Dagur - 07.02.1986, Side 8

Dagur - 07.02.1986, Side 8
8 - DAGUR - 7. febrúar 1986 7. febrúar 1986 - DAGUR - 9 Hann er nýorðinn 69 ára gamall og hefur lifað margt, búið við ólíkari lífsháttu en mörg okkar hinna. Lengi bjó hann í fámennustu og af- skekktustu sveit Norðurlands og á þar jörð, Víðirhól, eina af stœrstu jörðum landsins. Ég heimsótti Ólaf Stefánsson eitt kvöldið og fékk hann til að segja svolítið frá sjálfum sér og því sem á daga hans hefur drifið. Mynd: KGA. - Ólafur Stefánsson segir frá ævi sinni, búskap á Fjöllum og fleiru í helgarviðtali „Ég er fæddur á Sauðanesi á Langanesi 30. janúar 1917. Þegar ég var tveggja ára fluttum við inn í Arnarstaði í Núpasveit, sunnan við Kópasker, á föðurleifð föður míns. Þar var tvíbýli þar sem bjuggu bræðurnir Jón og Stefán faðir minn og samanlagt áttu þeir 20 börn. Það var mannmargt á því heimili. Þarna bjuggu foreldrar mínir til ársins 1933 en þá féll móðir mín frá. Þá var ég sextán ára eða varð það þann vetur. Heimilið leystist upp og börnin fóru í ýmsar áttir. Ég var orðinn nógu gamall til að ýmsir vildu fá mig sem vinnumann. Það varð svo úr að ég réðist að Austara- Landi í Axarfirði. Þar bjó Páll Jó- hannesson hreppstjóri og Margrét dóttir hans sem þá var orðin ekkja.“ 0 300 krónur á ári þótti mikið fyrir 17 ára strák - Áttu sextán ára menn auðvelt með að komast í vinnu á þessum árum? „Já, já. Það var að vísu ekki boð- ið hátt kaup. Hundrað og þrjátíu krónur fyrir árið en svo fékk maður frí til að vinna í sláturhúsi um haustið og til að sækja unglinga- skóla í Axarfirði um mánaðartíma. Svo var ég þarna annað ár sem vinnumaður og þá fór ég fram á full vinnumannslaun sem voru 300 krón- ur sem þótti mikið fyrir 17 ára strák, en ég hafði það nú samt fram. Ég var þá að vísu hjá bæði Páli og Baldri Öxdal, dóttursyni hans. Eg fékk líka að fara niður að Laugum á íþróttanámskeið um vorið. Það var skemmtilegur tími. Næsta sumar var ég kaupamaður í Axarfirði hjá smið sem fór á milli og smíðaði hús. Þá var ég að safna mér peningum til að geta komist í skóla sem ég gerði svo um haustið. Þá fór ég að Hvanneyri og var þar í þrjú misseri." 9 Efnalitlir strákar fengu vinnu á Hvanneyri - Var algengt á þessum tíma að ungir menn færu í bændaskóla? „Já, það var orðið það. Ég þekkti m.a. ýmsa sem höfðu verið á Hvanneyri.“ - En voru það þá ekki frekar synir efnaðri bænda sem komust í skólann? „Sennilega hefur það ekki verið algengt að menn gætu farið án þess að hafa nokkurn bakhjarl. Hjá mér munaði mikið um þessa vinnu sem ég fékk sumarið áður en ég fór í skólann, það var mikil vinna, og svo gerðu strákar sem voru efnalitl- ir það að vinna á Hvanneyri milli vetranna. Við unnum þarna einir fjórtán sumarið sem ég var þarna. Við höfðum svona frá 42 upp í 50 krónur á viku eftir dugnaði. Ég náði þarna 45 krónum og svo borg- aði skólastjórinn mér eina vikuna aukalega fyrir það sem hann kallaði lipurð. 0 Fannst Axar- fjörðurinn alltaf vera mín sveit Næstu árin vann ég víða, en átti að vísu alltaf heima í Austara-Landi. Mér fannst Axarfjörðurinn alltaf vera mín sveit eftir að ég kom þangað þó það væri dásamlegt fólk í Núpasveit. Fegurðin er svo mikil í Axarfirði. Það var gaman að vera ungur maður í Axarfirði á þeim árum. Éé- lagslífið var mikið. Ég lék venju- lega í tveimur leikritum á vetri, með ungmennafélaginu og kvenfé- laginu.“ - Hvað léku menn á þessum tíma? „Það voru ýmis leikrit. Ég lék t.d. í Happinu eftir Pál J. Árdal. Ég lék í þýsku leikriti sem var kallað f borgarafötum og var þýtt af prest- inum okkar sem leikstýrði líka. Ég man nú ekki lengur nöfn á þessum leikritum en þau voru nokkuð mörg. 0 Gaman að koma til Reykjavíkur, en ekki vera Síðan dreif ég mig til Reykjavíkur og vann einn vetur í Blikksmiðju Guðmundar Breiðfjörð, en þótti leiðinlegt í Reykjavík. Því réði ég mig sem ráðsmann í Belgsholti í Borgarfirði." - Þú segir að þér hafi þótt leiðin- legt í Reykjavík. „Já, það er bara gaman að koma þangað, en ekki vera.