Dagur - 01.05.1992, Blaðsíða 13
12 - DAGUR - Föstudagur 1. maí 1992
Föstudagur 1. maí 1992 - DAGUR - 13
Texti: Jóhann
*
Olafur Halldorsson
Mynd: Golli
í dag er verkalýðsdagurinn 1. maí. Eins og gefur að skilja er kastljósi
þjóðfélagsins beint að málefnum verkalýðsins á þessum degi og oftar en
ekki eru það málefni líðandi stundar sem fá mesta athyglina, ekki síst við
aðstæður eins og nú þegar samningar um kaup og kjör eru í farvatninu.
En á slíkum dögum er ekkert síður við hæfi að horfa jafnframt um öxl.
Jón Helgason, starfsmaður lífeyrissjóðsins Sameiningar á Akureyri, er
einn af þeim mönnum sem helgað hefur þessum málaflokki mestan hluta
síns starfsaldurs. Hann var um 12 ára skeið formaður verkalýðsfélagsins
Einingar en hefur síðustu 7 árin starfað hjá Lífeyrissjóðnum Sameiningu.
Jón segist á sínum tíma hafa tekið ákvörðun um að draga sig í hlé frá
verkalýðsmálunum eftir að hafa náð ýmsum þeim markmiðum sem hann
hafí sett sér sem formaður Einingar. En sem fyrr hefur hann skoðanir á
hlutunum og segir að verkalýðshreyfíngin verði nú að huga að endur-
skipulagningu enda gildi nákvæmlega það sama um hana og fyrirtæki í
landinu sem nú á tímum eru hvött til að ganga í eina sæng og sameinast.
Hagræðingin þarf líka
að ná til
verkalýðshreyfingarinnar
- segir Jón Helgason, fyrrverandi formaður verkalýðsfélagsins Einingar
Fyrstu beinu afskipti Jóns af verkalýðs-
málum voru árið 1964 þegar hann tók að sér
starf á skrifstofu verkalýðsfélaganna Eining-
ar og Sjómannafélags Akureyrar, Alþýðu-
sambands Norðurlands og fulltrúaráðs
verkalýðsfélaganna sem að skrifstofuni
stóðu. Petta starf tók hann að sér fyrir
áeggjan Björns Jónssonar, fyrrverandi for-
manns Einingar og síðar alþingismanns. Jón
var þá í útgerð en sjómennsku hafði hann
stundað allt frá því hann kom til Akureyrar
árið 1949. Þangað kom hann frá Unaðsdal á
Snæfjallaströnd en þar er hann fæddur og
uppalinn.
„Þetta voru allt tilviljanir. Ég var í
atvinnuleit á ísafirði haustið sem síldin
veiddist í ísafjarðardjúpi og ætlaði að kom-
ast á síldarbát í Hvalfjörðinn. Þá var Gylfí
frá Rauðuvík staddur þarna á leið suður og
það varð úr að ég stökk um borð í hann,“
segir Jón um aðdragandann að því að hann
fluttist til Akureyrar. Bjami Jóhannesson
var þá skipstjóri á Gylfa frá Rauðuvík en
Jón átti eftir að vera með honum á fleiri
bátum, auk þess að vera á Akureyrartogur-
unum og síðar í eigin útgerð ásamt fleirum
áður en hann gekk til starfa fyrir verkalýðs-
félögin.
Var tregur í formannsframboðiö
Jón vann á skrifstofunni frá árinu 1964 en
upp úr 1970 fór hann að hugsa sér til hreyf-
ings og ákvað að reyna fyrir sér á vettvangi
kaupmennskunnar og keypti sér því versl-
unina Esju á Oddeyrinni en hélt jafnframt
áfram starfi við innheimtu á gjöldum fyrir
Lífeyrissjóðinn Sameiningu. „Ég ætlaði síð-
an að fara alveg út úr þessum störfum en þá
æxluðust mál þannig að ákveðið var að ráða
mann í fulla vinnu hjá lífeyrissjóðnum og þá
var gengið á mig að taka þetta starf. Þannig
fór að ég kom inn aftur stuttu síðar
komu fram undirskriftir um að ég færi í
framboð til formanns Einingar. Það var því
fyrir þrýsting sem ég gekk úr sjómanna-
félaginu yfir í Einingu,“ segir Jón um
aðdragandann að formannskosningunum
árið 1974. Jón sigraði þar í formannskjörinu
og gegndi formennsku næstu 12 árin.
