Morgunblaðið - 02.03.1990, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 02.03.1990, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. MARZ 1990 Albert Guðmundsson ber vitni í Hafskipsmáli: Hef sjaldan kynnst skipulagðari mönnum og betri vinnubrögðum Óformleg áætlun gerir ráð fyrir dómi í lok júní ALBERT Guðmundsson, sendiherra í París, fyrrum stjórnarformaður Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbanka íslands 1980-1983, bar í gær vitni í Hafskipsmálinu í sakadómi. Yfirheyrslum í málinu lýkur að mestu leyti í næstu viku. Einhverri gagnaöflun er ólokið en skýrast mun á fundi aðila málsins með dómurum í dag hve umfangsmikil hún verður. Stefht mun að því að gagnaöflun ljúki í þessum mánuði en þar er meðal annars um að ræða atriði sem Ragnar Kjartansson fyrrum stjórnarformaður Hafskips gerði kröfú um að upplýst eða rannsökuð yrðu. Samkvæmt heimildum Morgun- blaðsins gerir óformleg áætlun ráð fyrir að málflutningur hefjist í síðustu viku apríl og taki 3-4 vikur. Málið verði dómtekið í lok maí og dómur sakadóms verði kveðinn upp einhvern síðustu daga jún- ímánaðar. í vitnisburði sínum rakti Albert Guðmundsson fyrst þátt sinn í því að Hafskip styrkti Guðmund J. Guðmundsson til utanfarar í nóv- ember 1983 í kjölfar veikinda Guðmundar. Albert rakti að með þeim Guðmundi hefði verið vinskap- ur um áraraðir og að þegar Guð- mundur hefði ekki séð sér fært að verða við læknisráði og taka sér frí erlendis í kjölfar veikinda sinna kvaðst Albert hafa boðist til að tryggja að af utanförinni gæti orð- ið. Hann hefði rætt málið við Björ- gólf Guðmundsson þá forstjóra Hafskips og síðar fengið frá honum boðsent lokað umslag með pening- unum í. Albert sagðist þá hafa boðað Guðmund á sinn fund og afhent honum umslagið lokað. Guðmundur hefði spurt hvað þetta væri mikið og Albert hefði þá opnað umslögin og kastað tölu á seðla- búntin sem þar voru, en styrkurinn nam 120 þúsund krónum. „Albert sagðist hafa snúið sér til Björgólfs Guðmundssonar um að afla íjárins. „Á þessum tíma var nokkuð um það að Björgólfur, Ragnar Kjart- ansson og ég sjálfur hjálpuðum fólki sem átti í einhverjum erfiðleik- um.“ Hann sagðist á þessum tíma hafa haldið að Björgólfur hefði safnað peningunum saman frá nokkrum aðilum. Albert Guðmundsson minntist þess ekki í svari við spurningu sér- staks saksóknara að í stjórn félags- ins hefði verið rætt um að forstjóri þess og stjórnarformaður skyldu njóta sérstakra vaxtakjara við kaup á hlutafé. Hins vegar sagði hann engan vafa vera á í sínum huga að 60% uppbót ofan á föst laun sem forstjórar fyrirtækisins höfðu til ráðstöfunar hefði verið hugsuð sem launauppbót, þeim til algjör- lega frjálsrar ráðstöfunar, óháð eðlilegum risnukostnaði sem falla ætti á félagið. Aðspurður af Guðmundi Ingva Sigurðssyni veijandi Björgólfs um þátt sinn í að semja við Björgólf og Ragnar um starfskjör, sagðist Albert ekki hafa verið kominn til starfa fyrir Hafskip þegar/gerður var upphaflegur starfskjarasamn- ingur, sem gerði ráð fyrir 60% ofan á föst laun auk ágóðaþóknunar sem næmi 2% af hagnaði fyrir afskrift- ir, fjármagnskostnað og skatta. Albert kvaðst hins vegar hafa samið um endurskoðun samnings- ins þar sem ágóðaþóknunin var færð úr 2% í 3,5%, lagt þann samn- ing fyrir stjórn félagsins og fengið hann þar samþykktan einróma. Þegar þessi samningur hefði síðar verið endurskoðaður þannig að ágóðaþóknunin var færð úr 3,5% í 2,5%, sagðist Albert hafa verið hættur stjórnarsetu hjá félaginu. Hann sagði ágóðaþóknunina hafa verið hugsaða til hvatningar stjóm- endum fyrirtækisins á tvennan hátt, bæði til að þessir stjórnendur félagsins hefðu beinan persónuleg- an hagnað af því að auka viðskipti, veltu og hagnað félagsins og einnig til að að stuðla að því að félagið tryggði sér þjónustu þessara manna, sem Albert kvaðst hafa haft mikla trú á. Albert rakti að þegar þeir Ragnar og Björgólfur hefðu ráðist til félagsins