Dagur - 23.11.1991, Blaðsíða 20
20 - DAGUR - Laugardagur 23. nóvember 1991
SMÁSAGA_____________________________
Af síra Sæmundi og Kölska
Ég hef, alloft, trúi ég, sagt af viðureignum
mínum við Kölska, um margt skemmtileg-
ar sögur, en, er ég því miður hræddur um,
ekki allar í fyllsta samræmi við sannleik-
ann.
Eflaust munu margir áfellast mig, sjálf-
an séra prestinn, fyrir að fara vísvitandi
með fleipur, en fyrir því liggja ástæður
sem, að ég hygg, geta fyllilega gengið sem
afsökun. Bæði er það mannlegur breysk-
leiki, ég hef gaman af góðum sögum, og
svo hitt, að ég þurfti engar áhyggjur að
hafa af sáluhjálp minni. Hvernig má það
vera?, spyrja menn, þykist nú Sæmundur
vera yfir okkur dauðlega menn hafinn?,
þykist hann eiga eitthvað inni hjá himna-
föðurnum eða hefur hann blekkt hann á
líkan hátt og Kölska?
Onei, ekki er það svo, en sál minni hef
ég fyrir margt löngu ráðstafað og ætla ég
nú að segja frá þeim viðskiptum eins og
þau raunverulega gerðust. Nokkurs konar
yfirbót af minni hálfu, býst ég við. Afsök-
unarbeiðni til þeirra sem ég hef skamm-
laust logið að í gegnum tíðina.
Þannig vildi til að er ég hafði útskrifast
úr Svartaskóla svo sem frægt er orðið,
hljóp ég ær af hræðslu, dægurlangt, eitt-
hvert út í buskann, þó svo sárin stæðu enn
inn að beini á báðum hælum mér og í
hverju spori var sem hnífi væri snúið í
þeim.
Við hvert horn, á bak við hverja hæð
fannst mér sem kölski leyndist, glottandi
svo skini í hvassar vígtennur hans, íklædd-
ur hempu lærimeistarans og með
spanskreyrinn á lofti, sveiflandi halanum
líkt og köttur sem veður hefur af mús.
Brennisteinsfnykur lá í nösum mér hvert
sem ég fór, og í hverjum förumanni, flæk-
ingi, og bónda sem á vegi mínum varð sá
ég, að mér fannst, glytta í dumbrauðan
helvítislogann í augnatilliti.
Þar kom, þegar langt var liðið á nótt, að
ég örmagnaðist, lyppaðist niður í skógar-
rjóðri, góðan spöl frá París, og sofnaði.
Pvílík var þreytan að ég svaf langt fram á
næsta dag þótt blóðið lagaði úr hælurn mér
og kvalirnar ætluðu mig að drepa.
Mér fannst þó sem ég vaknaði í dag-
renningu við það að maður nokkur í hettu-
kufli, ég sá ekki andlit hans, dró reipi útúr
hælum mér, það var knýtt allt og olli mér
ómældum kvölum drátturinn, en maður-
inn virtist lítið eða ekki hafa fyrir vinnu
sinni, dró reipið hægum jöfnurn tökum
útum hæla mína. Hann vatt þræðina sam-
an sem hann dró, eða kannski undu þeir
sig saman sjálfir, þar til þeir tóku á sig
mynd, einhverja afskræmingu á mannlegri
veru, hokin öll og knýtt eins og reipið,
andlitslaus eins og maðurinn. „Þetta er sál
þín, Sæmundur", sagði maðurinn er hann
hafði lokið iðju sinni, og að því mæltu tók
reipismyndin á sig dumbrauðan blæ, vatt
sig öll og sneri eins og mannvera sent hald-
in er óbærilegum kvölum. Maðurinn guf-
aði upp, en myndin dansaði fyrir augum
mér allt þar til er ég vaknaði seint um
daginn, þreyttur þjakaður, og holdvotur,
það var farið að rigna.
Ég batt þá um hæla mína, þeir litu ekki
eins illa út og ég átti von á, myndu eflaust
gróa hratt og vel, fengi ég hvíld og næði.
