Dagblaðið Vísir - DV - 15.08.1987, Blaðsíða 4

Dagblaðið Vísir - DV - 15.08.1987, Blaðsíða 4
42 LAUGARDAGUR 15. ÁGÚST 1987. „Líður best innan um íslenska sérvitringa“ - Lawrence Millman rithöfundur lætur móðan mása um norðurhj arabúa Ég held að ég hafi fyrst heyrt Law- rence Millman nefndan fyrir röskum f]órum árum þegar hann hringdi í mig óforvarendis til að láta í ljós áhyggjur sínar yfir því hvernig búið væri að verkum Karls Dunganon í Listasafni íslands, vildi svo fá að vita meira um sér- vitringinn þann. Auðheyrt var af írónískum undir- tóninum í rödd mannsins að hann vissi þá þegar talsvert meira um ísland og Islendinga en hann lét uppi. Ég lagði mitt af mörkum til sam- talsins, grennslaðist svo fyrir um þennan fjölvísa Bandaríkjamann. I ljós kom að hann átti sér stóran kunningjahóp á Islandi sem ekki lá á upplýsingum um feril hans og ferðalög því mestan part starfsævi sinnar virtist hann hafa verið á faraldsfæti. Til íslands kom Millman sem Fulbright kennari árið 1982. en þá hafði hann þegar skrifað tvær bæk- ur, „Our Like Will Not Be There Again" (1977). sem er frásögn af dvöl höfundar meðal gamalla sagnaþula á írlandi. og skáldsög- una „Hero Jesse" (1982) sem kom til greina við úthlutun PEN/ Er- nest Hemingway bókmenntaverð- launanna. Síðan hafa komið út eftir Mill- man þýðingar hans á skáldskap eftir Grænlendinga, „Smell of Earth and Clay“ (1985), og kverið „Parliament of Ravens“(1986) sem inniheldur prósaljóð, örsögur og smásögu frá íslandi. Nú er á leiðinni safn þjóðsagna frá Grænlandi og Norður-Kanada, „ A Kayak Full of Ghosts", sem Millman hefur safnað og endur- sagt. Orðheppinn og launfyndinn Þegar þetta er skrifað er Millman að sanka að sér efni í doðrant um mannlíf hér á norðurslóðum, sem væntanlega kemur út eftir tvö ár hjá Houghton-Mifflin forlaginu en í þeirri bók verður að stórum hluta fjallað um okkur Islendinga. Símkynni okkar Millman leiddu síðan til bréfaskrifta sem leiddu svo til þess að ég pantaði hjá honum greinar og þýddi, bæði fyrir tímari- tið Storð og DV. Það var hins vegar ekki fyrr en nú í sumar að við pennavinirnir hittumst. Millman reyndist vera alveg eins og bréfin sem hann skrif- ar, mælskur, orðheppinn og laun- fyndinn. Honum stendur ekki á sama, hvorki um fólk né orðsins list. Sam- ræður eru honum sem tæki til að snurfusa hugmyndir, slípa hugtök, negla niður hárrétt orð, koma reglu á heiminn. Jafnframt er Millman góður hlustandi og spyr eins og aðkomumaður úr Mývatnssveit, ekki Cambridge, Massachusetts, þar sem hann dvelur þegar hann er ekki á norðurslóðum. En eftir hverju er bandarískur rithöfundur að slægjast hér á norð- urhjara? Millman var fús að svara þeirri spurningu, svo og öðrum slíkum, var auk þess óspar á óspurðar fréttir. Orð eru líka afdrep „Ég hef alltaf kunnað vel við mig á berangri, á afskekktum stöðum í Norður-Kanada, Grænlandi, Al- aska. Það er eitthvað yfirmáta heilbrigt við auðn og öræfi, slíkt landslag gerir meiri kröfur til manneskjunnar heldur en gróður- sælt suðrið. Til þess að komast af í auðn, þarf maðurinn að skapa sér afdrep. Orð eru líka afdrep. Það er fátt sem fvllir mig eins miklum innblæstri og grýtt eyðimörk í allri sinni nöt- urlegu fegurð. Ég held að þessar aðstæður geri norðurhjarabúa frjórri í andanum heldur en þá sem búa sunnar á jarðkringlunni og hafa ofgnótt náttúrunnar fyrir augunum upp á hvern dag. Eru til mikilhæfari rithöfundar í heiminum í dag heldur en norður- hjarabúarnir Halldór Laxness og William Heinesen? Það er