Lögberg-Heimskringla - 31.03.1960, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 31.03.1960, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 31. MARZ 1960 GUÐRÚN FRA LUNDI: ÞAR SEM BRIMALDAN BROTNAR „Blessuð farðu nú að skerpa á katlinum, Ingibjörg mín. Ég sé að þú hefir soðið klein- ur,“ sagði Maríanna. „Það fellur ekki í okkar hlut svo mikið úr búinu hérna, að ég eigi ekki skilið að fá kaffi- bolla svona einu sinni í mán- uði. Hann er víst staðráðinn í því karlskepnan að láta éta efnin sín upp, áður en við njótum nokkurs góðs af þeim. Það átti þó að mennta hann Tómas minn fyrir föðurarf- inn hans Halls.“ „Þær bregðast nú oft, þess- ar arfsvonir,“ sagði Ingibjörg með lævísu brosi. „Hann er ekkert þesslegur gamli mað- urinn, að hann sé kominn á grafarbakkann. Það er eins og ég hef oft sagt, gott að hafa nóg til hnífs og skeiðar í líf- inu; meira má það ekki vera, annars eru erfingjarnir farnir að rífast um það um leið og við lokum augunum. Og gott ef þeir gera það ekki áður.“ Maríanna gægðist inn í hjónahúsið. Þar sváfu nýgiftu hjónin í rúmi, sem alltaf hafði staðið autt, síðan Hallur gifti sig. Og litla rúmið, sem hafði staðið ónotað fram í skála síð- an fyrir langa löngu, var kom- ið inn. í því svaf Lóa litla. Rúmin voru uppbúin eins og í kaupstað, með laglegum lér- eftsteppum yfir. Hún lyfti upp teppunum til að sjá, hversu hrein verin væru. Henni féll illa að sjá, hversu hreinleg þau voru. Ingibjörg var langt frá því að vera hrifin af þessu snuðri. Hún kallaði óþarflega hátt til hennar, að nú væri kaffið komið í bollana. „Það má segja,“ sagði Marí- anna yfir kaffibollanum, „að það er betra seint en aldrei fyrir Gunnar skinnið að vera farinn að sofa inni í hjóna- húsinu. En ekki þætti mér ólíklegt, að Jóhann liti tengda- dótturina hornauga, þegar hann bæri hana saman við konuna sína, þessa líka mynd- armanneskju.“ „Ég býst ekki við að hann geri það, enda er það óþarfi af honum. Hún var vel í með- allagi í sjón og afar hlýleg í sambúð, bæði við hann og aðra,“ sagði Ingibjörg í al- gerðum uppreisnarhug. „Ég efast ekki um, að hún hugsi vel um gamla manninn, ef hann lifir það að verða hjálp- arþurfi." Þá var barið á eldhúshurð- ina og hún opnuð í hálfa gátt. Konan á Básum stóð í gætt- inni. Hún bauð góðan daginn. „Ég er búin að berja frammi hjá þér, Maríanna mín, en þar gegnir engin sála,“ sagði hún. „Eruð þið tvær einar heima, eða hvað? Það hefir þó heyrzt, að fólkinu sé farið að fjölga á þessu heimili," bætti hún við með lymskulegu brosi. Ingibjörg bauð henni kaffi, en hún þáði það ekki. Hún var lítið vinveitt Ingibjörgu. Hafði viljað koma dóttur sinni að sem ráðskonu í Látravík, og þar að auki hafði hún illan grun um, að vinnupiltar Jó- hanns hefðu sigið í bakkana fyrir utan merkin og stolið eggjum frá sér. Maríanna fór fram með henni og settist þar á skrafstóla. Samræðurnar urðu allar um búskaparlagið hjá Jóhanni gamla. Annað komst ekki að í huga Marí- önnu. Þegar farið var að hreinsa dúninn, kom Pálína á Hvanná og var þar í þrjá daga. Svo fóru strákarnir að reyna að hreinsa, en það gekk heldur seint hjá þeim. Lilja gamla á Stekknum og heimasætan á Básum hreinsuðu með Helgu dúninn á hinu búinu. Þær voru allar vanar. Hreinsunin gekk því miklu fljótara á því búinu í það skiptið. „Okkar stúlkur ætla að verða miklu fljótari að hreinsa dúninn,“ s a g ð i Maríanna hreykin við mann sinn. „Þú ert ánægð yfir því, að hann er svona mikið minni en á hinu búinu,“ sagði hann ólundarlega. „Það er af því, að við höf- um svo duglegar stúlkur," sagði hún. „Svo er hann líka talsvert minni, þykist ég vita.“ „Líklega svona helmingi minni,“ sagði hann. Þegar gamli maðurinn sá að dúnvinnan var búin hjá mót- býlisfólkinu, fór hann vestur að Hvanná og bað Pálínu að koma. „Sér leiddist að vera langt á eftir hinum.