Morgunblaðið - 05.01.1994, Page 37
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. JANÚAR 1994
37
Guðjón B. Olafsson
forstjóri — Minning
Guðjón B. Ólafsson, fyrrverandi
forstjóri Sambandsins, andaðist
hinn 19. desember sl. eftir langvar-
andi veikindi.
Ætt Guðjóns og uppruna ætla
ég ekki að rekja hér. Þar þekkja
aðrir betur til, en mig langar að
minnast hans með nokkrum orðum
vegna kynna okkar og samstarfs
er hófst fyrir rúmum tuttugu árum.
Ég hitti Guðjón fyrst árið 1972
er ég sem starfsmaður iðnaðar-
deildar Sambandsins á Akureyri
átti fund með forstjóra og fram-
kvæmdastjórn fyrirtækisins á Ak-
ureyri til að yfirfara iðnreksturinn,
sem á þeim tíma var mjög um-
fangsmikill. Guðjón var þá fram-
kvæmdastjóri sjávarafurðadeildar
Sambandsins en hafði greinilega
mikinn áhuga á því starfi sem fram
fór á sviði iðnaðarins, ekki síst út-
flutningsframleiðslunni.
Dagleg samskipti okkar voru
hins vegar lítil á þessum tíma þar
sem starfssvið okkar sköruðust
ekki. Tveimur árum síðar, eða
1974, var ég ráðinn til sérstakra
tímabundinna starfa fyrir stjórn
Iceland Products Inc. í Bandaríkj-
unum og í tengslum við mikil sam-
skipti fyrirtækisins og sjávaraf-
urðadeildar hófust okkar fyrstu
raunverulegu kynni, ekki síst eftir
að ákveðið var að hann kæmi til
starfa sem forstjóri Iceland
Products árið 1975. Guðjón átti þar
árangursríkan starfsferil í 11 ár
og árið 1985 var hann ráðinn til
starfa sem forstjóri Sambandsins.
Tók hann við því starfi rúmu árið
síðar, eða 1986.
Þau árin sem Guðjón og Lúlú
bjuggu í Bandaríkjunum átti ég oft
erindi vestur um haf vegna þess
starfs er ég gegndi við flutninga-
þjónustu. Kom ég nokkrum sinnum
á heimili þeirra í þeim ferðum og
átti með þeim ánægjulegar sam-
verustundir. Guðjón fylgdist með
því sem var að gerast á íslandi,
hafði ákveðnar skoðanir á því sem
gerðist, eða ekki gerðist og lét þær
óhikað i ljós. Hugur hans stefndi
greinilega heim aftur, en skiljan-
lega hefur ákvörðunin um að flytja
verið erfið þegar að henni kom, þar
sem fjölskyldunni leið vel fyrir vest-
an haf og árangur hafði verið góð-
ur í áhugaverðu starfi.
Síðustu fimm ár var samstarf
okkar fyrst og fremst á sviði vá-
trygginga, en Guðjón átti sæti í
stjórnun Samvinnutrygginga og
Líftryggingafélagsins Andvöku frá
árinu 1988. Hann var strax fylgj-
andi hugmyndum um breytingar á
starfsskipulagi félaganna og sam-
starfi við Brunabótafélagið um
stofnun VÍS og Líftryggingafélags
íslands hf. í þeim tilgangi að sam-
eina og efla vátryggingastarf
stofnfélaganna. Guðjón varð síðan
formaður stjórna Samvinnutrygg-
inga og Andvöku og varaformaður
stjórna VÍS og Líftryggingafélags
íslands við stofnun þeirra. Hann
var alla tíð áhugasamur um að
fylgja eftir þeim markmiðum sem
lágu til grundvallar stofnun þess-
ara félaga og tók virkan þátt í
stefnumörkun og ákvarðanatöku í
stjórnum þeirra meðan heilsa
leyfði.
Þrátt fyrir að veikindi væru far-
in að skerða starfsþrek og gera
Guðjóni illkleift að sinna því sem
hugur hans stóðtil, heyrði ég hann
aldrei kvarta. Hann bar erfiðleika
sína ekki á borð fyrir aðra en ræddi
þó opinskátt og hreinskilið um sjúk-
dóminn og baráttu sína við hann
ef svo bar undir.
Nú þegar leiðir skilja vil ég
þakka Guðjóni ölþstörf hans í þágu
þessara félaga. Ég þakka honum
samstarfið um að láta verða að
veruleika þá framtíðarsýn er við
áttum sameiginlega um öflug inn-
lend vátryggingafélög er byggja á
löngu og farsælu starfi stofnfélag-
anna sem í stað þess að eyða púðr-
inu í innbyrðis samkeppni, ákváðu
að snúa bökum saman til að ná
betri árangri.
