Dagur - 18.12.1990, Blaðsíða 18

Dagur - 18.12.1990, Blaðsíða 18
18 - DAGUR - Þriðjudagur 18. desember 1990 bókakynning „ í afskekktinni - kaíli úr nýrri skáldsögu Guðmundar Halldórssonar frá Bergsstöðum „í afskekktinni“ nefnir Guðmundur Halldórssunar frá Bergsstöðum nýjustu skáldsögu sína. Sagan gerist á heiðar- býli í byrjun fyrra stríðs. Aðalpersónur sögunnar eru hjón sem strita hörðum höndum fyrir lífsbjörg sinni og barna sinna en hrekkur þó ekki til. Omegð vex og skuldir hlaðast upp. Hreppsnefndin óttast fátt meira en að fá þau á sveitina með alla ómegðina. Hún gerir þess vegna ítrekaöar tilraunir til að koma þeim af sér yfir á nágrannahreppinn, sem bregst auðvitað hart við... í kaflanum sem hér fer á eftir er Jón bóndi, aðalpersóna sögunnar, kominn á fund Gríms, skrifara og oddvita í Stórahreppi, nágrannahreppnum: „Þeir hafa talað um færið og mikla veðrið í vetur og oddvitann farið að muna í einhverju vitn- eskju um erindi göngumannsins alla þessa dorru þegar dagur nálgast það að bíta í sporð sinn. - Þú ert sjaldséður gestur hér á þessum tíma árs, Jón minn. Eitthvað hlýtur þér að vera á höndum. - Ég var að svipast um eftir tófu. Hún er farin að ganga heim á bæi. - Ég sá þig ekki með byssu þegar þú komst. Ekki ertu farinn að hlaupa þær uppi, segir Grímur og hlær við græskulaust. Byssu, hugsar Jón og sýgur upp í nefið. Honum hafði ekki komið í hug að þannig yrði spurt. - Byssan, svarar hann strax. - Ég skildi hana efdr fram á dal, þar sem ég náði í hana Maríu mína um vorið. Einlægni eins og þessi getur ekki boðað fals. Og hvað átti þessi umkomulitli kot- bóndi að hafa til að fela? Nývakin tortryggni Gríms út í erindagerðir Jóns fýkur nú eins og strá fyrir vindi. Þeir sitja í hálfmyrkri stofunni. Jón sér að þar er kominn skápur með gleri í hurðum og dýrri málningu. Raunar eru skáparnir tveir og stendur annar upp á hinum. Það standa bollapör og brauðdiskar með gylltri rönd innan við glerið. Borðið og stólarnir eru líka nýlegir í útliti. En servanturinn með vaskafatinu og emaleraðri vatnskönnu undir speglinum í horninu hafa staðið þar lengi. Þetta er fín stofa. Svona kames eiga ekki nema höfðingjar og ríkisfólk. - Þú ert að horfa á skápinn þann arna, segir Grímur drýg- indalega. - Já, svarar Jón. Hann veit að kona Gríms er hingað flutt úr ríku kaupmannshúsi, þar sem hann hafði dvalið vetrarpart við skriftir og afgreiðslu. Hún vill láta stofu og húsbúnað bera af því sem spyrst til annars staðar. Stofan er í bláum lit með gylltum listum. Jón telur sig skilja hvers vegna honum er boðið hingað inn í fínheitin í staðinn fyrir að fara með hann til baðstofu, fátækan almúgamanninn. Hjónunum er ekki mótdrægt að fréttir af rík- idæminu berist út um næstu sveit- ir. Það er nú meiri hégóma- skapurinn í þeirri manneskju, er Vatnsendafrúin vön að segja ef hún heyrir þessa konu nefnda. - Þú verður um kyrrt í nótt, segir Grímur kumpánlega. - María er ein heima með drengina og skepnurnar. Ég fer til baka í kvöld. - Ég held hún sé vön við. Þær óttast ekkert og geta allt þessar fjallakonur. Én byggðakell- ingarnar okkar þola hvorki heitt né kalt og þykjast sjá drauga og forynjur í hverjum skugga og skoti. - Sáu þær nokkurn slæðing á undan mér, spyr Jón lágt. - Hvernig á hann að líta út? - Kona í bláum möttli með gullspöng um ennið. - Möttull? Gullspöng? Kóróna kannski? Drottning