“ - Hvað varstu lengi í Belgsholti? Ég var þar í tæp tvö ár. Þá lenti ég í bruna og varð að fara á sjúkra- hús.“ - Hvernig bar það til? „Ég var að setja bensín á Chevrolet vörubíl í myrkri. Það var blæjalogn og ég var með lukt úti á planinu svo ég fengi birtu til að sjá til við að hella í tankinn sem var undir sætinu. Bensínið tók ég úr fullri 200 lítra tunnu. Líklega hefur gufað svona mikið upp af bensíninu og af því að það var logn rauk það ekki burtu, en allt í einu logaði allt loftið yfir planinu og svo varð sprenging inn í bílinn. Eg brenndist töluvert á andliti og víðar og þurfti að liggja á sjúkrahúsi í mánuð. Eft- ir það mátti ég ekki vinna um tíma svo ég snaraði mér bara austur í Axarfjörðinn, fjörðinn kæra. 9 Þannig náði ég í konuna Síðan fréttist það austur í Möðru- dal að ég væri kominn heim í Axarfjörð og ekki við neitt bundinn og var ég þá fenginn sem kennari í Möðrudal seinnipart vetrar. Upp úr því hafði ég konuna. Hún heitir Kristín Gunnlaugsdóttir. Þetta varð allt að gerast til þess að ég næði í hana. Síðan hefur hún nátt- úrlega alltaf verið betri helming- urinn. Við giftumst árið 1946.“ - Hvað eigið þið af börnum? „Við eigum 5 börn: Guðlaugu og Gunnlaug sem eru fædd í Möðrudal og Oktavíu, Margréti og Stefán sem eru fædd eftir að við komum í Víðihól. Við erum svo við búskap í Möðrudal í sex ár. Tengdafaðir minn, Jón Stefánsson, var búinn að missa konuna og við vorum með eitt heimili en aðskildan bústofn. 9 Var sexdaga frá Akureyri í Möðrudal Þessi ár sem ég bjó í Möðrudal voru vond ár. T.d. voru veturnir árin 1949 og 1951 mikiir harðinda- vetrar báðir. Það voru margar erf- iðar ferðir sem menn urðu að fara austur í Jökuldal. Möðrudalur er í Jökuldalshreppi en það eru um 45 kílómetrar á milli. Við urðum t.d. að koma skattaskýrslum þangað um hávetur. Svo sköpuðust ferðir á haustin og seinnipart vetrar. Marg- ar ferðir fór maður austur á fjall- garða til að bjarga bílum sem þar voru strand, leita að bílum og fólki. Svo lenti ég í því haustið 1950 að leita að Geysi sem fórst á Bárðar- bungu. Við fórum tvær ferðir Möðrudælingar, fyrst inn að Brúar- jökli og svo fórum við strax næstu nótt í aðra leit og fórum þá upp á jökulinn. Á meðan við vorum í þeirri leit fannst vélin á Bárðar- bungu. Þetta sama haust, 1950, fór ég hingað til Akureyrar seinnipart nóv- embermánaðar og lenti í hinni frægu stórhríð, 30 nóvember, á Vaðlaheiði. Þá var ég á austurleið. Þá nótt lágu menn víða úti. Ég var með Mývetningum í jeppa. Ég var sex daga að komast frá Akureyri í Möðrudal, með bíl héðaní Reykja- hlíð og afganginn á skíðum. 9 Víðihóll eða Víðirhóll? Frá Möðrudal fórum við í Víðihól, hann var þá í eyði, hafði verið það í eitt ár og Grímsstaðabændur áttu jörðina." - Einhvers staðar á korti sá ég að jörðin var nefnd Víðirhóll. Hvort er nú rétta nafnið, Víðihóll eða Víðirhóll? „Það er ýmist talað um Víðirhól eða Víðihól. Vernharður heitinn Þorsteinsson, menntaskólakenn- ari, kallaði bæinn Víðirhól. Ég veit raunverulega ekki hvort nafnið er rétt. Hvort nafnið er dregið af víði, sem er mikill í landinu, eða því hvað er víðsýnt þarna. Þarna bjuggum við í þrettán ár, fram til 1964. Ég keypti jörðina eft- ir að hafa verið þar í ár og á hana enn.“ - Er þetta ekki ein af stærstu jörðum landsins? „Jú, sjálfsagt er hún með þeim stærstu." - Hefur þú einhverjar tekjur af henni núna? „Ekki nema ég veiði silung í vötnunum. Það er andsk... gott að éta silunginn." - Fá fleiri að njóta þess að veiða silunginn úr vötnunum þínum og borða hann? „Nei, nei. Ekki nema bara einka- vinir sem fá að fara með mér,“ segir Ólafur og hlær, sposkur á svip. „Það er alveg eins og með rjúpurn- ar. Ég hef ekkert gaman af því að skjóta rjúpur til að selja þær, en ég hef gaman af að borða rjúpur sem ég skýt í mínu eigin landi.