Við Haffý sendum Lúlú og fjöl-
skyldunni allri innilegar samúðar-
kveðjur og biðjum góðan Guð að
styrkja þau í erfiðum ástvinamissi.
Axel Gíslason.
Vorið 1953 gengu nokkur ung-
menni að vanda frá prófborði í Sam-
vinnuskólanum. Þetta var engin
nýlunda, svo marga árganga hafði
sá skóli útskrifað, undir leiðsögn
Jónasar Jónssonar, og var þetta
þriðji síðasti árgangurinn, sem hann
bjó undir ævistarfið. Það fór, sem
vænta mátti, að hópurinn dreifðist
og hvarf til ýmissa starfa í þjóðfé-
laginu. Allmargir leituðu eftir starfi
hjá Sambandi íslenskra samvinnu-
félaga, eða Samvinnuhreyfingunni
og var það ekki að ófyrirsynju, þar
sem til þess höfðu þessi ungmenni
notið fræðslu, og hreyfingin hafði
full not fyrir unga og dugmikla
menn á þessum árum.
Því tek ég mér nú penna í hönd,
að í dag er kvaddur hinstu kveðju,
einn af skólafélögum mínum frá
þessum vetri, Guðjón Baldvin Ólafs-
son, fyrrverandi forstjóri Sam-
bandsins.
Það atvikaðist svo, þegar við sett-
umst á skólabekk um haustið að
við urðum sessunautar, og þess
vegna urðu kynni okkar nánari en
ella. Guðjón var hraustlegt ung-
menni, hávaxinn, léttur í hreyfíng-
um og bar sig vel, ævinlega með
spaugsyrði á vörum, og var það
einkennandi fyrir hann alla tíð og
þannig man ég hann síðast, þó hon-
um væri þá brugðið. Guðjón hefir,
sem ungur maður, haft nokkuð
sjálfstraust, enda var hann trausts
verður. Það sýndi hann í störfum
sínum og voru honum falin trúnað-
arstörf, sem hann leysti vel af
hendi.
Guðjón lauk námi frá framhalds-
deild Samvinnuskólans vorið 1954,
og hóf þá strax störf í Sambandinu
og því helgaði hann alla sína starfs-
krafta. Um það leyti sem hann hóf
störf var Sambandið að hasla sér
völl á sviði sjávarútvegsmála, bæði
vinnslu og útflutningi. Þar var aðal-
starfsvettvangur Guðjóns flest öll
hans starfsár í Sambandinu. Arin
1964 til 1968 var hann fram-
kvæmdastjóri við skrifstofu Sam-
bandsins í London, en kom þá heim
og gerðist framkvæmdastjóri sjáv-
arafurðadeildar Sambandsins árin
1968 til 1975. Um allmörg ár hafði
Sambandið rekið fyrirtæki í Banda-
ríkjunum, sem annaðist sölu á ís-
lenskum sjávarafurðum þar vestra.
Um þetta leyti var svo komið, að
sá rekstur hafði gengið mjög illa,
og svo að jafnvel var talið, að yrði
það fyrirtæki gjaldþrota ógnaði það
stöðu Sambandsins hér heima.
Stjórnendur Sambandsins fengu því
Guðjón til að fara vestur til Banda-
ríkjanna og taka þar við rekstri
Iceland Products hvað hann gerði,
og tók þar við fyrrihluta árs árið
1975 og fluttist fjölskyldan þá einn-
ig með honum.
Þégar Guðjón kom til starfa í
fyrirtækinu tók hann strax til hendi,
og á undraskömmum tíma tókst að
rétta hag fyrirtækisins við. Eftir tíu
ára stjórn við fyrirtækið skilaði
hann af sér blómlegu búi, og var
það sammæli þeirra er til þekktu,
að Guðjón hefði sýnt þar ótrúlega
lagni og festu, sem hefði skilað
þessum árangri.
Guðjón var búinn að vera sam-
fellt heilan áratug, ásamt fjölskyldu
sinni, á erlendri grund, og hugði
nú að breyta til og flytja aftur til
íslands. Um þetta leyti losnaði starf
forstjóra Sambandsins. Það var að
vonum, að Guðjón sýndi því starfi
áhuga, reynsla hans var einmitt
tengd viðskiptalífi Samvinnuhreyf-
ingarinnar, og margir þeir sem
þekktu til starfa hans töldu hann
eðlilegan arftaka þar. Enda réð
Sambandsstjórn hann til starfsins
og tók hann við því seinni Iiluta árs
árið 1986.
