Morgunblaðið - 21.10.1981, Side 12
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 21. OKTOBER 1981
12
Aldarminning:
Séra Bjarni Jónsson
dómkirkjuprestur
í dag, 21. okt., eru 100 ár liðin
frá fæðingu séra Bjarna Jónsson-
ar, dómkirkjuprests og vígslubisk-
ups, en hann var fæddur hér í
Reykjavík, 21. okt. 1881, voru for-
eldrar hans þau hjónin Jón Odds-
son, tómthúsmaður í Reykjavík og
Ólöf Hafliðadóttir, er bjuggu í
Mýrarholti í Vesturbænum. Föð-
urætt séra Bjarna var úr Kjósinni,
en móðurættin frá Engey. Reykja-
vík var þá lítill bær, miðað við það
sem síðar varð, og margir torfbæir
þar enn við lýði, þar á meðal Mýr-
arholt. Minntist séra Bjarni oft á
það síðar, að þegar hann hafði
tekið inntökupróf í Lærða skólann
1896, hafi staðið í skólaskýrslunni,
að hann væri fæddur í Mýrarholti
„við Reýkjavík", eins og það var
orðað, en Mýrarholt stóð í Vestur-
bænum, þar sem síðar mættust
Nýlendugata og Bakkastígur.
Húsakynni voru ekki háreist, og
fátækt var mikil meðal alþýðu-
fólks í Reykjavík á þeim árum.
Nokkuð mun foreldrum sr.
Bjarna hafa fundist þau færast í
fang, að ætla sér að senda son sinn
í Lærða skólann, þar sem efnin
voru lítil eða engin, en voru þó
eindregið hvött til þess, einkum af
Morten Hansen skólast.j. barna-
skólans, og fyrir tilstilli hans og
annarra góðra manna tók hann að
læra til inntökuprófs í Latínuskól-
ann, og þar með voru örlög hans
að nokkru leyti ráðin. Sóttist hon-
um námið strax vel, en þegar hann
var í 3. bekk missti hann föður
sinn, en hann varð bráðkvaddur á
Vesturgötunni, er hann var á
heimleið frá vinnu.
Stúdentsprófi lauk séra Bjarni
1902 og hélt svo til náms í guð-
fræði við Kaupmannahafnarhá-
skóla og bjó á Garði (Regensen) en
íslenskir stúdentar nutu þar sér-
stakra fríðinda um garðsvist, en
það hjálpaði til þess, að margir
fátækir stúdentar gátu stundað
nám við Hafnarháskóla, sem ann-
ars hefði orðið það ókleift. En
garðstyrkurinn var felldur niður
með sambandslögunum 1918.
Séra Bjarni lauk kandidatsprófi
í guðfræði við Hafnarháskóla
1907, en tafðist einn vetur frá
námi, vegna fjárskorts og stund-
aði þann vetur kennslustörf hér í
Reykjavík.
Oft minntist hann námsára
sinna í Kaupmannahöfn með hlýj-
um huga og fór lofsamlegum orð-
um um kennara sína og um þá,
sem greiddu götu hans á námsár-
unum eða höfðu sérstök áhrif á líf
hans og lífsviðhorf.
Einn kunnasti prestur Kaup-
mannahafnar á þessum árum var
séra Olfert Richard. Hann þótti
frábær ræðuskörungur og var um
þessar mundir framkvæmdastj.
KFUM í Kaupmannahöfn. Greiddi
þessi merki prestur götu þessa ís-
lenska stúdents á margan hátt og
mun hafa haft meiri áhrif á líf
hans en nokkur annar maður.
Naut sr. Bjarni þar góðs af vináttu
sinni við sr. Friðrik Friðriksson,
en hann og sr. Richard voru alda-
vinir. Þegar séra Bjarni kom heim
frá námi í Kaupmannahöfn gerð-
ist hann um 3ja ára skeið kennari
og skólastjóri á Isafirði, og mun
um skeið hafa hvarflað að honum
að helga sig kennslustörfum, og
margir mundu lengi kennslu hans
frá þeim árum.
Dómkirkjupresturinn
En 1910 urðu straumhvörf í lífi
hans, því 26. febr. það ár var hann
kjörinn 2. prestur við Dómkirkj-
una í Reykjavík og var vígður 26.
júní sama ár. Þar var ekki tjaldað
til einnar nætur, því við Dóm-
kirkjuna var hann síðan prestur í
41 ár, eða lengur en nokkur annar
prestur á undan honum, og þó að
hann segði formlega af sér emb-
ætti 1951, hélt hann raunverulega
áfram að vera „presturinn" í með-
vitund fólksins og margir leituðu
til hans, eins og áður, til einstakra
prestsverka.
