Lögberg-Heimskringla - 04.02.1971, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 04.02.1971, Blaðsíða 6
6 LOGBlEG-ÍitiIMSKBINGLA, í'IMM'i'UDAGINN 4 ííjiíBKÚAK I9vi ...... ..... GUÐRÚN FRA LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga Móðir hennar hefur tvær vinnukonur, báðar vel duglegar, og þær eru búnar með allt, sem þarf að spinna, svo að ég tók mér bessaleyfi og bað hana að fara hingað vegna þess, hvað Ella mín er óvön bústörfunum.“ „Það er víst ógoldin skuld, sem ég á við þig, síðan þú tókst litlu stúlkuna mína til þín, þegar ég gat ekki hugsað um hana sjálf,“ sagði Sæja hálffeimin. „Það var svo stutt, sem ég gat haft hana. Ég var þá svo léleg til heilsunnar. Svo kom þessi góða og fallega frænka og tók hana með sér á sjóinn. Hún hefur líka kunnað að fara með hana. Þvílíkt barn, sem þú átt þar, svo stórt og fallegt. Ég verð náttúrlega ákaflega fegin að fá þig, góða mín. Ella getur þá farið heim með Ingunni. Hún hefur hjálpað okkur mikið þessa daga, sem ég hef legið 1 rúminu, en nú er ég á bezta batavegi," sagði móðir Sveinbjarnar. Sæju fannst hún vera ákaflega einmanna, þeg- ar Ingunn frænka var farin og gamla konan sofn- uð. Hana langaði mikið tíl að leggja sig út af, því að hún hafði sofið lítið síðastliðna nótt. En þá komu karlmennirnir inn. Bjössi var eins og á hjólum og fór að hugsa um miðaftanskaffið, þeg- ar hann sá að sauð á katlinum. Sæju fannst þá sjálfsagt að leggja hönd að verki og fór að mala á könnuna. Bjössi spurði hana, hvort 'heilsan væri orðin sæmileg. Hún lét vel yfir því. Svo var drukkið kaffi og Sæja sá að Júlli gamli gaf henni miklar gætur j' laumi. Bjössi sagði henni að það raðaði kaffidrykkj- unni þannig niður, að Júlli legði til kaffið einn dag en þau þrjá, en nú yrði það að vera fjórir dagar, þegar hún væri komin. „Ég skal reyna að muna það,“ sagði hún og sötraði kaffið, sem var hreint ekki gott. Líklega hafði Ella soðið korginn upp aftur og aftur, því að hún var óvön að hella upp á kaffikönnuna. „Ég skal láta ykkur hafa bragðbetra kaffi en þetta í fyrramálið,“ sagði Sæja. „Auðvitað kemur þú með nýja og góða siði í bæinn,“ sagði Bjössi. Hann var alltaf brosandi og kátur. „Nú verðum við að fara í fjósið og líta á naut- gripina,“ sagði hann, þegar klukkan var orðin átta. Þar voru tvær feitar kýr og einn kálfur. „Hver á þerman kálf?“ spurði hún. „Þykir þér hann fallegur?“ spurði hann. „Já, hann er dásamlegur. Mér þykir svo gam- an að öllum ungviðum,“ sagði hún. „Það er ekki ég, sem á hann,“ sagði Bjössi. „Mín kýr er síðbær.“ „Hver á hann þá?“ spurði hún. „Bergljót, Júlli og þú,“ svaraði hann. Þau skellihlógu bæði. „Ó, þetta er allt svo hlægilegt,“ sagði hún. „Já, það á eftir að verða skemmtilegt,“ sagði hann. „Við sjáum nú til.“ 51. Friðgerður lagðist undir yfirsæng, þegar dóttir hennar var búin að kveðja hana. Þar lá hún, þeg- ar maður hennar snaraðist inn í húsið með mikl- um gusti og spurði eftir, hvað væri nú að og hvar Sæunn væri niður komin. „Það er maður frammi, sem þarf að hafa tal af henni. Ætlar þessi heilsuleysisvella aldrei að yfirgefa þig, kona?“ sagði hann með nokkrum þjósti. „Það er víst lítil ástæða til þess að hún geri það,“ sagði Friðgerður kjökrandi. „Nú er Sæunn dóttir þín gengin í burtu af heimilinu eins og systir hennar. Það þolir engin manneskja svona heimilislíf.