Samfara því að taka við for-
stjórastarfi, bættist á hann seta í
stjórnum hinna ýmsu fyrirtækja,
sem tengdust Sambandinu, svo
ærið var nú að starfa, enda lagði
Guðjón sig allan fram og hlífði sér
hvergi í störfum sínum.
Eftir að hafa dvalið samfellt á
erlendri grund i áratug, hafði Guð-
jón ef til vill ekki fylgst nægilega
með því sem var að gerast í efna-
hagslífi íslendinga þann áratug,
sem liðinn var. Fyrirtæki, sem voru
með góðan rekstur þá, voru nú
komin í verulega erfiðleika. Svo var
einnig um Samvinnuhreyfinguna,
þar hafði hallað mjög undan fæti,
og skuldasöfnun veruleg. Svo nú
blöstu við ný verkefni, og jafnvel
óvænt fyrir nýja forstjórann. Hann
fitjaði samt upp á ýmsu, sem hann
taldi að mundi renna styrkari stoð-
um undir starfsemina, en skilaði
þó ekki tilætluðum árangri eins og
komið var.
Guðjón fékk það erfiða hlutskipti
í hendur, ásamt samstarfsmönnum
sínum, að stjórna undanhaldinu, og
var það lokakafli á löngum og far-
sælum starfsferli hans fyrir Sam-
vinnuhreyfinguna. Þetta reyndi
mjög á hann, enda er það svo, að
þegar á móti blæs, deila menn
gjarnan um leiðir að settu marki,
enda er fátt umdeilanlegra en
hvernig skuli haga varnarbarátt-
unni og skrefin, sem þarf að stíga
til baka, eru vandrötuð.
Svo sem að líkum lætur þurfti
maður í stöðu Guðjóns að eyða
drjúgum tíma í fundarstörf og gera
grein fyrir því, sem hann var að
fást við á hveijum tíma. Guðjón
sagðist ekki vera mikill fundamað-
ur, en hann var góður ræðumaður,
kom máli sínu vel til skila. Hann
var stuttorður og gagnorður, var
einnig rómsterkur og áheyrilegur,
hann hafði eiginlega rödd ræðu-
mannsins.
Hann lét af störfum við Sam-
bandið í lok síðasta árs, þá orðinn
helsjúkur maður.
Guðjón B. Ólafsson var fæddur
í Hnífsdal 18. nóvember 1935. Ég
þekkti ekki mikið til ættar og upp-
runa hans, en í móðurætt var hann
ættaður úr Svarfaðardal og í föður-
ætt úr Hnífsdal og þar ólst hann
upp og átti þar sitt heimili þar til
hann hvarf til starfa í Sambandinu.
Gjarnan er það svo, að menn eru
tengdir æskustöðvum sínum, og svo
var einnig um Guðjón, því römm
er sú taug. Eftirlifandi kona Guð-
jóns er Guðlaug Brynja Guðlaugs-
dóttir, og eiga þau fimm börn.
Snemma árs 1991 kenndi Guðjón
sjúkdóms, sem er í flestum tilfellum
ólæknandi. Nokkrum sinnum hitti
ég hann eftir að þetta stríð byij-
aði, ævinlega talaði hann eins og
sá sem vonina hefir, og virtist taka
þessu eins og hveiju öðru, sem
þyrfti að takast á við og reyna að
sigrast á. Það var auðheyrt, að þar
talaði lífsreyndur maður, sem áður
hafði tekist á við erfiðleika. Það var
honum ekki nýtt þó nú hefðu málin
tekið nýja stefnu. í veikindum sín-
um naut Guðjón frábærrar umönn-
unar eiginkonu sinnar, og taldi
heimilið besta sjúkrahúsið. Hann
hrósaði þeim læknum sem höfðu
annast hann, og þegar umræða var
hávær um niðurskurð á sjúkrahús-
um lét hann til sín heyra og lét
koma fram þakklæti sitt fyrir frá-
bæra umönnun heilsugæslufólks.
Hann vildi ekki að hlutur þess yrði
fyrir borð borinn. Það var drengi-
lega gert. Vegna langdvala erlendis
hafði fjölskyldan orðið viðskila
þannig að hluti barna þeirra hjóna
settist að í Bandaríkjunum. Hann
lét þess getið opinberlega, að hann
ætti sterka fjölskyldu — og hvað
er einum manni meiri styrkur?