á undan manni af koti ofan úr fjölium? Það finnst mér ekki líklegt. Ég spyr ekki um slíka vitleysu. - Nú væri gaman að hafa á járnum og taka þá niður á ísun- um. - Getur vel verið, karl minn. En ég fyrir mitt leyti hef annað með heyin að gera. Það er hverj- um manni sæmst að halda kyrru fyrir heima hjá sínum skepnum í svona árferði og vera ekki að hugsa um leikaraskap og bruðl. - Ég er ekki með á járnum, en Eyjólfur er með fola. - Þá hlýtur hann að vera stönd- ugri en ég, svarar Grímur. - Ég gef mínum hrossum út. Þau fá moðið frá kúnum og skán- ir og rekjur, sem féð étur ekki. Það fauk hjá mér fúlga í mikla veðrinu. - Ertu tæpur? - Já, ég er tæpur. - Ertu þá búinn að tryggja þér fóður? - Eg fæ ekki út. - Skuldarðu þá líka? - Ekki mcira en Eyjólfur og sumir úr hreppsnefndinni. - Á hverju stendur þá? - Hreppsnefndin bannar kaup- manninum að leggja mér lið. - Hvað meina mennirnir ir.eð því? - Hún er hrædd við að fá okkur á hreppinn. Það gerir ómegðin. Þeir ætla að koma okkur í burtu áður en það er um seinan. - Burtu var betra. Hvert ætlast þeir til að þú farir. Allar jarðir setnar og sumar tvísetnar. Ég skil ekki hvað þeir meina. - Ég mundi verða sveitlægur í Stórahreppi. Þetta er mín sveit. - Hér er ekkert jarðnæði að fá. Ég fæ ekki einu sinni kot handa syni mínum sem ætlar að gifta sig í vor. Vertu bara kyrr þar sem þú ert kominn. Hér verður stuggað hátt á móti reikunarfólki. Það er komið heimsstríð, karl minn. Jón sýgur raunalega upp í nef- ið og tekur það ráð að segja ekki fleira að sinni. Sumir bregðast illa við og verða vondir sé þeim svarað. Þannig er María. Eyjólfi á Heiði varð heldur ekki verra gert. Marga tófuna var hann búinn að styggja frá þeim á grenj- um með rosta sínum og hávaða. Nú var eftir að sjá hvernig Grími brygði við. Það ber ekkert á góð- gjörðum, og frúin lét ekki sjá sig. Birta tunglsins flæðir inn um suðurglugga stofunnar og fellur þar á myndir upp' á vegg. Önnur er af Hallgrími Péturssyni, hin af Jóni Sigurðssyni forseta. Jón heitir í höfuðið á frelsishetjunni. Faðir hans hafði beðið hann að taka hana til fyrirmyndar í þrautseigju og þolinmæði og sagt um leið, að með þeim eiginleik- um stæði allt og félli þegar þraut- ir bæri að höndum. Nú minnist hann þeirra orða með þakklæti. - Þú hlýtur að eiga sveit í Vatnsendahreppi eftir öll þessi ár. Enginn þarfa að segja mér annað? Jón starir þegjandi á myndirn- ar. - Það eru meira en tíu ár síðan þú fórst héðan. Þögn. - Ertu orðlaus, maður? - Gáðu í hreppsbækurnar, seg- ir Jón loks og tiltekur árið og krossmessudaginn, sem þau flytja. Óddvitinn stendur upp af stólnum og gengur hratt nokkrar ferðir um stofuna. Hann rengir ekki þetta ártal. Það sést líka í hreppsbókum. Hann verður tæp- ast rengdur. Hitt er svo annað mál hvort hann er einn í ráðum og eftir því verður að leita. Þessi maður getur valdið honum álits- hnekki og hreppnum óbætanlegu tjóni. Það er auðséð að nú ætlar hreppsnefndin fremra að korna þessu fólki af sér. Láta þau þiggja fyrst af sveit og velta þeim síðan af sér hingað. Þetta var ekki ný saga í samskiptum milli hreppa þegar fátækir áttu í hlut og þeir stóður betur að vígi í fremra. En þá var að bera sig til og taka eftir- minnilega á móti. Annars mundi Ólafur í Hvammi fá því loks framgengt að fella hann úr hreppsnefndinni og setjast sjálfur í sætið hans. Hann setti sig aldrei úr