Dagur - 21.11.1998, Blaðsíða 5

Dagur - 21.11.1998, Blaðsíða 5
'TMSkáÖfl *j o o r a i o í» m 'i í\ »• r a m m »i n « ► n ti f. » _ rí\C aet / HiauaruV Aj'oíauu^Kj - CL LAITGARDAGUR 21. NÓVEMBER 1998 - 21 MENNINGARLÍFIÐ t LANDINU Isvip Þórarinn Eldjárn. í vikunni hlaut Þórarinn Eld- jám verðlaun JónasarHall- grímssonará degi íslenskrar tungu. Nýtt smásagnasafn Þórarins heitir „Sérðu það sem ég sé?“ Dagurhefur fengið góðjuslegt leyfi höf- undarog útgefanda til að birta lesendum eina söguna: í svip. Þau höfðu haft plastkortið með sér til Parísar og gátu því auðvitað hvenær sem er sótt sér pening í hraðbanka, en vissu af biturri reynslu að lífið yrði bara þeim mun erfiðara eftir að heim kæmi. Þess vegna höfðu þau ákveðið að reyna að halda í við sig og kaupa sem minnst. Þau ætluðu frekar að njóta borgarinnar sem mest með skilningarvitunum. Eitthvert smáræði kannski handa stráknum og ömmunni sem passaði hann. Kortið átti einungis að vera með til öryggis. Nóg ættu þau víst samt með að borga sjálfa ferðina og svo er uppihaldið alltaf meira en maður heldur, það kemur manni alltaf jafnmikið á óvart hvað það er drjúgt, jafn- vel þó fólk sé svo sem ekki að Ieyfa sér neitt sérstakt. En þau voru að reyna allt sem þau gátu til að setja undir þann leka: Morgunmaturinn á hótelinu var innifal- inn og þau tróðu sig svoleiðis út af hon- um að þeim varð næstum flökurt. Þannig héldust þau pakksödd fram eftir degi og svo keyptu þau líka ávexti og brauð og álegg í stórmörkuðum, gos og ódýrt rauð- vín, höfðu skrínukost og geymdu afgang- inn á míníbarnum í herberginu, en snertu auðvitað ekki það sem þar var á boðstólum á uppsprengdu verði. Og út að borða? Það hvarflaði ekki einu sinni að þeim að reyna neitt fínna en hamborgara. Hún hafði einmitt verið að grínast með það að hann gæti farið að skrifa í blöðin svona útúrsnobbaða sælkeraúttekt a la Jónas Kristjánsson. Þar gæti hann borið saman McDonald’s í Latínuhverfinu, McDonald’s á Champs-Elysées, McDon- ald’s á Montparnasse, við Bastillutorg, á Montmartre. Og svo er allt hitt sem verð- ur svo drjúgt, margt smátt sem gerir eitt stórt, fargjöld og aðgangseyrir og miðar. Jafnvel metró er ekki gefins og fólk freist- ast alltaf öðru hverju til að taka Ieigubíl þegar það er búið að ganga sig upp að hnjám. Maður gerir það í stórborgum, maður Iabbar eins og ekkert sé upp í Breiðholt og aftur til baka oft á dag og þykir ekki fréttnæmt. Eins söfn og sýn- ingar, það er merkilegt hvað það tuttlar í. Menningin er ekki gefins. Og bíó er jafn- vel dýrara en heima, að ekki sé minnst á leikhús og óperu. Þess vegna var það líka sem hún byrj- aði strax að draga úr honum þegar hann hafði gleymt sér og ákafur hent á Iofti bókina úr kassa við Signu, gamla og skrítna útgáfu á Miðjarðarför Juies Vernes, Leyndardómum Snæfellsjökuls: Tvö hundruð og fimmtíu frankar væri ansi mikið og hann gæti ekki beinlínis sagt að hann bráðvantaði þessa bók, væg- ast sagt stirðlæs á frönsku og var hann ekki líka sífellt að tala um hvað hann ætti margt ólesið heima, um alla kilina sem horfðu á hann ásökunaraugum ofan úr hans eigin hillum? Yfirleitt skynjaði hún í þeim orðum hans einhvern undirtón, eitthvað sem sagði henni að hún ætti sök á þessu. Væri nú ekki nær að hreinsa öll þau ósköp frá, svona til að byrja með? Og hann hafði Iagt bókina þegjandi frá sér og þóttist strax vera farinn að huga að ein- hveiju öðru, enda hafði hann aldrei sagt að hann langaði að kaupa þessa bók og ætlaði ekki að láta það sannast á sig að hann gengi á undan í eyðslunni, síst af öllu í eitthvað handa sjálfum sér. Samt var þetta auðvitað ekkert