Morgunblaðið - 16.11.1979, Side 18
18
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 16. NÓVEMBER 1979
Astríður Jónsdótt-
ir — Minningarorð
Fædd 18. apríl 1893.
Dáin 9. nóvember 1979.
Eitt sinn skal hver deyja, segir
gamalt máltæki. Spurningin er
aðeins hvenær kallið kemur. Sum-
um mönnum er aðeins gefið að
kynnast einstökum hliðum og
fábreytileika lífsins áður en þeir
hverfa af lífsins braut í blóma
lífsins. Hjá öðrum kann þessu að
vera öfugt farið. Enn aðrir verða
háaldraðir um leið og þeir bergja
á súr- og sætleika lífsins.
Lífshlaupið er aldrei það sama hjá
tveimur einstaklingum.
Astríður Jónsdóttir var sú kona,
sem lifað hefur tímana tvenna.
Hún hefur séð vanþróað bænda-
samfélag, sem hún var sjálf í
bernsku nátengd, verða að stóru
borgarsamfélagi, er hún átti einn-
ig sinn þátt í að móta. Hennar
dagsverk er orðið langt, enda var
nokkuð liðið á ævikvöldið.
Þó að það standi einhverjum
nær að skrifa nokkur minningar-
orð til ömmu, þá hefi ég fundið
þörf til þess nú að leiðarlokum að
birta um hana fáeinar línur.
Ástríður var fædd 18. apríl 1893
að Þóroddsstöðum í Ölfusi. Hún
var dóttir þeirra hjóna, Guðrúnar
Gísladóttur og Jóns Ólafssonar,
sem þar bjuggu sín fyrstu búskap-
arár. Ástríður var ein af átta
systkinum, en þar af voru þrír
bræður og fimm systur, en eitt
barn þeirra hjóna andaðist við
fæðingu. Systurnar voru Eydís,
sem var þeirra elst og var gift Jóni
Tómassyni skipstjóra, Ólína, sem
giftist séra Þorvarði Þormar, en
hann var lengi prestur í Laufási,
Anna, sem gift er Gunnari Jónas-
syni, og Helga, sem giftist Gunn-
ari Rocksén. Bræðurnir voru Hall-
dór, en hann drukknaði 22 ára
gamall, Skúli, er dó 16 ára á
erlendri grund og Guðjón, sem var
ókvæntur og andaðist 1962.
Vegna jarðskjálftanna á Suður-
landi um aldamótin fluttist öll
fjölskyldan til Krísuvíkur en síðar
á Vatnsleysuströnd og dvaldist
þar næstu sjö árin, eða þar til þau
fluttust til Reykjavíkur. Árið 1910
andaðist móðir þeirra systkina og
varð það reiðarslag fyrir svo stóra
fjölskyldu, því börnin voru ung að
árum og þ.a.l. mikil ómegð á
heimilinu. Það kom því í hlut elstu
systranna, Eydísar og Ástríðar, að
sjá um heimilishald allt og búr-
ekstur. Má af þessu ráða að
snemma hefur reynt á manndóm
og kjark þeirra systra, og þá ekki
síst Ástríðar, sem þá var aðeins 17
ára gömul. Ekki varð skólagangan
löng hjá Ástríði vegna þeirra
erfiðu heimilisástæðna, er að
framan greinir, enda lítið hægt að
reiða sig á styrki og námslán í þá
daga. Þó lagði Ástríður sig fram
eftir efnum og ástæðum að leita
sér þekkingar á þeim sviðum, sem
æskilegast þótti að stúlkur á þeim
tíma öfluðu sér, þ.e. ýmiss konar
hannyrðanám.
Árið 1912 giftist hún Sigurði
Kjartanssyni, kaupmanni hér í
borg. Sigurður hafði þá numið
rafvirkjun í Ameríku, og var hann
með þeim fyrstu, sem þessa iðn
lögðu fyrir sig hér á landi. Eftir
heimkomuna frá Ameríku stofn-
uðu þau Ástríður og Sigurður
heimili að Laugavegi 13, en þar
fæddust tvö elstu börn þeirra
hjóna. Á sama tíma hóf Sigurður
rekstur rafmagnsfyrirtækis, Hita
og ljóss, í samvinnu við aðra unga
menn, þ.á m. Eirík Hjartarson,
Einar Gíslason o.fl. Arið 1920
fluttu Ástríður og Sigurður sig um
set á Bergstaðastræti 12. Ári
seinna fluttist fjölskyldan á
Laugaveg 20 og enn síðar að
Laugavegi 41, eða 1932, en þar
eyddi Ástríður ævidögum sínum
alveg fram á dánardægur sitt.
Sigurður andaðist 1967.
