Dagur - 21.08.1987, Síða 4
4 - DAGUR - 21. ágúst 1987
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS
SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58,
AKUREYRI, SlMI 24222
ÁSKRIFT KR. 520 Á MÁNUÐI ■ LAUSASÖLUVERÐ 50 KR.
RITSTJÓRAR:
ÁSKELL ÞÓRISSON (ÁBM.)
BRAGI V. BERGMANN
BLAÐAMENN: ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, EGILL BRAGASON,
EGGERT TRYGGVASON, GESTUR KRISTINSSON
(Blönduósi vs. 95-4070 hs. 95-4368),
HELGA JÓNA SVEINSDÓTTIR, INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR
(Húsavík vs. 41585 hs. 41529),
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON, RÚNAR ÞÓR BJÖRNSSON,
STEFÁN SÆMUNDSSON, VILBORG GUNNARSDÓTTIR,
ÞÓRHALLUR ÁSMUNDSSON (Sauöárkróki vs. 95-5960 hs. 95-5729)
AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON
ÚTBREIÐSLUSTJÓRI:
HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASlMI 25165
FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON
PRENTUN: DAGSPRENT HF.
leiðarL
Frjálshyggjan
gegn félagshyggjunni
Slagurinn um hlutafé Útvegsbank-
ans vekur sífellt meiri undrun og
athygli. Einhverra hluta vegna var
búið að telja almenningi trú um að
Útvegsbankinn væri vandræða-
barn sem enginn vildi taka upp á
arma sína. Samstaða hafði ekki
náðst meðal fyrirtækja í sjávarút-
vegi um að kaupa meirihluta í
bankanum og svo virtist sem ríkis-
sjóður sæti uppi með krógann.
Síðan gerist það, að Samband
íslenskra samvinnufélaga ásamt
nokkrum samstarfsfyrirtækjum,
gerir tilboð í þau hlutabréf sem til
sölu voru. í tilboðinu var öllum
skilyrðum sem ríkissjóður setti um
söluna fullnægt. Þar með hefði
mátt ætla að gengið yrði frá kaup-
unum og vandi ríkissjóðs vegna
Útvegsbankans leystur til fram-
búðar.
En annað hefur komið á daginn.
Tilboð samvinnumanna vakti
frjálshyggjupúkann af tímabundn-
um svefni. í forystugrein Morgun-
blaðsins þar sem fjallað var um
málið, var þetta orðað svo að
einkaframtakið þyrfti að eignast
reykskynjara þar sem því „hætti til
að vakna upp við eld í húsinu."
Samlíkingin er skiljanlega út frá
sjónarhorni sjálfstæðismanna, því
væntanlega finnst þeim sem allt sé
komið í bál og brand þegar útlit er
fyrir að tiltölulega stór peninga-
stofnun verði að meirihluta í eigu
samvinnumanna. Sala ríkisins á
hlutabréfum Útvegsbankans er
Sjálfstæðisflokknum að skapi en
kaupandinn ekki - enda samdóma
álit manna á þeim bæ að einka-
framtakið eigi helst að ráða öllum
peningastofnunum landsins.
Þess vegna var fulltrúum helstu
fjármagnseigenda einkaframtaks-
ins hóað saman og nýtt tilboð sam-
ið í snarheitum. Skyndilega var
Útvegsbankinn orðinn mjög eftir-
sóknarverður í þeirra augum.
Meðal hinna 33ja aðila sem sam-
einaðir bjóða í hlutabréf Útvegs-
bankans er að finna alla helstu full-
trúa mestu auðfyrirtækja einka-
framtaksins. Athyglisvert er að
einungis 300 milljónir af þeim 760
sem tilboðið hljóðar upp á er hægt
að rekja til fyrirtækja í sjávarút-
vegi. Meirihlutinn kemur frá fyrir-
tækjum sem koma hvergi nærri
þeim atvinnuvegi. Þá vekur það
furðu að á meðal þeirra sem að til-
boðinu standa eru tvö fyrirtæki
Reykjavíkurborgar, Grandi h.f. og
Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan
h.f. Þessi fyrirtæki hafa skuldbund-
ið sig til að leggja samtals 40 millj-
ónir króna í púkkið. Það er örugg-
lega ekki vilji Reykvíkinga almennt
að meirihluti sjálfstæðismanna í
borgarstjórn ráðstafi skattpening-
um borgarbúa með þessum hætti.
