Morgunblaðið - 13.01.1983, Side 16
16
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 13. JANIJAR 1983
Stjórnarskrármáliö III
Verum á varðbergi
— eftir Þorvald
Garðar Kristjáns-
son, alþm.
Ýmsir erfiðleikar fylgja því
fyrir fámenna þjóð að halda uppi
sjálfstæðu ríki. Fámennið er þó
ekki í öllum tilfellum til trafala,
heldur þvert á móti getur það ver-
ið kostur. Þannig hefur fámennt
þjóðþing mikilvæga kosti fram
yfir fjölmennt þjóðþing. Það er
mikilvægt fyrir starfsemi hvers
þjóðþings, að hver og einn þing-
maður geti notið sín sem best við
lagasmíðina í umræðum og
nefndarstörfum. I þessum efnum
á Alþingi íslendinga að hafa kosti
umfram önnur þjóðþing. Þýð-
ingarmikið er, að þessir kostir Al-
þingis séu hagnýttir svo sem verða
má. Með tilliti til þessa, sætir það
nokkurri furðu, að háværustu
raddirnar um breytingar á
starfsháttum Alþingis beinast
einkum að því annars vegar að
draga úr þessum kostum og hins
vegar að hagnýta þá ekki sem
skyldi.
Meginkostir Alþingis, sem leiða
má af fámenni þess, liggja fyrst og
fremst í því, hve litlar hömlur eru
lagðar á ræðuhöld þingmanna
með takmörkun ræðutíma. í öðr-
um þjóðþingum er eitt megin-
vandamálið, að vegna margmenn-
is verður að skera svo niður um-
ræður, að hlutur hins almenna
þingmanns er svo skertur, að hann
fær ekki notið sín sem skyldi við
skoðanamyndun og túlkun mála á
þessum vettvangi. Hins vegar
þykja íslenzkir þingmenn öfunds-
verðir að þessu leyti.
Samt sem áður er því ekki að
neita, að á síðari árum hefur kom-
ið upp nokkur vandi á Alþingi í
þessu efni, þar sem fyrirspurnir
og umræður utan dagskrár í sam-
einuðu þingi hafa margfaldast frá
því sem áður var. Þessar umræður
hafa um of sett mark sitt á störf
þingsins og oft á tíðum mótast af
léttmeti og lítilvægu tilefni, svo að
frekar hefir líkst málfundaæfing-
um en löggjafarstarfi. Þetta þykir
gagnrýnisvert og eykur ekki á
virðingu fyrir Alþingi. Til þessa
má fyrst og fremst rekja umræð-
una, sem komið hefur upp hin síð-
ari ár um breytta starfshætti Al-
þingis. Skyldi þetta haft í huga,
þegar leitað er ráða til úrbóta, svo
menn beri ekki út af réttri leið í
þeim efnum.
Nú nefna sumir deildaskiptingu
Alþingis, þegar rætt er um
breytta starfshætti þingsins. Er
þá talað um, að deildaskiptinguna
skuli leggja niður. Þessi deilda-
skipting er jafngömul stjórnar-
skránni sjálfri, eða frá 1874. Að
vísu er það svo, að síðan hafa
smám saman verið tekin verkefni
af deildum þingsins og færð undir
sameinað þing. En eftir stendur
enn, að þýðingarmestu störf
þingsins, sem eru meðferð laga-
frumvarpa, fara fram í deildunum
en ekki í sameinuðu þingi.
Ýmsir kostir hafa jafnan þótt
fylgja því að skipta þinginu í tvær
deildir, svo sem vandaðri máls-
meðferð og frekar verði bætt úr
formgöllum og komið við leiðrétt-
ingum en ef þingið væri í einni
málstofu. Hjá þeim, sem vilja af-
nema deildaskiptinguna hverfa
slíkir kostir í skuggann fyrir þeim
ávinningi, sem talinn er helsti
kostur slíkra breytinga um skipan
Alþingis. Er þá haldið fram, að
með afnámi deildaskiptingarinnar
fari skemmri tími til löggjafar-
starfanna en nú er. Það kynni að
vera matsatriði, hvað ætti að vega
meira í þessu efni, vönduð máls-
meðferð við lagagerð annars vegar
eða hröð vinnubrögð hins vegar.
En í þessu tilfelli liggur valið ekki
á milli þessara kosta.
Staðreynd er, að yfirleitt ræður
umræðuþáttur löggjafarstarfsins
mestu um það hversu hratt er
starfað eða hversu miklu þingið
kemur í verk. Þess vegna ríður á,
að ríflegur tími sé ætlaður til
sjálfra umræðnanna. Engar
breytingar á skipan Alþingis má
því gera, sem torvelda að slíkum
markmiðum sé náð. En það er ein-
mitt það sem gerist með afnámi
deildaskiptingarinnar. Hafa verð-
ur í huga, að tvær deildir Alþingis
gera mögulegt, að tveir þingmenn
geta í umræðum þingsins flutt
mál sitt samtímis, en með einni
málstofu verður ekki nema einum
þingmanni komið í ræðustól á
sama tíma. Allt tal um flýti þing-
starfa með afnámi deildaskipt-
ingar Alþingis, virðist því frá
þessu sjónarmiði vera hrein rök-
leysa.