Svo fór, að Guðjón hlaut að bíða
ósigur í þeirri grimmu glímu sem
veikindi hans voru, hann lést 19.
desember síðastliðinn.
Guðjón er kominn yfir móðuna
miklu. Ég vil að leiðarlokum þakka
honum vináttu í minn garð. Ævin-
lega tók hann mér eins og góðum
vini, það var fölskvalaust, og það
var gott að eiga vináttu hans. Hann
hafði alltaf gamanmál á hraðbergi
en engum, sem til þekkti duldist
samt, að undir niðri bjó alvara. Án
þess hefði honum ekki skilað svo
fram á veginn, sem raun bar vitni.
Ég vil að leiðarlokum flytja Guð-
laugu, börnum hennar og fjölskyld-
unni allri innilegar samúðarkveðju
okkar hjónanna. Verum minnug
þess að minningin um góðan dreng
lifir, þó líkaminn sé lagður lágt í
mold.
Norðurfirði á gamlársdag 1993,
Gunnsteinn Gíslason.
Þegar ég heyrði um lát Guðjóns
B. Ólafssonar kom mér fyrst í hug
hetjuleg barátta hans við banvænan
sjúkdóm síðustu árin sem hann lifði.
Síðast þegar ég sá hann var svipur
hans ákveðinn og stoltur. Það var
engin uppgjöf í fasi hans þótt hann
vissi vel hvað var framundan. Við
sem búum við þá gæfu að takast á
við lífið við góða heilsu berum mikla
virðingu fyrir slíkum hetjuskap án
þess þó að gera okkur fulla grein
fyrir þeirri baráttu sem hann háði
og almættið hefur nú gefið honum
hvíld frá.
Ég hitti Guðjón fyrst fyrir nær
30 árum, en hann var þá að flytja
búferlum til Bretlands og taka við
skrifstofu Sambandsins þar. Ég var
á heimleið frá Bretlandi og af ein-
hveijum ástæðum fór ég að hjálpa
til við að flytja búslóð inn í væntan-
legt heimili hans. Ég man vel eftir
hvað þetta starf var skemmtilegt
og hvað þægilegt var að vera í
návist hans. Það gustaði af honum
og það var ekkert verið að hika við
að ganga til verks og gera það sem
framkvæma þurfti.
Þeir sem fylgst hafa með sjávar-
útvegi á íslandi í þessa þijá áratugi
sem liðnir eru vita allir um þrótt-
mikil störf hans í þágu sjávarút-
vegsmála. Á miklum erfiðleikatím-
um tók hann að sér að reka verk-
smiðju Iceland Seafood í Harrisburg
í Bandaríkjunum. Dugnaður hans
og stjórnunarhæfileikar nutu sín vel
í því starfi og verksmiðjan varð
stórveldi í hans höndum á íslenskan
mælikvarða. Guðjón skynjaði vel
hvað sölustarfið skipti miklu máli
og var oft óánægður með það hvað
framleiðendur á Islandi höfðu lítinn
skilning á að sinna og þjóna við-
skiptavinunum vel. Hann taldi að
vanræksla á Bandaríkjamarkaði
gæti orðið dýrkeypt síðar meir.
Þegar hvalamálið var ofarlega á
baugi hér á íslandi minnist ég þess
vel hvað Guðjón taldi nauðsynlegt
að sýna festu í því máli. Hann gerði
sér grein fyrir óþægindum sem fyr-
irtæki hans gæti orðið fyrir, en vissi
jafnframt að hér var um mál að
ræða sem íslendingar þurftu að
ganga fram í af fullri einurð. Ég
gerði mér grein fyrir því að það var
ekkert auðvelt að hafa þessa skoð-
un, en þar eins og annars staðar
sýndi hann þann kjark sem alltaf
einkenndi líf hans og störf.
Guðjón fékk einróma lof fyrir
störf sín í Bandaríkjunum og það
voru bundnar við hann miklar vonir
þegar hann kom heim til íslands
til að taka við Sambandinu. Hann
gekk til þeirra starfa af miklum
krafti, en aðstæður voru aðrar en
hann hafði talið og margt varð til
þess að ýmislegt fór á verri veg en
hann og aðrir höfðu vonað. Það var
honum þungbært og varð að sjálf-
sögðu til þess að gera baráttu hans
síðustu árin ennþá erfiðari. Þeirri
baráttu er nú lokið og fallinn er frá
forustumaður í íslensku atvinnulífi,
sem hefur markað djúp spor á allt-
of stuttri ævi.
