Vikan


Vikan - 09.05.1963, Page 15

Vikan - 09.05.1963, Page 15
BERGÞÓRA SKRIFAR: ALUÐLEG HARÐSTJÓRN — Það er enginn vandi, að vera alúðlegur og vingjarnlegur, fyrir þá, sem alltaf fá vilja sínum framgengt . .. Hann hafði setzt hjá mér til að tala um hjónaband sitt, og þá barst talið að þessu. Það er viðurkennt, bæði í stjórnmálum og í daglega lífinu, að enginn beitir valdi í fyrstu lotu — rándýrin ráðast ekki einu sinni á bráðina fyrr en þau eru neydd til þess. Það er að minnsta kosti hægt að slá því föstu, að það er auð- velt að vera góður, þegar maður fær allt, sem hugurinn girnist. í venjulegum samböndum koma fyrir þúsundir tilfella, þar sem annar aðilinn getur ekki haft allt eftir eigin höfði. Meira að segja í tilhugalífinu verða ótal smá ágreiningsefni: Hvert eigum við að aka, hvað eigum við að gera í kvöld? Það er mikilvægt, að hægt sé að finna heppilega lausn á slíkum lítilvægum ágrein- ingsefnum. Það er grundvöllur alls samlífs, að annar aðilinn lætur undan hinum, og svo aftur öfugt, eftir því hvernig á stendur. Það er of mikil bjartsýni, að halda að báðir verði alltaf sam- mála. Leyndardómur hamingjusams hjónabands er sá, að báðir partar viti hvenær þeir eiga að láta í minni pokann, og að þeir geri það án nokkurrar þykkju. Þegar annar aðillinn getur aldrei sagt nei, er eitthvað athuga- vert. Þá er hinn harðstjóri —- að öllum líkindum alúðlegur harð- stjóri! Hvers vegna ætti hann líka að berja í borðið eða reiðast, þegar hann getur fengið öllu framgengt með vingjarnlegu brosi. í rauninni eru alúðlegu harðstjórarnir verstir allra. Þeir nota alúðlegt fas sem vopn. „Það varst þú, sem reiddist, það varst þú, sem misstir stjórn á skapi þínu!“ Afleiðingarnar verða óhjá- kvæmilega þær, að hinn verður að láta undan, og ekki nóg með það — heldur fær hann líka samvizkubit. „Hugsa sér, að ég skyldi geta orðið svona ill við hann — hann, sem alltaf er svo vingjarnlegur og góður!“ Auðvitað er það æskilegt, að umgangast af kurteisi og friðsemd, en ef það er á kostnað réttlætisins, að skoðun eða sannfæring er ekki látin í ljós, er það ekki æskilegt. Það má segja, að það sé rifizt of oft. En ærlegt rifrildi er þó betra en að sjálfstæði manneskjunnar kafni undir þykkri ábreiðu vingjarnleikans. Verst er það þó fyrir harðstjórann sjálfan. Hann lifir í þeirri trú, að hann sé í rauninni góður, eingöngu vegna þess, að hann hefur verið svo óheppinn, að fá lífsförunaut, sem aldrei þorir að segja sannleikann. Við eigum að rífa huluna af þeirri alúð, sem ekkert er annað en skálkaskjól fyrir yfirgangssemi og valdafýsn. Þegar gríman fellur í hjónabandinu — en það á hún að gera — þá kemur í ljós, að við erum álíka góð eða vond öll saman. Við verðum að taka hvert annað eins og við í rauninni erum, og gera okkur ljóst, að hjónabandið er ekkert kapphlaup um að sýnast sem beztur. Það er aðeins sameining tveggja gallagripa, sem reyna að sigrast á öllum erfiðleikum með sterkasta vopninu: Ástinni. ★ Lykkjuspor er alltaf mikið notað við útsaum. Einfalt er að sauma það, og þægilegt að sauma með því margbreytileg form. Þegar lykkjuspor er saumað í hringlaga form, getur sporið hæglega ruglazt, ef samskeytin eru ekki rétt gerð. Meðfylgjandi 2 myndir sýna rétt gerð samskeyti. DREGIÐ í KROSSSAUM MEÐ MISLITU GARNI Saumið fyrst krosssauminn. Takið síðan mislitan þráð og saumið með honum tvær raðir, hvora á móti annarri, eins og myndin sýnir. Hér kemur gott ráð til þess að hengja upp peysur og annan léttan fatnað og nýta með því rúm fataskápsins. Takið rifsband og stingið í gegn um gluggatjaldahring og látið neðstu brúnir vera jafnar. Saumið síðan bandið saman með nokkurra cm millibili og stingið herðatrjánum í eins og sést á myndinni. Það koma oft fyrir langar beinar línur í útsaumi, sem erfitt er að velja saumgerð fyrir. Hér kemur spor sem leysir þann vanda. Saumið fyrst ofan í línuna með þræðispori, snúið síðan við, saumið undir þræðisporin og myndið þannig samfelldan saum. Auðvelt er að sauma þessa saumgerð með tveimur litum. Varpað lykkjuspor er mikið notað í útsaumi. Óvenju þægilegt er að sauma lykkjuspor í margbreytileg form og odda. Þegar varpað er yfir það, gefur það ákveðna og skarpa línu. Saumið fyrst lykkjusporið eins og myndin sýnir, og varpið síðan yfir það, með því að stinga nálinni undir báða lykkjuhelminga í einu (sjá mynd). Auðvelt er að sauma með tveimur litum. Það getur stundum verið erfitt að skera tölu af flík, án þess að flíkin skemmist. Hér er sýnd góð og örugg aðferð. Hárgreiðu er smeygt milli efnis og tölu, og er þá hættulaust að skera með rakvélar- blaði á þræðina milli tölu og hárgreiðu og losa þannig töluna. Límband „tape“ er hægt að nota til margs. Hér er sýnt hvernig möl- kúlur eru festar með „tape“ neðan á herðatré, og reglu er komið á í tölukassanum með því að líma sam- an 2 bönd af „tape“ með tölum af sömu tegund á milli. VIKAN 19. tbl. — jg

x

Vikan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.