Við höfum reyndar þegar fundið
smjörþefinn af gangi mála í einni
málstofu, þar sem er reynslan af
störfum sameinaðs þings. Fjöldi
mála bíður þar alla jafnan eftir
umræðum vegna tímaskorts, svo
að slíkt veldur miklum töfum og
hindrunum fyrir afgreiðslu mála
þar. Þessu er ekki eins varið í
deildum þingsins, þó að veiga-
mestu störf þingsins fari þar fram
í meðferð lagafrumvarpa. Við-
fangsefnið varðandi breytingar á
starfsháttum Alþingis liggur í því,
að leysa þann vanda, sem fyrir
hendi er í sameinuðu þingi, en
magna ekki þann vanda um allan
helming með því einnig að hafa
meðferð frumvarpa í einni og
sömu málstofu.
Þegar rökræður þrýtur um af-
nám deildaskiptingar Alþingis, er
gjarnan fært fram til stuðnings
málstaðnum, að við ættum að líta
til frænda okkar Dana og Svía,
sem hafa afnumið deildaskiptingu
sinna þjóðþinga. Er þá látið sem
allt, sem þaðan er runnið, hljóti að
vera af hinu góða. En þess er þá
ekki getið, að naumast á nokkru
Þorvaldur Garðar Kristjánsson
Engar breytingar á skipan
Alþingis má því gera, sem
torvelda að slíkum
markmiðum sé náð. En
það er einmitt það scm
gerist með afnámi deilda-
skiptingarinnar. Hafa
verður í huga, að tvær
deildir Alþingis gera
mögulegt, að tveir þing-
menn geta í umræðum
þingsins flutt mál sitt sam-
tímis, en með einni mál-
stofu verður ekki nema
einum þingmanni komið í
ræðustól á sama tíma. Allt
tal um flýti þingstarfa
með afnámi deildaskipt-
ingar Alþingis virðist því
frá þessu sjónarmiði vera
hrein rökleysa.“
byggðu bóli í lýðræðisríkjum, sem
hafa sambærilega stjórnskipan og
við Islendingar, er að finna þjóð-
þing á annan veg en deildaskipt.
Að vísu er skipulagið á deildum
þjóðþinganna mismunandi, bæði
að því er varðar val fulltrúa og
hlutverk, en alls staðar er það svo,
að deildaskiptingin þykir ómiss-
andi til þess að þjóðþingið geti
gegnt hlutverki sínu sem best.
Samt er skipulagið sums staðar
þannig, að það ber frekar vott um
leifar horfinnar tíðar en nútíma-
stjórnskipunar, svo sem raun er á
um lávarðadeildina bresku. Jafn-
vel í slíkum tilfellum er gildi
tveggja málstofa í sama þjóðþingi
talið svo mikilvægt, að ekki megi
hrófla við því nema deildaskipt-
ingunni sé við haldið í einu eða
öðru formi. Það er þetta sem veld-
ur því, að Bretar halda fast jafn-
vel í lávarðadeildina, meðan þeir
hafa ekki komið sér saman um
annað form fyrir deildaskiptingu
þingsins. Það er vegna þess, að
ekki er talið fært að leggja þau
störf, sem lávarðadeildin hefur
með höndum, á neðri málstofu
þingsins til viðbótar þeim miklu
verkefnum, sem hún hefur að
sinna.
Nú þykir sumum deildaskipting
Alþingis vera til miska vegna þess
að núverandi ríkisstjórn hefur
ekki meirihluta í báðum deildum
þingsins. Er þá bent á, að meiri-
hluti, sem ríkisstjórnin hefur í
sameinuðu þingi, endist henni
ekki sem starfhæfur meirihluti og
sé það ekki í samræmi við þá
grundvallarreglu lýðræðisins, að
meirihlutinn fái að ráða. Þegar
slíkt ástand er, geta að vísu skap-
ast erfiðlei.kar. Þó þarf ekki svo
ætíð að vera. Skemmst er að
minnast, að árið 1958 tók við
stjórn, sem ekki hafði meirihluta í
báðum deildum, þó um meirihluta
væri að ræða í sameinuðu þingi.
Samt sem áður tókst þessari ríkis-
stjórn að koma fram málum, sem
nauðsyn var talin á, með hlutleysi
eða stuðningi andstöðuflokkanna.
