Lögberg-Heimskringla - 11.04.1963, Blaðsíða 4

Lögberg-Heimskringla - 11.04.1963, Blaðsíða 4
4 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 11. APRÍL 1963 Hallgrímskirkja Aðalverðmætin er íslenzku landnámsmen n hér í álfu höfðu með sér frá ættlandinu voru bækur; hvert íslenzkt heimili hérlendis átti ofurlítið bókasafn, og flest þau söfn munu hafa haft að geyma Passíusálma trúarskáldsins Hall- gríms Péturssonar. Engin trúarljóð hafa verið íslenzku þjóð- inni jafn ástfólgin og passíusálmarnir, enda eru þeir taldir taka fram öllu, sem ort hefur verið á íslandi um það efni. Síðan þeir komu út á sautjándu öld hafa íslendingar sótt í þá huggun í sorgum sínum og yljað sér við þá andlega glóð, er Passíusálmarnir hafa yfir að búa. — Á þessu tímabili hafa Passíusálmarnir verið gefnir út 52 sinnum og hafa verið þýddir eða kaflar úr þeim á mörg tungumál. Aðrir sálmar Hallgríms eru og sígildir, einkum „Allt eins og blómstrið eina.“ Mun sá sálmur enn sungin við jarðarfarir Islendinga vestan hafs þegar kringumstæður leyfa. Hann orti og mikið af veraldlegum kvæðum og vísum, t. d. „Heil- ræðavísur", „Gaman og alvara“ o. fl. og kennir í þeim mikill- ar lífsspeki; lifðu kvæði hans og vísur á vörum þjóðarinnar, kynslóð eftir kynslóð, henni til gagns og gamans. íslendingar hafa ávalt metið og elskað þennan mikla kennimann sem þrátt fyrir örbyrgð, sjúkleika og sorgir, gat miðlað þeim svo miklum andlegum auðæfum, að þeir njóta þeirra enn þann dag í dag og munu búa að þeim í aldir fram. Nú eru Islendingar að reisa Hallgrími Péturssyni verð- ugan minnisvarða — kirkju sem ber nafn hans. Myndin á forsíðu þessa blaðs er af líkani, sem sýnir hvernig kirkjan mun verða þegar hún er fullbyggð. Hér fylgir og ávarp til Vestur Islendinga frá presti Hallgrímskirkju, séra Jakobi Jónssyni og konu hans frú Þóru Einarsdóttur, en þau hjónin eru okkur Vestur Islendingum að góðu kunn síðan þau dvöldu á meðal okkar. Ennfremur birtum við kafla úr bréfi séra Jakobs til séra Philips M. Péturssonar, forseta Þjóðræknisfélagsins, er hefur að geyma frekari upplýsingar um kirkjuna. Minning Hallgríms Péturssonar mun mörgum Vestur Is- lendingum einkar kær og myndi það mikið ánægjuefni ef þeir gætu á einhvern hátt átt þátt í að reisa honum þennan fagra minnisvarða. ☆ Ávarp tiI íslendinga vesfan hafs Kæru landar! Langt er um liðið, síðan við áttum heima á sléttum Vestur-Kanada, en oft leitar hugurinn til gamalla stöðva og jtil fólksins, er þar bjó. Vonum við, að enginn misvirði, þótt ,við snúum okkur nú til yðar Vestur-lslendinga með sérstakt erindi, sem okkur liggur á hjarta. Svo sem mörgum vinum okkar vestra er kunnugt, störf- um við nú fyrir Hallgrímssöfnuð í Reykjavík, en sá söfnuður er kenndur við sálmaskáldið sírá Hallgrím Pétursson, sem öðrum skáldum fremur hefir sungið Krist inrn í hjörtu Is- lendinga á liðnum öldum. Kirkja safnaðarins er í smíðum. Hún er minningarkirkja um skáldið, og að henni stendur ekki aðeins söfnuðurinn, heldur allir Islendingar, heima og erlendis. Hallgrímskirkja verður stærsta kirkja á íslandi. Af turni hennar verður víðsýnna en af nokkrum öðrum stað á landinu, að fjöllum undan teknum. Stærð og gerð kirkj- unnar er ekki aðeins miðuð við venjulegar guðsþjónustur og safnaðarstarf, heldur og hljómleika og kirkjulega sönglist. Geta má þess, að í henni verður Kristlíkneski Einars Jóns- sonar, en sú mynd er ein af perlum íslenzkrar helgilistar á vorri öld. Bygging kirkjunnar kostar mikið fé og tekur langan tíma, en nú er hafinn nýr áfangi í byggingunni, og er það neðsti hluti tumsins, en jafnframt verður haldið áfram með veggi og þak. Þrátt fyrir ýmsar tafir, er svo langt komið, að síðastliðið haust fór fram guðsþjónusta innan hinna hálf-byggðu múra, og voru þá sálmar Hallgríms sungnir fyrsta sinn í þeirri kirkju sem um aldir mun bera nafn hans. Hinn fyrsti sýnilegi minnis- varði um síra Hallgrím Pét- ursson, að legsteininum á leiði hans frátöldum, mun hafa verið minnisvarðinn, sem Vestur-íslendingar létu reisa við dyr dómkirkjunnar í Reykjavík. 