“ Hún gerði það, og þá var ekki lengi að ganga á dúninn. Það sýndi sig, hvað hann var margfalt meiri, að hann skyldi þurfa að sækja manneskju á aðra bæi til að ljúka við hann, hugsaði Hallur bóndi. Hann var ákaflega undar- legur til skapsmunanna þetta vor. Annan daginn var hann gramur yfir velgengninni hjá föður sínum. Dúnninn var margfalt meiri hjá honum. Selskinn líka. Túnið sýndist honum ólíkt betur sprottið, og kona hans talaði um, að kýrn- ar á því búi mjólkuðu ólíkt meira en hennar kýr. Og kálf- ur hjá henni bjóst hún við að gæti staðið innan í jafnaldra hans, sem var í eigu gamla mannsins. Hinn daginn fann hann til ánægju yfir því að sjá Gunnar bróður sinn ganga að sínum vanalegu verkum, vitja um selanæturnar, verka skinnin og spýta þau. Hann hafði verið farinn að nostra við þau, þegar hann mundi fyrst eftir honum. Valdimar gamli hafði kennt honum það, og enginn kom með eins vel verkuð skinn í verzlunina og Látravíkurbóndinn. H a 11 u r hugsaði um stórmennsku- drauminn sinn, þegar hann> hafði flutt konu sína norður í þeirri von, að hann yrði bóndi á allri jörðinni. Þá bjóst hann við, að Gunnar yrði vinnumaður hjá sér, alveg eins og hann var hjá föður þeirra. Ómetanleg stoð undir búinu. Hann hafði líka búizt við því, að fjölskylda hans og allir yrðu svo hrifnir af hinni glæsilegu konu hans, að það myndi þykja upphefð að því að eiga hana fyrir húsmóður. En raunveruleikinn hafði orð- ið andstæður draumsjóninni. Hann kenndi Pálínu um það, hvað lítið var litið upp til Maríönnu. En hitt gat hann aldrei skilið, að hann skyldi ekki halda áfram að vera eftir- lætisdrengur foreldra sinna, þó að hann væri giftur. En Gunnar hækkaði aftur á móti í áliti hjá þeim með hverju ári. Það eina, sem ekki urðu vonbrigði, var það, að Gunn- ar hafði alltaf verkað fyrir hann skinnin. En þetta vor gat hann einhvern veginn ekki komið sér að því að fara með skinnin til hans, heldur fór hann að reyna að verka þau sjálfur, og var í hinu versta skapi yfir því. Þá stóð bróðir hans allt í einu í kofadyrun- um hjá honum og spurði: „Hví kemur þú ekki með skinnin eins og vanalega?“ Hallur fór hjá sér: „Ég hélt að þú hefðir nóg með þín skinn og ætlaði að reyna það sjálfur," sagði hann. „Ég er búinn með skinnin okkar,“ sagði Gunnra. „Ég held að þetta verði ekki gott hjá þér.“ „Auðvitað gerir þú það miklu betur,“ sagði Hallur sárfeginn. Svo varð allt eins og áður, Gunnar verkaði skinnin fyrir bæði búin. Rétt fyrir sláttinn kom Tómas heim og Brói með hon- um. „Þú hefir nú verið nokkuð liðléttur við vorverkin með pabba þínum,“ sagði afi hans við hann annan daginn, sem hann var heima. „Nú skaltu fara að verða duglegur og fara á sjóinn með mér og Bróa litla. Þér er það ekki nein vorkunn, þar sem hann er tveim árum yngri en þú. Það er ekki skemmtilegt að sjá þig ganga með hálstau hér úti á Nestá. Blessaður taktu þetta af þér og klæddu þig í peysu og komdu á sjóinn með mér í kvöld.“ Tómas hló einungis og gekk í burtu. Þegar farið var á sjó- inn, fannst hann hvergi. Hann talaði um það við foreldra sína, að það væri sjálfsagt fyr- ir þau að selja jörðina og flytja til Reykjavíkur. Þar væri svo gaman að vera. „Heyrirðu hvað hann sonur þinn segir?“ sagði Maríanna, þegar hún sá ekki þess merki, að maður hennar tæki eftir þessari mikilfenglegu tillögu. „Það hefir sjálfsagt fulla þörf fyrir hálflenduna fólkið á hinu ,búinu, sem býr í þessari þröng, næstum hvað ofan á öðru,“ bætti hún við. „Á hverju ætlarðu að lifa í Reykjavík?" spurði hann. „Auðvitað af því, sem þú vinnur þér inn eins og allar aðrar fjölskyldur í kaupstöð- um,“ sagði hún. „Það verður varla þetta ár- ið, sem mér dettur það í hug að yfirgefa Látravík og flytja í kaupstað,“ svaraði hann stuttur í spuna. Hún nauðaði um það dag- lega, að sér dytti ekki í hug að búa lengur en þetta ár. Hún hefði aldrei viljað búa í sveit, sízt í svona þrengslum sem hér væru orðin og ætluðu alveg að gera út af við sig. Svo sagði hún sögur af því, hvað Tóm- asi hefði liðið vel í Reykja- vík. Allir hefðu verið svo vin- gjarnlegir við hann, þegar þeir hefðu vitað að hann var af Fagranesættinni. Þá hló Hallur að henni og spurði, hvort Tómas hefði