En auk þess ber að hafa í huga, að
andhverfa slíkra ókosta, sem í
undantekningartilfellum geta
fylgt deildaskiptingu Alþingis,
getur eins vel verið kostur, sem
felst í vernd, sem veitt er minni-
hlutanum og trygging fyrir því, að
naumur meirihluti knýi ekki fram
meiriháttar deilumál. Hvað sem
öllu líður, er staða núverandi
ríkisstjórnar svo afbrigðileg og
svo mjög nú tjaldað til einnar
nætur, að ekki kemur til mála að
hún hafi á einn eða annan veg
áhrif á þá skipan Alþingis, sem
við ætlum því til frambúðar.
Viðfangsefnið nú er að leysa úr
vanda Alþingis, þar sem skórinn
kreppir að og varðar fyrirspurnir í
sameinuðu þingi og umræður utan
dagskrár. Sú skipan, sem nú gildir
um fyrirspurnir, er óhæf og verð-
ur að breyta. I fyrsta lagi er ræðu-
tíminn, sem bæði fyrirspyrjanda
og ráðherra er ætlaður fyrir
hverja fyrirspurn, of langur. I
öðru lagi er sá ókostur og sínu lak-
ari, að öðrum þingmönnum en
fyrirspyrjanda og viðkomandi
ráðherra er frjálst að taka til máls
um fyrirspurnina. Þetta leiðir til
þess, að oft, eða jafnvel oftast,
koma upp almennar umræður um
hverja fyrirspurn fyrir sig, sem
taka miklu meira af tíma þingsins
en hæfilegt er. En auk þess er
þetta fyrirkomulag óhæft með öllu
vegna þess, að umræðurnar geta í
meginatriðum snúist um allt ann-
að en fyrirspyrjandi ætlaðist til og
fyrirspurnin fallið í skugga fyrir
óskyldum efnum. Til að ráða bót á
þessu er einföld og sjálfsögð leið.
Það verður gert með því að ákveða
í þingsköpum, að einungis fyrir-
spyrjandi og viðkomandi ráðherra
geti skipst á orðum um hverja
fyrirspurn fyrir sig og takmarka
tíma þeirra frá því sem nú er.
Umræður utan dagskrár geta
nú átt sér stað nánast af hvaða
tilefni sem er. En slíkt er óhæfa og
verður að taka fyrir. Umræður
utan dagskrár eiga ekki að leyfast,
nema um sérlega mikilvægt mál
sé að ræða, sem ekki þolir þá bið,
sem fylgir því að taka það á
dagskrá. Um þetta verða naumast
sett bein ákvæði í þingsköp. En
hins vegar hlýtur það að vera
hlutverk þingforseta að meta hvað
sé mikilvægt og hvað þoli ekki bið
og kveða á um hverju sinni, hvort
umræður utan dagskrár skuli
leyfðar. Það er líka forseta að
meta og ákveða umræðutíma utan
dagskrár, því að lengd hans á að
ráðast af eðli málsins hverju sinni
en ekki fastri reglu.
Það hlýtur að vera nánast stöð-
ugt verkefni að bæta yog efla
starfshætti Alþingis. SlíHt á ekki
síður við um þingnefndir og störf
þeirra en um hlutverk þingfunda
og umræður þar. Þó að nefndir yf-
irleitt leitist við að vanda vinnu-
brögð sín, verður ekki um deilt, að
margt mætti betur gera í þeim
efnum. Eftir því sem tímar hafa
liðið hafa frumvörp og önnur
þingmál orðið flóknari og um-
fangsmeiri en áður var. Þess
vegna þurfa nefndir þingsins að fá
sérfræðilega aðstoð í ríkara mæli
en nú tíðkast og verða óháðar rík-
isstjórn í þessum efnum og hafa
frumkvæði í störfum sínum frekar
en nú er.
En það hlýðir samt ekki í þessu
sambandi að tala um Alþingi
gagnstætt ríkisstjórn. í þingræð-
islandi hlýtur samstarfið milli
framkvæmdavaldsins og löggjaf-
arvaldsins að vera náið og marg-
slungið, enda allt talið um aðskiln-
að þessara greina ríkisvaldsins að
sumu leyti á misskilningi byggt.
Sterkt framkvæmdavald er nauð-
syn löggjafarþingi. Ríkisstjórn á
að leiða starf Alþingis, en Alþingi
hefur alltaf í hendi sér valdið til
þess að ákveða, hverjum er fengið
framkvæmdavaldið í hendur. Með
þessum hætti er Alþingi meginás-
inn í stjórnskipun landsins.
Við höfum greiða leið til þess að
bæta starfshætti þingsins. Til
þess þarf ekki að breyta stjórn-
arskrá landsins heldur aðeins
þingsköpum. Er þá gert ráð fyrir,
að við byggjum á þeim grunni,
sem þegar er lagður með stjórn-
arskránni og við nú búum við.