Ég fann mér svo granna en sterklega grein
að ganga við og tók að svipast um. Ég taldi
mig hafa að minnsta kosti óljósa hugmynd
um hvar ég var niður kominn, nokkurn
spöl austan Parísar, en var í raun engu
bættari fyrir það, því landið þekkti ég ekki
ýkja vel, og til Parísar þorði ég ekki fyrir
mitt litla líf að snúa.
Eftir að hafa nært mig á berjum og rót-
um og svalað þorstanum í læk haltraði ég
af stað og hófst nú flækingslíf mitt sem
standa átti eftir í nokkra daga, ef til vill
skemur en ég hugði, en þó að eilífu í huga
mér.
Sem ég hökti um sveitirnar reyndi ég að
gera mér í hugarlund hverjar brellur og
lymskubrögð Kölski myndi viðhafa til að
ná í skottið á mér, og gerði mér engar grill-
ur um að hann myndi sleppa mér, kvaðirn-
ar er fylgdu skólavist í Svartaskóla höfðu
verið skýrar og okkur stúdentum vandlega
innprentaðar.
Ég hafði nú komið einhverju lagi á hug
minn, þó enn nötraði ég af hræðslu við
hvert fótmál, gat hugsað nokkurn veginn
skýrt, og afréð að að líkindunt væri mér
öruggara að halda mig nær alfaraleiðum en
vafra stefnulaust um skóginn eins og ég
hafði upphaflega ætlað. Kölska eru
óbyggðir engin fyrirstaða, hann getur
brugðið sér í allra kvikinda líki, og hefur
tök á að fylgjast með hverju mínu fótmáli.
Ég gekk því inn á fyrstu götu er ég fann og
hélt mig uppfrá því á mannaleiðum,
muldrandi sálma og bænir sem ég gekk,
hélt um staf minn með annarri hendinni,
róðukoss með hinni.
Eftir nokkra hríð, það var stytt upp,
skýin tekin að þynnast og dagurinn að
lengjast, sólin virtist eins og vera að bræða
það með sér hvort hún ætti heldur að
skína gegnum skýjaglufurnar eða láta sig
gossa vestur um sjóndeildarhring, gekk ég
fram á mann þar sem hann sat á steini í
götukantinum.
Mér virtist maðurinn eitthvað kunnug-
legur, það var eitthvað við það hvernig
hann sat, hvernig hann hvíldi höfuðið á
höndum sér og starði útí buskann.
Samstundis varð ég var um mig. Gat
þetta verið Kölski? Það væri einmitt hans
lymskuháttur. Þykjast vera einhver af vin-
um mínum, láta mig heilsa sér, taka í hönd
sér. Það fór hrollur um mig. Gæti ég nú
aldrei öruggur heilsað nokkrum manni?
Ekki einu sinni ættmennum og vinum?
Ég leit í kringum mig og sá, rnér til hrell-
ingar, að við maðurinn vorum einir á göt-
unni svo langt sem augað eygði. Hann
bærði ekki á sér, sneri enn bakinu í mig og
starði út í sveitina. Ég ætlaði að snúa mér
við og hlaupa á burt, en hætti við. Hvert
gat ég svo sem hlaupið? Draghaltur mað-
urinn. Mér var nauðugur einn kostur að
láta sem ég sæi hann ekki og haltra áfram.
Maðurinn sneri sér að mér er ég nálgað-
ist. Hann var óhugnaðurinn uppmálaður,
andlit hans eitt flakandi sár. Holdsveikur.
Ég stirðnaði af hræðslu en haltraði þó
áfram. Maðurinn glotti. Ég varð nú viss í
minni sök, þetta var Kölski. Hvað gekk
honum til? Atti ég að aumka mig yfir sjúk-
an mann svo hann gæti gómað mig? Gat ég
nú ekki einu sinni lifað eftir kristilegum
boðskap og hjálpað vesalingum?
Maðurinn hristi af sér hettuna og glottið
á afskræmdum vörum hans breikkaði um
allan helming. Það var hryllingur að líta
hann augum. Lufsur af skinni og kjöti
héngu niður enni hans, hárið var að mestu
horfið, nokkrar tjásur héngu hér og hvar á
höfði hans, nefið var nánast horfið líka,
það sá í annað kinnbeinið, flugur skriðu í
andliti hans. Hann glotti nú nánast eyrn-
anna á milli, teygði fram hendurnar og gaf
frá sér eitthvert hryglukennt hljóð. Ég
veinaði af skelfingu og hljóp, eins hratt og
sárir fætur mínir gátu borið mig, maðurinn
hló.
