Birtingur - 01.04.1956, Blaðsíða 10

Birtingur - 01.04.1956, Blaðsíða 10
Mamma þagði. Drengurinn andaði léttar. En við kvöldverðarborðið fékkst hann ekki til að bragða á smjöri gömlu konunnar og borð- aði brauðið þurrt. Móðir hans gekk á hann, en hann kvaðst ekki hafa lyst á smjöri. „Heldurðu kannski, að það sé eitrað?“ spurði móðir hans? Og í vandræðum sínum svar- aði hann: „Hún hefur kannski pissað í það“. Faðir hans hristist allur og stóð á öndinni af hlátri, en móðir hans sló hann utanundir og sagði, að hann fengi engan mat. „Að þú skulir ekki skammast þín, og gamla konan, sem sagði í dag að sér litist svo vel á þig, þú værir svo ólíkur hinum krökkunum, stilltur og prúður, hún ætti að hafa heyrt til þín núna — hana snáfaðu inn til þín“. Hvað hafði hún sagt, að sér litist vel á hann, hann væri svo ólíkur. . . . Eftir ein- hverjum leiðum, rökleysu sálarinnar, varð hann þess fullviss, að gamla konan sæti um hann. Hann var á sífelldum flótta, hljóp út, hljóp inn, upp og niður, taugar hans voru spenntar, hann hrökk upp með andfælum á næturnar, augun þöndust og andlitið varð fölt. En gamla konan reyndi án afláts að vinna hylli hans og sendi honum sykurmola og súkkulaði með móður hans. En þegar eng- inn sá til læddist hann bak við húsið, þar sem enginn gluggi var á kjallaranum, og gróf sælgætið niður í moldina, skyggndist allt í kringum sig og læddist burtu. Dag einn í rigningu, er hann kom að utan, stóð gamla konan í ganginum, svo hann komst ekki framhjá henni upp. „Jæja vinur minn, ótta- leg ferð er alltaf á þér; þú ert að leika þér, kannski þú viljir mola núna, ætli ekki það — kondu stúfur minn, ætli gamla konan eigi ekki eitthvað handa þér“. Hún gekk að dyr- unum að herbergi sínu, og nauðugur varð hann að fylgjast með. En inn um dyrnar fór hann ekki. „Hvað er þetta, viltu ekki koma inn fyrir, ojæja, þú ert víst feiminn, kemur bara seinna“. Hún fór inn og skildi dyrnar eft- ir í hálfa gátt. Hann sá á rúm hennar, lagt þykkri dýnu og svart teppi breitt yfir, og undan rúminu handfang á emileruðu nætur- gagni. Þar sem hann stóð þarna, fór þessi sama undarlega tilfinning um hann, lamaði hann og fyllti ofboðslegri skelfingu, sem hann losn- aði ekki undan, fyrr en gamla konan hafði lagt kandísmola í máttvana hönd hans. Þá hljóp hann upp stigann og fleygði sér á dívan- inn og var farinn að bryðja kandísinn, áður en hann vissi af. Um morguninn, þegar hann vaknaði, var óvenju hljótt í húsinu, og einhver tilfinning fullnægju og kvíða. 1 fyrsta sinn um lang- an tíma leið honum vel. Þegar hann kom niður í eldhús var mamma hans ekki inni. Hann gekk niður til að leita hennar. Þegar hann kom niður í kjallara stóðu dyrnar að her- bergi gömlu konunnar opnar, og hann sá föð- ur sinn beygja sig yfir gömlu konuna; augu hennar voru lokuð og undarlegur svipur yf- ir andliti hennar, barnslegur og bjartur. Gal- opnum augum starði drengurinn á föður sinn leggja hendur hennar í kross og breiða teppið yfir. Síðan gekk hann hægum skrefum út. Þetta var herbergi gamallar konu, þar sem friðurinn ríkti borinn ósýnilegum höndum •— miskunn og friður. Þegar líki gömlu konunnar er ekið aftan á vörubíl í kirkjugarð Akureyrarbæjar renna stór, heit tár niður föla vanga drengsins, og falla á veginn. 8

x

Birtingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Birtingur
https://timarit.is/publication/823

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.