Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1990, Blaðsíða 155
ÞÓR MAGNÚSSON
SKÝRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ
OG ÞJÓÐMINJAVÖRZLUNA 1990
Starfslið
Jóna Ósk Guðjónsdóttir, sem verið hefur fulltrúi á skrifstofu frá árinu
1979, síðustu árin í hálfu starfi, lct af störfum hinn 1. október og í stað
hennar var ráðin Anne Cotterill MA í fullt starf, þar sem fengizt hafði
full stöðuheimild.
Þá tók til starfa ljósmyndari, ívar Brynjólfsson BFA, frá 1. nóv-
ember, og er það í fyrsta skipti sem safnið fær ljósmyndara, sem var
orðið afar brýnt, svo mjög sem notkun ljósmyndasafnanna hefur aukizt
og hvers kyns ljósmyndavinna á vegum safnsins.
Halldór J. Jónsson deildarstjóri myndadeildar lét af störfum í árslok
fyrir aldurs sakir og var ráðin í hans stað Inga Lára Baldvinsdóttir BA
hons. og cand. mag. frá 1. jan. 1991.
Einnig lét Geir Björnsson húsvörður af störfum í árslok vegna aldurs
og var ráðinn í stað hans Árni Guðmundsson frá 1. janúar 1991.
Guðmundur Ólafsson deildarstjóri fornleifadeildar var í starfsleyfi um
3 mánaða skcið frá 12. febrúar og gegndi Mjöll Snæsdóttir fornleifa-
fræðingur starfi hans á meðan.
Bryndís Sverrisdóttir safnkennari fékk ársleyfi frá störfum frá og með
haustmisseri og frá 15. ágúst annaðist Þóra Magnúsdóttir mannfræði-
nerni safnkennsluna á meðan. Á vormisseri var Ragnhildur Vigfúsdóttir
M A Bryndísi til aðstoðar við kennsluna.
Þess ber að geta hér, að Frosti F. Jóhannsson, ritstjóri íslenskrar þjóð-
menningar, var settur á launaskrá safnsins með sérstöku samkomulagi
Þjóðminjaráðs og mennta- og fjármálaráðuneyta, til þess að greiða fyrir
útgáfu verksins. Gildir sú tilhögun til sex ára, en Bókaútgáfan Þjóðsaga
mun eftir sem áður annast útgáfuna. Voru veittar 1,6 millj. kr. á fjár-
lögum í þessu skyni. Var útbúin vinnuaðstaða til bráðabirgða á 3. hæð-
inni í þessu skyni.