Dagur - 07.07.1990, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Laugardagur 7. júlí 1990
HESTAR
Umsjón: Kristín Linda Jónsdóttir
Hestamannamót:
Keppnismenn í hestalþróttum
Baldvin Ari Guðlaugsson tekinn tali
Þegar þessi þáttur Hesta kemur fyrir sjónir lesenda Dags
mun Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafírði
standa yfír. Fyrsta Landsmót hestamanna var haldið á Þing-
völhim árið 1950. Fjórum árum seinna eða 1954 var svo
Landsmót á Þveráreyrum í Eyjafirði. Síðasta Landsmót var
haldið á Hellu, en landsmót hestamanna eru haldin á fjög-
urra ára fresti og hafa þrátt fyrir vaxandi fjölda móta og sýn-
inga fyllilega haldið sínum hlut sem hápunktur hestaþinga.
Því fer hins vegar fjarri að
keppnis- og sýningarmenn séu
aðgerðarlausir milli landsmóta.
Segja má að vart falli úr helgi hjá
þeim á hringvellinum. Allt frá því
skömmu eftir áramót og fram á
haust eru haldin mót og sýningar
vítt og breitt um landið. Fjórð-
ungsmót eru haldin til skiptis fyr-
ir sunnan, norðan, austan og
vestan. Fjórðungsmót Austur-
lands var haldið í fyrrasumar.
Hestaíþróttir
Árið 1977 var íþróttaráð Lands-
sambands hestamannafélaga
stofnað og á Landsmóti hesta-
manna 1978 var keppt í hesta-
íþróttum bæði í tölti og gæðinga-
skeiði. Hestaíþróttasamband
íslands er nú orðið fullgilt sér-
samband innan ÍSÍ. Á Vetrar-
íþróttahátíð ÍSÍ á Akureyri í
mars síðastliðnum var keppt í
fyrsta sinn í hestaíþróttum innan
þeirra vébanda.
Hestamenn hafa öðlast sess
meðal annarra íþróttamanna og
nefna má að í kjörinu um íþrótta-
mann ársins er tilnefndur hesta-
íþróttamaður. Síðastliðið ár var
Sigurbjörn Bárðarson tilnefndur.
Sigurbjörn er einn þeirra íþrótta-
manna sem eru sinni íþrótt til
sóma, er íþróttamaður í fremstu
röð. Hann hefur verið kallaður
„Gullbjörn" og árangur hans þarf
enginn að draga í efa því sagt er
að verðlaunasafn hans sé eitt-
hvert það glæsilegasta á landinu.
Islandsmót
íslandsmót í hestaíþróttum eru
haldin á hverju ári. Síðasta mót
var haldið í Borgarnesi og nú í
sumar verður íslandsmótið hald-
ið þar aftur í ágúst. Á íslands-
móti í hestaíþróttum er barist um
íslandsmeistaratitla ekki síður en
t.d. í fótbolta. Á síðasta íslands-
móti færði glæsileg sýning og
hrífandi samspil knapa og hesta,
Rúnu Einarsdóttur og Dimmu
frá Gunnarsholti sæmdarheitið
íslandsmeistari í tölti.
Á Landsmóti Ungmennafélags
íslands sem haldið verður 13.-15.
júlí í Mosfellsbæ verða hesta-
íþróttir í fyrsta sinn meðal
keppnisgreina. Það er því óhætt
að segja að hestaíþróttamenn
hafi að nógu að stefna og hvert
stórmótið reki annað.
Landsliðið
Þrátt fyrir að sigrar hestaíþrótta-
mannsins á öllum mótum allt frá
litlum deildarmótum til íslands-,
fjórðungs- og landsmóta séu hver
öðrum eftirsóknarverðari er það
eins í hestaíþróttum eins og í
öðrum íþróttum að eftirsóknar-
verðast er að komast í landsliðið.
Landsliðið í hestaíþróttum kepp-
ir fyrir íslands hönd á Evrópu-
móti íslenskra hesta sem haldið
er á tveggja ára fresti. Það var
haldið í Danmörku í fyrrasumar.