Ég hljóp þar til ég féll í götuna, sársauk-
inn í hælunum að æra mig, maðurinn var
hvergi sjáanlegur, hann hafði ekki elt mig.
Kannski þetta hafi þá ekki verið Kölski,
heldur vesæll sjúklingur, þreyttur orðinn
og bitur á illsku heimsins og skemmti sér
við að hræða vegfarendur. Eða kannski
var Kölski að leika sér aö mér eins og kött-
ur að mús.
Ég hélt áfram för minni og varð við
hvert skref varari um mig, hræddari. Ég
þorði ekki að yrða á nokkurn mann, haltr-
aði bara áfram og svaraði ekki kveðjum
sem varpaði var á mig.
Ég vissi ekki hvað ég ætti af mér að gera
þá um nóttina, ég vissi að ég yrði að hvíla
mig, hælarnir voru að gera mig óðan, en ég
þorði varla að lcggjast niður af ótta við að
Kölski kæmi aö mér sofandi. Það varð úr,
er nokkuð var liðið á nóttina, að ég lagðist
til svefns við götukantinn, skammt frá litlu
þorpi.
Um nóttina fannst mér sem maður kæmi
til mín þar sem ég lá. Hann var í kufli eins
og holdsveiki maðurinn svo og maðurinn
úr fyrri draumförum mínum. Það sá ekki í
andlit hans, en samt fannst mér sem hann
glotti. Hann yrti ekki á mig en mér fannst
samt sem áður að mér stafaði ógn af
honum. Mér fannst hann sitja yfir mér alla
nóttina. Þegar ég vaknaði um morguninn
verkjaði mig meir í hælana en nokkru
sinni.
Enn hélt ég haltrandi áfram för minni.
Sjálfsagt hef ég ekki gengið mjög langt
þann daginn þótt mér fyndist ég ganga ein-
hvern óraveg því ég var nú mjög haltur og
varð oft.að hvíla mig. Alls staðar fannst
mér Kölski vera. Ég sá hann í gamalli kerl-
ingu sem reyndi að selja mér eitthvað, ég
man ekki hvað, litlum betlandi strák,
kráku sem sveimaði yfir höfði mér í að
mér fannst óratíma, hundi sem stóð og
starði á mig, gelti ekki eða urraði, bara
stóð kyrr og starði á mig, jafnvel í steinum
og trjám sá ég Kölska. Ég fann að vit og
skynsemi var að yfirgefa mig, en hvað gat
ég gert?
Þetta gekk svona í eina Ijóra, fimm
daga. Ég var ær að verða. I huga mér
skiptust á skelfing, bræði og uppgjöf. Það
var í uppgjafarkasti, þá mér fannst sem
rétt væri að Kölski sýndi sig og lyki þessu
af, sem ég kom í þorp nokkurt. Þetta var
fallegt og friðsælt sveitaþorp. Nokkurn
veginn í þorpinu miðju, umgirt vinalegum
húsum á alla kanta, stóð kirkja.
Kirkja! Hví í ósköpunum hafði mér ekki
dottið í hug að leita skjóls í kirkju eða
klaustri? Vígðum stað? Hafði Kölski á
mér þvílíkt tak að ég réði ekki eigin hug-
renningum? Þetta var eitthvað svo augljóst
og einfalt. Allir vissu og ég manna best að
Kölski gat ekki stigið innfyrir dyr á vígðum
húsakynnum.
Ég stóð lengi vel og gapti á kirkjuna á
meðan fögnuður, nánast sigurvíma, hellt-
ist yfir rnig. Þetta var dáindis falleg kirkja,
lítil en vinaleg með fremur háum turni sem
teygði sig hreykinn til himins. Hún var ný
að sjá, enn voru tilhöggnir steinar í kring-
um hana, smiður var uppi á þaki eitthvað
að dútla og enn var aðeins fleki til bráða-
birgða í dyrunum. En af henni fannst mér
þó stafa meiri drottins dýrðarljóma en
nokkru öðru byggingarverki helgu.
