Dagblaðið Vísir - DV - 27.06.1987, Blaðsíða 16

Dagblaðið Vísir - DV - 27.06.1987, Blaðsíða 16
Það var greinilega kominn tími á hann. Þegar stjórnmálamaðurinn, kunningi minn, hnyklar brýrnar og skýtur um leið fram hökunni fer hann eins og sjálfkrafa að tala um „þjóðarhag." Þessi góði maður hefur alla tíð verið að hugsa um „þjóðarhag." En vegna þess að ég hef aldrei haft vit á þessum „þjóðarhag“ - og veit það eitt að það hefur eitthvað með þorsk að gera og atvinnuvegi af öðru tagi - verður mér jafnan á að skella við skollaeyrunum þegar hann byrjar á þessu með „þjóðar- hag.“ Ég fór að sjá til hans strax í menntaskóla. Þá var hann, sautján ára pjakkur, búinn að fá sér vestisföt og slaufu og setti puttana í vestisvasana, lék sér að úrfestinni og talaði hárri röddu um „stefnuna í landhelgis- málinu," eða utanríkismálin eða frelsi til hins og þessa. Svo fórum við að hittast hjá forn- bókasalanum. Pólitíkusinn les mest nítjándu- aldarskáldin - og svo auðvitað allt sem að nýlegri sögu lýtur og allt um pólitík. Fyrir nokkru sá ég að það var kominn tími á hann. Það er kominn tími á þig sagði ég við hann. - Hvað áttu við? spurði hann og renndi lítilli greiðu gegnum grá- sprengt hárið, reyndi að greiða þannig að sem minnst bæri á skall- anum sem er að byrja að myndast og gerir honum ögn gramt í geði. - Ég á við að þú ert búinn að atast í þessu alla tíð, aldrei þegið neitt nema þingmannslaun síðustu tíu árin, þóknun fyrir nefndapuðið og þess háttar, stöku reisu til Norð- urlandanna - nú er kominn tími á þig. Ef þú verður ekki ráðherra núna þá ertu búinn að vera. Sem slíkur, sagði ég og viðurkenni að ég var ekki að skafa utan af því. Ég skil hvað þú átt við sagði hann áhyggjufullur. Veistu, hélt hann svo áfram eftir andartaks þögn. - Ég hitti gamlan skólabróð- ur í gær. Við vorum saman í lögfræðinni. Hann gaf sig aldrei út í pólitík öðruvísi en að sýna ákveðinn lit, starfaði fátt, var bara að rukka í ró og næði. Nú er hann í mestu makindum með feitasta innheimtusamning sem sögur fara af á ísa köldu landi og tekur inn eina komma fjórar á mánuði. - Ég trúi þér ekki, sagði ég og var í raun og veru gapandi hissa. Eina komma fjórar? Það hlýtur að vera met. Hefur maðurinn brúk fyrir allt þetta fé? - Ég þekki það úr pólitíkinni að það er enginn vandi að eyða pen- ingum. Ekki nokkur. Hann á fjögurra hæða villu í hjarta bæjar- ins, tvö sumarhús og allt til alls. Og harðari baráttumann fyrir mál- stað lítilmagnans hittirðu ekki á reykvískum stéttum um þessar mundir. - Eina komma fjórar, sagði ég aftur. - Já. Satt best að segja fannst mér erfitt að tala við manninn sem jafningja. Það er bara eitt til ráða sagði ég. - Hvað? - Þú verður að komast í þessa ríkisstjórn hvað sem tautar og raular. Það verður að ná fénu af svíninu. Hann á það ekki skilið. MILLI LÍNA Gunnar Gunnarsson - Það er satt, sagði pólitíkusinn. - Hann á það ekki skilið, þessi titt- ur. Og það er mér stöðugt um- hugsunarefni þegar ég kemst að því að ég sem hef ekki hugsað um ann- að en þjóðarhag alla ævi er ekki á nema rösklega verkamannslaunum fyrir vikið. Ef fólk bara vissi hvað það kostar að gera út einn þing- mann - þingmann á uppleið. - Hvað kostar það? spurði ég því ég hef svo gaman af að heyra háar tölur. - Það kostar ein jakkaföt af besta merki á hverju ári. Ég hef það fyr- ir reglu að mæta í nýjum galla á hverju hausti. Veistu hvað svona slaufa kostar? - Nei, sagði ég. - Hún kostar þrjú þúsund íslen- skar krónur. - Ég skil, sagði ég. - Þú átt við að þér finnist að það eigi að greiða ykkur vinnufatastyrk? - Já, sagði hann vonleysislega eins og hann væri undir niðri viss um að ástandið væri vonlaust og þýddi lítið um þessa hluti að ræða við fávísan blaðamann. - Vinnufatastyrk. Og svo óendan- lega margt til viðbótar. Hvernig á ég annars að geta umgengist einn rukkara með eina komma fjórar á mánuði sem jafningja? Og hann tilheyrir einhverjum alþýðuvina- flokki en ég stend með þeim ríku. Þetta er ekki réttlátt! Hvað segir konan? spurði ég til þess að segja eitt- hvað - og fannst að þau hjón hlytu að vera með ráðagerðir vegna þess- arar óbærilegu fátæktar. - Konan? Hún segir það sama og þú. Hún segir að það sé kominn tími á mig. Eina ráðið til að krækja í aðeins fleiri krónur á mánuði er að komast í stól, ráðherrastól. En ég veit fjandakornið ekki hvort það er þess virði að vera eltast við þetta. Ráðherra er ekki með nema tæp tvö hundruð þúsund á mánuði fyrir utan bíl, risnu og önnur fríð- indi. Hann fær til dæmis ekki vinnufatastyrk, verður að borga skatt af öllu saman - og er eftir sem áður víðs fjarri rukkaranum. - Þetta er samt eina ráðið, sagði ég. - Já, sagði hann. Það er rétt. En okkur hefur raunar komið annað í hug. - Hvað er það? spurði ég forvitinn því að ég er svo einfaldur að halda að það merkilegasta sem einn þing- maður gæti lent í væri að komast í ráðuneyti. - Konan er að gæla við þá hug- mynd að flytja úr landi. - Flytja úr landi? - Til Bandaríkjanna. - Og gera hvað? Reyna að kom- ast í kvikmynd? - Ævintýrin gerast enn í Banda- ríkjunum. Ég þekki mann sem fór þangað fyrir tveimur árum með eintómar skuldir á bakinu og stofn- aði samt byggingarfyrirtæki og gengur vel, á einbýlishús, sumar- hús og fimm sex bíla. - En þú hefur svo mikinn áhuga á þjóðarhag að þú getur ekki farið. Svo hefur þú ekkert vit á bygging- um. - Það er rétt, sagði hann. Og ég er ekki hættur að hugsa um þjóðar- hag. Ég er að hugsa um að fara vestur til að selja Könum íslenskt lambaket. Þeir hefðu gott af því að éta soldið af feitu fjallalambi. Og mætti kenna þeim að borða hangiket á jólunum. Ég held að ég geti reddað bæði sjálfum mér og íslenskum bændum með þessu móti. Þú hefur alltaf þráð að fá að fórna þér sagði ég. - Já, sagði hann. - Lífið er hart. Maður verður að vera fær um að selja einhvern fjárann - sama hvað það er. - Láttu þá ekki hafa af þér stól- inn, sagði ég uppörvandi og gekk hugsi út í vornóttina. -GG

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.