Haldið er sérstakt úrtökumót fyr-
ir hvert Evrópumót til að velja
knapa og hesta sem síðan skipa
landslið Islands á mótinu.
Keppnismaður
í hestaíþróttum,
Baldvin Ari Guðlaugsson
í úrtöku fyrir Evrópumótið í
Danmörku var norðanmaðurinn
Baldvin Ari Guðlaugsson frá
Akureyri fyrstur til að tryggja sér
sæti í landsliðinu á hestinum
Trygg frá Vallarnesi.
Baldvin Ari er ungur og upp-
rennandi tamningar- og sýningar-
maður. Keppnismaður í hesta-
íþróttum sem nú þegar hefur gert
garðinn frægan bæði austanhafs
og vestan. Hann hefur starfað við
tamningar íslenskra hesta í
Bandaríkjunum og tekið þátt í
fjölda móta og sýninga hér
heima. Hann vakti fyrst athygli í
úrslitum meðal þeirra bestu á
stórmóti á Vindheimamelum,
það var íslandsmótið 1984.
Nú í vor náði hann frábærum
árangri þegar hann varð tvöfald-
ur sigurvegari í gæðingakeppni
Léttis sem jafnframt var úrtaka
fyrir landsmót. Hann sigraði í A-
tlokki á hryssunni Dögg frá
Akureyri og í B-flokki á Kolbak
frá Húsey. Viku fyrir mótið var
einn af stóru dögunum í lífi
Baldvins en á sólbjörtum degi
útskrifaðist hann sem stúdent og
sýndi sama dag hryssuna sína
hana Dögg á Héraðssýningu
Hrossaræktarsambands Eyfirð-
inga og Þingeyinga þar sem hún
hlaut fyrstu verðlaun.
Baldvin varð við þeirri ósk að
veita okkur innsýn í heim þeirra
sem lagt hafa fyrir sig sýningar og
keppni á íslenskum hestum.
„Sá sem getur
tamið sjálfan sig,
hann getur tamið hross“
- Hvað er svona spennandi og
eftirsóknarvert við það að keppa
í hestaíþróttum?
„Þetta er eins og í öðrum
íþróttum, þeir sem taka þátt í
keppni hafa að ákveðnu marki að
stefna og þjálfa til að ná sem
bestum árangri. Þar gefst líka
tækifæri til að sjá hvar íþrótta-
maðurinn stendur samanborið
við aðra. Það er mjög gaman
þegar vel gengur en ef illa gengur
þá má læra af mistökunum og
gera betur næst. Fyrir þá sem
starfa við tamningar eða hafa
atvinnu sína á annan hátt af
hestamennsku er þátttaka í sýn-
Baldvin Ari og Tryggur.
ingum og keppni nauðsynleg. Oft
er sýning eðlilegt framhald tamn-
ingar eða lokapunktur áður en
hrossið er afhent eiganda. Tamn-
ingarmönnum gengur betur í
starfi ef þeim tekst að kynna sig
vel og besta tækifærið til þess er á
hestamannamótum.“
- Hvað þarf hestaíþróttamað-
ur að hafa til að bera til að ná
góðum árangri?
„Fyrst og fremst aga, sjálfsaga,
sá sem getur tamið sjálfan sig,
hann getur tamið hross. Auk þess
verður að vera til staðar metnað-
ur og til að bæta sig frá degi til
dags og mikill áhugi. Góður
keppnismaður þarf líka að hafa
mikið keppnisskap en hann þarf
að hafa fullkomna stjórn á því,
það verður að fylgjast að.
Keppnisskap getur gefið mönn-
um aukinn vilja, kraft og einbeit-
ingu en í hita leiksins verða menn
að taka úrslitum og dómum og
sýna að þeir séu sannir íþrótta-
menn og kunni bæði að sigra og
tapa.“
Yaxandi atvinnugrein
- Nú eru þeir sem dæma hross
oft umdeildir, telur þú að það sé
sérstaklega erfitt að dæma í
keppnum hestamanna?
