Dagur - 06.01.1990, Page 9
Laugardagur 6. janúar 1990 - DAGUR - 9
- Er það satt að þinn fyrsti
leikur með meistaraflokki í fót-
bolta hafi tapast 7:0?
„Já, það er satt. Það var gegn
Isfirðingum á ísafirði þegar við
vorum í annarri deildinni um
árið. Ég man nú ekki eftir að
hafa gert neinar rósir í þeim leik.
Ég hef líklega haft mig lítið í
frammi."
- Hefurðu einhvern tímann
gert upp á milli körfubolta og fót-
bolta hvað skemmtun varðar?
„Ég hef nú oft verið spurður að
þessu og það kemur nú alltaf
sama svarið upp í hugann. Þegar
maður fór að finna grasilminn á
vorin þá vildi maður ólmur kom-
ast í fótboltann en þegar slyddan
var farin er berja mann í andlitið
á haustin þá komst ekkert annað
að en að fara inn í sal í körfu-
bolta.“
- Færðu útrás í íþróttum?
„Ég veit ekki hvort ég myndi
haga mér eitthvað öðruvísi ef ég
væri ekki í íþróttum. En allavega
líður mér vel þegar ég er búinn
að taka vel á og hlaupa mikið og
hamast og ég held að hver og
einn sem er á annað borð eitt-
hvað í íþróttum finni þessa vel-
líðan innra með sér.“
Mikill stígandi hjá
Tindastóli
- En hvernig finnst þér Tinda-
stóll hafa staðið sig undanfarið í
keppnum, þá bæði í körfuknatt-
leik og knattspyrnu?
„Það hefur verið gífurlegur
stígandi í þessu á undanförnum
árum. í körfunni hafa orðið mikl-
ar framfarir og við eigum lið í
Úrvalsdeild. Það sama má segja
um fótboltann. Við hér á Krókn-
um stöndum vel í báðum þessum
greinum og höfum aldrei áður
náð svona langt. Yngri flokkarnir
eru virkilega sterkir og þá sér-
staklega yngstu strákarnir bæði í
körfu og fótbolta. Þeir æfa mun
markvissara núna heldur en þeg-
ar ég var í yngri flokkunum."
- Eins og þú sagðir áðan þá
hafa liðin í Úrvalsdeildinni í
körfubolta og annarri deildinni í
knattspyrnu aldrei náð svo góð-
Texti: Karl Jónsson
Eyjólfur var lykilmaður í Tindastólsliðinu í körfuknattleik og var m.a. valinn
til landsliðsæfinga í körfunni. Hér sést hann í leik gegn IBK í fyrra í Urvals-
deildinni í körfuknattleik.
Eyjólfur í baráttu við finnska varn-
armenn í leik með knattspyrnu-
landsliðinu U-21 árs, en eins og
kunnugt er skoraði hann öll fjögur
mörk íslenska liðsins í leiknum. Á
innfelldu myndinni er hann í leik
með Tindastóli gegn ÍR í 2. deild-
inni síðasta sumar.
um árangri, sem blasir við í dag.
Hvað finnst þér um það að fá
utanaðkomandi leikmenn til að
styrkja liðin?
„Ég er hlynntur því að fá sterk-
an mann til að fylla upp í lið ef
það vantar eitthvað upp á, en ég
er ekki hlynntur því að miðlungs-
leikmönnum sé smalað saman,
en það er alveg sjálfsagt að
styrkja hópinn.“
Menn verða að horfast
í augu við
hálf-atvinnumennskuna
- Heldur þú að það séu miklir
peningar í íþróttum á íslandi?
„Ég held að það séu nú ekki
miklir peningar í íþróttum núna,
en það á eftir að aukast. Þetta er
farið að nálgast hálf-atvinnu-
mennsku í sumurn greinum."
- Er tími til kominn að menn
fari að horfast í augu við það að
hálf-atvinnumennska sé það sem
koma skal?
„Já, ég held það. Enda voru
samþykktar nýjar reglur á KSÍ-
þinginu þannig að liðum er frjálst
að gera einhvers konar samninga
við sína leikmenn. Þau eru að
gera það eitt af öðru um þessar
mundir. Það er því ljóst að þetta
er að breytast að einhverju leyti.
En hjá því verður ekki litið að
fjármagn félagsliða býður ekki
upp á mikla möguleika hvað
þetta varðar og þetta er erfitt
viðureignar.“
Nauðsynlegt að fá styrkt-
araðila að Islandsmótinu
- Nú hafa farið af stað viðræður
um stofnun annarrardeildar fé-
laga, af sama meiði og Samtök
fyrstudeildar félaga og finna um
leið styrktaraðila að Islandsmót-
inu. Finnst þér þetta rétt stefna
að leita eftir slíkum styrktaraðil-
urn og jafnvel skíra keppnina eft-
ir þeim?
„Ég held að það sé nauðsyn-
legt svo að dæmið gangi hrein-
lega upp fyrir félögin þó að það
sé kannski ekkert sniðugt að
breyta nafni mótsins."
- Hvernig heldurðu að Tinda-
stóli gangi í 2. deildinni næsta
sumar?