Á Laugavegi 41 hefur lengi
verið rekin verslun, sem löngu er
orðin nafnkunn undir nafni Sig-
urðar Kjartanssonar. Rekja má
aldur þessarar verslunar allt til
ársins 1926, en þá skildu leiðir
með Sigurði og þeim er stóðu að
Hita og ljósi. Þó að Ástríður hafi
ekki staðið innan búðar, þá fylgd-
ist hún ætíð vel með öllu, er
verslunina áhrærði, og tók jafnan
óbeinan þátt í rekstri hennar.
Þeim hjónum varð fimm barna
auðið. Þau voru þau Haukur,
Guðfinna, Sigríður, Atli og Guð-
rún. Lifa þau öll móður sína nema
Guðfinna, sem lést 1974.
Þó að ekki hafi ég aldurinn til
að bera, og hafi þ.a.l. ekki um-
gengist Ástríði ömmu mína nema
brot af hennar löngu ævi, þá
þykist ég hafa hitt þar fyrir konu,
er bjó yfir mörgum mannkostum.
Eitt megineinkenni skapgerðar
hennar var, að hún var ætíð
gefandi en ekki þiggjandi. Það var
ekki litið svo inn til ömmu á
Laugaveginum að hún leysti ekki
okkur krakkana út með gjöfum og
hlýju viðmóti. Gestrisni hennar
var annáluð og allir voru aufúsu-
gestir í hennar híbýlum. Enda var
það yfirleitt svo, að varla leið sá
dagur að ekki væri gestagangur á
Laugaveginum. Aldrei sá ég hana
skipta skapi, og aldrei heyrði ég
hnjóðsyrði af vörum hennar til
nokkurs manns. Hafði hún þó til
að bera mikinn viljastyrk og
ákveðni, ef því var að skipta.
Ástríður fylgdist vel með þjóðmál-
um og það bar vott um glögg-
skyggni hennar nú hin síðari árin,
að hún var ætíð vel heima í því,
sem var að gerast á hverjum tíma.
Þessari skarpskyggni sinni og
eftirtekt hélt hún alveg óskertri
til hinstu stundar. Skyldurækni
hennar var við brugðið. Hún var
góður vinur vina sinna, ætíð
viðræðugóð og alltaf átti maður
hauk í horni, þar sem hún var
annars vegar.
Það er því mikill sjónarsviptir
að svo svipmikilli konu sem
Ástríði, enda mun fjöldi skyld-
menna og heimilisvina sakna
þeirrar hjartahlýju og gestrisni,
sem ævinlega var í hávegum höfð
hjá ömmu á Laugaveginum.
Með þessum línum vil ég þakka
fyrir samverustundirnar og bið
guð að styrkja og blessa ástvini
hennar um ókomna framtíð.
Magnús Brynjólfsson.
Haukur Jóhannesson
flugmaður - Minning
Fæddur 20. apríl 1959.
Dáinn 8. nóvember 1979.
Vjð erum mörg í frændliði
Hauks Jóhannessonar, sem erum
harmi lostin við hið sviplega
fráfall hans. Ungur og fallegur
hvarf hann skyndilega og óvænt
— tvítugur að árum, er hann ekki
lengur á meðal okkar. Slys á ungu
fólki eru því miður að gerast allt í
kringum okkur, og slíkar harma-
fregnir alltaf jafn átakanlegar, en
þegar í frændgarðinn er höggvið
nístir fregnin inn að beini.
Haukur var sonur Örnu Jóhann-
esdóttur og Jóhannesar R. Snorra-
sonar yfirflugstjóra Flugleiða.
Hann var næstelsta barn foreldra
sinna og elstur bræðranna
þriggja. Haukur var einstaklega
ljúfur ungur maður, greiðvikinn
og góður félagi systkina sinna og
hjálparhella heima, við hvað sem
var. Hann var völundur í höndum
og gerði við allt, sem aflaga fór,
hafði lifandi áhuga á heimili sínu
bæði utan dyra og innan og alltaf
reiðubúinn að leggja sitt fram.
Hann var vinnusamur og spar-
samur og ævinlega sá í hópnum
sem miðlaði og gaf en greiðviknin
var honum eðlislæg. Mér var vel
kunnugt um það, hve góður hann
var afa sínum háöldruðum, en
viðbrögð og framkoma unglinga
við gamalt fólk segir oft meir en
mörg stór orð um eðlisþætti og
hjartalag.
Haukur heillaðist snemma af
fluginu eins og margur ungur
maðurinn á okkar tímum. Hann
átti sér draum, og undanfarnar
vikur sá hann hilla undir, að sá
draumur myndi rætast. Það var
unnið og sparað saman og allt lagt
í sölurnar til að ná settu marki.
Gleðin yfir litla farkostinum, sem
hann og félagar hans eignuðust
nýverið, var svo mikil og innileg,
að því fá engin orð lýst. Nú blasti
við aukið nám, meiri reynsla,
þroski og þjálfun. Þetta var það,
sem að var stefnt og allra vonir
stóðu til að framtíðin myndi bera í
skauti sér.