Svo mikið er víst.
Framganga Þorsteins Pálssonar
formanns Sjálfstæðisflokksins vek-
ur furðu og sæmir ekki for-
sætisráðherra. Hann brást við með
því að leggja krossapróf fyrir full-
trúaráð Sjálfstæðisflokksins, til að
fá fram vilja þess í málinu, þótt
menn vissu svarið auðvitað fyrir-
fram. „Verði þinn vilji, “ er niður-
staða forsætisráðherra. Það hefði
mátt ætla að þjóðarhagsmunir og
heiðarleg viðskiptasjónarmið
hefðu forgang umfram vilja Sjálf-
stæðisflokksins. Svo er þó ekki.
Tilboð samvinnumanna í
Útvegsbanka íslands varð til þess
að frjálshyggjan hóf enn eina her-
ferðina gegn félagshyggjunni. Svo
mikið liggur við að ríkisstjórnin er
hiklaust sett að veði. Einkafram-
taksmenn hafa sett ráðherrum
Sjálfstæðisflokksins afarkosti:
Annað hvort fáum við bankann
ellegar okkar stuðningur við þá
einstaklinga sem nú gegna ráð-
herraembættum er úr sögunni.
Það hriktir í stoðum stjórnarsam-
starfsins og fróðlegt verður að
fylgjast með framvindunni. Félags-
hyggjufólk stendur með pálmann í
höndunum og sjálfstæðismenn
hafa enn ráðrúm til að sjá að sér.
BB.
Snorrahús rifið:
„Mikil vonbrigði"
- segir Þór Magnússon, þjóðminjavörður
Stórt og mikið timburhús stend-
ur við Strandgötu 29 á Akur-
eyri, svokallað Snorrahús. Hús
þetta er nú í eigu Dags og
ákveðið hefur verið að rífa
húsið og verður það gert fyrir
afmæli Akureyrarbæjar. Fyrir
skömmu barst bæjarstjórn bréf
frá Þór Magnússyni, þjóð-
minjaverði, þar sem hann fer
fram á að ákvörðun um að
niðurrif Snorrahúss verði
endurskoðuð. Snorrahús er
ekki friðað.
Segir Þór í bréfi sínu að
Snorrahús sé með stærstu húsum
sinnar tíðar í Akureyrarkaupstað
og hafi alla tíð sett mikinn svip á
gömlu byggðina á Oddeyri. Það
væri því mikill sjónarsviptir að
því, ekki síst þar sem húsaröðin
eftir Oddevrinni sunnanverðri er
enn óvenjuheilleg og gæti með
viðeigandi standsetningu hús-
anna orðið mikil staðarprýði og
sinn hátt jafn einstæð og byggðin
við Aðalstræti sem nú er tryggt
að standa muni til frambúðar.
Segir ennfremur í bréfinu að í
stað niðurrifs skuli stefnt að því
að gera við þetta hús, svo og önn-
ur í sömu húsaröð og nýta þau
síðan í þeim tilgangi, sem hæft
getur minjagildi þeirra. Segir Þór
að það yrði Akureyrarkaupstað
til mikils sóma ef hann stuðlaði
að viðgerð þessa húss, ekki síst
þar sem um er að ræða hús á
hvað mest áberandi stað bæjarins
og eitt hið prýðilegasta bygging-
arverk síns tíma.
Er skemmst frá því að segja að
á fundi bæjarráðs þann 13. ágúst
var ákveðið að fyrri ákvörðunum
um leyfi til niðurrifs Snorrahúss
yrði ekki breytt. Húsið verður
því rifið. „Ég get ekki annað en
lýst vonbrigðum mínum með
þessa ákvörðun," sagði Þór
Magnússon í samtali við Dag.