Mest er um vert að Alþingi
haldi stöðu sinni og hlutverki.
Gjalda verður því varhug við ýms-
um hugmyndum, sem varpað er
fram, svo sem að Alþingi sé svipt
rétti stjórnarskrárgjafans og það
vald fært í hendur svokallaðs
þjóðfundar. Kastar þó tólfunum
sú ráðgjöfin, að þingmönnum
verði fyrirmunað að sitja á slíkum
þjóðfundi. Verður ekki annað sagt,
«n nýjungagirnin sé farin að bera
menn ofurliði, þegar tekið er í mál
að bjóða íslendingum upp á til-
tektir, sem gætu einna helzt
minnt á stjórnlagaþing og al-
ræmdar aðfarir herforingja-
stjórnar Tyrklands nú um þessar
mundir við stetningu ólýðræðis-
legrar stjórnarskrár þar í landi.
Verum á varðbergi um Alþingi ís-
lendinga.
Merkilegir tónleikar
Tónlist
Jón Ásgeirsson
KAMMERSVEIT Reykjavíkur
hélt tónleika í Gamla Bíó um
síðustu helgi undir stjórn Paul
Zukofsky og flutti tónlist eftir
Schönberg, Lutoslavsky og Mil-
haud. Þessum þremur tónskáld-
um er þar líkt farið, að þeir
ryðja hraut nýjum hugmyndum í
tónsmíði og eru tvö verkanna
eins konar viðmiðunarverk. Ekki
mun það þó nægja til að halda
áhuga hlustenda, að gerð þeirra
hafi einhvern tíma verið nýung,
heldur kemur þar til gerða verk-
anna sjálfra, að tónmál þeirra sé
hafið yfir tímabundið mat og að
enn finni hlustendur til ánægju
við að aga hlustun sína við þessi
verk. Kammersinfónían nr. 9
eftir Schönberg er samin 1906 og
er eins og David Ewen segir „tví-
spegluð mynd og snýr ein við
fortíðinni en önnur framtíðinni."
Þarna er tæpt á þeim atónal
hugmyndum, sem urðu að veru-
leika í næsta verki Shönbergs
þ.e.a.s. í síðasta þætti fís-moll.
kvartettsins, opus 10. Enn á þó
tónskáldið langt í land með tólf
tóna tækni sína, sem hann setti
fram nærri tuttugu árum síðar.
Umbylting sú er varð á gerð tón-
verka um og eftir aldamótin síð-
ustu, kemur ef til vill hvergi bet-
ur fram en í verkum Schönbergs.
Hann nær frábærum tökum á
tónmáli rómantíkurinnar, ryður
„atónal" rithætti bráut og setur
síðan fram kenningar eða rétt-
ara sagt fullmótar tónsmíða
vinnuaðferð, sem nefnd er tólf
tóna raðtækni. Kammersinfóní-
an er millibilsverk, þar sem
tónskáldið er að víka frá tónteg-
undabundnum rithætti róman-
tíska tímans yfir í tóntegunda-
lausan rithátt. Það er ekki fyrr
en í opus 16 sem hann stígur
skrefið til fulls og semur heil-
steypt atónalt verk. Kammersin-
fónían naut ekki mikilla vin-
sælda og var fádæma illa tekið
er hún var frumflutt 1913 í
Vínarborg. Höfundurinn umrit-
ar verkið 1935, þá búsettur í
Bandaríkjunum, fyrir stóra
hljómsveit og var verkið flutt
þar sama ár undir stjórn tón-
skáldsins. Flutningur Kammer-
sveitarinnar var í heild mjög
góður undir öruggri stjórn Paul
Zukofsky. Dans-forspilin eftir
Lutoslavsky eru ekki sérlega
merkileg tónsmíð, en voru vel
leikin af Kammersveitinni. Síð-
asta verkið var svo tímamóta-
verkið Sköpun heimsins eftir
Milhaud. Milhaud er ári á undan
Gershwin að semja sinfónskt
unnið tónverk byggt á djass. Það
var margt fallega gert í þessu
verki. Það hefði þó mátt leggja
meiri áherslu á að ná fram
ákveðnari djasshryn, beinlínis
djassa verkið. Flutningur þess
bar merki þeirrar slípunar, sem
fylgir menntun og ögun og vant-
aði því að nokkru þann uppruna-
leik, sem bæði kemur fram í
hvassbrýndum hryn og áberandi
áherslum á „bláum" hljómasam-
setningum. Að öðru leyti var
flutningur verksins góður.
Kammersveitin undir stjórn
Rutar Ingólfsdóttur hefur með
þessum tónleikum ekki aðeins
skilað af sér vel unnu verki,
heldur einnig þokað okkur Is-
lendingum nær því að geta tekið
sæti með öðrum framsæknum
þjóðum á sviði tónlistar.