Dagur - 07.12.1987, Blaðsíða 15

Dagur - 07.12.1987, Blaðsíða 15
7. desember 1987 - DAGUR - 15 Kveðjuorð: Halldór Jónsson bóndi Fæddur 12. desember 1919 - Dáinn 27. nóvember 1987 Fáir þekkja fegurð Öxnadals til fullnustu aðrir en þeir, sem búa þar eða dveljast langdvölum. Ljós og litir leika um hrikaleg fjöllin eftir skýjafari, veðri og vindum og fáir fá augum litið það sjónarspil allt aðrir en þeir, sem með því fylgjast dag hvern um langa hríð. Mest er fegurðin um miðbik dalsins, „þar sem háir hólar, hálfan dalinn fylla“, og Hraundrangar og Hólahyrna kallast á um dalinn þveran. Þver- brekkuhnjúkur gnæfir í suðvestri og Blámannshattur lokar fjalla- hringnum til norðausturs handan Eyjafjarðar, þótt ekki sjái á Eyjafjörðinn sjálfan. Fjallahring- urinn myndar trausta umgjörð um byggðina í dalnum og mótar skapgerð þess fólks, sem þar er fætt og uppalið og skapar því öryggi og festu, jafnframt því sem nálægðin við víðáttu Eyja- fjarðar eykur því víðsýni og sjón til margra átta. Eitt af börnum dalsins, sem þannig hafði mótast, var Halldór Jónsson, bóndi að Hólum í Öxnadal, en jarðarför hans er gerð frá Akureyrarkirkju mánudaginn 7. desember 1987. Hann lést á Fjórðungssjúkrahús- inu á Akureyri föstudaginn 27. nóvember s.l. Andlát hans bar óvænt að garði og reið yfir fjöl- skyldu, vini og vandamenn sem ógnþrungið og óundirbúið högg. Eftir sitja eiginkona og börn í hljóðri sorg og hnípnir vinir eiga engin ráð önnur en fátækleg huggunarorð. Halldór Jónsson fæddist 12. desember 1919 að Efstalandskoti í Öxnadal. Foreldrar hans voru Jón Jónsson og Jóhanna Sigurð- ardóttir, er þar bjuggu þá og síð- ar að Engimýri í Öxnadal. Al- systkini Halldórs voru 5 og er eitt þeirra látið, eða Sigríður, sem bjó á Akureyri og lést fyrir nokkrum árum. Gísli, bróðir Halldórs, er bóndi að Engimýri í Öxnadal, María systir hans býr í Reykjavík og Aðalheiður tví- burasystir hans býr á Akureyri. Yngstur systkinanna er Hermann, sem búsettur er á Akureyri. Hálfbróður áttu þau systkinin, Jónas Jónsson í Hrauni í Öxnadal, og var hann elstur. Svo sem títt var um þær mundir fór Halldór að vinna í búi for- eldra sinna með systkinum sínum svo fljótt sem vettlingi varð valdið, en fór ungur að heiman að vinna fyrir sér. Fyrst fór hann að Bakka í Öxnadal, þar sem hann dvaldi fram á unglingsárin, en síðan vann hann um margra ára skeið á Pverá í Öxnadal hjá Önnu Sigurjónsdóttur og Ármanni Porsteinssyni frá Bakka, en bæði þessi heimili að Bakka og á Þverá voru Halldóri jafnan mjög kær. Hjá Önnu og Ármanni á Þverá taldi hann sér heimili alveg fram að þvf er hann stofnaði sitt eigið heimili. Reynd- ar dvaldi hann einnig oft hjá Gísla bróður sínum og Maríu konu hans að Engimýri, en með þeim Halldóri og Gísla og fjöl- skyldu voru miklir og nánir kær- leikar. Auk landbúnaðarstarf- anna heima í dalnum vann Hall- dór um skeið á Keflavíkurflug- velli við landmælingar, en þau störf opnuðu honum sýn til nýrra átta og þjálfuðu hann í ensku máli, sem hann áður hafði numið í skóla. Halldór stundaði nám í tvo vetur í Reykholtsskóla í Borgarfirði og síðan nam hann einn vetur og eitt sumar að Bændaskólanum á Hvanneyri. Hugðist hann halda þar áfram námi en veiktist þá af lömunar- veiki og nokkrum árum síðar veiktist hann hastarlega af Ákur- eyrarveikinni, sem lagðist svo þungt á hann að honum var vart hugað líf um nokkurra vikna skeið. Þótt Halldór næði sér að því er virtist að fullu eftir þau miklu veikindi, með elju og þrautseigju, áttu þau þó vafalaust þátt í að hjarta hans var ekki svo sterkt fyrir sem haldið var þegar hinsta kallið gerði sín fyrstu boð aðfaranótt föstudagsins 27. nóvember s.l. Á árinu 1963 urðu þáttaskil