Dagblaðið Vísir - DV - 19.01.1990, Blaðsíða 14

Dagblaðið Vísir - DV - 19.01.1990, Blaðsíða 14
14 FÖSTUDAGUR 19. JANÚAR 1990. Útgáfufélag: FRJÁUS FJÖLMIÐLUN HF. Stjórnarformaður og útgáfustjóri: SVEINN R. EYJÓLFSSON Framkvæmdastjóri og útgáfustjóri: HÖRÐUR EINARSSON Ritstjórar: JÓNAS KRISTJÁNSSON og ELLERT B. SCHRAM Aðstoðarritstjórar: HAUKUR HELGASON og ELlAS SNÆLAND JÓNSSON Fréttastjóri: JÓNAS HARALDSSON Auglýsingastjórar: PALL STEFANSSON og INGÓLFUR P. STEINSSON Ritstjórn, skrifstofur, auglýsingar, smáauglýsingar, blaðaafgreiðsla, áskrift, ÞVERHOLTI 11,105 RVlK.SlMI (1 )27022 - FAX: (1J27079 Setning, umbrot, mynda- og plötugerð: PRENTSMIÐJA FRJÁLSRAR FJÖLMIÐLUNAR HF„ ÞVERHOLTI 11 Prentun: ÁRVAKUR HF. - Áskriftarverð á mánuði 1000 kr. Verð I lausasölu virka daga 95 kr. - Helgarblað 115 kr. Er Alþýðubandalagið til? Þær spurningar leita á hugann, hvort Alþýðubanda- lagið sé yfirleitt til sem flokkur. Þessar spurningar uxu eftir síðasta fund Alþýðubandalagsins í Reykjavík í fyrrakvöld. Ljóst er hverjum sem hugsa vill, að Al- þýðubandalagið í Reykjavík er svo klofið, að þar er um að ræða tvo flokka. í fyrrakvöld var til umræðu, hvort Alþýðubandalagið sameinaðist fleiri flokkum um sam- eiginlegt framboð nokkurra vinstri flokka fyrir borgar- stjórnarkosningarnar í vor. Félagið Birting, sem heyrir til Alþýðubandalaginu, hafði samþykkt að stefna skyldi að sameiginlegu fram- boði vinstri flokka. Birting hefur gengið gegn flokkseig- endafélaginu í Alþýðubandalaginu og meðal annars vilj- að ganga í Alþjóðasamband jafnaðarmanna. Því hafa harðlínumenn hér svarað, að Birting ætti einfaldlega bara að ganga í Alþýðuflokkinn. En Birting hefur reynzt fylgissterk innan raða Alþýðubandalagsins. Á síðasta landsfundi náðu Birtingarmenn ýmsu fram og fengu menn kjörna til trúnaðarstarfa. Þó varð sú niðurstaða á landsfundinum, að fulltrúi flokkseigendafélagsins, Steingrímur J. Sigfússon ráðherra, var kjörinn vara- formaður. En nú takast þessar fylkingar á hér í Reykja- vík, um að hve miklu leyti leitað skuli samstarfs við aðra vinstri flokka. Birting samþykkti í síðustu viku ályktun, þar sem lýst er yfir eindregnum stuðningi við sameiginlegt framboð svokallaðra lýðræðisafla gegn einsflokksveldi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. í álykt- uninni sagði, að reynslan sýndi, að framboð margra flokka væri ekki líklegt til að rjúfa valdaeinokun Sjálf- stæðisflokksins í borginni. Birtingarmenn telja, að auð- velt muni reynast að skapa málefnagrunn fyrir sameig- inlegt framboð. Birtingarfólk telur, að sameiginlegt framboð geti náð til óflokksbundins fólks. Grundvöllur að skipan framboðslista yrði opið prófkjör. Frambjóð- endur sameinaðs hsta mundu skipa borgarmálaráð. Um þetta er það að segja, að líklegt er, að telja megi Kvennalista og Framsóknarflokk út úr þessari mynd. Borgaraflokkurinn hefur einnig tekið hugmyndinni dræmt. Alþýðuflokksmenn í Reykjavík hafa verið já- kvæðari, enda bera þeir víurnar í félagsmenn í Birt- ingu. Afstaða Alþýðuflokksins skýrist betur á morgun. En stjórn fulltrúaráðs Alþýðuflokksins í Reykjavík hef- ur samþykkt að leggja fram tillögu um sameiginlegt framboð nokkurra vinstri flokka í Reykjavík. En eftir fundinn í fyrrakvöld og fyrr verður ekki hjá því komizt að segja „að Alþýðubandalagið sé svo klofið, að þar fari fremur tveir flokkar en einn. Til umræðu átti að vera, hvort Alþýðubandalagið stæði að sameigin- legu framboði fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Á fundinum var hins