Ég hlýt að hafa staðið þarna alllengi,
starandi á kirkjuna og hlæjandi hálfvita-
lega með sjálfum mér. Fólk leit mig horn-
auga og krossaði sig, börn æptu að mér
ókvæðum og grýttu mig, en svo bergnum-
inn var ég af kirkjunni að ég tók eftir engu
nema þessu snotra mannvirki.
í sæluvímu hökti ég af stað í átt til kirkj-
unnar yfir forarvilpuna sem þjónaði sem
markaðstorg bæjarins, fólk sneri sér frá
mér, krossandi sig í bak og fyrir, leitaði
athvarfs í amstri sínu fyrir þessum brjál-
æðingi sem ég hlýt að hafa verið í þeirra
augum svo skítugur og illa til reika sem ég
var, hagandi mér á allan hátt eins og
ógæfumenn þeir sem haldnir eru illum
öndum eða álögum særingamanns.
„Er eitlhvað að, manni?“ heyrði ég
skyndilega sagt þíðum barnsrómi við hlið
mér. Ég leit niður, ofaní brosandi stúlku-
andlit, á að giska sex eða sjö ára, umgirt
Ijósum lokkum, skörðótt brosið og blá
augun geisluðu af barnslegu sakleysi.
Skömmu áður hefði ég hrökklast undan
þessu einlæga brosi, talið það enn eina
áminninguna, ímyndaða eða ekki, unt
hvílíkur meistari í sjónhverfingum Kölski
er. En nú var ég svo altekinn fögnuði, svo
uppfullur af Drottins dýrlega anda að slík-
ar hugrenningar voru víðsfjarri. Aðeins í
dýpstu forarpyttum sálar minnar lcyndist
einhver rödd sem hvíslaði að mér varnað-
arorðum, en þau voru máttlítil og kæfö í
halclújasöngli minnar betri vitundar.
„Að?“, sagði ég, „Nei, vinan. í dag er
mesti sæludagur ævi minnar."
Stúlkan hló að hálfvitaskapnum í skrítna
manninum. Ég hló á móti.
Ég var nú kominn nánast að kirkjudyr-
ununi, eða flekanum sem mér hafði virst
eiga að þjóna sem slíkt, og sá að hann var
ekki árennilegur, það var eins og kirkjan
hefði enn ekki verið tekin í notkun. Varn-
aðarröddin í sálu minni reyndi að hrópa
upp við þessa uppgötvun en ég heyrði ekki
fremur en daufur maður. Ég leit aftur á
stúlkuna og spurði hvort enginn vegur væri
að komast inn í kirkjuna. Hún kvað jú við
því og þreif í hönd mína og leiddi mig af
stað kringum bygginguna. Hún malaði
stanslaust sem við gengum meðfram
kirkjuveggnum, eitthvað um að pabbi sinn
væri að byggja kirkjuna og hún vissi allt
um hana, en ég hlustaði ekki á hana, hug-
ur minn einhversstaðar á sveimi, lofandi
Drottin og allt það er heilagt er.
Bráðlega komum við að hliðardyrum,
trúlega inn í skrúðhúsið, einnig þar var
fleki fyrir, en öllu minni og aðeins fyrir
dyrunum að hálfu þar sem einhverjir voru
inni við að vinna. Stúlkan dró mig urnyrða-
laust inn í kirkjuna; Inn í kompu, skrúð-
húsið líkast til, sem var dimm og einhvern
veginn nakin, en opið var framí sjálfa kirkj-
una, engin hurð eða fleki í millidyrunum.
Kirkjuskipið virtist allt stærra og vold-
ugra að innan séð en utan. Ég sá nú að
töluvert vantaði á að hún væri fullsmíðuð,
enn var verið að smíða loftið og ég sá
glytta í þaksperrurnar uppi í sortanum,
fyrir miðju skipinu þar sem ekki var búið
að negla timbrið í loftgrindina. En þó var
byrjað að skreyta hana, myndhöggvari
bjástraði við dýrlingamyndir hátt á veggj-
unum og málari var í óða önn að mála alt-
aristöfluna.