sagt hverjum sem hann mætti á Reykjavíkurgötum af hvaða ætt hann væri. Þá hætti hún þessu rausi sínu þann daginn. Gamli maðurinn talaði ekki um það nema einu sinni, að Tómas færi með honum á sjó- inn, en hann bauð Maríönnu að fá sér í soðið, þegar komið var að. Halli ofbauð að sjá hvað faðir hans afllaði og lagði inn. Hann talaði um það, að faðir hans tæki af sér vinnu- piltinn til róðra svo sem viku- tíma. Sjálfur ætlaði hann að sjá um smalamennsku og fleira, sem þurfti að gera áður en sláttur byrjaði. „Hann er ekki færari til þess að fara á sjóinn en sonur þinn. Báðir kjarklausir og verkvana af sjóveiki. En ef hann treystir sér, skal ég flytja hann. En hann fær ekki annað en það, sem hann dreg- ur,“ sagði gamli maðurinn. Auðvitað yrði það sama og ekki neitt, það vissi Hallur. Hann fór því sjálfur nokkra róðra. En svo varð hann að hætta, því að allir voru byrj- aðir á túnslætti nema hann. Síðasta daginn, sem þeir reru saman, komu litlu vin- konurnar með kaffi handa þeim ofan á bakkann. Hallur sagði, að sig sárlangaði í kút- maga, þegar hann sæi lifrina svona fallega og kútmagana svona stóra. „En mamma hefir alltaf svo mikið að gera, að hún má ekki vera að því að verka kútmaga," sagði Dadda litla. „Já, það er líklega nóg að gera, meðan ullarþvotturinn stendur yfir,“ sagði Hallur. „Það þarf heldur enginn að búast við því, að tíminn staldri við, ef viljinn getur ekki orðið honum samferða,“ hnusaði í Jóhanni gamla. Um kvöldið, þegar Hallur var seztur að kvöldverði, kom Lóa litla með kútmaga á diski, og setti þá á borðið rétt við diskinn hans og sagði: „Gerðu svo vel! Afi sagði mér að fara með þetta til þín.“ „Þakka þér fyrir, Lóa mín,“ sagði han. „Ég bið að heilsa með þakklæti fyrir matinn." „Hún er svo sem farin að kalla hann afa,“ sagði Tómas háðslega. „Það verður nú varla langt þangað til börnunum fjölgar í Látravík," sagði Maríanna. „Sifa stendur samt við ull- arþvott hálfan daginn, og stundum lengur,“ sagði Hall- ur. „Það verða engin vandræði fyrir Gunnar að búa með henni.“ „Ja, nú þykir mér þú vera farinn að skipta um álit á fólki,“ sagði kona hans stutt- lega. „Mér finnst þú taka nokkuð hraustlega til matar þíns af þessum kútmögum, þó að það sé nú annað mál. Ekki gsfeti ég borðað kútmaga úr höndunum á mótbýliskonun- um mínum. Ég sé, að þeir eru bólgnir af hringormum." „Ég finn, að þeir eru ágætir, hvort sem hringormar eru í þeim eða ekki,“ sagði hann með þrjózkusvip. Dadda sagði, að sig langaði til að fá kútmaga. „Ég hef oft borðað þá inni og þykir þeir ósköp góðir.“ Svo fékk hún tvo kútmaga á sinn disk. Tómas leit til hennar með lítilsvirðingu og vildi ekki bragða þetta ný- næmi. En Maríanna gat ekki látið það á móti sinni góðu matarlyst að taka einn kút- magann og athuga hann vand- lega áður en hún borðaði hann. „Þeir eru góðir hjá henni, kerlingargreyinu. Ég held hún sé nokkuð hreinleg við matar- verkin,“ sagði hún og seildist í annan. „Ég held að þér sé alveg óhætt að bragða á þeim, Tómas minn.“ En hann lét sem hann heyrði ekki til hennar. Hann stóð upp frá matarborðinu og þakkaði fyrir matinn og gekk út í veðurblíðuna, fattur og uppstrokinn með talsverðum merkissvip. Móðir hans horfði brosandi á eftir honum. HJÓNAERJUR Hallur og kona hans urðu að þola það að horfa upp á sí- felld búsældahöpp, sem sam- býlisfólkinu féllu í skaut, en þau sjálf voru í algerri kyrr- stöðu. Eins og allir sigraðir menn urðu þau að sætta sig við allt. Svo létu þau von- brigðin bitna hvort á öðru. Hann sagði, að heyskapurinn gengi miklu betur hjá Gunn- ari, þó hefði hann svona hér um bil sama vinnukraft og væri hjá sér. Tvær fullorðnar konur og tveir unglingar. En auðvitað misstist talsvert við það, að Helga yrði að vera í bænum, oft og einatt fram yfir hádegi. Tómas yrði alltaf að vera á spildunni með rakstrarkonunum og þó væri alltaf ljá. Það væri áreiðan- legt, að enginn maður þyrfti að þræla fyrir eins duglausri fjölskyldu og hann.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.