1 þeirri von, að hugur landa okkar til sálma- skáldsins, til kirkjunnar og til íslands sé óbreyttur, viljum við nú snúa okkur til allra landa vestan hafs, er orð okk- ar lesa, og fara þess á leit, að þeir leggi þessu máli lið með gjöfum og fjárframlögum. Sérstaklega væntum við þess, að Þjóðræknisfélagið, kirkju- félögin bæði, og blaðið Lög- berg-Heimskringla taki við framlögum í þessu skyni. Að svo mæltu kveðjum við yður öll með beztu óskum og bæn um Guðs blessun. Reykjavík í marz 1963. Þóra Einarsdóitir, Jakob Jónsson, presiur. ☆ Kafli úr bréfi iil forseta Þjóðræknisfélagsins Eins og þú sérð af meðfylgj- andi ávarpi frá Þóru og mér, erum við að snúa okkur til landa vestan hafs, og fara fram á liðsinni, og er slíkt ekkert nýtt í sögunni, eins og við vitum báðir. Bygging Hallgrímskirkju er mikið fyr- irtæki og þarf miklu til að kosta. Við höfum nú tekið okkur fyrir hendur að byggja næsta áfanga verksins, sem er neðsti hluti turnsins, með álm- um tveim. Þar á meðal annars að vera stór samkomusalur, fundaherbergi, skrifstofur etc., en jafnframt verður haldið áfram við aðal-skip kirkjunn- ar. Við erum í þann veginn að hefja fjársöfnun, sem á að ná til allrar þjóðarinnar, og sömuleiðis til íslendinga í öðrum löndum. Höfum við trú á því, að Vestur-íslendingar muni vilja vera með. Húsameistari sá, er stendur fyrir verkinu, er Hörður Bjarnason, húsameistari rík- isins, bróðursonur Einars Jónssonár myndhöggvara. Formaður sóknarnefndar (safnaðarstjórnar) er Sigtrygg- ur Klemenzson ráðuneytis- stjóri fjármálaráðuneytisins. Gjaldkeri hennar heitir Her- mann Þorsteinsson, fulltrúi hjá Sambandi ísl. samvinnu- félaga. — Verkinu hefir miðað hægt áfram, meðal annars vegna þess, að húsameistari sá, dr. Guðjón Samúelsson, sem verkið hóf á sínum tíma, dó fyrir nokkrum árum, og varð þá nokkurt hik, þar eð sumt, sem verkinu viðkom, var óákveðið. En nú erum við sem sagt að komast á strik aftur. Grunnavík i. Fyrrum var Guðslán í Grunnavík, gamli Jónmundur bjó á Stað, byggðin af viti og vilja rík, vinir og frændur gengu í hlað. Sjera Jónmundur sat á Stað sinnandi Guðs og manna þörf, mikill á velli og meira en það, minnugur vel um dagleg störf. Grædd voru tún og gert að búð, gott var til fanga hraustum lýð, lifað var undir lágri súð, líka stundum hin nýja tíð. II. Mjög er nú skipt um kosti og kjör, kaldur gustur um naustin fer, nýlega sigldu sautján úr vör, síðan býr enginn maður hjer. Enginn klerkur við kalli leit, köllun sína og hróður fann við að stunda hjer bæn og beit, börnin að signa og gróandann. Utan við götur gulls og auðs gerðist hjer hlutur rýr og smár þeirra sem áttu að afla brauðs, útnesja-setan lítt til fjár. Skipulags-mála— mundu ei par —mennirnir eftir Grunnavík nema skattana og skyldurnar, skelfing er þjóðin orðin rík. Aflögð er þessi bænda-byggð, búskapur allur fjell í tröð, strikað er yfir trú og tryggð, torfuna, garða og bæjarhlöð. Annar staðar við auðugri kjör eiga börnin að festa rót, gleyma feðranna velli og vör, varast við þúfu að steyta fót. III. Skipulag mála og jafnvægi í búskap og byggð er blessun og gróði sem þingmenn veita um landið, þjóðinni allri er menningar-tilvera tryggð töluvert önnur en hrísið og votabandið. Við úrræðin stóru gleymist mörg Grunnavík og gerist fátítt að þangað sje hugsað og litið, athöfn fólksins og aðstaða gerist slík að engan varðar nú lengur um fámennis-stritið. Nú gerast menn breiðir og strika út ætt sína og arf og afneita minning um þungan róður og byrði, gleyma þeim öllum, sem áttu sitt líf og starf um útnes og víkur norður við Jökulfirði. Nú hugsar enginn um feðranna för og stríð, og fótspor mæðra um túnið, hlaðið og bæinn, hvernig var barist við brim og norðanhríð, og brosað, er vorið fór sunnan, og lengja tók daginn. IV. Um Hallarstræti reikar roskinn maður, það reynir á að lúta borgarsiðum, norðan við Gjöll er Grunnavík og Staður og glaða-sólskin yfir Kvíarmiðum. Það tjáir ekki að tala neitt um það, tilveran neitar stundum öllum griðum. Byggðina þraut að eiga hann Jónmund að. — Ósköp er fátt af mönnum — stórum í sniðum. — Osló, 19. nóvember 1962 Árni G. Eylande.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.