Birtingur - 01.04.1956, Blaðsíða 21

Birtingur - 01.04.1956, Blaðsíða 21
sem unnin voru í þriðja ríkinu. 1 fyrsta lagi gerði hún það í fullri óþökk bróður síns, og í öðru lagi gat hún ekki treyst föngunum fylli- lega. Engu að síður tókst henni að fram- kvæma þetta. Jafnframt komst hún að því, að fangarnir höfðu í hyggju að flýja, þar sem viðbúið var að þeir yrðu fluttir vestur á bóg- inn undan rauða hernum, sem nálgaðist óð- fluga, eða drepnir þar sem þeir voru komnir. Bóndakonan gat ekki fengið af sér að synja hinum unga manni um bón, sem honum tókst að gera henni skiljanlega með handapati, og þannig var hún orðin viðriðin flóttafyrirætl- anir fanganna: Hún útvegaði þeim jakka og járnklippur. Svo einkennilega vildi til, að þaðan í frá varð engin myndbreyting á and- liti mannsins. Og eins og nú var komið var það einvörðungu ungi maðurinn, sem hún rétti hjálparhönd. Henni varð því mikið um er barið var á glugga hennar snemma morg- uns í febrúarlok og hún kom auga á andlit sonar síns gegnum rúðuna í morgunskímunni. I þetta sinn var um ekkert að villast: Það var sonur hennar. Hann var í gauðrifnum SS-ein- kennisbúningi. Herdeild hans hafði verið leyst upp. Hann skýrði með skelfingu fr.á því, að Rússar væru aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð frá þorpinu. Komu hans varð að halda stranglega leyndri. Á eins konar her- ráðsstefnu, sem bóndakonan, bróðir hennar og sonur héldu í afkima uppi á húslofti, var tekin ákvörðun um að koma stríðsföngunum fyrir kattarnef, þar sem vel gat verið, að þeir hefðu séð til ferða SS-mannsins, og ekki sízt vegna þess, að þeir mundu vafalaust bera ófagurt vitni um meðferðina þar á bænum þegar Rússarnir kæmu. Grjótnáma var þar skammt frá. SS-maðurinn stóð á því fastar en fótunum, að ráðlegast væri að tæla fang- ana, einn og einn í einu, út úr hlöðunni um nóttina, drepa þá og fleygja síðan líkunum í grjótnámuna. Um kvöldið áttu þeir að fá brennivínsskammtinn sinn. Það gætl varla vakið hjá þeim tortryggni, áleit bróðirinn, þar eð heímilisfólkið hafði reynt að vera vin- gjarnlegt við Rússana upp á síðkastið í von um að takast mætti að mýkja hug þeirra á elleftu stundu. En er ungi SS-maðurinn var að ráða þetta við sig, sá hann skyndilega að móðir hans var farin að titra. Karlmennirnir ákváðu þá að sjá svo um, að hún kæmi ekki framar nærri hlöðunni. — Hún beið næturinn- ar í angist. Rússarnir þágu brennivínið með þökkum, og bóndakonan heyrði þá syngja hin þunglyndislegu lög sín. En þegar sonur hennar kom út í hlöðuna um klukkan ellefu, voru fangarnir allir á bak og burt. Þeir höfðu þótzt vera drukknir. Hin óeðlilega vinsemd heimilisfólksins hafði sannfært þá um, að Rauði herinn hlyti að vera á næstu grösum. Rússar komu, þegar skammt lifði nætur. Sonurinn lá drukkinn uppi á háalofti, en móð- ir hans var í dauðans ofboði að brenna SS- einkennisbúninginn hans. Bróðir hennar hafði líka drukkið sig fullan. Sjálf varð hún að taka á móti Rússunum og reyna að gera þeim til geðs. Um morguninn héldu Rússar af stað; sókn rauða hersins hélt áfram. Sonurinn heimtaði meira brennivín og var ákveðinn í að brjóta sér leið til þýzka hersins, sem var á hröðu undanhaldi, og berjast áfram. Móðir hans reyndi ekki að gera honum ljóst, að það væn sama og að ganga út í opinn dauðann í örvæntingu sinni kastaði hún sér í veg fyrir hann og reyndi að aftra honum með valdi. Hann hratt henni frá sér. En um leið og hún reis upp, fékk hún gripið lurk og lostið son sinn með honum af öllu afli. Samdægurs fyrir hádegi mátti sjá bónda- konu koma akandi í kerru með son sinn reyrðan böndum og framselja hann rússnesku herstjórninni sem stríðsfanga ■— til þess að hann mætti lífi halda. Jón Eiríksson þýddi. L 19

x

Birtingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Birtingur
https://timarit.is/publication/823

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.