hefði það verið í greiðslustöðvun og rambað á barmi gjaldþrots. „Ég hef sjaldan kynnst skipulagðari mönnum og vinnubrögðum og hef ég þó víða komið við,“ sagði Albert Guð- mundsson. „Fyrir þeirra tilstuðlan tókst að koma félaginu á algjörlega réttan kjöl og mér þótti vænt um þetta ojg vildi að þeir ættu beinna hagsmuna að gæta í því að félagið skilaði hagnaði." Þá sagði Albert að hann og aðrir hefðu verið sér meðvitaðir um miklar innistæður Björgólfs og Ragnars hjá félaginu vegna ágóðaþóknunarinnar og því hefði hann átt frumkvæði að því að þeir leystu hluta þess til sín í formi hlutafjár. Albert kvaðst ekki minnast þess að til umræðu hefði komið að vísitölubinda útreikning á ágóðaþóknuninni en sagði hins vegar að til þess að inneignir Björ- gólfs og Ragnars hjá félaginu misstu ekki verðgildi sitt hefði verið ákveðið að tengja þær við Bandaríkjadal. Albert Guðmundsson var for- maður bankaráðs Útvegsbankans 1980-1983 og sagði að á þeim árum hefðu málefni Hafskips og viðskipt- astaða þess við bankann aldrei borið á góma á bankaráðsfundum og vísaði í fundargerðir ráðsins því til stuðnings. Einstaklingsbund- ið hefði sjálfsagt verið hvort ráðs- menn kynntu sér gögn bankans utan hinna eiginlegu bankaráðs- funda og kvaðst hann ekki geta svarað til um það. Hann sagði að bankastjórn hefði undirbúið fundi ráðsins í samráði við sig og að bankastjórar og aðstoðarbanka- stjórar hefðu verið viðstaddir alla fundi þess. Þá hefði endurskoðandi bankans verið viðstaddur þegar lífeyrismál starfsmanna voru til umræðu. Þórunn Valdimarsdóttir. Listasafii Sigurjóns Ólafssonar: Þórunn Valdi- marsdóttir ræð- ir ævisagnaritun Bókmenntadagskrá verður í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á sunnudaginn kl. 15 eins og vei\ja er til fyrsta sunnudag í hveijum mánuði. í þetta skipti mun Þórunn Valdimarsdóttir ræða um aðferðir við ævisagnaritun. Þórunn mun einkum beina athygl- inni að því sem hún nefnir „landa- mærin milli skáldskapar og sagn- fræði“. Verða dæmi notuð úr ævi- sögu hennar um séra Snorra á Húsa- felli. Þórunni til aðstoðar verða leik- ararnir Guðný Ragnarsdóttir og Karl Guðmundsson. Þau lesa óbirtan kafla úr fyrrgreindri ævisögu, sem út kom fyrir síðustu jól. Áheyrendum mun einnig gefast kostur á að beina spurningum til Þórunnar í lok dag- skrárinnar, sem stendur í um það bil klukkustun. Formaður Krabbameinsfélagsins við upphaf þriðja „Þj óðarátaksins“: Stefiit að fiillnaðar- sigri á krabbameini ÞRIÐJA „Þjóðarátak" Krabba- meinsfélagsins hófst í gær. Það fer að þessu sinni fram undir kjörorðinu „Til sigurs“. í ávarpi við upphaf átaksins sagði Almar Grímsson, formaður Krabba- meinsfélagsins, að stefiit væri að fúllnaðarsigri á krabbamein- inu á næstu áratugum. Söfnun- arfénu verður í þetta skipti varið til fræðslu um heilbrigða lífshætti, til stuðnings við krabbameinssjúklinga og til rannsókna á krabbameini. Allur marsmánuður verður helgaður baráttumálum félagsins og kynningu á tíu „heilsuboðorð- um“. Dagana 31. mars og 1. apríl er svo gert ráð fyrir að gengið verði í hús um allt land. Hliðstæð heilsuboðorð og kynnt verða hér á landi í marsmánuði eru nú kynnt á Norðurlöndunum og löndum Evrópubandalagsins en tilgangur þeirra er að beina athyglinni að því að góðir lífshætt- ir geta lengt og bætt lífið. Sé farið eftir þessum boðorðum á það að mati sérfræðinga að geta dregið úr líkum á krabbameini. Eins og áður ságði er þetta þriðja Þjóðarátak Krabbameins- félagsins og verður það hliðstætt við hin tvö fyrri sem fóru fram árin 1982 og 1986. Því fé sem safnaðist fyrir átta árum var varið til kaupa á húsnæði félags- ins að Skógarhlíð 8 og fyrir fjórum árum safnaðist fé sem gerði félag- inu kleift að takast á við ný verk- efni svo sem heimahlynningu TILSlGURS kJÓÐARÁTAK GEGN KRABBAMEINI 31. mars -1. apríl 1990 krabbameinssjúklinga og rann- sóknir í sameinda- og frumulíf- fræði. í ávarpi sem Almar Grímsson, formaður