verð og ábyggi- lega hægt að selja bókina heima fyrir miklu meira og ekki þurfti neitt frönsku- séní til að skilja myndirnar sem voru stór- skemmtilegar. En ekkert af þessu sagði hann. Hann sagði ekki neitt. Aftur á móti reyndi hann að vera eins lítið hvetjandi og hann gat þegar hún hafði fundið sér hálsfesti á litlum útimarkaði skömmu síð- ar og bar hana við hálsinn á sér og horfði á sjálfa sig í litlum spegli sem stimamjúk- ur salinn var ekki seinn að bregða á loft. Svo sneri hún hálfhring í áttina til hans og leit á hann, ef til vill eins og hálfspyrj- andi. Hann sá að hana langaði í þessa festi og hann sá að hún fór henni vel, en var líkast til ekki búinn að jafna sig eftir Verne og Arne Saknússem. - Hvað finnst þér? - Ég veit ekki, svaraði hann, eins hlut- lausum rómi og hann gat, enda ætlaði hann ekld að vera sá sem bannaði eitt eða neitt. Hann iðraðist þess um leið og hún lagði frá sér festina, en það var orðið of seint, nú var sama hvað hann segði til samþykkis, allt hlyti það að hljóma eins og jæja þá, fy'rst þú endilega vilt, svo hann muldraði bara eitthvað um að hundrað frankar væru alltof hátt verð og sjálfsagt hægt að fá þetta utan við túrista- slóðir á miklu lægra verði, þó hann hefði ekki hundsvit á því. Og skyndilega var eins og þau hefðu ekkert lengur að segja hvort við annað. Þau sátu þegjandi í metró á leiðinni upp á Montmartre og hann gat ekki Iesið i augun á henni af því að hún var með sólgleraugun. Hún tók þau ekki einu sinni af sér inni í hálfrökkr- inu í Sacré-Cur. Ekld fyrr en á torginu rétt við kirkjuna þar sem allir listmálar- arnir falbuðu varning sinn, vatnslita- myndir og póstkortamálverk, eða buðust til að teikna myndir af ferðamönnum. Skyndilega svifu á þau tveir af þessum listamannastereótýpum, óðamála skratta- kollar með alpahúfur og hálsklúta í hita- svækjunni. Hún hikaði eitt augnablik og fór að skoða teikningarnar hjá þeim. Mennirnir tvíefldust er þeir þóttust þarna verða varir við einhvern veildeika, álitlegt fórnarlamb. Þeir réðust að henni og þröngvuðu henni beinlínis ofan á klapp- stólinn sem stóð við statífið þar sem ann- ar þeirra hafði blokkina sína. Þá fyrst leit hún til hans og tók af sér gleraugun, hún leit á hann og var með augnaráðinu að biðja hann að bjarga sér, en hann mis- skildi hana og hélt að hún hefði áhuga á að láta teikna sig. Hann vildi bæta fyrir festina og kinkaði kolli uppörvandi til samþykkis sem þó kom fullseint því blý- anturinn var þegar kominn á fulla ferð hjá listamanninum. - Tú öndred, tú öndred ónlí, sagði hinn og keyrði um leið setuna á hinum klapp- stólnum í hnésbæturnar á honum svo hann kiknaði í fótunum og ly'ppaðist nið- ur á stólinn. Hann ætlaði að mótmæla, en það var orðið of seint, maðurinn var byrjaður, og þarna mátti hann því dúsa eins og dauða- dæmdur og svipurinn á honum varð æ freðnari eftir því sem maðurinn galaði oftar og hærra að honum smæl, smæl! Honum leið ömurlega, en huggaði sig við það eitt að hún hefði viljað þetta, hann væri að þessu fyrir hana. Þau rnundu taka gleði sína á ný og svo kæmi þá líka ef til vill út úr því eitthvað sem yrði þeim til minningar um ferðina, um aldur og ævi. Kannski voru þetta frægir listamenn, eða ættu eftir að verða það. Seigfljótandi ferðamannastraumurinn silaðist hjá, margir stöldruðu við og horfðu á Iistamennina vinna. Það var ekki gott að ráða í svipinn á fólkinu, en flestir brostu breitt. Hann hugsaði um það hvað þeir væru nú fyrirlitleg gerpi þessir túristar, en áttaði sig um Ieið á því að auðvitað voru þau sjálf túristar, og að hinir höfðu sjálfsagt enn meiri ástæðu til að fyrirlíta