Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 32

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 32
32 Litli-Bergþór Við hér á Krummaklettum sem er eldri barna deild í leikskólanum Álfaborg, erum búin að vera að gera margt mjög skemmtilegt saman í vetur. Við unnum meðal annars skemmtilegt verkefni í kringum tónverkið Pétur og úlfurinn. Við hlustuðum á tónlistina, ræddum söguþráðinn, lásum bókina og settum síðan upp leikrit sem var tekið upp. Börnin unnu að mynddiski og gáfu foreldrum sínum í jólagjöf. Börnin elska að fá að taka þátt og það styrkir sjálfsmynd þeirra. Eftir áramót höfum við verið að taka fyrir tónverkið Svanavatnið og höfum við m.a. búið okkur til stóran svan, skoðað myndir, búið okkur til vængi úr pappír og prófað að fljúa um í kaðli. Þetta tengist yfirþema vetrarins sem er fuglar. Við höfum líka búið til fuglahús úr mjólkurfernum, gert páskaunga úr leir, skoðað uppstoppaða fugla, gefið krumma að borða og fleira skemmtilegt. Það er afskaplega gaman að vinna svona með ákveðið þema, skoða það frá ýmsum hliðum og vinna þvert á listgreinar. Nota fjölbreyttan efnivið og ræða , rannsaka og skoða efnið til hlítar. Leikurinn er líka í hávegum hafður og í gegnum hann læra börnin svo margt m.a. að sýna hvert öðru tillitssemi, hjálpsemi, þolinmæði og vináttu. Þau læra að tjá sig á ýmsan hátt og leggja grunn að lestri, stærðfræði og öllu öðru námi framtíðarinnar. Elsti árgangurinn hefur farið einu sinni í viku út í grunnskóla með kennara sínum í allan vetur og er það samstarf frábært. Börnin læra á grunnskólann sinn, kynnast kennurum, verklagi og innviðum skólans sem gerir þau öruggari og auðveldar flutning yfir á næsta skólastig. Markvisst hefur verið unnið að undirbúningi fyrir grunnskóla á ýmsan annan hátt m.a. með markvissum málörvunarstundum, skipulagðri og frjálsri verkefnavinnu og eru stafir , orð og tölur höfð sýnileg í skólanum. Við vinnum í anda Reggio Emilia og þar er m.a. lögð áhersla á frelsi einstaklingsins og frelsi til að tjá sig á sem fjölbreyttastan hátt, t.d. í gegnum tónlist og myndlist. Það lýsir sér m.a. í því að börnin hafa frjálsan aðgang að ýmsum efnivið s.s. bókum, spilum, litum og pappír. Elstu árgangarnir okkar í leikskólanum hafa haft þennan aðgang alla sína leikskólagöngu og sýna þau og sanna hve gott það er. Þau eru sérstaklega örugg með sig og sköpunargleði þeirra fær að njóta sín, það er hlustað á hugmyndir þeirra og þær oftast framkvæmdar. T.d. vildu nokkrir drengir gera sína eigin skrifstofu. Það var ekkert mál, þeir sóttu borð, stóla og kassa sem þeir breyttu í hin ýmsu skrifstofutæki, prentara og fl. Þeir báðu síðan kennarann að kenna sér að skrifa nafn skrifstofunnar og skilti sem segði lokað. Skrifstofan fékk nafnið Aðalstrákaskrifstofan. Þarna jókst trú þeirra á sjálfan sig, það reyndi á útsjónarsemi, lýðræði, samvinnu og fleira merkilegt. Nú er vorið og sólin komin og gaman að hlaupa um, fara í fræðandi rannsóknar- og gönguferðir og njóta okkar fallegu náttúru sem mest. Börnin eru yndisleg og forréttindi að fá að vinna með þessum ungu, flottu og sterku einstaklingum sem kenna okkur og gefa svo margt alla daga. Það er yndislegt að fá að taka þátt í lífi þeirra á svo mikilvægum tíma og að fá að styðja þau og styrkja og undirbúa fyrir lífið sem bíður fullt af tækifærum. Það er alltaf gaman og tilfinningaríkt að útskrifa flotta krakka að vori og horfa á eftir þeim út í lífið. Starf leikskólakennarans er einkar gefandi og skemmtilegt. Takk fyrir okkur. Fyrir hönd eldri deildar leikskólans: Agnes Heiður Magnúsdóttir deildarstjóri. Leikskólinn Álfaborg, Krummaklettar mars 2014 Metta Malin Bridde og Arnaldur Ármann. Það er svo gaman úti. Jóhann Hilmir Sigurðarson og Samúel Örn Sigurvinsson í lögguleik.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.