Foreldrar mínir, Ásgrímur og
Guðrún, minnast Guðjóns af mikl-
um hlýhug sem vinar og samstarfs-
manns í marga áratugi. Við Sigur-
jóna þökkum góð kynni, vináttu og
góðvild í okkar garð. Við sendum
Guðlaugu og börnunum okkar
dýpstu samúðarkveðjur og biðjum
góðan Guð að styrkja þau um alla
framtíð.
Halidór Ásgrímsson.
Þegar mér barst sú fregn 20.
desember sl., að Guðjón hefði látist
daginn áður úti í Bandaríkjunum,
kom fregnin mér ekki á óvart. I
langan tíma hafði hann háð lífsbar-
áttu sína við krabbameinssjúkdóm.
Þeir tímar komu þegar svo virtist
sem hann væri að vinna bug á sjúk-
dómnum, en svo kom óvænt þak-
slag og allt fór í sama ástand og
fyrr. Síðustu mánuði mátti sjá hvert
stefndi og hvernig sjúkdómurinn
vann smám saman sigur á þessum
kraftmikla og bjartsýna manni. Það
eru ekki nema tæp þrjú ár frá því
Guðjón sagði mér frá því að hann
hefði greinst með þennan sjúkdóm
og nú er hann horfinn yfir móðuna
miklu. Þótt ég hafi undanfarna
mánuði búið mig undir þau tíðindi
sem mér bárust 20. desember sl.,
gagntók mig mikill tómleiki þegar
fregnin barst. Guðjón var vinur
minn og reyndist mér vel. Nú er
hann horfinn til nýrra heima og
söknuðurinn einn eftir. En vitneskja
um að nú líði honum vel á ný og
sé laus meina sinna er góð huggun.
Þótt við Guðjón kynntumst ekki
persónulega fyrr en við heimkomu
hans frá Bandaríkjunum 1986, þeg-
ar hann tók við forstjórastarfi hjá
SÍS, þá vissum við vel hvor af öðr-
um. Frá þeim tíma er foreldrar
okkar stunduðu nám við Héraðs-
skólann á Laugarvatni 1932, tókst
með þeim mikil vinátta sem ríkti
milli íjölskyldna okkar alla tíð síð-
an. Móðir Guðjóns var Filipía Jóns-
dóttir frá Jarðbrú í Svarfaðardal
og faðir hans Olafur Guðjónsson frá
Hnífsdal. Ólafur var framan af ævi
útibússtjóri hjá Kaupfélági ísfirð-
inga en síðar kaupmaður á Akra-
nesi. Á stuttum tíma hefur þessi
illvígi sjúkdómur, sem lagði vin
minn að velli, lagt að velli bæði
föður hans og móður. Faðir hans
andaðist árið 1992 en móðir hans
í ágúst sl. Guðjón átti eina systur,
Ásgerði, og lifir hún bróður sinn
og foreldra.
Frá þeim tíma er við Guðjón
kynntumst, tókst með okkur góð
vinátta. Hann hafði sérstaklega
létta lund, var glaðlegur í viðmóti
og átti auðvelt með að umgangast
fólk og hrífa með sér. Hann var
fastur fyrir í skoðunum en hlustaði
á skoðanir annarra og tók auðveld-
lega rökum þegar honum fundust
þau traustari en þau sem hann
byggði skoðanir sínar á. Guðjón var
víðsýnn, opinn fyrir nýjungum og
nýjufn leiðum til að ná þeim mark-
miðum sem leitast var við að ná í
þeim rekstri sem hann veitti for-
stöðu. Á starfsferli sínum kom hann
víða við. Hann starfaði lengi erlend-
is við þýðingarmikil störf og kynnt-
ist þar viðhorfum og aðstæðum sem
okkur hafa verið framandi. Hann
byggði upp frá rústum annað
tveggja þýðingarmestu sölufyrir-
tækja okkar á sjávarafurðum í
Bandaríkjunum. Það eitt að skila
slíku verki á þessum harðasta
neyslumarkaði heims er ekki lítið
afrek. Á margan hátt var hann á
undan samtíð sinni hér heima vegna
þess uppeldis sem hann hafði hlotið
i störfum sínum meðal annarra
þjóða.
Að leiðarlokum vil ég þakka
Guðjóni samferðina. Sú samferð
varð mér til gæfu. Við fráfall hans
er tilveran fátæklegri en áður var
en eftir situr minning um góðan
dreng, drengskaparmann.
Við Steinun sendum eiginkonu
hans, Guðlaugu Brynju, börnum og
barnabörnum, systur og öðrum ást-
vinum hans okkar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Halldór Guðbjarnason.
SJÁ næstu síðu