Dagur - 03.01.1991, Page 6

Dagur - 03.01.1991, Page 6
6 - DAGUR - Fimmtudagur 3. janúar 1991 ,yilji er allt sem þarf ‘ - áramótaávarp Steingríms Hermannssonar, forsætisráðherra Góðir íslendingar. í ávarpi mínu við síðustu ára- mót kvað ég forspáan mann sjá ljóma yfir íslandi seinni hluta þessa árs. Að þessu hentu ýmsir gaman og vildu vita hver spá- maðurinn væri. Spámaðurinn var í raun þjóðin sjálf, fólkið í landinu: Fólkið var augljóslega orðið uppgefið á Hrunadansi verðbólgunnar. Það vildi stöðug- leika og öryggi í stað óviss- unnar. Nú mátti það takast, því grunnurinn hafði verið lagður. Og enn reyndist það rétt, sem skáldið sagði: „Vilji er allt sem þarf.“ Með framsýnum samningum um kaup og kjör, með stöðug- leika að markmiði reisti fólkið „í verki viljans rnerki". Til þess að ná því, sem að var stefnt, varð margt að bæta, og í því skyni varð ekki hjá því kom- ist að fórna ýmsu um sinn. Atvinnuvegina varð að styrkja, þótt á kostnað kaupmáttar væri, enda verður aldrei velferð reist á rústum atvinnulífs. Það er stund- um svo að jafnvel miklir hags- munir verða að víkja fyrir öðrum, sem enn stærri eru. Stöðugieiki er orðinn þessari þjóð lífsnauðsyn. Aðeins í stöðugleika verður þjóðarbúið heilbrigt, þjóðin sterk og lífskjör- in góð. Fyrsti áfanginn hefur náðst. Þvf er nú ljómi yfir land- inu. Nú eru tímar mikilla breyt- inga, ekki aðeins hér á landi, heldur um heim allan. Að vísu er það ekki í fyrsta sinn. í heimssög- unni eru tímamótin mörg. Að sumu leyti eru þau lík, en þó í mikilvægum atriðum ólík, eink- um þau sem við lifum nú. Allt frá því að þjóðir urðu til, hefur ein lagt undir sig aðra og stórveldi myndast. En stórveldin hafa ætíð sundrast um síðir. Sag- an geymir ótal dæmi um slíkt. Og enn endurtekur sagan sig. A þessum síðustu tímamótum er þó grundvallarmunur. Áður voru það ætíð hin hörðu vopnin sem réðu. Þau skópu stór- veldin og sundruðu þeim svo. Nú eru það auðurinn og fjármagnið, sem leggja undir sig löndin. Nú eru það efnahagsveldin sem myndast. Og þegar hagvöxturinn bregst, sundrast þau einnig. Hvötin hefur hins vegar oftast verið að safna auði og drottna, eða ná orku og hráefni fyrir fram- leiðsluna, sem stöðugt þarf meira. Og svo er enn. Við íslendingar höfum verið í útjaðri slfkra sviptinga. Lengi þótti eftir litlu að leita á þessari harðbýlu eyju. Það er ekki fyrr en hin fengsælu fiskimið finnast á 15. öld, að erlendar þjóðir girn- ast landsins auð. En síðan má segja, að hvert þorskastríðið reki annað. Þau voru áður á milli erlendra þjóða, sem vildu sitja ein að íslandsmiðum. Aðeins þau síðustu háðum við sjálfir, og það er fyrst eftir að við íslendingar erum orðnir fullvalda og sjálf- stæð þjóð. Þá fyrst eru það lífs- hagsmunir þjóðarinnar sjálfrar sem lagðir eru á vogaskálarnar, og þó er Jrað ekki fyrr en árið 1974 sem Islandsmið verða okkar eigin. En því er ég að rekja þessa sögu nú? Vegna þess að hún má ekki gleymast. Eins og sagan sýn- ir munu erlendar þjóðir eða efna- hagssamsteypur aldrei láta stjórnast af hagsmunum hinnar' örsmáu íslensku þjóðar, ef þær mega ráða landsins auði. Minn- umst þess jafnframt að alþjóðleg fyrirtæki, sem velta árlega marg- földum þjóðartekjum okkar íslendinga, eiga hægt með að eignast það sem þau girnast, ef landamærin eru ekki vel varin. Við Islendingar fögnum þeim tímamótum sem nú eru í Evrópu. Við viljum taka þátt í þeim breyt- ingum sem eru að