Dagur - 26.10.1982, Blaðsíða 8

Dagur - 26.10.1982, Blaðsíða 8
Minning Margrét Sigurðardóttir Ung var ég að árum þegar ég heyrði getið Margrétar á Grund. Sú saga, sem henni var borin var á þann veg, að ég fékk inn í vitund mína mynd af konu, sem mig langaði mjög til að líta augum. Var þó hneigð mín til mannfræði ekki ýkja snar þáttur á þeirri tíð. En ár liðu og ei rættist óskin. Svo var það eitthvert sinn er foreldrar mínir komu úr för til Akur- eyrar, að þau færðu mér kveðju frá frændkonu minni, húsfreyjunni á Grund og þá orðsending, að hún bæði mig að koma í heimsókn til hennar að Grund, fyrr en seinna - helst næst þegar ég kæmi inn yfir Vaðlaheiðina, ef ég fengi því við komið. Þessi skilaboð færðu mér mikinn fögnuð. Það var ekki á hverj- um degi sem slíkt veittist. Og svo var það á mildu vorkvöldi, að ég stóð á hlaðinu á hinu sögufræga setri, Grund í Eyjafirði, stórhrifin af glæsileik þess. Full eftirvæntingar kvaddi ég dyra, en jafnframt fann ég til feimni og örlítils kvíða. Myndi ég kunna mig hér? Á þessu stóra heimili yrði mér flest framandi. Eigi man ég nú lengur hver lauk upp dyrum, en sá kallaði til húsfreyju og kom hún að vörmu spori - tíguieg kona og hýr á svip. Eg sagði til mín, og þá brosti hún og fagnaði mér innilega Það var mikið sólskin í brosinu og hlýjan frá handtakinu vermdi lengi. Öll ófram- færni hvarf mér - hvað þá kvíðinn. Ég fyrirvarð mig að hafa kennt hans. Mér var svo sannarlega tekið tveim höndum. Eftir viðmótinu fóru veit- ingarnar. Á bak við hvorttveggja bjó hin sanna gestrisni. Eigi hafði ég ver- ið lengi í návist Margrétar og skipt við hana orðum, þegar mér fannst líkt ög ég hefði alist upp með henni, áhrifin frá persónugerð hennaf voru þannig. Aðrir á heimilinu tóku mér, unglingnum, framandi gesti með alúð - og ég fann mig heima. Ég gisti tvær nætur á Grund, var dag um kyrrt. Mér bauðst lengri dvöl, en ferðaáætlun mín kom í veg fyrir að svo yrði. Ég sá margt fallegt á þessu glæsi- lega heimili og merka setri. En kirkjan, hið veglega guðshús orkaði sterkast á mig eigi síst vegna þeirrar staðreyndar að það var fyrir stórhug og höfðingslund eins manns, sem hún reis. Æ síðan, er ég kem í Grundarkirkju, finn ég sérstakan hugblæ. Æskuminningarnar tala skýru máli. Því miður varð mér þess ekki auðið að fara nema í þá einu heimsókn, sem hér getur til Margrét- ar á Grund, á meðan hún skipaði húsfreyjusætið þar. En eftir að hún flutti ásamt manni sínum, Ragnari Davíðssyni til Akureyrar, bar mig nokkrum sinnum að garði þeirra, og arinylurinn frá Grund var þar æ til staðar. Fundum okkar Margrétar bar all- oft saman við ýmis tækifæri og urðu kunnleikar ágætir - áttu þeir Ifka rætur að rekja til hlýrra kynna og ættartengsla við foreldra mína. En átthagarnir voru hinir sömu - lengst til fjalla frammi í hinum fagra Fnjóskadal. Margrét var fædd 16. ágúst 1889 að Fjósatungu í Fnjóskadal, en þar bjuggu þá foreldrar hennar, Sigurð- ur Bjarnason, ættaður frá Reykjum og Hólmfríður Jónsdóttir fra Illuga- stöðum. Þeim hjónum varð níu barna auðið og var Margrét næstelst. í frumbernsku fluttist hún með for- eldrum sínum að Snæbjarnarstöðum þar sem þau bjuggu síðan á meðan þau dvöldust í dalnum. Þar ólst hún upp í glöðum systkinahópi við áhrif og mótun góðra foreldra. Sigurður var bókamaður mikill, fróður og minnugur og naut þess að fara