einmitt andagift norður- hjarabúa sem gefur þeim sterka og oft sérviskulega skapgerð, sem ég kann vel að meta. Þess vegna líður mér best innan um fólk eins og sr. Rögnvald Finnbogason, Þórð á Dagverðará, Jóhann Pétursson vitavörð og þau heiðurshjón Þor- geir Þorgeirsson og Vilborgu Dagbjartsdóttur. Ég er ekki síður að skrifa um skapgerð Suðureyjabúa, Færey- inga, Islendinga og Grænlendinga heldur en það sem fyrir augu ber á hverjum stað. Meir um fólk en plöntur Ferðabók? Já og nei. Ég nota gamalt áhrifasvæði Víkinga, frá Suðureyjum til Nýfundnalands sem nokkurs konar ramma utan um mjög svo persónulegar hugleið- ingar um mannlíf á þessum slóðum. Þótt undarlegt megi virðast finnst mér mannfólkið mun áhuga- verðara heldur en fuglar eða plöntur. Ég hefi líka meiri áhuga á draugum en plöntum. Það er kannski þess vegna sem mér finnst ég eiga samleið með Is- lendingum sem eru mjög uppteknir af draugum. Er ekki draugasagan fullkomnasta frásagnarform sem til er? Það er nefnilega ekki nóg að segja frá draugagangi heldur verð- ur sögumaður að geta gert frásögn sína bæði trúverðuga og ógnvekj- andi. En huldufólk kann ég ekki að meta. Kannski er það vegna þess hve mikið var gert úr tilvist þess í tengslum við leiðtogafundinn. Væri ég huldumaður hefði ég tek- ið mér tvö hundruð ára frí eftir fundinn þann. I bókinni tek ég mér það bessa- leyfi að hlaupa út undan mér í allar áttir, og agnúast út af ýmsu því sem ég hef ímigust á, jafnvel þótt það komi málinu ekki beinlínis við. Það verður að vera skap í bókum Það verður að vera skap, jafnvel ófyrirleitni, í svona bókum, annars er best að láta þær óskrifaðar. En best er að segja það strax að þótt bókin sé byggð á upplifunum mínum hér á slóðum víkinga, þá er ég alls ekki að fjalla um það svæði sem heild. Enda erum við að tala um fólk af norrænum, breskum og græn- lenskum, eða inuit, uppruna. Fyrir utan indíána í Labrador. Þó eiga þessar norðurhjaraþjóðir eitt sameiginlegt. Þær eru allar yfirmáta gestrisnar en þurfa ævin- lega að vera að biðjast forláts á gestrisni sinni. Ég hef miklu meiri áhuga á að draga fram það sem frábrugðið er með Færeyingum, íslendingum og Grænlendingum heldur en skil- greina sameiginlega arfleifð þeirra. I. Færeyjum tókst mér að sjá grindardráp sem mér fannst ekki nándar nærri eins viðurstyggilegt og ég hafði búist við. Það var eitt- hvað upprunalegt, jafnvel mikil- fenglegt, við að sjá Færeyinga koma aðvífandi í glænýjum Benz- um og BMW bílum sínum, vippa sér út úr þeim og nútímanum, til að vaða út í blóði drifinn sjóinn með breddurnar á lofti. Þetta var að minnsta kosti stór- um uppbyggilegri sjón heldur en að horfa upp á þá græða peninga, sem þeir eru stöðugt að gera. Færeyingum sama um túr- ista Svei mér þá ef Færeyingar lifa ekki enn ríkmannlegar en Islend- ingar. Og er þá mikið sagt. En þessu ríkidæmi Færeyinga fylgir talsverð þröngsýni og skinhelgi. Og meiri meðalmennska en á Is- landi. Einmitt þess vegna finnst mér gott hjá þeim að halda í grind- ardrápið, hvað sem heimurinn tautar og raular. Færeyingum stendur einnig á sama um túrista. Þeir mega koma ef þeir vilja, en þá verða þeir að sitja og standa eins og heimamenn segja fyrir um. Þeir leggja sig ekk- ert sérstaklega fram til að þóknast þeim. Þeir skilja heldur ekki hvað íslendingum er umhugað um að fá túrista h.dm til sín. íslendingar mættu gjarnan taka þá sér til fyrirmyndar í svona þrjósku. Þið eruð svo hræddir við að styggja stóra bróður í vestri sem gæti tekið upp á því að hætta