á fiskiskipum. Svo fór síðar, eða árið 1973, að Sigurður tók sæti 1. stýrimanns í áhöfn Bjarna Sæ- mundssonar og aðeins fjórum árum síðar, eða árið 1977, tók hann við stöðu skipstjóra. Þeirri stöðu gegndi Sigurður Kr. Árnason ✝ Sigurður Krist-ófer Árnason skipstjóri fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1925. Hann lést á heimili sínu á Hrafn- istu í Hafnarfirði að morgni 18. nóv- ember síðastliðins og var útför hans gerð frá Háteigs- kirkju 28. nóvember. hann með miklum sóma þar til hann lauk störfum árið 1993. Margir samstarfs- manna Sigurðar minn- ast ljúfmannlegrar framkomu hans og samvinnu, og þess að aldrei lét hann fyrir sig koma að setja sig á há- an hest þegar kom að því að leysa viðfangs- efni rannsóknastarfs- ins á sjó, jafnvel þótt um óreynda „land- krabba“ væri að ræða. Það var aðalsmerki Sigurðar að leit- ast við að sinna öllum með sama vin- samlega og jákvæða hugarfarinu. Á síðari árum fylgdist hann vel með starfinu á Hafrannsóknastofnuninni og lét hag starfsmanna og stofnunar sig varða. Það var því alltaf ánægju- legt að hitta Sigurð að máli eftir að hann hætti störfum og oft bárust kveðjur frá honum með hvatningar- orðum til okkar sem í eldlínunni stöndum. Fyrir það erum við fyrrver- andi samstarfsfólk Sigurðar þakklát. Um leið og við vottum látnum fé- laga virðingu okkar sendum við son- um Sigurðar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Jóhann Sigurjónsson. Samvinna okkar Sigga Árna eins og við kölluðum hann ævinlega var af- ar góð og hófst fyrst og fremst eftir að hann varð skipstjóri á r/s Bjarna Sæ- mundssyni og þeir urðu ófáir loðnu- leiðangrarnir sem við Siggi fórum saman. Þá voru fiskleitartækin ekki í brúnni á Bjarna heldur á næsta þilfari fyrir neðan. Þetta fyrirkomulag kom ekki mjög að sök að degi til, en það er ekki þægilegt að vakna af værum svefni, oft í leiðindaveðri, til að ná sýni með flotvörpu nema allt sé á hreinu t.d. um stefnu á torfuna, fjarlægð og vindátt. Það varð fljótlega að reglu að þegar skipstjóri mætti í brúna með stírur í augum beið tækjamaður hans með könnu af sterku svörtu kaffi og hæfilegan fjölda sykurmola. Stóð því heima að þegar kanna og molar voru hálfnuð var skipstjóri vaknaður og hafði á hreinu þær upplýsingar sem hann þurfti frá tækjamanni. Sýnið var síðan snarlega tekið og skipstjóri gat gengið til náða. Siggi Árna var einstakt ljúfmenni og kunni vel að meta sams konar við- mót. Hann var ákaflega hrekklaus maður og sárnaði ef honum fannst á sig hallað að ósekju – sem var raunar ekki daglegt brauð um borð í Bjarna. Hann var hins vegar grínisti góður og hafði gaman af hæfilegum uppátækj- um samstarfsmanna. Upp úr 1980 voru endurnýjuð fiskleitar- og mæli- tæki um borð í Bjarna, bylting raunar á þess tíma mælikvarða. Ein nýjung- anna var t.d. að með 5 sjómílna milli- bili skráðust lóðningar sjálfkrafa ásamt athugasemdum tækjamanns. Í fyrsta sinn sem Siggi varð vitni að út- komunni horfði hann á prentarann skrá lóðningar með hávaða og látum og bæta síðan við „og nú er Bjarni Sæmundsson á fullri ferð áleiðis í var undir Grænuhlíð“ – sem enginn vissi nema tveir menn. Furðusvipurinn á andliti skippersins er ógleymanlegur tækjamanni (sem þetta ritaði í skrána og hér segir frá), en alveg sérstaklega hin munnlega athugasemd „hver seg- ir það?“ sem á eftir fylgdi. Það var mikið hlegið eftir að Siggi hafði verið leiddur inn í heim hinnar nýju tækni. Siggi var afar flinkur við skip- stjórn. Eitt sinn lentum við í af- spyrnuveðri norður af Horni. Í raun veit enginn hver vindhraðinn var, en mælirinn um borð í Bjarna stóð all- lengi í botni á 100 hnútum/klst, en 60 hnútar jafngiltu 12 gömlum vindstig- um (fárviðri). Við fengum á okkur slæmt brot, nánast í upphafi, sem beyglaði framhlið yfirbyggingarinnar þvert yfir skipið neðan við brúna sem hrundi þó ekki því þá hefði skipið far- ið niður. Við sluppum við frekari kár- ínur þrátt fyrir veðurofsann, sem var slíkur að engin leið var að hafa stjórn á skipinu nema keyra alla þrjár vél- arnar á fullu milli þess sem slegið var af til að draga úr höggum þegar risa- vaxnar öldurnar skullu ofan á fram- þilfarið og þaðan á yfirbygginguna. Ég hef aldrei á