„Þetta er stórt og fallegt hús og
það er sérkennilegt með þessum
steinskífum utan á. Þessi gömlu
hús setja svo fallegan svip á
bæinn og eru, ásamt gömlum
húsum á ísafirði, eitt merkileg-
asta húsasafn á íslandi. Mér
finnst mjög slæmt að menn skuli
ekki hafa komið því til leiðar að
þessi hús verði varðveitt. Ég er
hræddur um að menn séu nokkr-
um árum á undan sinni hugsun
með þetta. Mér finnst Akureyr-
ingar vera að vakna svo vel til vit-
undar og skilnings á gildi þessa
gamla byggingararfs sem svo
mikið er til af á Akureyri.“
Sagði Þór að mál þetta væri
algjörlega í höndum bæjarstjórn-
ar þar sem húsið er ekki friðað.
„Akureyrarbær hefur gert mikið
í húsfriðunarmálum undanfarin
ár, inni í Fjöru og víðar, nú síðast
var Eyrarlandsstofa gerð upp
sem var bænum til mikils menn-
ingarauka. Út um allan heim er
mikil hreyfing í verndun á göml-
um byggingararfi, það helst í
hendur við umhverfisvernd yfir-
leitt. Við íslendingar erum alltaf
svolítið á eftir og þurfum að láta
útlendinga segja okkar flesta
hluti, því við sjáum þá ekki
sjálf.“
Aðspurður sagði Þór að ríkinu
væri ekki skylt að sjá um við-
gerð eða viðhald á friðuðum
húsum. „En það er til húsfrið-
unarsjóður og úr honum er veitt
fé til viðgerða, bæði friðaðra
húsa og annarra húsa sem þykja
menningarsögulega merkileg.
Þessi sjóður er ekki stór og því
ekki háar upphæðir sem eru
veittar úr honum.“
Ef hús er friðað í A-flokki má
ekki breyta því neitt, hvorki að
innan né utan. Sagði Þór að að
vísu væri hægt að fá heimild frá
húsafriðunarnefnd til að breyta.
„Hún reynir auðvitað að taka til-
lit til nauðsynlegra breytinga í
sambandi við breytta • notkun.
Það er ekki hægt að ségja fólki að
hafa eldhúsið í kjallaranum eins
og var eða vera með útikamar.
Fólki liði ekki vel í svona húsi og
auðvitað er best að fólk búi í hús-
unum. Varðandi Snorrahús þá
þætti mér það mjög virðingarvert
ef Dagur gerði upp húsið."
Margir eru ekki inni á því að
friða hús, sérstaklega þar sem
ekki má breyta þeim neitt, nema
með leyfi og þegar búið er að
friða hús er eigandi skyldugur til
að halda því við. Eins og fram
hefur komið veitir húsfriðunar-
sjóður fé til viðgerða og viðhalds
á friðuðum húsum, en þar er yfir-
leitt um að ræða litlar upphæðir
og aðeins brot af kostnaði við
viðgerðir og viðhald.
A Siglufirði eru þrjú hús
friðuð. Tvö þeirra eru í eigu
Siglufjarðarbæjar. Dagur hafði
samband við Jón Pálma Pálsson,
bæjarritara á Siglufirði og spurði
hann út í þetta mál. „Við höfum
verið að byggja upp annað húsið,
það er norska sjómannaheimilið.
Þar hefur tónskólinn nú aðsetur.
Síðan eigum við annað hús suður
á leirum. Það hefur ekkert verið
gert við það hús, annað en að
mála það að utan og það stendur
ekki til í dag að gera neitt fyrir
það alveg á næstunni."
Sagði Jón Pálmi að það væru
ákveðnir menn í bænum sem
vildu rífa húsin og það yrði gert
ef til þess fengist leyfi. „Én málið
er bara það að búið er að friða
húsin og þá getum við ekkert
gert. Á okkur eru síðan settar
þær kvaðir að gera húsin upp og
halda þeim við. Við fáum hugs-
anlega smá styrk frá Þjóðminja-
safninu til að gera upp norska
sjómannaheimilið, en það er
bara óvera. Við erum búnir að
gera við húsið fyrir 12 millj. kr.
og fengum 60.000 kr. í styrk til
þess á síðasta ári.“ Taldi hann að
það hefði verið hægt að byggja
nýjan tónskóla fyrir rninna fé en
12 millj. kr. „En það var valinn
þessi kostur að gera þetta. Þá
erum við bæði að uppfylla þær
kröfur að halda húsinu við og
koma upp aðstöðu fyrir tón-
skóla.“ HJS