“ ,Ætli hún verði ekki fegin að skríða heim aftur eins og systir hennar. Það er meiri bölvuð stífnin í þessum stelpugeplum. En ég á nú eftir að tala við hana, stúlkuna. Ég held þú hafir tvær duglegar vinnukonur og þurfir ekkert að sýta. Hún hefur líklega farið út að Svelgsá. Það má ganga að henni vísri þar,“ sagði hann. Friðgerður stundi undir sænginni. Hún var hætt að skilja þessar dætur sínar. Hún hafði þó reynt að vera þessari góð, síðan hún kom heim í fyrra sumar, en samt var hún farin. Gott var þó að hafa góða samvizku á hverju sem gengi. En það var eitthvað í huga hennar, sem hún skildi ekki. Bezt að vona að henni rynni reiðin og hún kæmi þá heim aftur. En það leið sunnudagur og mánudagur og tveir aðrir dagar til viðbótar. Þá bað hún Ráðu að reyna að grenslast eitthvað um ferðir hennar. Hún var fús til þess. Á miðvikudagskvöldi kom hún í hlaðið á Svelgsá. Gamli bóndinn var úti við. Hún heilsaði honum dálítið stuttlega og spurði, hvort það væri ekki einhver gestur þar á bæ. „Nei, það hefur engin verið á ferð hér í dag,“ svaraði hann. „Ætlar þú langt að fara?“ „Ég er nú að grennslast eftir henni Sæunni Hrólfsdóttur frá Bakka. Mér þykir líklegt að þú og þið á þessu heimili kannizt eitthvað við hana. Ég frétti að hún hefði sézt fara ofan á Möl á sunnudagsmorguninn. En þar gat ég ekki fundið slóð hennar, svo að mér datt í hug að fara hingað. Hún ratar áreiðanlega til ykkar?“ „Það er nú vel ratljóst milli báéja á degi hverj- um. Hefur hún ekki komið heim síðan?“ sagði gamli bóndinn. ,)Ónei. Og móðir hennar er orðin óróleg út af hermi,“ sagði Ráða. „Sízt er að furða. Mér finnst hún satt að segja vera þó nokkuð róleg, að vera ekki búin að grennslast eftir henni fyrri. Er hún eitthvað und- arleg?“ sagði Níels. „Hún bjóst við að hún hefði lent hér. Það er víst sjálfsagður griðastaður allra vesalinga, eða svo segir húsbóndinn á Bakka stundum,“ sagði Ráða. „Var hún eitthvað lasin?“ spurði Níels. „Það veit nú víst enginn. En ánægð hefur hún ekki verið, þegar hún kvaddi foreldrahúsin frek- ar en Jónanna, þegar hún lagði upp í sína frægðar- för,“ sagði Ráða. „Hún kom hingað sem allra snöggvast núna um helgina. Ég man bara ekki hvenær það var,“ svaraði Níels. Ráða gekk óboðin í bæinn. Það var ljós í búr- inu og þangað fór hún. Páll sat þar yfir kaffi- bolla, sem hann hafði verið að fá sér til hressingar. Hún kastaði á hann kveðju. „Datt mér í hug að einhver kæmi. Mér svelgd- ist nefnilega á kaffinu áðan. Það ert þá bara þú, Ráða vinkona, sem birtist þarna. Sæl vertu, væna mín. Tylltu þér nú og segðu fréttirnar,“ sagði Páll hinn kátasti. „Ég þakka, því að nú er ég sannarlega hvíldar- þurfi, búin að ganga sundur nýja skó í leit að Sæunni stórbóndadóttur frá Bakka, ef þú kannast nokkuð við hana. Mér datt svona í hug að þú hefðir kannski séð hana bregða fyrir einhvers staðar nálægt þér,“ sagði Ráða. „Það hafa verið þynnuskór, sem þú ert búin að gatslíta á ekki lengri leið,“ sagði hann. „Ég kem alla leið neðan af Möl, en þangað sást hún skálma á sunnudagsmorguninn,“ sagði Ráða. „Það er náttúrlega dálítill krókur að fara ofan á Möl. Þið gátuð svona rétt ímyndað ykkur, að hún hefði komið hingað til allra kunningjanna. En satt var það og rétt, að hingað kom hún á sunnu- dagsmorguninn. En hún var á hraðri ferð, því að langt átti að fara, alla leið til Vesturheims. Ing- unn flutti hana eitthvað á hestum til þess að stytta henni leið. Hvar hún hefur skilið við hana, veit ég ekki,“ sagði Páll. „Ertu svínfullur eða hvað? Geturðu ekki talað eitthvað af viti við fólk. Ekki nema það þó, alla leið til Vesturheims. Hvað fólki getur doftið f hug,“ sagði Ráða. „Hefurðu aldrei heyrt það nefnt áður, að fólk fari til Vesturheims? Það er sagt að þar sé gott að