ævinni orðið jafn hræddur um líf mitt og er þess fullviss að snilldarleg skipstjórn Sigga hélt okkur á floti í þetta skipti. Við á grútardeildinni á Hafró kveðj- um góðan vin og samstarfsmann með söknuði og biðjum fjölskyldu hans blessunar. Sjálfur mun ég ætíð minn- ast Sigurðar Kr. Árnasonar þegar ég heyri góðs manns getið. Hjálmar Vilhjálmsson. Meira: mbl.is/minningar Frá því að ég leit þennan heim fyrst augum var Sigurður sjálfkrafa hluti af minni tilveru enda eiginmaður Hobbu, móðursystur minnar, og var mikill samgangur innan fjölskyldunnar, þó svo að foreldrar mínir byggju á Akur- eyri og Hobba og Sigurður í Reykja- vík. Þeim hjónum fæddust fimm synir og voru þeir þrír elstu á líkum aldri og ég og því alltaf tilhlökkunarefni þegar til stóð að við færum suður eða þá að þau kæmu norður. Í þá daga var það dagleið að ferðast akandi á milli Ak- ureyrar og Reykjavíkur. Það lá fyrir Sigurði að gera sjó- mennskuna að ævistarfi og sótti hann sjó í hartnær hálfa öld, síðast hjá Haf- rannsóknastofnuninni, þar sem hann lauk sinni starfsævi sem skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni. Ég minnist þess vel á 7. áratugnum, þegar Sig- urður var reglulega í millilandasigl- ingum, að ósjaldan komu sendingar að sunnan sem glöddu barnsins hjarta, en Sigurður gleymdi aldrei mér frek- ar en sonum sínum og konu, þegar hann kom í land úr slíkum siglingum, færandi hendi. Hann keypti til dæmis fyrsta reiðhjólið sem ég eignaðist og ég man það enn að ég harðneitaði að fara að sofa kvöldið sem hjólhesturinn góði kom norður, fyrr en þessu undra- tæki, sem var blátt og rautt að lit, hafði verið lagt við hliðina á rúminu mínu. Enn á ég í fórum mínum upp- köst að innkaupalistum sem faðir minn sendi Sigurði er líða fór að milli- landatúrunum og endurspegla listarn- ir þau aðföng sem sæfarar þeirra tíma sóttu til okkar helstu viðskiptalanda á þessum árum. Að sjálfsögðu var bæði áfengi og tóbak ofarlega á listanum, þó sérstaklega forboðnar veigar eins og bjór, en einnig vörur sem þykja svo hversdagslegar í dag, svo sem tekex og smjör. Sigurður var einstaklega barngóð- ur maður og gilti þá einu hvort um var að ræða hans eigin syni eða annarra börn. Eðlilega urðu mikil fagnaðar- læti þegar hann kom í land og ekki óalgengt að hann hefði að minnsta kosti þrjá syni í fanginu. Sigurður var einstakt snyrtimenni og var á sínum tíma sagt að enginn Reykvíkingur hefði gengið um í betur burstuðum skóm, en skóburstun hjá Sigurði jaðr- aði við að nálgast helgisiði og gaf hann sér góðan tíma í verkið. Það var Sigurði mikið áfall þegar móðursystir mín lést langt fyrir aldur fram eftir þriggja ára baráttu við krabbamein árið 1983. Hygg ég að hann hafi sennilega aldrei komist yfir þann missi, enda var hjónaband þeirra einstaklega farsælt. Sjálfur missti Sigurður heilsuna tíu árum síð- ar, er hann fékk mjög alvarlegt hjartaáfall, svo alvarlegt að honum var ekki hugað líf og með ólíkindum að hann skyldi ná að hjarna við og ná að lifa þetta lengi eftir að hafa fengið drep í 60% hjartavöðvans. Sigurði verður best lýst á þann hátt, að hann endurspeglaði þá mann- kosti, sem því miður fara hverfandi. Ef til vill vegna þess að við lifum á tím- um sem eru fjandsamlegir öllu því sem er mannlegt, réttlátt og af hinu góða. Hann var grandvar maður og heiðarlegur, samviskusamur og skyldurækinn, fyrirmyndareiginmað- ur og faðir, yndislegur afi, svo ynd- islegur, að jafnvel börn honum ótengd kölluðu hann afa. Sigurð mun ég ávallt varðveita í hjarta mínu meðal feg- urstu minninga barnæskunnar. Á honum fékk ég snemma dálæti sem lítið barn, en síðar varð hann mér vin- ur og bróðir. Um leið og ég gleðst í þeirri fullvissu að nú hafi Sigurður og Hobba móðursystir mín verið leidd saman á nýjan leik á æðra tilverustigi bið ég hinn hæsta höfuðsmið himins og jarðar að blessa syni hans og þeirra fjölskyldur. Stefán Arngrímsson. - kemur þér við Veggjakrotsmálum fjölgar um helming Við borgum margfalt fyrir reikisímtöl Kynlaust Ísland árið 2010? Hættulegt kynlíf unglinga Óttar Proppé glímir við krimmaformið Er hraðakstur vanda- mál í þinni götu? Hvað ætlar þú að lesa í dag?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.