í lífi Halldórs Jónssonar. Hann hafði endurheimt heilsu og þor og horfði hugdjarfur til framtíð- arinnar. Hann hafði kynnst einni heimasætunni að Ási á Þela- mörk, Fjólu Rósantsdóttur, þau felldu hugi saman og gengu í hei- lagt hjónaband þann 6. febrúar 1963. Þar var stigið mikið gæfu- spor í lífi beggja, en þau hafa síð- an búið saman í ást, vináttu og gagnkvæmri virðingu, einstak- lega samhent í lífi og starfi. Var unun að heyra til þeirra og sjá, þegar þau saman sinntu búskap- arverkunum með léttleika, glettni og góðlátlegri kímni, en búskapurinn átti hug þeirra og hjarta og lék þeim í höndum. Halldór var einstaklega glöggur sauðfjárbóndi, umgekkst bústofn sinn af alúð og hlýju, þekkti enda hvern einstakling sem um pers- ónulegan vin eða kunningja væri að ræða. Það má orða það svo, að sauðféð hafi örugglega átt góða vist hjá Halldóri í Hólum. Þau Halldór og Fjóla hófu búskap að Syðra-Brekkukoti í Arnarneshreppi. Árið 1969 flutt- ust þau að Naustum IV við Akur- eyri og stundaði þá Halldór ýmis störf á Akureyri, t.d. byggingar- vinnu, framleiðslustörf í Efna- verksmiðjunni Sjöfn og síðast starfaði hann hjá Verksmiðjuaf- greiðslu KEA. Þann 1. júní 1978 fluttu þau að Engimýri í Öxna- dal, þar sem þau hófu búskap í félagi við ættmenni Halldórs þar, en 7. september 1980 fluttu þau að Hólum í Öxnadal, þar sem Halldór bjó til æviloka og Fjóla býr enn með börnum þeirra hjóna. Þeim varð fjögurra barna auðið. Daníel Jón fæddist 23. desember 1962, en andaðist af slysförum þann 26. desember 1969, eða 7 ára gamall. Næst elst- ur er Rúnar Jens, fæddur 6. nóvember 1964. Hann hefur sinnt ýmsum störfum heima að búi með foreldrum sínum eða á Akureyri, en hefur nú horfið til bús með móður sinni eftir svip- legt andlát föðurins. Næst er Dóra Heiða fædd 10. apríl 1969, hún nemur við Verkmenntaskól- ann á Akureyri, og yngst er Dal- rós Jóhanna, fædd 26. október 1972 en hún dvelur í heimahús- um og stundar nám í Laugalands- skóla á Þelamörk. Þeimr'Sem til þekkja, ber saman um að Daníel Jón hafi verið efnilegur og yndis- legur drengur. Andlát hans varð foreldrum hans mikið áfall og þótt þau bæru harm sinn í hljóði máttu kunnugir greina sára kviku undir rólegu yfirborði, þegar drengurinn barst í tal, og vafa- mál, að Halldór hafi nokkru sinni náð sér að fullu eftir áfallið, sem hann varð fyrir við slysið, sem leiddi drenginn til dauða. En þeim sáru tilfinningum var aldrei flíkað. Börnin, sem eftir lifa, eru mannvænleg í besta lagi og fylkja sér með móður sinni í erfiðleik- um líðandi stundar og á göngunni framundan. Kynni okkar Halldórs Jónsson- ar hófust fyrir alvöru þegar hann flutti með fjölskyldu sína að Hól- um í Öxnadal á árinu 1980. Við höfðum reyndar kynnst nokkuð meðan þau bjuggu í Engimýri frá árinu 1978. Eins hafði ég veitt athygli þessum trausta og vandaða manni, er hann starfaði hjá KEA á árum áður og góður vinskapur hafði tekist með eiginkonum okkar þegar á árinu 1969 þegar þær ólu dætur nánast samtímis á Fæðingardeildinni á Akureyri. En náin kynni og vinátta hófust að Hólum, þar sem við hjónin og börn okkar dveljum gjarnan, þegar tómstundir gefast. Kynnin við Halldór Jónsson og fjölskyldu hans hafa öll verið hin ánægjuleg- ustu. Halldór verður mjög eftir- minnilegur hverjum þeim, er honum kynntist náið en kannske voru þeir ekki mjög margir, sem honum kynntust á þann hátt, því hann var maður dulur undir sínu rólega og afar vinsamlega yfir- borði. Hann var einstaklega heiðarlegur og vandaður, vel greindur og traustur, átti sér hlýja kímnigáfu og var víðsýnn í sinni traustu skaphöfn. Hann var hlýr heimilisfaðir og góður vinur vina sinna. Við hjónin kveðjum hann í