þau sem þessum trúðum hafði tekist að gabba. Mennirnir voru ekki lengi að ljúka sér af, þeir signeruðu verk sín einhverju krumsprangi nær samtímis, lyftu blokkum af statífum og horfðu skæl- brosandi á fórnarlömbin meðan þau virtu fyrir sér útkomuna. Þegar þau stóðu frammi fyrir myndunum urðu þau orð- laus í fyrstu og skildu nú glottið á ýmsum þeirra sem fylgst höfðu með listamönn- unum að starfi. Myndirnar voru í sjálfu sér ekki slæmar, alveg þokkalega dregnar og sýndu tiltölulega mjög huggulegt fólk, en gailinn var bara sá að þetta var eitt- hvert allt annað fólk en þau sjálf. I ofaná- lag kom í Ijós að hann hafði misskilið verðið, þau reyndust eiga að borga tvö hundruð franka fyrir hvora mynd, fjögur hundruð alls, það var meira en bókin og festin samanlagðar. Hann reyndi að malda í móinn og ætlaði að kalla áhorf- endur til vitnis um að brögð væru í tafli, en þá var gervaliur söfnuðurinn farinn að hlæja, þau voru orðin að athlægi. Hún reyndi að mótmæla hástöfum, en þá þjöppuðu náungarnir sér upp að honum og urðu ógnvekjandi. Kunnu skyndilega enga ensku þegar hann reyndi að útskýra fyrir þeim að þau gætu ekki sætt sig við þetta. Og á endanum fann hann sig knú- inn að borga þrátt fyrir heitingar hennar. Þau sátu uppi með~ ómerkilegar blýants- myndir af bláókunnugu fólki og svo sem eins og til að bíta höfuðið af skömminni höfðu þessir svindlarar teiknað inn á myndirnar Eiffelturninn sem hvergi var þó sjáanlegur í nágrenninu. Þegar þau gengu burt voru þau farin að rífast há- stöfum: Þú vildir þetta, sagði hann, ég hélt þig langaði til þess. Og hún á móti: Nei, það varst bara þú sem lúffaðir fyrir þeim og leyfðir þeim að komast upp með helvítis frekjuna. Þeim var enn ekki runnin reiðin þegar þau komu heim á hótelherbergið. Samt tókst þeim að ákveða í sameiningu að þau skyldu rífa myndirnar í tætlur og fleygja þeim í kló- settið og minnast aldrei á málið við nokkurn mann, en ímynda sér í staðinn að þau hefðu verið rænd, sem reynar var alls engin ímyndun. Þau skruppu á McDonald’s á næsta horni og borðuðu þegjandi. Síðan heim aftur og háttuðu. Fyrsta kvöldið án þess að elskast í borg ástarinnar. Hún sneri sér frá honum og sagðist vera þreytt. Og það var enginn fyrirsláttur, hann heyrði hvernig hún datt út af og sofnaði á augabragði, andardrátt- urinn hægðist. Sjálfur gat hann ekki sofnað. Hann hlaut samt að hafa gleymt sér því allt í einu hrökk hann upp með andfælum. Hann vissi ekki hvað klukkan var, en það var aðeins tekið að bjarma af degi inn um eitt gluggahornið þar sem hansagardínan var biluð. Hann Ieit á konuna, hún hafði bylt sér og sneri nú að honum og skyndilega glaðvaknaði hann og settist skelfdur upp í rúminu eftir að hann hafði litið framan í hana. Þetta var ekki Bósa heldur konan á myndinni sem þau höfðu rifið og sturtað niður, hann sá það skýrt og greinilega og honum varð það efst f huga að komast í spegil. Hann þreifaði um andlit sitt og fannst eins og það hefði breyst. Hann hljóp fram úr og var fumandi og fálmandi að reyna að kveikja ljósið frammi á baðinu þegar hann heyrði að hún var vöknuð og farin að kalla um leið og hún kveikti á nátt- lampanum: - Þórður, Þórður, ertu þarna? Er eitt- hvað að? Honum fannst röddin skrítin og hann vissi ekki hvað hann átti að gera. Hann stóð með hönd á rofanum í baðherberg- inu og þorði ekki að kveikja. Þorði ekki að ganga inn og líta í spegilinn, þorði ekki að snúa til baka, þorði ekki að horfa framan í hana, þorði ekki að láta hana sjá framan í sig.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/251

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.