gerast. Við viljum stuðla að því að gjöreyð- ingarvopnum verði eytt, og við taki samstarf og samvinna, sem hafi manninn sjálfan, velferð hans og réttindi að leiðarljósi. Stórkostlegt var að mega sem fulltrúi þessarar litlu, óvopnuðu þjóðar skrifa undir griðasáttmála Evrópulandanna og heita því að leysa engar deilur með ófriði. Sjálfsagt er jafnframt fyrir okkur íslendinga að taka þátt í samningum um víðtæka efna- hagssamvinnu í Evrópu. Við eig- um stórra hagsmuna að gæta. En minnumst þess að mikilvægast er þó að ráða ætíð sem mestu af eig- in málum sjálfir. Það eru í raun okkar stærstu hagsmunir. En þó bjart sé yfir ýmsu á þessum síð- ustu tímamótum, eru þó einnig stórar blikur á lofti. Aldrei hefur gjáin verið svo djúp á milli þjóða norður- og suðurhvels jarðar. Aldrei hafa svo margir farist úr hungri og örbirgð, aldrei fyrr hafa tug- þúsundir barna látist á degi hverjum. Hlutur okkar Islendinga er afar lítill í þeirri aðstoð sem auð- ugu þjóðirnar hafa heitið. Það er að vísu góðra gjalda vert að framlag okkar til barnahjálpar Sameinuðu þjóðannna var meira en þrefaldað við afgreiðslu fjár- laga nú fyrir jólin og þróunarað- stoðin aukin nokkuð. Einnig er það ánægjulegt, að margir láta töluvert af hendi rakna í frjálsri söfnun hjálparstofnana. Engu að síður er það staðre^nd, að okkar hlutur er magur. Ur því þarf að bæta. Við höfum af mörgu að miðla, meðal annars dýrmætri þekkingu, sem getur orðið van- þróuðum þjóðum mikils virði á leiðinni til sjálfsbjargar. Þegar griðasáttmálinn var undirritaður í París í nóvember síðastliðnum, stóðu hersveitir gráar fyrir vopnum, tilbúnar til stríðs við Persaflóa. Átök þar með nútíma ógnarvopnum geta haft meiri og víðtækari afleiðing- ar en nokkurn grunar. Ég tek undir með þeim íslendingum, sem skora á þjóðir heims að leita allra leiða til að koma í veg fyrir hernaðarátök. En klukkan geng- ur hratt og tíminn virðist illa nýttur. Við skulum vona, að úr því rætist strax á nýju ári. Stærst er þó að öllum líkindum sú blikan, sem boðar eyðingu umhverfisins, ef hugsunarlaust er sótt fram á braut efnishyggjunn- ar. Á þeirri vegferð hefur ekki verið að því gáð, að græða sárin. Þvert á móti, í sárin hefur iðulega salti verið stráð. Um það er ekki lengur deilt, en eiturefnin eyða hinu vernd- andi ósónlagi himinhvolfsins og eitra andrúmsloftið svo, að gróðurinn gulnar og eyðist, og í sjóinn safnast úrgangsefni svo að sýkist og deyr hin lifandi auðlind hans. Þeir eru hins vegar ótrúlega margir, sem telja ekki sannað, að út á ystu nöf sé komið, og því megi enn knýja af krafti Grótta- kvörn efnishyggjunnar, til bættra Iífskjara, eins og það er gjarnan orðað. Þeim fjölgar þó sem telja að ekki verði lengur frestað að greiða tollinn. Sá tollur verður hár, á því er enginn vafi, jafnvel svo, að hag- vöxtur kann að verða lítill á næstu árum eða áratugum. Sér- staklega er hætt við að svo fari, ef kappið verður ekki beislað og forsjá látin ráða mannsins gerðum. Þannig eru þau tímamót sem við lifum nú. Á þau fellur bæði ljómi og skuggi. Gatan um þau verður ekki bein og breið heldur, að öllum líkindum, vandratað einstigi. Við íslendingar stöndum að ýmsu leyti vel að vígi. Við búum við tiltölulega hreint umhverfi. Það sem hefur spillst getum við bætt. Uppblásnu börð- in getum við grætt og víða klætt landið skógi á ný. Á þessu er, sem betur fer, vaxandi skilningur og vilji, sem ég efa ekki, að muni