„Ég held að þeim komi til með
að ganga vel. Það eru ungir og
efnilegir strákar að koma upp og
ég held að liðið verði á svipuðu
róli og síðustu ár. Það er ljóst að
nokkrir leikmenn eru að hætta en
það er það sem koma skal. Það á
sér alltaf stað einhver endurnýj-
un í þessu og þá er sjálfsagt að
byggja liðið upp á heimamönnum
en styrkja það með aðkomu-
mönnum ef með þarf.“
Samningurinn beið
undirritunar í Stuttgart
- En svo við snúum okkur að því
sem tekur nú við hjá þér, harður
heimur atvinnumennskunnar.
Áttirðu von á að fá samning er
þér var boðið út til æfinga síðast-
liðið haust?
„Fyrst þegar ég fór út í æfinga-
búðirnar hjá þeim var ég ein-
göngu spenntur fyrir að sjá þetta
og kynnast þessu og fá að æfa
með þessum körlum. Ég var nátt-
úrlega mjög forvitinn að vita
hvernig þetta væri. En svo eftir
landsleikinn við V-Þjóðverja
vildu þeir fá mig til sín til samn-
ingaviðræðna. Það var allt klárt
þegar ég kom, samingurinn kom-
inn á borið og allt á hreinu og til-
búinn til undirritunar."
- Hefðirðu farið til Brann ef
þú hefðir ekki samið við
Stuttgart?
„Ég veit það ekki. Maður var
ekkert farinn að hugsa alvarlega
um það. Það er gífurlegur munur
á þessum tveimur klúbbum,
Stuttgart er eitt af stærstu liðun-
um í Evrópu. Ég hefði hugsað
málið vandlega gagnvart Brann,
en þegar tilboðið kom frá Stutt-
gart var ekki þörf á því.“
Aðstaðan frábær
- Hvernig er aðstaðan sem Stutt-
gart hefur upp á að bjóða?
„Hún er frábær og eiginlega
ekki hægt að hugsa sér hana
betri. Það er tíu æfingavellir af
fullri stærð á svæðinu og öll önn-
ur aðstaða er við þá s.s. búnings-
herbergi, tækjasalir, sundlaug,
gufubað, nuddpottar, afslöppun-
arsalir, þreksalur og nuddarar
sem bíða eftir þér þegar þig vant-
ar nudd. Þannig að það er ekki
hægt að hugsa sér þetta betra."
- Hefur Arie Haan ekki að-
stoðarmenn með sér?
„Hann er með einn aðstoðar-
mann, sem er eiginlega meiri
þjálfari en hann sjálfur. Arie
horfir meira á og leggur upp
„taktík“ fyrir leikina. Aðstoðar-
þjálfarinn sér því aðallega um
þjálfunina.“
- Hvernig var þér tekið af
þessum körlum þegar þú komst
þarna út?
„Mér var tekið nokkuð vel.
Maður var að reyna að babla
þýskuna og svara spurningum um
ísland. Ég þekkti nú tvo þarna
fyrir síðan úr landsleikjunum við
V-Þjóðverja, þá Schmeler-tví-
bura.“
Mjög létt yfír mönnum
á æfíngum
- Hvernig er mórallinn á æf-
ingunum?
„Hann er mjög góður og það
er mjög létt yfir þessu. En það er
mikil harka og menn gefa ekkert
eftir, leggja sig alla í þetta.“
- Kemurðu til með að gera
eitthvað annað ytra en að leika
knattspyrnu?
„Nei það eru það stífar æfingar
að maður verður að nota tímann
á milli til að slappa af. Maður
vaknar eins og til vinnu hérna
heima og það er æfing kl. tíu á
morgnana, svo er hádegismatur
og æfing aftur eftir hádegi og
maður er búinn seinnipartinn
einhvern tímann. Þannig að þetta
er alveg fullur vinnudagur.
- Hvernig borg er Stuttgart?
„Það er virkilega fallegt þarna
eins og alls staðar í Suður-Þýska-
landi og ég kann mjög vel við mig
þarna. Það er mikill bæjarbragur
á þessu og lítið um stórborgarlæti
þarna.“
Á ekki von á að komast
í liðið í vetur
- Hverja telur þú þína mögu-
leika hjá liðinu?
„Ég á nú ekki von á því að
komast í liðið á þessu tímabili.
En ég kem til með að æfa vel og
bæta mig sem knattspyrnumann
og ég hef sett stefnuna á að kom-
ast í liðið næsta vetur. Það er mitt
takmark. Nú á að breyta reglum
um útlendinga í Þýskalandi þann-
ig að þeir mega vera fjórir í liðs-
hópnum í staðinn fyrir þrír í dag
Þrír í byrjunarliði og einn á
bekknum."
- En svona að lokum áttu þá
ekki einhver holl ráð í pokahorn-
inu handa yngri íþróttamönnum,
sem eru að stíga sín fyrstu skref í
dag?
„Það er bara að æfa vel og
reglulega og gefast aldrei upp þó
á móti blási. Þá lætur árangurinn
ekki á sér standa.“
Með þessum töluðum orðum
lýkur viðtalinu við Eyjólf. Króks-
arar koma væntanlega til með að
fylgjast grannt með sínum manni
sem og flestir landsmenn. Það er
algert einsdæmi að menn fari
beint úr annarri deild á íslandi í
hinn harða heim atvinnumennsk-
unnar í Þýskalandi. Dagur óskar
Eyjólfi og unnustu hans, Önnu
Pálu Gísladóttur, alls hins besta á
erlendri grundu.