vera,“ sagði Páll og hló. En þá var hún rokin inn í baðstofu, áður en harm sagði meira. Þar sátu þær, Ingunn og Ella, við tóskap, en Bergljót gamla lá undir sæng. Það var stór svipur á ferðakonunni, þegar hún kom inn á baðstofugólfið og bauð gott kvöld. Það þótti lítilfjörleg heilsa í þá daga. Hún hringsnerist á gólfinu og virti baðstofuna fyrir sér eins og hún hefði aldrei séð hana fyrr. „Ég er hingað komin til þess að fá fréttir af Sæunni litlu frænku þinni. Mér skildist það á Páli að þú gætir kannski veitt mér þær. Hún bara gekk nú í burtu á sunnudagsmorguninn og hefur ekkert frá henni heyrzt síðan. Það sást til henn- ar úti á Möl. Þvílík bölvuð hneisa sem þær systur gera foreldrum sínum og sér sjálfum. Móðir henn- ar er nú ekki vel ánægð með þetta framferði, svo að ég var send af stað. Okkur datt í hug að hún væri hér. Hún hefur ekki ósjaldan verið gestur á þessu heimili undanfarið,“ sagði Ráða. .Settu þig niður, Ráða mín,“ sagði Ingunn. „Þér veitir ekki af að fá einhverja hressingu, því að þú hefur lagt mikið á þig, býst ég við. Ég er ekkert hissa á því að sú móðir, sem býr þannig að börnum sínum, að þau ganga í burtu frá henni, sé eitthvað óróleg — svona eftir á,“ sagði Ingunn. „Það var áreiðanlega ekki Friðgerði að kenna. Hún hefur verið Sæju góð síðan hún kom heim úr veikindastússinu, heldur er þetta allt á milli þeirra feðginanna. Ég gæti nú kannski sagt þér það. ef það væri nokkur tími til þess,“ sagði Ráða. „Mig varðar ekkert um það. Það fréttist sjálf- sagt á sínum tíma. Þú skalt segja Friðgerði það, að Sæja sé á góðu heimili og að henni líði vel. Ég vona að hún uni sér þar. En ég þori ekki að láta uppi, hvar það góða heimili er. Kannski gerir bróðir minn þá út herferð á heimilið eins og hann gerði á Barði forðum og brjóta allt þar og bramli. En skömmina verða þau að þola, fyrst þau hafa ekki lag á því að búa almennilega að bömum sínum,“ sagði Ingunn. 52. Það var liðinn hálfur mánuður síðan Sæja fór út að Grænumýri. Enginn hafði komið með neinar fréttir af henni. Þá sást kvenmaður koma ríðandi utan Hlíðina einn daginn og stefna heim að Svelgsá. Allt heimilisfólkið stóð úti á hlaðinu og í bæjardyrunum, þegar gesturinn reið í hlaðið á litlum loðnum hesti. Það var Sæja. Hún bauð góðan dag áður en hún steig af baki. Svo gekk hún milli heimilis- fólksins og heilsaði því með kossum og kærleikum. Bergljót talaði um það við Ingunni, að það væri heldur léttara yfir henni núna, en þegar hún hefði verið að koma sér úr föðurhúsunum. „Jæja, Sæja mín,“ sagði Páll. „Ertu nú gengin í burtu frá Grænumýri?" „Nei, ekki aldeilis. Þar líður mér ágætlega,“ svaraði hún. „Það datt mér í hug. Og þarna kemurðu skeið- ríðandi eins og ríkismannskona. En ekki er hest- urinn líkur því, að hann hafi verið í hesthúsinu á Koluhóli í vetur,“ sagði hann. „Nei, hann væri nú varla svona sætur útlits hefði hann verið þar. Heldur hefur hann gengið úti í allan vetur, þess vegna er hann svona loðinn og hreinn,“ sagði hún. „Á Sveinbjörn hann?“ spurði Páll. „Nei, hann á ekkert hross.. Búið á hann, þau Bergljót og Júlli. Komdu hingað, Bergljót mín. Ég er hér með hest, sem þú átt,“ sagði Sæja. „Hvað ertu að segja?“ sagði gamla konan og gekk staflaust fram á hlaðið, þar sem allt heim- ilisfólkið stóð í hóp utan um hestinn og Sæju. „Á ég virkilega þennan litla fallega hest?“ Hún klappaði hestinum og strauk honum um makkann og höfuðið. „En hvað hann hefur lítil og falleg eyru og hvað hann er gæfur og vinalegur.“

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.