Dagur - 19.01.1987, Blaðsíða 2
2 - DAGUR - 19. janúar 1987
.j/iðtal dagsins.
WM&
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS
SKRIFSTOFUR:
STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI
SlMI: 24222
ÁSKRIFT KR. 480 Á MÁNUÐI
LAUSASÖLUVERÐ 50 KR.
RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR:
HERMANN SVEINBJÖRNSSON
FRÉTTASTJÓRI:
GYLFI KRISTJÁNSSON
RITSTJÓRNARFULLTRÚI:
BRAGI V. BERGMANN
BLAÐAMENN:
ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, EGGERT TRYGGVASON, EGILL BRAGASON,
GESTUR E. JÓNASSON, GESTUR KRISTINSSON
(Blönduósi vs. 95-4070 hs. 95-4368),
HELGA JÓNA SVEINSDÓTTIR, INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR
(Húsavík vs. 41585 hs. 41529), KRISTJÁN KRISTJÁNSSON,
RÚNAR ÞÓR BJÖRNSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON,
ÞÓRHALLUR ÁSMUNDSSON (Sauöárkróki vs. 95-5960 hs. 95-5729)
AUGLÝSINGASTJÓRI. FRlMANN FRlMANNSSON
ÚTBREIÐSLUSTJÓRI:
HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASlMI 25165
FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON
PRENTUN: DAGSPRENT HF.
Jeiðari._________________________________
Parísaruppfærsla
í þingsölum
Upphlaup Þorsteins Pálssonar formanns Sjálf-
stæðisflokksins á Alþingi í vikunni vakti talsverða
athygli, enda mjög sjaldgæft að formaður stjórnar-
flokks snúist gegn stjórnarfrumvarpi með þessum
hætti.
Ákvörðun um að kalla þing saman til fundar, viku
fyrr en áætlað hafði verið, var tekin á ríkisstjórnar-
fundi og var alger samstaða meðal ráðherranna um
þetta mál. í umræðunum á þingi sté Þorsteinn Páls-
son síðan í pontu - nýkominn frá París - og lýsti sig
ósammála frumvarpinu. Augljóslega hafði formaður
Sjálfstæðisflokksins litla hugmynd um það sem á
undan hafði gengið, sem er vægast sagt undarlegt.
Ef allt væri með felldu innan þingflokks Sjálfstæðis-
flokksins, hefði Matthías Bjarnason samgönguráð-
herra átt að hafa samband við flokksformann sinn til
að skýra fyrir honum stöðuna í farmannaverkfallinu,
enda heyrir sú deila undir samgönguráðherra og
ráðuneyti hans. Matthías Bjarnason talaði hins veg-
ar ekki við Þorstein, né heldur aðrir ráðherrar
flokksins. Orsökin er mikil valdabarátta og sam-
skiptaörðugleikar innan Sjálfstæðisflokksins.
Þorsteinn Pálsson hefur reynt að kenna for-
sætisráðherra um þennan þekkingarskort sinn, þar
sem hann hafi ekki látið sig vita tímanlega hvað
stæði fyrir dyrum. Tilburðir Þorsteins eru broslegir.
Augljóslega hlýtur það að standa samráðherrum
hans nær að upplýsa formann sinn um gang mála og
reyndar er furðulegt að þeir skuli samþykkja að
ríkisstjórnin leggi fram lagafrumvarp til stöðvunar
verkfallsins án þess að hafa formann flokksins með
í ráðum.
Steingrímur Hermannsson lagði frá upphafi
áherslu á það að frumvarpið væri lagt fram til að
þrýsta á deiluaðila að ná samningum. Miklir hags-
munir væru í húfi. Þegar þing var kallað saman hafði
slitnað upp úr viðræðum deiluaðila en umræðurnar
á þingi báru tilætlaðan árangur og reyndust sá hvati
sem til þurfti.
Parísaruppfærsla Þorsteins Pálssonar í þingsölum
lýsir vel því ástandi sem ríkir innan Sjálfstæðis-
flokksins. Valdatogstreitan er í algleymi og einstaka
ráðherrar grípa til einleiks til að freista þess að
styrkja eigin stöðu í valdastiga flokksins.
Mörgum sjálfstæðismanninum hefur ekki þótt
Þorsteinn Pálsson nógu afgerandi sem flokksfor-
maður og fjármálaráðherra. Þorsteinn þurfti því með
einhverjum hætti að sýna mátt sinn og megin. Til
þess var leikurinn gerður. Engu skipti þótt flokkur
hans biði álitshnekki í leiðinni. BB.
Áður en langt um líður munu
Akureyringar hafa um þrjár
brauðgerðir að velja. Svo lengi
sem elstu menn muna, eða
svona allt að því, hafa tvær
brauðgerðir verið starfræktar í
bænum, þ.e. Brauðgerð KEA
og Brauðgerð Kr. Jónssonar og
Co. Það er Einar Viðarsson
sem ætlar út í samkeppni við
þessar tvær grónu brauðgerðir
og kallar hann brauðgerð sína
Einarsbakarí, en hvenær
skyldi Einar ætla að opna og
hvar skyldi brauðgerðin verða
til húsa?
Einar Viðarsson, bakari.