vegar samþykkt tillaga frá flokkseig- endafélaginu. Þar var að vísu skírskotað til þess, að sameiginlegt framboð vinstri flokka væri æskilegt. En í raun var verið að hafna hugmyndum Birtingarfólks. Framkominni tillögu um viðræður um samfylkingar- framboð væri vísað til næsta félagsfundar eða þar til formleg beiðni þar að lútandi hefði borizt. Birtingarfólk segir, að á fundinum hafi verið sam- þykkt frestun en ekki höfojin. En í raun standa mál þannig, að Birtingarfólk, lýð- ræðiskynslóðin, á ekki heima í Alþýðubandalaginu und- ir stjórn flokkseigenda. Hitt er svo annað mál, að sameiginlegt framboð vinstri manna er ekki líklegt til árangurs. Haukur Helgason „Hiö illa í stjórnarfari kommúnistaríkjanna sameinaði fólk í baráttunni gegn því... “ - frá bardögunum í Búkarest. Vænlingar og vonbrigði Það er gömul saga og ný að þegar hömlum er skyndilega aflétt fara menn oft að hegða sér hömlulaust. Þaö er nú að byrja að koma í ljós í ríkjum kommúnismans þar sem langvarandi oki lögreglu og of- stjómar hefur verið aflétt. Þegar forsjár hins alls ráðandi og allt vitandi kommúnistaflokks gæt- ir ekki lengur kann almenningur ekki fótum sínum forráð. Almenn- ingur í þessum löndum er því öld- ungis óvanur að ráða nokkru sjálf- ur, nú allt í einu vill fólk fara að ráða á hinum ólíkustu sviðum. Illu heilli eru það oft alls kyns fordóm- ar og þjóðremba sem fólki í þessum ríkjum hggur mest á að fá útrás fyrir. Gott dæmi er Búlgaría, þar sem lýðræði hefur aldrei í sögu landsins náð til almenmngs og frumhugtök þess óþekkt. Á síðustu dögum og vikum hafa veriö settar fram há- værar kröfur þar í landi um þjóðar- atkvæðagreiðslu um að svipta hluta landsmanna borgaralegum réttindum. Búlgarir eru að mót- mæla því að hin nýja stjóm lands- ins hefur veitt tyrkneska minni- hlutanum full réttindi og vill að fyrri stefnu kommúnistaflokksins um mismunun og ofsóknir gegn Tyrkjum verði haldið áfram, rétt eins og hægt sé að afnema mann- réttindi með þjóðaratkvæða- greiðslu. Sams konar þjóðremba og for- dómar eru undirrót hinna alvar- legu átaka í Kákasuslýðveldum Sovétríkjanna. Azerar í Azerba- isjan ofsækja Armena sín á meðal og vilja sameinast trúbræðmm sín- um handan landamæranna í íran. í Georgíu hafa Georgíumenn skorið upp herör gegn Ossetíu- mönnum meðal sín, í Usbekistan bepast Usbekar við Meshketa inn- an sinna landamæra. Það fyrsta sem kemur upp í almenningi á þessum stööum er þjóöremba, ekki lýðræðisást, og þessi þróun veit ekki á gott. Um gjörvalla Austur- Evrópu er fjöldi þjóðarbrota innan landamæra ósamstæðra ríkja og fjandskapur þeirra á milli ristir jjúpt. Forsjárhyggja Það er fyrirsjáanlegt að afnám kommúnismans í Austur-Evrópu mun í fyrstu leiða til glundroða og trúlega versnandi afkomu almenn- ings. Þaö mun velta á því hversu vel gengur aö komast yfir efna- hagserfiðleikana hversu sterkum rótum lýðræðið skýtur. Breyting frá áætlunarbúskap yflr í markaðs- búskap mun víðast leiða til gjald- þrota íjölda fyrirtækja, skorts og atvinnuleysis. Það er ekki þaö sem fólk var að beijast fyrir með því að velta af sér oki kommúnismans. í meira en 40 ár hefur ríkisforsjá á öllum sviðum mótað allt þjóðlíf í þeim sex löndum Austur-Evrópu sem nú eru að stíga sín fyrstu skref í átt til vestræns lýðræöis. Kjallariim Gunnar Eyþórsson fréttamaður Almenningur í þessum löndum hefur ekki vanist því að taka ábyrgð á sjálfum sér, ríkið hefur séð fyrir frumþörfum og litið hefur verið á þaö sem frumskyldu rikis- ins að sjá öllum fyrir lifibrauði. í lýöræðisríkjum