Prestsstarf séra Bjarna í
Reykjavík var ótrúlega um-
fangsmikið, og fór síst minnkandi
með árunum íbúum í Reykjavík
fjölgaði ört um hans daga, og
vandamálin urðu mörg á vegi
hans. Margir muna enn þegar
spánska veikin geisaði hér í
Reykjavík 1918, og margvíslega
erfiðleika hernámsáranna. Lengi
voru prestarnir í Reykjavík aðeins
þrír, og þeir höfðu allir meira en
nóg að gera. Hann hafði unnið
fleiri prestsverk en nokkur annar
prestur á íslandi. Það var næstum
ótrúlegt, hvað sr. Bjarni gat kom-
ist yfir að vinna og það var ekki
alltaf langur tími til undirbún-
ings, þegar hann þurfti að flytja
ræður stundum oft á dag. Sjaldan
mun hann hafa neitað, þegar til
hans var leitað um prestsþjón-
ustu. Séra Bjarni var áhrifamikill
prédikari. Hann hafði sinn sér-
staka stíl í ræðuflutningi, eins og
áhrifamiklir prédikarar hafa jafn-
an haft. Þessvegna var hann eng-
um líkur. Ræður hans voru bornar
uppi af trúarhita og sannfær-
ingarkrafti, samlíkingar hans
komu mönnum stundum á óvart,
og festust því gjarnan í minni
þeirra og enginn þurfti að kvarta
yfir því að ekki heyrðist til hans í
kirkjunni, þótt engir væru hátal-
arar. Hann var vel að sér í Biblí-
unni, sögu og bókmenntum, stefn-
um og straumum í andlegum mál-
um, og hafði ritningargreinar á
hraðbergi. Hann vitnaði óspart í
Ijóð og líkingar í ræðum sínum,
svo að ýmsum þótti hann jafnvel
óþarflega eyðslusamur á gott
ræðuefni í prédikunum sínum, og
þegar vinir hans bentu honum
vinsamlega á þetta, brosti hann og
sagði: „Mér leggst alltaf eitthvað
til.“ Og sannleikurinn var sá, hann
varð aldrei þurrausinn.
Hann var vel að sér í guðfræði
og fylgdist vel með trúarstefnum
samtíðar sinnar, sjálfur fylgdi
hann hinum eldri trúarstefnum,
en var víðsýnn og umburðarlyndur
og átti vini og aðdáendur í hópi
þeirra, sem ekki fylgdu sömu trú-
arskoðunum og hann.
Séra Bjarna voru falin mörg
trúnaðarstörf í kirkjunni, meðan
hann var dómkirkjuprestur. Hann
var prófastur í Kjalarnespróf-
astsdæmi og dómprófastur í
Reykjavík, eftir að prestakallinu
þar var skipt, og Reykjavík varð
sérstakt prófastsdæmi. Þá var
hann vígslubiskup í Skálholtsbisk-
upsdæmi hinu forna, í stjórn Hins
íslenska Biblíufélags, og um ára-
raðir formaður KFUM í Reykja-
vík, og vann mikið fyrir þann fé-
lagsskap, og mat hann mikils,
fangelsisprestur í Reykjavík með-
an hann var dómkirkjuprestur og
lengi, eftir að hann lét af embætti.
Þá var hann prófdómari við
guðfræðideild háskólans frá stofn-
un hans 1911 og til 1962 eða um
52ja ára skeið. Lengst af þeim
tíma var ríkjandi þar guðfræði-
stefna, sem sr. Bjarna var ekki, að
öllu leyti, að skapi, en aldrei
heyrðist annað en að hann dæmdi
verkefni stúdentanna af sanngirni
og af víðsýni og vart myndi hann
hafa verið svo lengi við þetta
starf, ef honum hefði ekki verið
það geðfellt. Ég held að honum
hafi verið það ánægjuefni að fylgj-
ast með hinum ungu mönnum,
sem útskrifuðust úr guðfræði-
deildinni.
Ég held að séra Bjarni hafi ekki
látið ólíkar trúarskoðanir fara
mjög í taugarnar á sér, þótt hann
héldi fast við sín sjónarmið. Hann
tók sjaldan mikinn þátt í'trúmála-
deilum og allra síst.ef þær báru
einhvern keim af ofstæki eða
skorti á umburðarlyndi. Meðal
bestu vina sr. Bjarna voru án efa
þeir sr. Friðrik Friðriksson og Dr.
Jón Helgason, biskup, en þó voru
þeir harla ólíkir í trúarskoðunum
sínum og guðfræði.