Hún virtist helguð Kristi, kirkjan. Altar-
ismyndin var af frelsaranum á krossi sínum
og jafnvel þótt myndin væri fjarri því full-
gerð sá ég að þrautir heimsins voru ristar í
hvern andlitsdrátt frelsarans, allur mann-
anna sársauki og pína.
Ég stóð nokkra stund sem negklur við
gólfið og horfði framan í Krist, varnaðar-
röddin í sálu mér farin að ókyrrast veru-
lega, það var eitthvað sem ekki var eins og
það átti að vera. Ég vur kominn á fremsta
hlunn með að æða út úr húsi Drottins til að
hugsa ráð mitt þegar ég fann að togað var
í hönd mér. „...frábært útsýni“, var litla
stúlkan að segja, andlit hennar eitt bros,
sakleysið uppmálað. Ég hratt frá mér öll-
um svartsýnisþönkum og leyfði henni að
teyma mig fram allt kirkjuskipið og í
þröngar steintröppurnar upp í turninn.
Turninn hafði ekki virst mjög hár að
utan, hærri að vísu en á flestum kirkjum til
sveita, en lítil spíra í samanburði við það
ég þekkti frá París. Engu að síður var leið-
in löng upp tröppurnar og sárum hælum
mínum hin versta kvöl.
Þegar upp var komið sá ég að gluggar
voru á turninum en eftir þeim hafði ég
ekki tekið þegar ég leit kirkjuna að utan.
Einn gluggi var á hverri hlið og fremur
stór, neðri brúnin í tæplega mittishæð, sú
efri fyrir miðju höfði mínu. Fyrir utan
blasti við þorpið og sveitin iðjagræn og
fögur. Ég þurfti ekki mikillar áeggjunar
við af stúlkunnar hálfu til að halla ntér
útum glugga og njóta útsýnisins.
Mér fannst sem turninn hlyti að liafa
stækkað frá því ég skoðaði kirkjuna að
utan, svo langt fannst mér niður, fólkið á
torginu eins og litlar brúður, hreysi þeirra
sem steinvölur er dreift hafði verið á jörð-
ina, lengra sá ég skóginn teygja sig enda-
lausan útí buskann. Mér leið sem væri ég
fugl, sveimandi hátt yfir jörðinni, hafinn
yfir allt mannlegt, allt jarðbundið amstur.
Skyndilega var mér hrundið. Ég fann
maga minn herpast sarnan sem ég steyptist
öfugur útum gluggann. Eitt andartak fann
ég mig lausan í loftinu, fuglsímynd mín
rauk út í veður og vind, ég var fremur eins
og steinn sem grýtt hefur verið hátt í loft
upp og á nú ekkert fyrir sér nema vísa leið
til jarðar þar sem hann brotnar í þúsund
stykki.
Þá var allt í einu þrifið í mig, mér kippt
aftur upp að glugganum, svo skaust út
krumla sem læstist um háls mér og ég hékk
eins og hengdur maður hátt uppi í loftinu.
Ég reyndi að brjótast um, ná einhvers kon-
ar taki á veggnum, en það var sem höndin
teygðist lengra út uns ég gat ekkert annað
gert en að hanga þar sem ég var, krumla
þrengdi svo að hálsi mér að ég náði ekki
andanum, neglur, eða klær, skárust djúpt í
hold mitt.
Ég leit á árásarmanninn rninn, rétt í
tíma til að sjá fíngerða og sakleysislega
stúlkuásjónuna rifna utanaf stærra og stór-
beinóttra andliti sem ég þekkti alltof vel.
Hvöss, rauðþrútin augun í vari við þykka
beinagarða augnabrúnanna, heljarmikil
kinnbeinin, hornin sem risu uppúr ljósu
hárinu sem var að tætast utanaf höfðinu í
þykkum flyksum, og þetta andstyggilega
glott, þetta lævísa undirferlisglott sem allt-
af lék um varir Kölska. Allt þetta hafði ég
séð áður. Allt þetta hafði ég óttast og flúð
undan síðustu daga.
Kölski, því sannlega var þetta liann,
herti svo að hálsi mér að ég heyrði braka í
beinum mínum, ég barðist við að ná
andanum en það var ekki nokkur vegur.
Kölski hló sínum mergnístandi illgirnis-