með penna. Lagði hann stund á að safna ýmsum fróðleik og skrá hann. Mun það mest að hann ritaði Fnjóskdæla- sögu. En saga sú spannar yfir400 ára bil (frá 1500-1900) og birtist í ritinu Nýjum kvöldvökum, sem kom út á Akureyri. Eru frásagnir þessar skýr- ar og lifandi og gefa glögga innsýn í líf fólksins á þessari tíð og spegla vel aldarfarið. Hólmfríður á Snæbjarn- arstöðum var væn kona og gerðar- leg. Hún helgaði sig heimilinu, barnauppeldi og bústörfum af alúð. En jarðnæði á Snæbjarnarstöðum var lítið og of þröngt þar um svo stóra fjölskyldu. Því var horfið að því ráði að kveðja dalinn og flytja inn yfir Vaðlaheiði. Var fyrst höfð búseta á Garðsá í Öngulsstaða- hreppi, en síðar flutt til Akureyrar. En ævikvöld sitt áttu þau Sigurður og Hólmfríður frá Snæbjarnarstöðum á Grund í Eyjafirði, þar sem Margrét dóttir þeirra skipaði húsfreyjusætið á fjórða tug ára. Eftir að til Eyjafjarðar kom var Margrét eitt sumar í kaupavinnu hjá Magnúsi Sigurðssyni stórbónda og kaupmanni á Grund, sem með ævi- starfi sínu, svo og persónugerð skráði merkan kapítula í menningar- sögu eyfirskrar byggðar. Síðan lá leið hennar suður yfir fjöllin, á fram- andi slóðir og dvaldist hún í Reykja- vík og Hafnarfirði um þriggja ára skeið. En dregur til þess er verða vill. Aftur var stefnt norður um og sporin lágu að Grund öðru sinni. Var fyrst um kaupavinnu að ræða en við lát Guðrúnar Jónsdóttur, konu Magn- úsar í desember 1918, tók Margrét við ráðskonustörfum á stórbýlinu og gegndi þeim næstu árin. En stærri hlutur var henni ætlaður af þeim sköpum sem slá örlagavef mannanna bama. Þann 24. apríl árið 1924 gengu þau Margrét og Magnús í hjónaband. En eigi varð þeim auðið nema örskammra samvista, því að Magnús lést þann 18. júní 1925. En dýr gjöf hafði þeim veitt verið, dótt- irin Aðalsteina Helga, fædd 20. febrúar 1925. Hún bar birtu og bless- un hinum aldna föður, þá fáu mán- uði sem þau fengu að njóta samvista, og inn í líf móðurinnar á stund reynslunnar og allt til hennar hinsta dags. Leiðin sem þær fylgdust að var orðin löng. Og ljós var þar yfir - ást- úð og umhyggja gagnkvæm og Aðal- steina hefur skipað með sæmd sæti móður sinnar sem húsfreyja á Grund um árabil. Eftir lát Magnúsar var Grundarbúinu skipt og hélt Margrét áfram búskap á þeim helmingi hinn- ar stóm og kostaríku jarðar sem þær mæðgumar áttu saman. Margt fólk var kvatt til starfa á stóm búi, og var verkahringur húsfreyju víður og önn og ábyrgð ærin, enda þótt ráðsmenn væru til staðar að axla vissan hluta þess þunga sem búreksturinn skóp. En árið 1937 verða enn þáttaskil í lífi Margrétar, er hún giftist Ragnari Davíðssyni frá Kroppi í Hrafnagils- hreppi, mætum dreng og ljúfmenni. Var það auðnuspor á ævivegi beggja. Samtaka var til heilla stefnt og búið af rausn við traust ogvinsældir. Fyrst bjuggu þau Ragnar og Margrét ein, en frá 1950-1959 bjuggu þau félags- búi með Aðalsteinu dóttur Margrét- ar og manni hennar, Gísla Björns- syni. Þau höfðu gengið í hjónaband 1945 en verið búsett í Reykjavík, uns þau árið 1950 fluttu norður að Gmnd, og hafa síðan orkt þar sitt ævkvæði við góðan orðstír. Frá Grund fluttu Ragnar og Mar- grét til Akureyrar og skópu sér þar fallegt heimili. Hlýr arinn vermdi þá sem að garði bar, og þeir voru margir, því að ýmsir áttu við þau er- indi sem fyrr og stefndu fúsir heim til þeirra