Krabbameinsfélags ís- lands, flutti við upphaf Þjóðará- taks gegn krabbameini 1990 sagði hann að þótt Krabbameins- félagið væri líklega þekktast fyrir ötula baráttu gegn tóbaksnotkun og fyrir leitarstarfið þá vildi það vekja athygli í þessu þjóðarátaki á nauðsyn þess að hafa í heiðri góðar lífsvenjur almennt. Þetta ætti auðvitað ekki einungis við um krabbamein en með kynningu á hollráðunum tíu væri fólki bent á að góðar lífsvenjur gætu lengt og bætt lífið. „Frá upphafi samstilltrar bar- áttu gegn krabbameini hér á landi hefur jafnan verið talað um nauð- syn varna gegn sjúkdómnum," sagði Almar síðan. „Við gerum okkur öll grein fyrir því hve mikil- vægar forvarnir eru almennt gegn sjúkdómum. Nú þegar við ríðum á vaðið með nýtt þjóðarátak gegn krabbameini höfum við gerst svo djörf að segja þjóðinni að unnt sé að sigrast á krabbameini, þess vegna eru einkunnarorð þessa þjóðarátaks „Til sigurs“. Við erum hér að tala um fullnaðarsigur á næstu áratugum sambærilegan við þann sigur sem hefur unnist á ýmsum öðrum sjúkdómum. Þessi sigur verður ekki auðsóttur en það eru til baráttuleiðir og við treystum því að með aukinni þekkingu verði hægt að finna enn nýjar leiðir. Ég vil þó leggja áherslu á að við gleymum ekki þeim sem orðið hafa fyrir barðinu á sjúkdómnum því honum verður ekki útrýmt. Það' er þó í raun sigur að skapa sjúklingnum vonir um bata og bætta aðhlynningu.“ Fleiri geta búist við lækningu Samkvæmt upplýsingum úr Krabbameinsskrá Krabbameins- félágsins voru 4.654 íslendingar á lífí í árslok 1988 sem fengið höfðu krabbamein. í þeim hóp voru mun fleiri konur en karlar eða 2.806 konur á móti 1.848 körlum. Hefur um helmingur þessa hóps lifað í fimm ár eða lengur en sá árafjöldi mun vera notaður sem viðmiðun er rætt er um að fólk sé læknað af krabba- meini. Mun fleiri geta nú búist við að læknast af krabbameini en áður og má nefna því til stuðnings að um 16% þeirra karla sem greindir voru með krabbamein á árunum 1955-1959 lifðu í fímm ár eða lengur en 33% þeirra sem greind- ust á árunum 1977-1983. Hlið- stæðar tölur fyrir konur hafa hækkað úr 26% í 46%. Samkvæmt tölum Krabba- meinsfélagsins voru árið 1988 greind 862 ný krabbamein hér á landi, þar af 462 í körlum og 436 í konum. Eru þetta heldur fleiri mein en árið áður. Blöðruhálskirt- ilskrabbamein er algengast meðal karla, lungnakrabbamein er í öðru sæti og blöðrukrabbamein í þriðja sæti. Meðal kvenna er bijósta- krabbamein algengast, lungna- krabbamein í öðru sæti og krabba- mein í eggjastokkum í þriðja sæti. Meðalaldur við greiningu krabbameina er um 65 ár. Jákvæð afstaða til félagsins Hagvangur gerði í janúarmán- uði skoðanakönnun fyrir Krabba- meinsfélagið þar sem athuguð var afstaða almennings til þess. Náði könnunin til 1.500 karla og kvenna á aldrinum 15-79 ára og fengust svör frá 1.160 manns. Þar af tóku 928 afstöðu til spurn- ingarinnar: „Hvernig telur þú að Krabbameinsfélagið hafí sinnt þeim verkefnum sem það hefur tekið að sér?“ Voru 97% þeirra sem tóku afstöðu þeirrar skoðunar að Krabbarheinsfélagið hefði stað- ið sig mjög vel eða vel. Tíu heilsuboðorð 1. Reykjum ekki og forðumst reyk frá öðrum. Notum ekki neftóbak eða munntóbak. 2. Takmörkum neyslu áfengra drykkja. 3. Vörumst óhófleg sólböð. 4. Fylgjum leiðbeiningum um meðferð efna og efnasambanda, semsum eru krabbameinsvaldandi. 5. Borðum mikið af grænmeti, ávöxtum og treljaríku fæði. 6. Drögum úr fituneyslu og forðumst offitu. 7. Leitum læknis ef við finnum hnút eða þykkildi eða tökum eftir að fæðingarblettur stækkar, breytir um lit eða verður að sári, einnig ef við verðum vör við óeðlilegar blæðingar. 8. Leitum læknis ef við fáum þrálátan hósta, hæsi eða meltingar- truflanir eða léttumst að tilefnislausu. Konur: 9. Förum reglulega í leghálsskoðun. 10. Skoðum bijóstin mánaðarlega og förum reglulega í bijósta- myndatöku eftir fertugt.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.