færi að gera honum allt til smánar og bölvunar. Maðurinn var bæði slunginn og ósvífinn. Það mátti mikið vera ef hann stóð ekki með einhverjum hætti hér að baki. Loks nemur oddvit- inn staðar framan við Jón, setur þumalfingur í vestisboðungana, fettir sig og þyngir svipinn. - Hvað eru krakkarnir margir? spyr hann loks snöggt. Jón finnur kuldann og lítils- virðinguna. Ég læst hvorki heyra hana né sjá, hugsar hann. Nú er hann sjálfur hræddur. Það finn ég innra með mér. - Drengirnir eru fimm og bráð- um sex, svarar hann fremur lágt. Engin raddbreyting. - Hvernig veistu það? segir oddvitinn hvasst. - María er ólétt. Hún hefur alltaf átt stráka. - Ólétt, já. Það er nokkuð mikið, segir Grímur brúnaþung- ur. Ansi er það nú gróft í farið hjá örsnauðu fólki sem liggur við sveit. Ekki eigum við Guðrún mín nema óskabörnin. - Þetta er nú það eina sem við María mín þurfum ekki að spara. En þið hafið efnin en haldið samt í við ykkur. Blóðið þýtur fram í andlitið á Grími. Hann snöggreiðist. Þarna sat þessi fátæklingsbjálfi, rólegur og sjálfsagt nteð sakleysið upp- málað í svipnum og hafði hann að háði og skimpi. Eða hvað átti maður að halda? Þvílíkt helvíti. Líklega var mannrolan ólíkinda- tól. Nú var best að kveikja á lampanum þótt snemmt væri til að fylgjast betur rneð svipnum á kauða. Hann opnar stofuhurð- ina, kallar fram og biður um að það sé kveikt. Skömmu síðar kemur stúlka og bregður upp á hengilampanum yfir borðinu. Hann er allur gylltur, og það má hækka hann og lækka. Mennirnir sitja og stara á bjart Ijósið þang- að til stúlkan er gengin fram. Þá kippir Grímur í buxnastrenginn og stikar nokkrar ferðir eftir stof- unni. Hér var trúlega best að nota lagið og fara að öllu með gát. Jón yrði að líkindum ekki beygður í duftið með stóryrðum. Það er Jón sem verður fyrri til máls: - Ég á eftir að verða ríkur, seg- ir hann og h'tur um leið á bættar vaðmálsbuxurnar, sem hann klæðist. Leppurinn stendur hálf- ur uppúr varpinu á öðrum skónum. Grímur sest á móti honum við borðið. - Eins og ég sagði þér þá er engin jörð laus hérna í hreppnum, segir hann og virðist rólegur. - Bakkakot er laust, hrekkur eins og óvart útúr Jóni. - Hver segir það? spyr Grímur og kippist til í stólnum. - Óddvitinn. Ég á jörðina lof- aða. Nú það lá alltént að, hugsar Grímur, sleginn felmtri. Svona var þá málum komið. Höfuð- óvinur hans, Ólafur í Hvammi, átti Bakkakot. Þeir höfðu komið sér saman Ólafur og oddvitinn og hugsuðu sér báðir að græða á við- skiptunum. Sveitin átti að sitja uppi ineð allt hyskið og hreppsbúar að borga brúsann. En skömmin af andvaraleysinu átti svo að skella á honum sjálfum. Það yrði ein- hver svartur í framan. Hann sér þá fyrir sér alla, sem borið hafa hæst útsvörin. Þeir mundu ekki hlæja við honum við næstu hreppsnefndarkosninar. Þeir kysu Ólaf í Hvammi. Og Guðrún fengi ekki afborið smánina. Hér voru góð ráð dýr. - Hvað er skuldin há? spyr hann síðan. Jón greinir frá upphæðinni. - Hún nemur verði 35 dilka. Svo hugsar hann sig um andartak og bætir við: - Ég meina þessi hjá kaupmanninum. - Þú skuldar þá víðar? - Já. - Hvaða skuldir eru það? - Ég fékk nokkra bagga af töðu hérna um vorið og vorið þar áður. - Nennirðu ekki að heyja? - Mig vantaði handa kúnum. Túnið gaf ekki meira af sér. Þetta voru slæm sumur, og María lá á sæng. - Eru ekki öll sumur slæm hjá forsjárlausum amlóðum? - Það