Dagur - 14.08.1986, Blaðsíða 2

Dagur - 14.08.1986, Blaðsíða 2
2 - DAGUR - 14. ágúst 1986 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SÍMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 420 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 40 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON FRÉTTASTJÓRI: GYLFI KRISTJÁNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: BRAGI V. BERGMANN BLAÐAMENN: ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, GESTUR E. JÓNASSON, GESTUR KRISTINSSON (Blönduósi vs. 95-4070 hs. 95-4368), HELGA JÓNA SVEINSDÓTTIR, INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 41585 hs. 41529), RÚNAR ÞÓR BJÓRNSSON, KRISTJÁN KRISTJÁNSSON, MARGRÉT Þ. ÞÓRSDÓTTIR, ÞÓRHALLUR ÁSMUNDSSON (Sauöárkróki vs. 95-5960 hs. 95-5729) AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASlMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. Ueiðari____________________________ Allir eiga að hafa jafna möguleika til náms Nefnd sem menntamálaráðherra skipaði á síðasta ári til að gera tillögur um fjárlaga- og þróunaráætlun fyrir Háskóla íslands næstu fjögur árin hefur nú skilað áliti. í skýrslu nefndarinnar er lagt til að kennsla á há- skólastigi hefjist á Akureyri haustið 1987 og er mjög brýnt að því máli verði fylgt eftir af einurð og hvergi slakað á. Þá er lagt til að Háskólinn fái aukið húsnæði til ráðstöfunar svo og að dregið verði úr kennsluálagi og stöðugildum fjölgað. Háskólanum hefur löngum verið þröngur stakkur skorinn, hvort sem litið er á fjár- hagshliðina ellegar húsakostinn. Síðustu ár hefur þeim stöðugt fjölgað sem stunda nám á háskólastigi en fjárveitingar til Háskólans hafa ekki aukist að sama skapi. Þessi vandi endurspeglast einnig í mjög erfiðri stöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. í skýrslu nefndarinnar eru settar fram margvíslegar tillögur um fjármögnunarleiðir og eru marg- ar þeirra góðra gjalda verðar. Það vekur hins vegar athygli að í skýrslunni er sú hug- mynd viðruð að tekin verði upp kennslu- gjöld við Háskóla íslands. Þótt ekki hafi náðst samstaða um þessa hugmynd í nefnd- inni er full ástæða til að vara við henni. Víða erlendis tíðkast það að láta nemendur greiða svo og svo há námsgjöld til að fá inn- göngu í skóla. Á íslandi hefur hins vegar alltaf verið gengið út frá því að allir hefðu jafna möguleika til náms, óháð þjóðfélags- stöðu og efnahag. Menntunin er ekki ókeyp- is, en hún er kostuð sameiginlega af skatt- greiðendum þessa lands og vafalaust er mikill meirihluti þjóðarinnar hlynntur því að svo verði áfram. Það eru einkum þau öfl sem kenna sig við frjálshyggju sem hampa gjaldtökuhug- myndum á borð við þessa. Efst á þeirra stefnuskrá er að afnema samneyslu á öllum sviðum og láta hvern og einn greiða hlutina fullu verði. í sumum tilfellum eru slík sjón- armið réttlætanleg en alls ekki þegar um menntun eða heilbrigðisþjónustu er að ræða. Vonandi fá slíkar hugmyndir aldrei hljómgrunn hér á landi og víst er að fram- sóknarmenn munu ekki styðja þær. BB. -j/iðtal dagsine I mörg hom að líta - Spjallað við Árna H. Helgason landvörð á tjaldstæðinu í Mývatnssveit „Landverðir eiga að hafa stjórn á hlutunum, þeir sjá um að ekki sé tjaldað þar sem ekki má tjalda, við höfum umsjón með ruslamálum á tjaldstæð- inu, tínum rusl á svæðinu og tæmum ruslatunnur. Annars er þetta ákaflega fjölbreytt starf og skemmtilegt,“ sagði Árni H. Helgason landvörður á tjaldstæðinu í Mývatnssveit. Við hittum Árna í bækistöðv- um landvarðanna, nýlegu húsi og vistlegu. Hann var til í að segja okkur undan og ofan af starfi sínu, ferðamálum og ýmsu er þessu tengist. Þetta er fyrsta sumarið sem Árni vinnur sem landvörður í Mývatnssveit. Hann sagðist hafa farið á námskeið sem haldið var á vegum Náttúruverndarráðs, en það var haldið