„Með ýmsar nýjungar“
Eínar Viðarsson, bakari, ætlar að opna brauðgerð
við Tryggvabraut í byrjun febrúar
„Ég ætla að reyna að opna í
byrjun febrúar, en það er ekki
endanlega búið að ákveða
daginn. Brauðgerðin verður við
Tryggvabraut, milli Teppalands
og Vörubæjar, í húsnæði sem
Heildverslun Valdemars Bald-
vinssonar var í.“
- Verður þetta eitthvað frá-
brugðið þeim brauðgerðum sem
hér eru fyrir, einhverjar nýjungar
á döfinni?
„Já, í fyrsta lagi er þetta miklu
minna en þessar tvær stóru
brauðgerðir sem hér eru og það
er miklu auðveldara að eiga við
þessa hluti þegar þeir eru minni í
sniðum. Maður getur sérhæft sig
miklu meira í öllu. Ég ætla að
vera með mikið af nýjungum, ég
get nefnt sem dæmi að ég verð
með stóran bakaraofn frammi í
búðinni og fólk getur því alltaf
fengið ný vínarbrauð og bara
yfirleitt allt nýtt. Þú getur komið
kl. 18 á daginn og fengið ný vín-
arbrauð, en í hinum bakaríunum
færðu vínarbrauð sem voru bök-
uð kl. 4 um morguninn. Þetta
verður glóðvoigt og nýtt hjá mér.
Það er eins með formkökur og
slíkt, það verður allt bakað í búð-
inni hjá mér.
Það má líka nefna að ég ætla
að hafa opið um helgar og þá er
alltaf glænýtt brauð. Ég verð líka
með mjólk og álegg til sölu í búð-
inni, þannig að fólk getur komið
um helgar og keypt sér glænýtt
brauð og mjólk á sama stað. Ég
ætla líka að bjóða fólki upp á
ókeypis skurð á brauðinu og fólk
getur þá ráðið hvort það fær
sneitt brauð eða ekki. Ég ætla
líka að vera hóflegur í verði og
hafa brauðin stærri, þannig að
fólk fær fleiri sneiðar út úr brauð-
inu. Ég ætla að bjóða upp á hálf
brauð sem kemur sér vel fyrir litl-
ar fjölskyldur, þannig að ég held
að ég sé með ýmsa sterka leiki og
þetta muni ganga vel.“
- Þú ert ekkert hræddur við
samkeppnina þar sem hér eru
tvær stórar brauðgerðir?
„Nei, ég er alls ekki hræddur
við hana. Ég hef orðið var við
mikinn áhuga fyrir þessu í
bænum, fólk bíður spennt eftir
að ég opni og síðan verð ég bara
að standa mig og þá er ég ekkert
hræddur um að þetta gangi ekki
vel.“
- Er ekki mikið fyrirtæki að
setja upp brauðgerð?
„Jú, þetta er mikil fjárfesting.
Ég kaupi mikið af nýjum vélum
en líka notaöar. Ég vanda búðina
eins og mögulegt er, það þekkist
ekki hér á Akureyri að brauð-
gerð sé með fallega búð.“
- Hvað starfa margir hjá þér?
„Við verðum 4-8. Við byrjum
fjögur og síðan verður fjölgað ef
vel gengur. Við erum tveir bakar-
arnir, hinn er Gunnar Svavars-
son, mjög góður bakari. Konan
mín verður við afgreiðslu í búð-
inni og hjálpar til.“
- Ertu Akureyringur?
„Nei, ég er úr Reykjavík en
flutti hingað fyrir einu og hálfu
ári. Ég hef starfað hjá
Brauðgerð Kr. Jónssonar fram
að þessu, en lærði í Alfheima-
bakaríi í Reykjavík."
- Hvernig líkar þér vistin
norðan heiða?
„Mjög vel, mér finnst Akur-
eyri vera algjör draumabær. Mér
finnst bærinn vera hæfilega stór.
Nei, það hefði ekkert verið betra
fyrir mig að setja upp brauðgerð í
Reykjavík. Markaðurinn þar er
orðinn yfirfullur, miðað við
höfðatölu eru mun fleiri brauð-
gerðir þar en hér. Það er allt
öðruvísi brauðgerðarmenning
þar, það er mikið af litlum bakar-
íum, svipuðum og ég er að setja
upp.“
- Þú ert ekkert hræddur við að
koma á fót brauðgerð við
Tryggvabrautina, fjarri íbúða-
hverfum?
„Nei, alls ekki. Það er mikil
umferð niður Tryggvabrautina,
Hagkaup er þarna rétt hjá og allir
stærstu vinnustaðir bæjarins. Það
hafa margir verið að tala um
hvort þetta sé ekki glataður
staður, en ég er ekkert hræddur
um það, ég held að hann sé mjög
góður.“
- Þú ert sem sagt bjartsýnn á
framtíðina?
„Já, ég er mjög bjartsýnn. Ég
er ákveðinn í að standa mig vel
og ég held að fólk hér í bænum sé
til í að prófa eitthvað nýtt. Ég er
líka sannfærður um að mjólkin
og það sem ég vérð með til sölu
auk brauðsins dregur fólk að.“
-HJS