Séra Bjarni var ekki aðeins
þjóðkunnur prédikari og guðfræð-
ingur, heldur var hann mikill
sálusorgari. Reynsla hans í prests-
starfinu var víðtækari en flestra
annarra. Hann kom oft fram á há-
tíðlegum og stórum augnablikum í
sögu þjóðarinnar og það reyndi oft
mikið á hann, þegar sorg og
reynsla varð á vegi manna, þá
þótti gott að hafa hann hjá sér,
njóta fyrirbæna hans, huggunar
og styrks frá honum. Hann kunni
manna best, að gleðjast með glöð-
um og hryggjast með hryggum.
Hann var ríkur af samúð, og gleð-
in var alltaf í för með honum.
Hvar, sem hann kom og hvar sem
hann fór, vakti hann virðingu og
traust. Styrk sinn sótti hann í
trúna, í samfélagið við Guð og
frelsarann. „Ég trúi, þess vegna
tala ég,“ sagði hann oft. „Lífið- er
mér Kristur" var t.d. nafn á bækl-
ingi með nokkrum ræðum, sem
vinir hans gáfu út. I raun og veru
var þetta yfirskrift lífs hans. Það
fór því ekki hjá því, að áhrif hans
yrðu mikil og það meiri en hann
sjálfur gerði sér Ijóst og það meðal
þeirra, sem ekki áttu, að öllu leyti,
samleið með honum í guðfræðileg-
um efnum. Trúarskoðanir breyt-
ast frá einni kynslóð til annarrar,
en einn er sá, sem aldrei breytist,
hann sem er alfa og omega, upp-
hafið og endirinn.
Madurinn og
samborgarinn
Séra Bjarni var óefað einn
þekktasti Reykvíkingur hér í
borginni um sína daga. Hann átti
heima í miðborginni, í Lækjargötu
12 B eða við „breiða veginn", eins
og hann sjálfur orðaði það, eftir
að Lækjargatan hafði verið
breikkuð. Oft var hann á ferli í
miðbænum, svo að segja allir
borgarbúar þekktu hann í sjón, og
hann þurfti mörgum að heilsa.
Sjálfur var hann fæddur Reykvík-
ingur, „Reykjavíkurbarn" og Vest-
urbæingar voru stoltir af því, að
hann skyldi vera úr þeirra bæj-
arhverfi. Honum þótti vænt um
Vesturbæinn og mundi vel eftir
því, að hann var frá Mýrarholti.
Honum þótti vænt um Reykjavík
og alla Reykvíkinga, og þær fram-
farir, sem höfðu orðið hér um
hans daga. Honum þótti vænt um
þann sóma, sem Dómkirkjusöfn-
uðurinn hafði sýnt honum og konu
hans við ýmis tækifæri. Hann
gladdist er háskólinn gerði hann
að heiðursdoktor í guðfræði og
ekki síður þegar borgarstjórn
Reykjavíkur gerði hann að fyrst
heiðursborgara borgarinnar, er
hann var áttræður, 21. okt. 1961.
Allur þessi sómi og viðurkenning
gladdi hjarta hans, en þó kannski
mest sá hlýhugur og vinsemd, sem
hinn almenni borgari í Reykjavík
sýndi honum alla tíð.
í daglegu iífi hans fór saman
gleði og alvara, hann var manna
skemmtilegastur í viðræðum,
fyndinn og gamansamur, en blátt
áfram í öllum lífsháttum. Sem
ræðumaður i samkvæmum átti
hann fáa eða enga sér líka, til
skiptis sló hann á alvarlega og
létta strengi, og tók þá öllum
fram. Orð hans og fyndin tilsvör
munu lengi lifa í minni samtíð-
armanna hans, og ef hann sagði
góðan „brandara" gleymdist hann
ekki.
Flins og kunnugt er var heimili
séra Bjarna í Lækjargötu 12 B,
ekki langt frá Dómkirkjunni. Náið
samband var milli heimilisins og
kirkjunnar, í raun og veru var
heimilið hans önnur kirkja, því
þar fóru fram flestar hjónavígslur
og margar skírnir, eins og þá tíðk-
aðist; þá rifjast upp sá þáttur, sem
frú Aslaug Ágústsdóttir, kona sr.
Bjarna, átti í starfi hans fyrr og
síðar. Séra Bjarni og frú Áslaug
voru gefin saman í hjónaband 15.
júlí 1913, og höfðu því verið gift í
52 ár, er sr. Bjarni lést 19. nóv.
1965. Hjónaband þeirra var far-
sælt. Frú Áslaug studdi mann
sinn með ráðum og dáð, var með
honum í starfinu, gerði kirkju-
legar athafnir hans hátíðlegri með
ágætum píanóleik sínum söng og
sinni hlýlegu framkomu. Hún átti
því sinn mikla og góða þátt í vin-
sældum hans og velgengni í starf-
inu. Séra Bjarni gat því með sanni
sagt, hvernig prestskona ætti að
vera og það gerði hann oft á sinn
skemmtilega og gamansama hátt.