og þau vom samtaka um risnu, glaðværð og hlýju við gesti sína. Það var virkur þáttur ánægju þeirra að taka á móti gestum, og alveg eins nutu þau þess að ganga sjálf til fundar við vini og vandamenn - og sá hópur var stór. Vel munu þau Gmndarhjón hafa unað sér á Akur- eyri. En sveitin fagra, þar sem stóð það höfuðból, sem þau byggðu svo lengi og það líf sem þar bærðist og gréri átti samt hjarta þeirra ávallt. Þar var hugurinn löngum. Oft var Grund sótt heim og hátíðir áranna lifaðar þar allajafna. Heill og heiður staðarins var hamingja þeirra. Lífið teflir sín töfl með mörgu móti og yrkir sín ævintýri tíðum með undraverðum og ánægjulegum hætti. Eitt þeirra varð um Margréti Sigurðardóttur. Dísir þær, sem vöktu við vöggu heimasætunnar á litlu býli við auðnarbarm, þar sem lífskjör reyndust fábreytt, spunnu örlagaþráðinn þaðan að höfðingja- setri í breiðri, blómlegri byggð, þar sem veittist veglegt sæti við auð og virðing. Og hún tók við gjöfinni úr höndum heillavætta sinna með þeim hætti, að hún óx af og ávann sér það sem átti ævarandi gildi og veitti henni hvorttveggja: unað og styrk og varð virk auðlegð. Margrét á Grund átti þá lund, sem var í senn ljúf og styrk og rík af hlýju. Hún var kona góðviljuð og skilnings- rík og vildi böl bæta eftir því sem frekast voru föng til. Raunabörn, sjúkir, einstæðir og ellimóðir áttu opna leið að hjarta hennar og hún naut þess að fá borið geisla inn í líf þeirra. Við þá sem styrkir voru og hamingjusamir deildi hún gleðinni ríkulega. Hinum mörgu hjúum sín- um reyndist Margrét mild húsmóðir og sýndi þeim miklar tryggðir. Ættrækin var Margrét með af- brigðum, svo sem margt hennar skyldulið. Frændgarðurinn var stór, en svo var sem hjarta hennar rúmaði hann allan. Húsfreyjustaðan á Grund - kirkjustað, og þar sem oft voru fjölsótt mannamót, auk fjölda gesta árið um kring, krafðist mikils. Hún krafðist þreks, myndarbrags og risnu. Allt þetta átti Margrét í ríkum mæli, og einnig það hugarfar sem skóp, að þeir sem til staðarins leit- uðu eygðu ljós í hverjum glugga. Þannig fékk hún valdið stóru hlut- verki á þann veg að lengi verður munað. Hún unni Grundarstað heilshugar og hinu blómlega héraði, sem varð umgerðin um ævistarf hennar og grunnur þess brennidepils sem mótaði líf hennar. Eigi að síður voru henni átthagarnir einkar kærir alla tíð, og staðurinn þar sem bemskuleikimir stóðu og ársólin brosti við var henni það vé sem helgi hvíldi yfir. Þar stóð sú lífsrót, sem eigi var færð úr stað. Um þetta ræddi Margrét oft og sýndi í verki. Eitt- hvert síðasta skiptið sem fundum okkar bar saman, sagði hún, eftir að hafa spurt mig einhvers að austan: „Blessaður dalurinn, hann á alltaf stórt rúm hjá mér. Það á ekki að slíta sig úr tengslum við uppruna sinn. Við það missist svo mikið.“ - Sönn orð - sögð af heilindum. Margrét Sigurðardóttir var gædd miklum starfsþrótti og bjó við góða heilsu mestan hluta sinnar löngu ævi og varð þetta he'nni verulegur styrk- ur í annasamri og ábyrgðarríkri stöðu. En enginn má sköpum renna. Um síðustu jól veiktist hún alvarlega og fór á sjúkrahús Akureyrar og átti þaðan ekki afturkvæmt. Án æðm háði hún þar erfiða raun, sem lauk þann 6. okt. sl. Útför hennar, fögur og virðuleg, fór fram að Grund, þann 16. okt. að viðstöddu afar miklu fjölmenni. Kvödd var kona. sem átti ríkulegt rúm í margra brjósti