bæði á Akureyri og í Mývatnssveit og stóð yfir í fjórar helgar auk þess sem haldið var sérstakt námskeið í skyndi- hjálp, meðferð áttavita og ýmis- legu fleiru sem starfinu fylgir. „Þetta var ákaflega fróðlegt námskeið og góður undirbúning- ur fyrir þetta starf,“ sagði Árni. F>ar sem hann er í miðju kafi að segja okkur frá námskeiðunum koma ítalir inn í húsið og „mi ni faintro. . . dadada,“ sem eftir nokkra stund var búið að þýða á þann veg að þá vanhagaði um raksápu. Si si og málið leyst. Árni sagði að 28% aukning hefði orðið á nýtingu tjaldstæðis- ins í júní miðað við júní í fyrra. „Petta fór rólega af stað hjá okkur, en núna undanfarið hefur verið stöðugur og mikill straumur fólks hérna og á stundum má segja að tala tjaldstæðisgesta hafi verið tvöfaldur íbúðafjöldi sveit- arfélagsins. Það er algengt að hér séu á þriðja hundrað tjöld. Um versl- unarmannahelgar eru hér mest um fjögur hundruð tjöld. Það get- ur oft verið í ýmsu að snúast þeg- ar svona margt fólk er hér saman komið. En þetta er rólegt fólk sem hér er og engin vandamál í kringum það.“ í sumar hefur verið unnið að endurbótum á tjaldstæðinu. Byggt var hús fyrir sturtur, sal- erni fyrir fatlaða og aðstöðu fyrir landverðina sem jafnframt er upplýsingamiðstöð. Þangað leita mjög margir að sögn Árna og eru spurningarnar sem fram eru bornar margvíslegar, „sumar hreint ótrúlegar." Vakt er á tjald- stæðinu allan sólarhringinn. Miklar jarðvegsbætur hafa verið unnar á tjaldstæðinu og í sumar er búið að gera stalla sem auka rýmið mjög. Árni sagði að útlendingar væru í miklum meiri- hluta gesta tjaldstæðisins. „Hing- að koma alls konar týpur, allt frá puttalingum sem eru rétt með tjaldið sitt og svefnpokann og upp í fólk með vel útbúna trukka. Mann undrar það oft hversu margir útlendingar kom- ast fyrir í einu litlu tjaldi. Það er allt annar bragur yfir íslending- um á ferðalagi. Þeir eru með stór tjöld, vilja hafa sitt einbýlishús." Árni lauk stúdentsprófi frá málabraut Menntaskólans á Akureyri árið 1983. „Jú, það er æskilegra að kunna dálítið fyrir sér f tungumálum. Við verðum að kunna enskuna nokkuð vel og eitthvað í Norðurlandamálum. Þýskuna verðum við að skilja nokkurn veginn og það er einnig gott að kunna frönsku. En auð- vitað kemur alltaf upp eitthvert mál sem maður er ekki alveg klár í. Það eru helst ítalirnir sem erf- iðast er að skilja, en þeir tala yfir- leitt litla ensku.“ Árni sagði að langmest væri um Þjóðverja og Frakka, bæði á skipulögðum ferðalögum og eins á eigin vegum. Tiltölulega fáir Bandaríkjamenn eru á ferðinni, eins væru Norðmenn og Finnar ekki margir. „Það hefur varla sést Finni hérna í sumar. En það er dálítið um Dani. Það er dálítið skrýtið með Danina. Þeir eru næstum allir búnir að gefast upp á að tala dönsku að fyrra bragði. Eru kannski búnir að vera á ferð- inni hérna í hálfan mánuð og enginn viljað tala við þá dönsk- una. Það liggur við þeir verði steinhissa þegar við tölum móð- urmálið við þá. í eina tíð var alltaf talað um að Þjóðverjar væru fremur leiðin- legir ferðamenn, en mín reynsla er sú að þeir eru alls ekki óliprir. Mér finnst Frakkarnir erfiðari viðureignar. Það getur oft verið býsna erfitt að koma þeim í skiln- ing um þær reglur sem hér ríkja, en Mývatn er verndað svæði og hvergi má tjalda nema á merkt- um tjaldstæðum. Það kemur oft fyrir að við þurfum að benda fólki á það. Helst eru það reynd- ar íslendingarnir sem eiga erfitt með að sætta sig við að búið er að setja þessar reglur sem banna þeim að tjalda hvar sem þeim dettur í hug. En þetta er skemmtilegt starf, þó það geti oft verið erfitt. Það er í mörg horn að líta. Við verðum að hafa vakandi auga með að allt fari vel fram og allt sé í lagi,“ sagði landvörðurinn Árni að lokum. -mþþ

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.