eru öll ár erfið hjá fátæk- um einyrkjum á lélegum kotum. En drengirnir eru að potast upp og þá verðunt við efnuð. Þá hljóta sumrin að batna líka. Grímur ber í borðið. Bollapör- in með gylltu röndinni hristast og glamra í skáphillunni. Þetta er eins og jarðskjálfti. - Nú er nóg komið, hrópar oddvitinn. - Til hvers komstu? Troða við mig illsakir, eða hvað? Fólk eins og þið ættuð ekki að hafa tilverurétt. Hann ber cnn í borðið. - Nú varstu heppinn, Grímur minn, að enginn var viðstaddur. Annars hefði ég vitnað upp á þig. - Þú brúkar bara hótanir, segir Grímur lægri röddu en áður. Það fer þér heldur illa eins og ástatt er. Nú kemur slægðarglampi í augu Jóns. Hann var vondur áðan, hugsar hann. En ég kann á honum lagið. Fæ hann til að segja eitthvað, sem hann iðrast. Þá lækkar hann sig og verður strax mýkri á manninn. Síðan lítur hann í augu Gríms og segir spott- andi: - Þið vaðið áfram í heimsku ykkar og ofmetnaði, þessir sveitarstólpar. Stendur upp skjótlega og gerir sig líklegan að fara án þess að kveðja. - Sittu, segir oddvitinn, skip- andi, og stendur líka á fætur. - Sittu kyrr. Við skulum tala saman. Þeir tylla sér samtímis. Jón með uppgerðum dræmingi. - Ég átti ekkert erindi, kom bara svona, segir hann eins og ekkert hafi í skorist. - En það verður ljótt þegar tófan fer að murka lífið úr lömbunum okkar í vor. Grímur strýkur sér hugsandi um ennið. Hann virðist ekki heyra þetta, sem Jón hefur að segja um tófuna og lambadauð- ann að vori. Honum er eitthvað miklu þyngra í sinni. Augun flökta frá einum hlut til annars í stofunni, uns þau nema staðar á viðmælanda hans. - Ég skal sjá um skuldina hjá kaupmanninum fyrir þig ef þú verður kyrr í Heiðarseli, segir hann loks niðurdreginn. - Ég á langt heim og það er komið kvöld. Nú verð ég að fara, svarar Jón og beygir sig undir- borðið til að koma leppnum nið- ur í skóinn. Honum er hlátur í huga. - Hvað segir þú um það? - Jón Sigurðsson segir nei. Þögn. - Þá skal ég ábyrgjast fyrir þig úttekt á nauðþurftum í samráði við Thorvaldsen fram að kross- messunni. - Hafðu það heldur til árs. Ég borga þegar ég get. - Þá situr þú sem fastast í Heiðarseli næsta fardagaár. Svo er mér sama hvar þú vistar þig. - Hvenær má ég hitta kaup- manninn? spyr Jón og hneppir að sér jakkanum. - Þú heyrir frá mér áður en langt líður, tuldrar Grímur niður í bringu sína. Jón veit að nú er skammt í kvöldmat. Hungrið segir til sín. Hugurinn er í uppnámi og kvíði í sinni fyrir langri heimferð. Ég var heimskur að biðjá ekki Maríu mína að láta mig hafa bita með mér eins og stundum þegar ég geng til rjúpna þá verður maður minna þreyttur. Hann finnur að þögn stofunnar er honum fjand- samleg og rís þunglega á fætur. - Ertu ekki svangur, segir oddvitinn. - Maturinn þyngir mig ekki í dag, svarar Jón og opnar stofu- hurðina. Þeir takast lauslega í hendur úti á hlaðinu. Veðrið er einsýnt. Silfraður máni baðar sig í svefnbólstrum austanvert í dalnum, og kulda- blár himinn sveipast norðurljósa- leiftrum. Skuggarnir af bænum liggja skáhallt upp á túnhallann og styttast óðum. Dauðahljótt, utan krunk í hrafni og gagg í tófu. Þau eru svöng eins og ég, greyin, hugsar Jón og heldur út á hvítan breðann. Mér er ekki vandara um en þeim. Það yrði ekki leiðinlegt til afspurnar að hafa hrafn og tófu að fylgifisk- um.“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.