verða einstakling- ar aö sjá fyrir sér sjálfir og fyrir- tæki verða að skila arði. Þaö á eftir að koma í ljós að hve miklu leyti almenningur í þessum ríkjum er tilbúinn til að hverfa frá forsjárhyggju ríkisins yfir í að standa á eigin fótum í markaðs- þjóðfélagi. Það er víst að sú breyt- ing verður sársaukafull og á eftir að valda þeim vonbrigöum sem mestar vonir hafa bundiö við fall kommúnismans. Það getur líka komið í ljós að sá hugsunarháttur sem 40 árá komm- únismi hefur leitt af sér standi miklu fastari fótum en menn grunar og brotthvarfið frá komm- únismanum verði ekki eins algert og menn gera nú ráð fyrir, jafnvel þótt fjölflokkalýðræði verði komiö á. Kosningar Á þessu ári standa fyrir dyrum kosningar í öllum þeim ríkjum sem losuðu sig við einræði kommúni- staflokka á síðasta ári. Það er sam- eiginlegt með öllum þessum ríkjum að hvergi er til neitt eitt öflugt mótvægi við kommúnistaflokkana. Alls staðar hafa sprottið upp ótal smáflokkar og flokksbrot, leifamar af kommúnistaflokknum eru eftir sem áður stærsta skipulega stjórn- málaaflið í þessum ríkjum. Smá- flokkamir munu alls staðar fá meirihluta í kosningunum, aö því er fullvíst er taliö, en þær ríkis- stjórnir sem þá verða myndaðar verða samsteypustjórnir margra ólíkra flokksbrota, sem mörg hver hafa ekki aðra stefnuskrá en að vera á móti kommúnistaflokknum. Það er ekki hægt að byggja stjórn ríkis á andstöðu einni saman, það er hætta á að það verði veikar ríkis- stjómir, oft gegnsýrðar af þjóð- rembustefnu smáflokka, sem tak- ast á við illleysanleg vandamál í niðurníddu efnahagslífi fyrrum kommúnistaríkjanna. Slagorð og glundroði í alræðisríkjum er það ríkið sem hugsar fyrir þegnana og setur þeim markmið sem keppa ber að, eins og sjá hefur mátt afþeim hvimleiöu áróðursskiltum sem hvarvetna blöstu við í borgum Austur-Evr- ópu. Innantóm slagorð um aö fram- leiða meira eða byggja upp sósíal- isma áttu að vera sameiginlegt markmið allra og til eru þeir sem taka þetta bókstaflega. í lýðfrjálsu þjóðfélagi verður ein- staklingurinn sjálfur að skipu- leggja.líf sitt, ríkiö gerir það ekki fyrir hann. Lýðræðið sem slíkt hef- ur ekkert endanlegt markmið, það er meðal en ekki tilgangur. Wins- ton Churchill er skrifaður fyrir þeirri athugasemd um lýðræði að það sé versta stjórnarfyrirkomulag sem til sé, en allt annað fyrirkomu- lag sé verra. Almenningur í Austur-Evrópu varpaði af sér á síðasta ári vondu stjómarfari og er nú að glíma við það versta, svo áfram sé haldið með vísdómsorð Churchills. Það er ævinlega svo að hið illa er áþreifan- legra en hið góða. Hið illa í stjóm- arfari kommúnistaríkjanna sam- einaði fólk í baráttunni gegn því. Nú þegar markmiðinu er náð blas- ir tómleikinn við með tilheyrandi hættu á glundroða. Lýðræði og frelsi er aðeins aðferð tii að stjórna samfélagi manna, það er ekki allra meina bót. Minna má á hvemig fór fyrir hinum nýfrjálsu ríkjum Afríku um 1960, þegar þau fengu sjálfstæði, frelsið reið þeim sumum nærri því að fullu og þau eru flest verr stödd ennþá en með- an þau voru nýlendur. Á síðasta ári sameinaðist al- menningur í Austur-Evrópu gegn valdhöfum. Það er öldungis óvíst að almenningur sameinist um hina nýju valdhafa, væntingamar til þeirra munu bregðast og óánægja magnast. Árið 1989 var ár hinna miklu væntinga, árið 1990 verður trúlega ár hinna miklu vonbrigða. Gunnar Eyþórsson „Arið 1989 var ár hinna miklu vænt- inga, árið 1990 verður trúlega ár hinna miklu vonbrigða.“

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.