að kaupa af ykkur þorskinn. Þið gefið jafnvel út blöð og tímarit eins og News from Iceland og Iceland Revi- ew, sem eiga að hafa okkur Bandaríkjamenn góða, fullvissa okkur um það hvað þið séuð elsku- legt fólk og merkilegt, en þurfandi og þakklátt fyrir bandaríska mark- aði. Vissulega eruð þið merkileg þjóð, en ekki endilega vegna þess hvað þið lesið mikið, eigið marga heita hveri og eruð heppin með forseta. Vemmilegar endurminning- ar karlægra bænda Ég hef séð mikil bókasöfn á bóndabæjum hér, en ég hef líka rekist á fjölda bóka meðal Græn- lendinga, Færeyinga og kanadí- skra eskimóa. Eru Islendingar ekki mestmegnis að lesa vemmilegar endurminning- ar karlægra bænda? Svo skilst mér. Nei, ég held að goðsögnin um ís- lenska lestrarhestinn sé tilbúning- ur bandarískra túrhesta sem halda að menn þurfi að hafa háskóla- gráður til að mega opna bækur. Ég hef langtum meiri áhuga á að skrifa um sálarlíf íslendinga og skaphöfn, umburðarlyndi þeirra, hjálpsemi - og sérvisku. Ég hef komið mér upp kenníngu um náin tengsl milli umhverfis og sálarlífs. Landslagið verður smátt og smátt eins og hluti af skaphöfn manneskjunnar. Islenskt landslag er svo óvenju- legt, síbreytilegt og undarlegt. I tímans rás hafa þeir uppivöðslu- seggir, sem komu til fslands frá Noregi, breyst í takt við landslagið. Þess vegna er heita hveri, jökul- kaldar ár og eldfjöll að finna í einni og sömu manneskjunni hér á Is- landi. Og enn eru íslendingar jafnuppi- vöðslusamir. En þú spurðir mig um norður- slóðir sem heild hér áðan. Sú heild er frekar aðlaðandi hugmynd en veruleiki. Vettvangur fyrir hernaðar- umsvif En nú eiga lönd á þessum slóðum, Suðureyjar, Færeyjar, ísland, Grænland og Labrador, sameigin- legra hagsmuna að gæta. Þau eru í síauknum mæli orðin vettvangur fyrir hernaðarumsvif risaveldanna. Færeyingar sitja uppi með rat- sjárstöð sem Danir hafa komið fyrir hjá þeim, Grænlendingum er mein- illa við bandarísku herstöðvarnar þar í landi, sérstaklega eftir að upp komst kjarnorkuslysið sem varð þar fyrir mörgum árum, og nú eru túndrurnar, sem eru heimalönd Nescapi indíána á Labrador, stöð- ugt notaðar til að æfa innrásir í Sovétríkin. Þessar æfingar ganga undir nafninu „Deep Strike“ og eiga að verá leyndó en það er erfitt að leyna hvínandi orustuflugvél- um. Auðvitað er þetta allt gert að indíánunum forspurðum. Veiðilönd þeirra hafa verið út- svínuð og hreindýrin, sem þeir lifa á, eru stokkin á brott. Vinur minn, séra Baldur Vil- hjálmsson, segir líka að bandarísk- ur her eigi álíka mikið erindi til Islands og vísigotar til Róms forð- um daga. Ég er eiginlega á sama máli. Og ef þú ætlar að spyrja um rauðu hættuna þá svara ég því til að ég tel enn meiri hættu stafa af ofstæk- ismönnum í Washington. Hundurinn hennar Pamelu En höldum okkur við bækur. Það er að minnsta kosti ekki hægt að drepa neinn með þeim. Ég held að ekki hafi verið gefin út reglulega góð bók um ísland síð- an Dufferin lávarður sendi frá sér „Letters from Northern Latitudes" árið 1855. Víst er gaman að bók Audens en hún fjallar meir um Byron lávarð en Island, auk þess sem tónninn er helst til hommalegur fyrir minn smekk. Þá eru sæmilegar íslandsbækur víst upp taldar. Ég tel ekki með doðrant frú Pam- elu Sanders, fyrrverandi sendi- herrafrúar, vegna þess að hann segir mest af hundi höfundar. Hvort mín bók verður markverð viðbót við Islandslitteratúr veit ég ekki. En hún verður öðruvísi, það get ég ábyrgst.“ -ai

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.