„Já ég tel að svo sé. Þrátt fyrir
skýrar reglur eru dómar oft hug-
lægt mat og augnabliksákvarðan-
ir. Því miður virðist hlutdrægni
stundum gæta í dómum en marg-
ir dómarar eru alls trausts
verðir.“
- Er hestamennska órðin við-
urkennd atvinnugrein?
„Nú í dag starfa einhver
hundruð manna við tamningar,
ræktun hrossa, hrossasölu og
annað sem tengist hrossum. Auk
þess starfar hópur íslenskra hesta-
manna á hrossabúgörðum er-
lendis. Það má segja að félag
tamningarmanna sé nú þegar
orðið nokkurskonar stéttarfélag
atvinnumanna í hestamennsku.
Það er stefnumótandi varðandi
laun tamningarmanna og
gjaldskrá yfir tamningar og járn-
ingar. Auk þess hefur félagið
mótað ýmsar reglur fyrir tamn-
ingarmenn þar á meðal agaregl-
ur.“
- Eru skemmtilegustu stundir
keppnismanna í hestaíþróttum
sigurstundir á hringvellinum?
„Það er mjög gaman að ná
góðum árangri í keppni en það er
ekki síður skemmtilegt að fara í
hestaferðalög með skemmtilegu
fólki. Félagsskapurinn í hesta-
mennskunni er mjög skemmtileg-
ur, hestamenn eru lífsglatt fólk.
Ánægjulegust er ef til vill þátt-
taka í sýningum á íslenska hestin-
um erlendis. Að ríða íslenskum
gæðingi í þéttsetnum ótrúlega
stórum og glæsilegum sýningar-
höllum. Að kynna hann sem nýtt
hestakyn fyrir þeim sem aldrei
hafa séð hann og upplifa þá hrifn-
ingu sem hann vekur meðal
áhorfenda er ógleymanlegt."
Reynslan mikils virði
- Keppni í hestaíþróttum byggir
á samspili knapans og hestsins, er
ekki geysi viðamikið að undirbúa
slíka keppni?
„Það er gífurleg vinna, ég held
að fáir geri sér grein fyrir þeim
kostnaði og tíma sem keppni í
hestaíþróttum krefst. Hestar eru
lifandi dýr sem þarfnast góðrar
umhirðu og þjálfunar svo árum
skiptir áður en þeir eru tilbúnir til
afreka á hringvelli. Knapinn nær
ekki heldur árangri án fyrirhafn-
ar og eflaust er reynslan dýrmæt-
asti skóli hestamannsins. Margir
knapar standa á hátindi síns
ferils um fertugt og gefa yngri
mönnum ekkert eftir svo lengi
sem þeir taka þátt í mótum.
Hestaíþróttir er „sport“ fyrir
lífstíð."
í hestaíþróttum næst hámarks
árangur aðeins með gagnkvæm-
um áhuga knapa og hests á við-
fangsefninu sem glímt er við.
Sumir hestar eru ekki keppnis-
hestar heldur frábærir reiðhestar
og eiga að njóta sín sem slíkir.
- Hver eru svo framtíðar-
áform hestaíþróttamannsins
Baldvins Ara?
„Ég ætla að temja og vinna við
hross eingöngu næstu tvö árin. Ég
reikna með að vinna bæði hér
heima og erlendis og reyna að
öðlast víðtækari reynslu og þekk-
ingu í hestamennsku. Að tveimur
árum liðnum ætla ég svo að
reikna dæmið upp á nýtt og hver
útkoman verður þá verður bara
að koma í ljós,“ sagði Baldvin.
- Að lokum?
„Hestamennska er íþrótta-
grein sem er virkilega þroskandi
og bætandi fyrir alla. Hún krefst
mikils af þeim sem velja hana
sem lífsstíl en hún getur líka ver-
ið sú lífsfylling sem allir sækjast
eftir í leitinni að hamingjunni.“