skila miklu í verki á næstu árum. Sjálfsagt er einnig að fjarlægja allt það sem spillir umhverfinu, og ganga þannig frá öllum úr- gangi, að ekki valdi tjóni. Ekki verður heldur hjá því komist að setja atvinnulífinu, og okkur sjálfum sem einstaklingum, ströngustu kröfur um mengunar- varnir og góða umgengni. Vissulega er þetta mikið átak, en ekki nema smámunir þó hjá því, sem aðrar þjóðir eiga við að stríða. Og verkið er hafið. Á umhverfismálum er nú skipulega tekið, enda verður að skipa þeim í öndvegi. Fátt mun reynast þjóð- inni meiri auður en hreint og fagurt land. Við íslendingar erum einnig svo lánsamir að hér á landi svelt- ur enginn þótt kjörin séu misjöfn. Við framleiðum sjálfir um það bil helming af okkar fæðu og reyndar langtum stærri hluta af því, sem nauðsynlegast er. Ég efa að nokkur þjóð njóti hollari og betri afurða síns lands og sjáv- ar en við íslendingar. Á tiltölulega fáum árum hefur tekist að koma á fót velferðar- kerfi, sem veitir ungum menntun, þeim lið sem minni máttar eru, og aðhlynningu öldr- uðum og sjúkum. Ég hygg að allt sé þetta með því besta, sem þekkist. Undan því er að vísu kvartað, að velferðarkerfið sé dýrt. Það gera einkum þeir, sem eru svo lánsamir að hafa þurft lít- ið á því að halda. Vissulega verð- ur að hagræða og spara og láta það njóta forgangs sem nauðsyn- legast er. Ég vil þó treysta því, að aldrei verði menntun og þjónusta við þá, sem sjúkir eru eða eiga á brattann að sækja, Iátin ráðast al efnum og aðstæðum einstaklings- ins. Þegar ég ferðast um friðsælar byggðir þessa lands, eða geng um fjölfarnar götur, verður mér oft til þess hugsað hve mikils virði það er, að hér á landi berumst við ekki á banaspjótum eða stundum hryðjuverk. I Austurstræti taka menn mig tali, þakka sumt en lasta annað, en skilja ætíð sem vinir. Fáar þjóðir geta státað af slíku. Það er margt sem þessari þjóð hefur gott hlotnast eða hún sjálf skapað, margt sem verður að varðveita. Enginn má þó skilja orð mín svo að enga sjái ég erfiðleikana. Þeir eru margir, meðal annars ýmsir sem virðast fylgja nútíma þjóðfélagi. Lífskjarakapphlaupið hefur til dæmis veikt fjölskylduna svo að heill barnanna gleymist æði oft. Lyklabörnin svonefndu eða þau veglausu eru smánarblettur á velferðarþjóðfélagi. Úr þessu má eflaust bæta með dagheimilum og heilsdagsskólum, en slíkt kemur aldrei í stað fjölskyldunnar. Það er orðið brýnt að setja manngildið ofar auðgildinu, fagurt og gott mannlíf ofar efnis- hyggjunni. Sönn og góð lífskjör eru sjald- an falin í söfnun eigna og auðæfa. Miklu fremur fylgja þau góðu lífi fjölskyldunnar sem nýtur þess saman, sem lífið og landið hefur fagurt að bjóða. Góð lífskjör speglast ekki síst í hamingju og velferð barnanna. Þeir unglingar sem þannig njóta fjölskyldunnar í sínu uppeldi láta sjaldan freist- ast. Til þess að það megi takast sem við setjum okkur, er nauð- synlegt að atvinnulífið sé öflugt. Á framleiðslunni hvílir flest það, sem við viljum gera. Ef stöðug- leiki ríkir eru kostirnir margir. Sjórinn og landið er auðugt. Orkulindirnar eru mikils virði og ber að nýta þær af skynsemi. Þó hygg ég að fátt muni reynast þjóðinni meiri uppspretta vel- megunar, en sú þekking sem fólkið aflar sér, ekki síst æskan. Því verður að kappkosta að skapa atgervismönnum aðstöðu til starfa og efla þann þekking- arbrunn sem þá fæðir, vísindin. Umhverfið, kyrrðin, hreint loft og vatn getur einnig