Þegar frú Áslaug nú á efri árum
minnist þessara liðnu ára vaknar
þakklæti hennar fyrir sambúðarár
þeirra, samstarf og heimilislíf, og
í hugum barna þeirra, Ágústs,
Ólafar og Önnu, geymast einnig
hinar fegurstu minningar, um for-
eldra þeirra, og æskuheimili í
Lækjargötu. Það var vissulega
sorg í hugum margra Reykvík-
inga, þegar Lækjargata 12 brann
til kaldra kola, 10. mars 1967. Með
húsinu brunnu þar margir per-
sónulegir munir, myndir, bækur
og skjöl fjölskyldunnar, frá liðn-
um árum, sem ekki varð bætt.
Nú þegar liðin eru 100 ár frá
fæðingu séra Bjarna Jónssonar,
vígslubiskups, þessa vinsæla borg-
ara Reykjavíkur, rifjast eðlilega
upp margar minningar um þennan
merka mann og kirkjuhöfðingja,
sem hér er ekki unnt að rekja.
Hið umfangsmikla prestsstarf
séra Bjarna hér í Reykjavík, varð
til þess, að honum gafst minni
tími til ritstarfa og til ferðalaga
en æskilegt hefði verið. Þó birtust
oft, frá hans hendi, greinar í blöð-
um og tímaritum, um kristin-
dómsmál og viðtöl við hann um
æskuár hans og starf hér í
Reykjavík, og frá ferðum þeirra
hjóna erlendis, sem allt var fróð-
legt og skemmtilegt. Munu margir
sakna þess, að hann skyldi ekki
skrifa meira um æskuár sín hér í
Reykjavík, um menn og málefni,
sem komu við sögu í samtíð hans.
Hann hafði fylgst með þróun
borgarinnar á langri ævi og hann
var bæði glaður og stoltur yfir því,
að vera „Reykjavíkurbarn".
Oft mun þess hafa verið farið á
leit við hann, að hann ritaði
endurminningar sínar og varla
hefði hann skort útgefanda, en
hann mun jafnan hafa eytt slíkum
tilmælum.
Ég kynntist séra Bjarna Jóns-
syni fljótlega eftir að ég kom til
Reykjavíkur 1923 og var, að
nokkru leyti heimilismaður hjá
frú Önnu Benediktsson, tengda-
móður hans, í 7 vetur, og svo féll
það í minn hlut að verða eftirmað-
ur hans við Dómkirkjuna 1951. Að
verða eftirmaður hans var að
mörgu leyti vandasamt, en það var
líka hvetjandi og uppörvandi. Mér
þótti alltaf uppörvandi að hafa
hann í kirkju hjá mér, jafnvel þótt
hann kynni að hafa haft sitthvað
við mig að athuga. Það skyggði
ekki á vináttu okkar.
Á þessum 100 ára minningar-
degi séra Bjarna verður mörgum
þeim, sem ganga fram hjá Dóm-
kirkjunni hugsað til hans og fjöl-
skyldu hans með virðingu og
þakklæti, og þeir, sem starfað
hafa við Dómkirkjuna vilja gjarn-
an að þaðan berist hlýjar hugsanir
til þessa merka manns. Við Dóm-
kirkjuna eru, eins og kunnugt er, 3
minnisvarðar, einn um Hallgrím
Pétursson, annar um Jón Vídalín,
og sá þriðji og síðasti um séra
Bjarna. Þótt þessir menn væru
ólíkir og lifðu á ólíkum tímum,
settu þeir allir svip á samtíð sína
og eitt höfðu þeir allir sameigin-
legt, þeir voru orðsins þjónar,
áhrifamenn í kristnilífi samtíðar
sinnar og báru brennandi blys trú-
arinnar fyrir þjóð sinni um sína
daga. Þess vegna getum við sagt í
dag með höfundi Hebreabréfsins:
„Verið minnugir leiðtoga yðar,
sem Guðs orð hafa til yðar talað.
Virðið fyrir yður hvernig ævi
þeirra lauk og líkið síðan eftir trú
þeirra." (Hebr. 13.7)
Óskar J. Þorláksson
Geir Hallgrímsson, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, afhendir sr. Bjarna Jónssyni skjal þess efnis, að
hann hefi verið gerður að heiðursborgara Reykjavíkur á áttræðisafmæli hans, 21. okt. 1961. Borgarstjóri
ávarpaði þennan fyrsta heiðursborgara Reykjavíkur, en sr. Bjarni Jónsson svaraði. Myndina tók OI.K.M.,
Ijósm. Mbl., á heimili sr. Bjarna og frú Áslaugar, sem einnig er á myndinni.