En skyndilgga er tekið í taum-
ana. Það er klippt á lífsþráðinn í
einu vetfangi og við öll minnt
harkalega á, hve bilið er stutt
milli lífs og dauða og að líf okkar
allra hangir á einum þræði.
Það er erfitt að skilja og sætta
sig við, þegar slík tíðindi berast.
Þá verðum við aftur lítil börn og
skiljum ekki en spyrjum: Hvers
vegna? Svör við þeirri spurningu
eru einhvers staðar þar sem eng-
inn sér né heyrir.
Þótt lífshlaup Hauks frænda
míns yrði ekki langt, hafði hann
sýnt af sér svo margt fallegt og
gott að engum duldist, að þar fór
góður drengur, mannsefni sem
miklar vonir voru bundnar við.
Harmur og sár söknuður er nú á
heimili hans, og frændgarðurinn
allur tekur þátt í þeim harmi.
Haukur Jóhannesson hefir farið
sína hinstu ferð og er horfinn
okkur. Fyrirbænir og hlýjar
kveðjur fylgja honum frá okkur,
sem enn erum hér, og við biðjum
um styrk til handa foreldrum
hans, systkinum, ömmu og vinum.
Blessuð sé minning þessa unga
frænda míns.
Anna Snorradóttir
Órannsakanlegir eru vegir Guðs
og allt það sem hann hefur í hendi
sinni. Svo er það með vitjunartíma
okkar, því að hvorki kunnum við
að telja daga okkar né annarra.
Þegar ég hugsa til baka yfir
stuttu ævina hans Hauks, þá
verða margar minningar til í huga
mínum. Allt frá því að hann kom í
þennan heim, fallegur, langur og
mjór, sem hann og varð fullorð-
inn, hár og spengilegur ungur
maður. Svo mikill var samgangur
milli heimila okkar að aldrei leið
langur tími milli endurfunda.
Síðustu árin minnist ég hans,
þegar ég var að koma í heimsókn,
var hann alltaf að vinna í
bílskúrnum, ef hann var ekki í
skólanum eða vinnunni. Fyrst var
það mótorhjólið og síðan bíllinn
og þá var það oftast að ég sá ekki
nema helminginn af honum, því
hinn helmingurinn var á kafi ofan
í vélarhúsinu. Oftast voru ein-
hverjir vinir að aðstoða hann.
Síðast þegar ég hitti hann sagði
hann mér frá (nýju) flugvélinni
sem hann var að festa kaup á,
ásamt 4 piltum öðrum. Það var
tilhlökkun í svipnum.
Ég sá hann fyrir mér eftir
nokkur ár sitja undir stýri stóru
flugvélanna, búinn að taka við af
honum pabba sínum, sem búinn er
að fljúga í svo mörg ár og aldrei
orðið fyrir óhappi í starfi. Ég
samgladdist honum.
En sorgin kom og Haukur er
dáinn. Hann fórst ásamt félaga
sínum, nýja flugvélin hrapaði.
Allir draumar að engu orðnir.
Það var mikil sorg á mínu
heimili er við fréttum um þetta
hræðilega slys. Nóttina eftir slysið
dreymir mig að ég sé hjá drengj-
unum strax eftir slysið. Haukur
opnar augun og spyr: „Hvar erum
við eiginlega?" Þið rákust á síma-
línu svara ég. „Ha, hann sem
sveigði svo snilldarlega," segir
Haukur. Hann Guðmundur hefur
ábyggilega sveigt snilldarlega frá
hættunni. En þarna hefur eitt-
hvað verið að. Snilldar sveigjan
hans Guðmundar hefur ekki dug-
að.
Við erum margar vinkonur, sem
höfum haldið hópinn í nokkra
áratugi eða allt frá æskuárum.
Hvað það hefur verið ánægjulegt
að fylgjast með þroska og hverjum
áfanga allra barnanna okkar.
Það hefur oft verið hávaðasamt
er fundum okkar ber saman. Við
þurfum alltaf að fá nýjustu fréttir
af börnum hvor annarrar og
oftast hafa það verið góðar fréttir.
En á þessu ári hefur sorgin orðið
nærgöngul. Tengdasonur einnar
okkar deyr af slysförum frá konu
og syni. Elskulegur ungur maður,
öllum harmdauði. Og nú í síðasta
mánuði deyr systir annarrar eftir
langvarandi veikindi, syrgð af
okkur öllum og öllum sem henni
kynntust, fyrir frábæra elsku sem
hún flutti með sér hvert sem hún
fór.