og sett hafði svip sinn á staðinn í ára- raðir og var svo samgróin honum að nafn hennar tengdist nafni hans - órjúfanlega. Regnský grúfðu yfir í fölva haustdagsins, þegar húsfreyjan á Grund var lögð í skaut móður jarðar. Það var reisn yfir Grundar- stað, en þó kenndi glögglega trega þungans. Og regnskýin. Voru þau ekki táraslæður? Á kveðjustund, þegar horft var til liðins lífsdags og litast um hið næsta sér í því umhverfi sem hann var greyptur í, kom í hugann þetta ljúfa stef: „Túnid, áin, engi, hlíðar, eftir þessa löngu kynning, vefja þráðum yls og ástar inn í þína björtu minning. “ Blessuð sé sú minning. Megi þeir sem mest áttu og mest hafa hér að trega, blessunar njóta. Þeim er sam- úðarkveðja send. Jórunn Ólafsdóttir frá Sörlastöðum. Málsgrein féll niður í ályktun I frásögn af kjördæmisþingi fram- sóknarmanna á Húsavík 15. og 16. október s.l. sem birtist í Degi 19. sama mánaðar birtist m.a. almenn kjördæmismálaályktun. f inngang hennar vantaði næst síð- ustu málsgreinina, áður en til var tekið við að gera grein fyrir sér- stökum málaflokkum, þ.e. sam- göngumálum félagslegri þjón- ustu, húsnæðismálum, heilbrigð- ismálum og menntamálum. Rétt- ur er inngangurinn þannig: Kjördæmisþing framsóknar- manna í Norðurlandskjördæmi eystra, haldið á Húsavík dagana 15.-16, okt. 1982 leggur áherslu á þann grundvdallarboðskap Fram- sóknarflokksins að tryggja öfluga landsbyggðarstefnu sem hefur að markmiði jöfnuð með lands- mönnum, hvarsem þeir búa og að treysta jafnvægi í byggð landsins. Þannig séu fólki búin skilyrði til þess að lifa og starfa í því um- hverfi sem það kýs sér. Á áratugnum 1971-1981 sem oft er nefndur „Framsóknarára- tugurinn" hefur nánast átt sér stað bylting í uppbyggingu atvinnulífs- ins. Samvinnuhreyfingin hefur verið burðarásinn í atvinnuupp- byggingunni í eitt hundrað ár og er nú kjölfestan í atvinnulífi kjör- dæmisins. Á þessum áratug hafa einnig orðið miklar framfarir á sviði mennta-, heilbrigðis- og félags- niála. I kjölfar þessarar uppbyggingar snérist búsetuþróunin lands- byggðinni í hag. Þingið skorar á ríkisstjórn og Alþingi að fylgja landsbyggðar- stefnu fast eftir og minnir á að þó mikið hafi áunnist skortir enn verulega á að allir þegnar þjóð- félagsins búi við sömu lífsskilyrði og mörg samfélagsleg verkefni eru enn óunnin. Kjördæmisþingi er ljóst að að- gátar er þörf í ríkisfjármálum en aðhald má ekki auka misræmi í þjóðfélaginu. í því sambandi áréttar þingið eftirfarandi: hjólbarðar V nýirog sólaðir í miklu úrvali. Gúmmíviðgerð sími 21400. Véladeild símar 22997 og 21400. Auglýsendur athugið! Skilafrestur auglýsinga er þessi: ÞRIÐJUDAGSBLAÐ: Allar auglýsingar, nema smáaug- lýsingar, þurfa að hafa borist blað- inu fyrir klukkan 15 á mánudegi. Tekið er á móti smáauglýsingum til klukkan 17. Auglýsingar sem eru hálf síða eða stærri, þurfa að hafa borist fyrir hádegi á mánudegi. FIMMTUDAGS-0G FÖSTUDAGSBLAÐ: Allar auglýsingar þurfa að hafa bor- ist fyrir klukkan 15 á miðvikudegi. Smáauglýsingar eru ekki birtar í föstudagsblaðinu, en tekið er á móti smáauglýsingum í fimmtu- dagsblaðið til klukkan 17 á miðviku- degi. Auglýsingar sem eru hálf síða eða stærri þurfa að hafa borist fyrir hádegi á miðvikudegi. Smáauglýsingar og áskrift Sími24222 8-DAGUR- 28. oktpljef ,1.982

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.