“ Ekki sagðist Ólafur geta fullyrt neitt um flatarmál jarðarinnar. En var ekki dýrt að kaupa svona stóra jörð? „Nei. Ég hafði hana á leigu í eitt ár fyrir 600 krónur. Svo fékk ég síma og keypti jörðina og það kost- aði samanlagt 17000 krónur.“ 9 Allir með pyttlu í göngumar - Þú varst áfengisvarnaráðunautur í þinni sveit þegar þú bjóst fyrir austan. „Nei, en ég var í áfengisvarna- nefnd. Við Kristján hreppstjóri á Grímsstöðum vorunt eitt sinn á héraðsfundi þar sem verið var að ræða urn áfengisvandamálið. Það voru m.a. þarna fulltrúar frá Þórs- höfn og Raufarhöfn. Svo vorurn við spurðir hvað væri að segja af Fjöll- unum. Við sögðum að þar væri ekkert áfengisvandamál. Það hefðu allir nteð sér á pyttlu þegar þeit færu í göngurnar og væru jafn góðir eftir sem áður.“ % Síðasti land- pósturinn á hestum - Varst þú ekki póstur á Fjöllum? „Jú, öll þessi ár sem ég bjó á Fjöllum hafði ég með höndum dreifinguna á pósti um Fjöllin. Um haustið 1964, þegar ég hætti að búa, bætti ég svo við póstflutning- um frá Mývatnssveit og austur í Möðrudal. Þetta gátu verið erfiðar ferðir. Ég komst upp í að vera 9 tíma á' jeppa frá Reykjahlíð í Grímsstaði og upp í 11 tíma á hestum. Þetta er 45 kílómetra leið. Allur hringurinn sem ég þurfti að fara í hverri viku var tæpir tvö hundruð kílómetrar." - Mér hefur verið sagt að þú haf- ir kosið að fara einhesta í þessar ferðir. „Ég var með tvo hesta í húsi. Eft- ir fyrstu ferðina sem var mjög erfið sá ég að ég mátti ekki þreyta þá báða á því að sækja póstinn í Reykjahlíð, sem tók tvo daga, því þá átti ég eftir að fara í Möðrudal og til baka. Ég varð heldur að ganga aðra leiðina með hestinum ef pósturinn var mikill. Það voru nú ekki mjög margar ferðirnar sem ég þurfti að fara ríð- andi með póstinn. Um miðjan vet- ur hlánaði nokkuð og þá var farið með hefil úr Mývatnssveit og austur á mið fjöll og þá myndaðist slóð sem ég gat alltaf keyrt eftir. Hún var nú kannski ekki alls staðar þar sem vegurinn var undir en það skipti engu máli. Fjallamenn eru vanir því að keyra jafnt utan vega sem á vegi ef því er að skipta. En ég held að ég hafi áreiðanlega verið síðasti lándpósturinn sem fór ríð- andi í póstferðir, því upp úr þessu fóru snjóbílar og vélsleðar að koma til sögunnar þegar ófært var fyrir bíla. 9 í síldina á Reyðarfirði Um vorið fór ég að vinna í Létt- steypunni í Mývatnssveit milli ferða þangað til ég fór austur á Reyðar- fjörð á síld. Þá flutti ég konuna og fjölskylduna austur á Eyvindará, rétt hjá Egilsstöðum. Þar var hún hjá sómafólki, fósturbróður hennar Vilhjálmi og hans konu, Margréti. Fyrstu vertíðina á Reyðarfirði vann ég sem verkamaður, aðra vertíðina sem beykir og tvö síðari sumrin var ég verkstjóri á planiu. Við flytjum hingað í bæinn haustið 1965. Ég fékkst við ýmis störf fram til 1970 og fóralltaf aust- ur í síld á haustin þar til síldin hætti. En árið 1970 fékk ég vinnu hjá Sambandinu og hef verið þar síðan. Fyrst í teppadeild en síðan á lager." 0 Hitti ekkert nema indœlisfólk á Akureyri - Það hljóta að hafa verið mikil viðbrigði að flytja til Akureyrar úr fámenninu austur á Fjöllum. „Fyrst eftir að ég kom í bæinn langaði mig alltaf austur. Svo var ég að álpast austur á haustin og fara í göngur og líðanin var alltaf verst eftir það. Þannig að ég ákvað bara að hætta þessu og steinhætti að fara í göngur og réttir. Auðvitaö langar mann alltaf mest til að vinna við það sem mað- ur hefur lært til og vanist við. Ég kveið því rnikið að fara að vinna hér á Ákureyri. Sveitabóndi að fara að vinna innan um svona margt ókunnugt fólk. Það var svo ekkert vandamál. Ég hitti ekkert nenia indælisfólk hér á Akureyri og allir tóku ntér vel. Ætli það sé ekki sama hvar inaður er. Ef maður leitar ekki eftir óánægju sjálfur fara aðrir ekk- ert fremur að gera það.“ -yk.

x

Dagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.