Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 29

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 29
Litli-Bergþór 29 á æfingu?“ Fjögur af þessum sumrum vorum við tveir jafnaldrar á bænum. Við lékum okkur ekki mikið. Eitt sumarið var hinn ekki. Þá var ég í miklum samskiptum við yngsta soninn á bænum sem var fimm árum eldri en ég. Það var afar þroskandi fyrir mig. Þess má geta að við höldum enn sambandi eftir þessi tæplega 50 ár. Það voru engin afmæli haldin né veislur yfirleitt. Vel var þó tekið á móti gestum og gangandi. Bókakostur var svo sem ekki mjög mikill. Kannski svona tveir til þrír hillumetrar. Hann lásum við sundur og saman. Blöð voru keypt, Alþýðublaðið og Tíminn. Einnig Samvinnan. Þessu lá ég í. Mig minnir að Búnaðarblaðið Freyr hafi líka verið keypt, en það höfðaði lítið til mín. Húsmóðirin var svo áskrifandi að ameríska blaðinu Reader’s digest enda altalandi á enska tungu. Þessu otaði hún að okkur krökkunum. Því miður var ég ekki nógu þroskaður til að leggjast í það, nema brandarana sem voru gjarnan á eftir greinunum. Þarna var mikið ort. Ég fékk gríðarlega hvatningu í þá átt. Ég reyndi mikið, en eitthvað vantaði, þannig að árangurinn varð aldrei mikill. Aðbúnaður og hreinlæti Húsnæðið var gott nýtt steinhús sem varð ekki fullklárað þann tíma sem ég var þarna. Olíukynding var og ljósamótor sem settur var í gang síðdegis á haustin. Oft var hann í biliríi eða hreinlega ekki settur í gang og ég man eftir að hafa lesið við kertaljós í rúminu. Þarna var kjallari, þar sem var þvottahús, smíðakompa, hundakompa og vélahús fyrir ljósavél. Þar niðri var eina klósett heimilisins. Þar var ekki vaskur. Uppi átti að koma baðherbergi. Það kom ekki meðan ég var á bænum. Á aðalhæðinni ber fyrst að telja stórt eldhús sem var notað sem aðalsamkomustaður fólksins. Þar var olíueldavél, ágæt eldhúsinnrétting og stór vaskur. Reyndar sá eini í húsinu. Uppi á lofti voru þrjú allstór herbergi. Þar bjó ég öll sumrin. Yfirleitt með einum eða tveimur öðrum. Ég hafði alltaf mitt eigið rúm. Matartímar voru nokkrir. Á morgnana fyrir mjaltir var brauð og kaffi á boðstólum. Ekki mjólk vegna þess að mjólkin frá kvöldinu áður var ónýt. Ekkert rafmagn, enginn ísskápur. Eðlilegt var talið að börn drykkju kaffi. Eftir mjaltir svona upp úr klukkan 10 var alvöru morgunmatur. Hafragrautur, skyr, brauð og mjólkurostur og nóg af mjólk. Mjólkin var spenvolg og auðvitað ógerilsneydd, enda mjólkuð þá um morguninn. Reyndar var þarna ótrúlegt skyr- og ostát. Það helgaðist af því að þetta var stórt kúabú og Mjólkurbú Flóamanna sendi óbeðið skyr og ost í miklu magni inn á heimilið. Magnið fór eftir innsendu mjólkurmagni, en ekki fjölskyldustærð. Verðið dregið beint af. (Alvöru Framsóknarmennska). Um eitt leytið var hádegismatur. Síðdegis var gjarnan boðið upp á kaffi og kökur. Á kvöldin var svo kvöldmatur fyrir mjaltir. Reyndar var oft minna lagt upp úr kvöldmat heldur en hádegismat, minnir mig. Ég man ekki mikið eftir hvernig hreinlæti var háttað. Örugglega var sjaldnar skipt á rúmum, minna skúrað og sjaldnar skipt um föt en nú tíðkast. Í bað fór ég tvisvar - þrisvar á sumri í sundferðum. Það bar samt ekki á öðru en allir þrifust vel og jafnvel betur en í hreinlætisæðinu nú til dags. Samt var ætlast til að við þvæðum okkur um andlit, háls og hendur upp úr eldhúsvaskinum fyrir svefninn. Samskipti og viðhorf Á allan hátt var mér tekið eins og einum af fjölskyldunni. Ég segi hiklaust að húsbændur mínir komu fram við mig eins og íslensk venja býður að ástríkir foreldrar komi fram við börn sín. Ekkert minna en það. Þetta var mér sérstaklega mikilvægt þar sem ég kom úr því sem nú er kallað brotinni fjölskyldu. Allan þann tíma sem hjónin lifðu eftir árin mín hjá þeim heimsótti ég þau reglulega. Börn þeirra þekkti ég líka alla tíð en atvik höguðu því þannig að ég hélt einungis sambandi við þann soninn sem næstur mér var í aldri. Sjaldan fékk ég heimsóknir. Móðir mín kom kannski fjórum sinnum öll árin mín þarna. Alltaf bara dagspart utan einu sinni, þegar hún bjó í tjaldi með vinkonu sinni í túnfætinum. Ég fékk pakka með sælgæti svona einu sinni til tvisvar á sumri. Ég leit þannig á að sælgætið væri fyrir alla á bænum. Allur agi var mildur. Ef til vill var ég svona þægur. Ég man bara alls ekki eftir neins konar árekstrum. Stefán Árnason.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.