hljóðlátri þökk og börnin okkar senda honum vinarkveðjur á skilnaðarstundu, sérstaklega þau sem utanbæjar og erlendis dveljast og ekki geta fylgt honum síðustu sporin. Þrátt fyrir blíðviðrið um þessar mundir hafa skammdegisskugg- arnir dökknað og dýpkað. Tóm sest að sálinni við þungan missi. Mestur er missir eiginkonu og barna, sem leita sér huggunar hjá góðum Guði og í minningunni um kæran eiginmann og föður. Vinir og vandamenn leita sér huggunar í handleiðslu Guðs og í minningunni um góðan dreng, sem gott var dð eiga samleið með. Við ferðalok Halldórs Jóns- sonar má rifja upp hendinguna úr Ferðalokum eftir Jónas Hall- grímsson. „Ástarstjörnu/yfir Hraundranga/skýla næturský." Skammdegisský skýla nú ástar- stjörnunni þeirra í Hólum, en öll ský leysir um síðir og stjörnurnar gefa fyrirheit um endurfundi í fyllingu tímans. Innilegar samúðarkveðjur eru sendar heim í Hóla til Fjólu og barnanna. Valur Arnþórsson. Auglýsing frá ríkisskattstjóra Verðbreytingarstuðull fyrir árið 1987 Samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 75 14. september 1981 um tekjuskatt og eignarskatt hefur ríkisskattstjóri reiknað verðbreytingarstuðul fyrir árið 1987 og nemur hann 1,1795 miðað við 1,0000 á árinu 1986. Reykjavík 1. desember 1987, Ríkisskattstjóri. Auglýsing varðandi réttindi til fasteigna- og skipasölu Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 520 24. nóvember 1987, skulu lögmenn sem reka fastfeigna- og skipasölu og ekki hafa hlotið leyfi til fasteignasölu samkvæmt lögum nr. 47/ 1938 sækja um löggildingu samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/ 1986 fyrir 31. desember 1987 hyggjast þeir stunda slíka starfsemi eftir þann tíma. Þeir sem hlotið hafa leyfi til fasteignasölu samkvæmt lög- um nr. 47/1938 og stunda fasteignasölu skulu sömuleiðis fyrir 31. desember 1987 framvísa í dómsmálaráðuneytinu gögnum um að þeir fullnægi ákvæðum reglugerðar nr. 520/1987 um tryggingarskyldu. Jafnframt skulu fasteignasalar tilkynna ráðuneytinu hvar starfsstöð þeirra er en samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 34/1986 getur fasteignasali aðeins haft eina starfsstöð, á sama stað og fasteignasalan er rekin. Þá skulu fasteigna- salar einnig senda ráðuneytinu til staðfestingar eyðublað það sem þeir hyggjast nota fyrir söluumboð samkvæmt 9. gr. laga nr. 34/1986 og 2. gr. reglugerðar nr. 520/1987. Umsóknareyðublöð fást í dóms- og kirkjumálaráðuneyt- inu, Arnarhvoli. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 1. desember 1987. Ritari ístess hf. óskar eftir að ráða ritara. Um er að ræða hlutastarf, en gera má ráð fyrir að innan tíðar verði um fullt starf að ræða. Starfið fellst einkum í vélritun, símavörslu og öðrum almennum skrifstofustörfum. Viðkomandi þarf að hafa gott vald á norsku (eða öðru Norðurlandamáli), góða vélritun- arkunnáttu og reynsla við tölvuvinnslu er æskileg. Allar upplýsingar eru gefnar á skrifstofu fyrirtækis- ins, Glerárgötu 30, Akureyri, eða í síma 96-26255. Skriflegum umsóknum skal skilað á skrifstofu fyrir- tækisins eigi síðar en 14. desember n.k. ístess hf. Glerárgötu 30, Akureyri © 96-26255 Vélgæslumaður ístess hf. óskar að ráða vélgæslumann. Um er að ræða vaktavinnu, a.m.k. mestan hluta ársins. Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af meðferð véla og tölvubúnaðar. Allar upplýsingar eru gefnar á skrifstofu fyrirtækis- ins, Glerárgötu 30, Akureyri, eða í síma 96-26255. Skriflegum umsóknum skal skilað á skrifstofu fyrir- tækisins eigi síðar en 14. desember n.k. Eldri umsóknir óskast endurnýjaðar. ístess hf. Glerárgötu 30, Akureyri S 96-26255

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.