skapað mikla atvinnu og tekjur. Það mun draga að fjöldann sem holl- ustu leitar. Vandinn verður að velja og gera það vel sem við kjósum. Ef til vill þykir þér, hlustandi góður, að ég dragi upp of fagra mynd af framtíð hinnar íslensku þjóðar. Rétt er að framtíðin mun verða önnur, ef kylfa er látin ráða kasti. Hver hún yrði vitum við að sjálfsögðu ekki, því réði kylfan. Þótt við ráðum, sem betur fer, ekki veðrum og vindum eða hita- stigi sjávar, er flest annað af mannanna gerðum. Því getum við stjórnað og eigum að gera af hagsýni og visku. Það er ekki síst nauðsynlegt nú, þegar landið opnast og samskipti við erlendar þjóðir fara vaxandi. Þá mun leik- sviðið stækka og umsvif og frelsi einstaklingsins aukast. Það getur bæði orðið til góðs og ills. Það er undir okkar eigin verkum komið. Þá er mikilvægt að við stöndum traustum fótum á traustum grunni á heimaslóðum. Barlómur og uppgjöf eru ekki íslendingsins eðli. Það sæmir okkur betur að bretta upp ermar og taka til hendi. Með samtakamætti þjóð- arinnar mun Grettistakinu verða lyft og framtíðin verða björt. Að vísu er því gjarnan mótmælt, ef nefnt er að hafa beri stjórn á ýmsum þáttum efnahags- mála. Rétt er að þess ber að gæta að einstaklingarnir njóti frelsis til heilbrigðra athafna. Ékkert þjóð- félag er sterkara en einstakling- arnir sem það byggja. Hins vegar er það skylda stjórnvalda að skapa aðstöðuna og setja leik- reglurnar þannig, að sem flestir fái notið sín og þjóðfélagið allt uppskerunnar, að einhverju leyti. Góðir íslendingar. Mér hefur orðið tíðrætt um atriði sem mikilvæg eru í okkar lífi og starfi en þó ekki það sem gerir okkur að þjóð. Eigin saga, eigin menning og tunga og eigið land, skipa okkur til sætis með fullvalda og sjálfstæðum þjóðum. Án þess værum við í raun ekki til. Þegar landið opnaðist fyrir er- lendum fjölmiðlum var ég í hópi þeirra sem óttuðust áhrifin á menningu okkar og tungu. Það geri ég ekki lengur. Mér er ljóst að æskan metur arfinn engu minna en við sem eldri erum. Hann er í góðum höndum og mun varðveitast ef vel er að æsk- unni búið. Einn fagran dag í haust átti ég leið upp undir hæstu björg fjalls eins norðanlands. Ég settist þar í veglegt klettasæti og sat góða stund. Svo iangt sá ég sem fjöllin leyfðu og fyrir neðan lá dalurinn fagur og friðsæll. Um hann rann áin í bugðum til sjávar. Allt var þetta eins og Jónas Hallgrímsson lýsir þegar hann hyllir íslandsvin- inn Pál Gaimard: „Þú stóðst á tindi Heklu hám og horfðir yfir landið fríða þar sem um grænar grundir líða skí'nandi ár að ægi blám. “ Og við öll sem njótum, hljót- um að svara játandi spurningu skáldsins: „Þótti þér ekki ísland þá yfirbragðs-mikið til að sjá?“ En þar sem ég sat og horfði yfir þennan fagra dal, gat ég ekki var- ist þeirri hugsun að margur þreyttur, erlendur athafnamað- urinn myndi vilja eignast slíkan griðastað. Ekki skortir þá auð né efni, væri dalurinn falur. Það má aldrei verða. Minnumst þess sem skáldkonan; Hulda segir í Þjóð- hátíðarljóði sínu: „Hver dagur líti dáð á ný. Hver draumur rætist verkum í, svo verði íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð. “ Rétt er það, að framtíðin mun ráðast af okkar eigin verkum. Góðir íslendingar. Ég þakka ykkur gott og árang- ursríkt samstarf á liðinu ári. Megi nýjar árið verða okkur farsælt. Guð varðveiti og blessi hina íslensku þjóð.

x

Dagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.