Góðar minningar fylgja góðum
dreng, og voru það vonir okkar, að
margar myndu bætast við með
árunum. En þó þær yrðu ekki
fleiri er huggun af birtu þeirra og
hreinleika. Mig langar að ljúka
kveðjuorðum mínum með því að
votta foreldrum piltanna beggja,
systkinum og ástvinum öllum
innilegustu samúð með blessunar-
bænum.
Sveigjan þeirra nægði ekki, en
mér finnst sem ég sjái þá svífa í
hreinleika eilífðarinnar, þar sem
náð Guðs tryggir árangur með
farsæld.
Guð blessi góðar minningar og
ástvini alla í heimi tíma sem
eilífðar.
Arnfriður Aradóttir.
Það er sárt að sjá á bak
efnilegum mönnum í blóma
lífsins. Enn eitt skarð hefur verið
höggvið í hóp okkar dugandi
æskufólks, sem miklar vonir voru
bundnar við og okkar litlu þjóð
munar mikið um.
Fjörugur og dugmikill vinur
okkar og samstarfsmaður, Haukur
Jóhannesson er kvaddur hinstu
kveðju í dag. Hann fórst í flugslysi
ásamt félaga sínum Guðmundi
Kvaran þann 8. nóvember.
Hauk hefi ég þekkt frá því hann
var barn að aldri og seinna, þegar
hann hóf störf hjá okkur í Hlað-
deild Flugfélags Islands, þá urðu
okkar kynni meiri.
Hugur hans stefndi að því að
feta í fótspor föður síns, hins
farsæla flugstjóra og frumherja í
íslenskri flugsögu, Jóhannesar R.
Snorrasonar. Ég vil þakka Hauki
samfylgdina, hún var alltof stutt,
en ánægjuleg af frísku og tindr-
andi fasi æskumannsins, sem ég
og samstarfsmenn hans sakna svo
mjög. Ég veit að við hina eilífu
strönd tekur afi hans, hinn virti
barnafræðari og hugsjónamaður
Snorri Sigfússon, á móti honum og
leiðir hann til hans, sem fór á
undan að búa oss stað.
Ég votta foreldrum hans Örnu
Hjörleifsdóttur og Jóhannesi R.
Snorrasyni og systkinum hans og
ástvinum öllum mína dýpstu sam-
úð.
A. Dalmann.
Öll þau margræddu stórmál
sem nú um stundir eru mest
áberandi urðu smá og óendanlega
ómerkileg við hlið þeirrar hörm-
ungarfregnar er barst um flug-
slysið, sem hreif í dauðann tvo
unga og efnilega menn. Jafnvel
þeir, sem ekki þekktu persónulega
til þessara pilta, stóðu agndofa
frammi fyrir þeim örlögum sem
birtust á forsíðum blaðanna. Vitað
er að skemmra er á milli lífs og
dauða en við leiðum hugann að í
daglegri önn og amstri. En þarna
var sláttur dauðans svo snöggur
og lagði að óvenju mannvænlegum
stilkum.
Fyrir okkur mörgum er flug og
störf þeirra, sem að því vinna,
sífellt hættuspil. Fyrir Hauk Jó-
hannesson var það hluti af æða-
slátti lífsins. Jóhannes R. Snorra-
son, faðir hans, hefur frá fyrstu
tíð verið samofinn hverjum nýjum
áfanga í fluginu og Haukur sonur
hans fetaði óhikað og fullur
bjartsýni slóð föður síns. Fyrir
mér er hann þó ekki flugmaðurinn
sem lætur lífið óvænt við loftsins
leik. Ég veit að það láir mér
enginn, þótt mér finnist sem
nærri mér sé höggvið. Fjölskyldur
okkar hafa verið samofnar vin-
áttuböndum allt lífsskeið hans og
barna okkar. Þar vantaði ekkert á
nema blóðböndin.
í mínu starfi gefst mér tóm og
tækifæri til að sjá óvenjustóran
hluta af íslenzkum æskulýð vaxa
úr grasi. í þeim hópi er jafnan
margt um mannvænlegan efnivið.
Ég þykist því tala af nokkurri
reynslu, er ég segi, að Hauk
Jóhannesson prýddu þeir kostir
sem ungir menn geta bezta haft.
Geð hans og góðvild og allt atgervi
var á eina lund. Þessir kostir og
þau áhrif sem geisluðu frá pers-
ónu hans munu geymast öllum
sem unnu honum og mátu hann að
verðleikum. Á svona stund getur
enginn reft ástvinum þá hjálpar-
hönd sem dugar, nema sá sem
okkur er öllum æþri. Ég veit að
hann styrkir og styður Örnu og
Jóhannes og systkini Hauks nú
þegar mest á reynir.
Ragnar Júliusson.
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og
minningargreinar verða að berast blaðinu með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í
miðvikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi
á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga.
Greinar mega ekki vera í sendibréfsformi eða bundnu
maíi. Þær þurfa að vera vélritaðar og með góðu
línubili.