„Ég var tregur í fyrstu til að gefa kost á
mér í þetta. Ég hafði ekki unnið við svona
störf þó ég hefði áhuga á félagsmálum en
um leið og maður er kominn inn í svona
störf þá kynnist maður svo mörgum og teng-
ist að einhvern veginn er það svo að þeir
sem fara inn í þetta festa rætur.“
Verkalýðsforingjar verða að
þora að taka afstöðu
- Nú er það svo að forsvarsmenn verkalýðs-
hreyfinganna koma mest fram fyrir almenn-
ingssjónir í tengslum við kjarasamninga-
gerð. Hvernig sneri þetta við þér þegar þú
tókst við?
„Fyrstu árin snéru samningamálin lítið að
mér en vegna þess að Björn Jónsson var í
burtu að gegna þingstörfum þá kom í minn
hlut að setja mig inn í samninga og túlka þá.
Og smátt og smátt leiddist ég inn í að standa
í samningaviðræðum. Hér á svæðinu voru
nokkrar stéttir sem ekki hafði verið gengið
frá samningum við, t.d. starfsfólk veitinga-
staðanna og fleiri starfshópa og því tóku
þessir samningar mikinn tíma í byrjun.“
Eins og áður kom fram var Björn
Jónsson, fyrrum formaður Einingar, orðinn
alþingismaður þegar Jón tók við stjórnar-
taumum í Einingu. Jón segir að það hafi
verið sterkt að eiga Björn að á þingi. „Það
var auðvitað styrkur fyrir verkalýðshreyf-
inguna enda er alltaf sterkt að eiga pólitíska
bakhjarla inni á þingi. Ég held líka að allir
séu sammála sem þekktu til Björns í verka-
lýðshreyfingunni að hann var ötulasti for-
ingi sem hún hefur átt. Hann lét sig þessi
mál skipta inni á þingi enda sagði hann af
sér ráðherradómi á sínum tíma vegna kjara-
mála. Hann hafði alltaf sínar skoðanir og lét
ekki troða á sér en menn verða oft að gjalda
fyrir það. Milli okkar voru alltaf góð sam-
skipti en ég hafði mest samband við hann
um meiriháttar mál þegar ég var að taka við
formennskunni en þegar frá leið lærðist mér
að taka mínar ákvarðanir hvort sem mönn-
um líkaði betur eða verr. Ég varð, eins og
Björn, oft að gjalda fyrir það að þora að
taka afstöðu. Mér finnst slíkt stundum
vanta í verkalýðshreyfingunni í dag. Þeir
sem taka að sér forystu í verkalýðsfélagi
verða að vera tilbúnir til að taka afstöðu en
láta ekki aðra segja sér fyrir verkum. Mér
finnst það til dæmis hafa sýnt sig í kjara-
samningaviðræðum í vetur að menn séu
ekki með heilsteyptar skoðanir og kannski
hafa samningarnir einmitt þess vegna dreg-
ist svona. Þessi dráttur á samningum hefur
fyrir vikið komið niður á atvinnuástandinu
því það halda allir að sér höndum um fram-
kvæmdir í svona óvissu.“
Forréttindi ríkisstarfsmanna
eiga ekki að vera til eilífðar
Jóni verður tíðrætt um þær samningavið-
ræður sem verið hafa í vetur og hann telur
að til viðræðnanna hafi ekki verið komið
með mótaðar kröfur í byrjun. Hann segist
líka telja að mikil orka hafi farið í það að
halda samfloti í viðræðunum við atvinnu-
rekendur og það hljóti að vera erfitt fyrir
ASÍ-fólk að vera í samfloti með BSRB sem
njóti ýmissa forréttinda fram yfir aðra. „Það
er eklri að mínu skapi að einhver forréttindi
ríkisstarfsmanna sem voru sett á sínum tíma
eigi að vera til eilífðarnóns. Menn hljóta að
eiga að leggja krafta sína í að eyða þeim
ójöfnuði sem hefur ríkt þarna milli stétta.
Þar á ég til dæmis við lífeyrisréttindi opin-
berra starfsmanna. Það hlýtur að vera
markmið í framtíðinni að koma á gagn-
kvæmum réttindum hjá fólki á almenna
markaðnum og þeim sem vinna hjá ríki og
sveitarfélögunum. Þó það hafi verið eðlilegt
á sínum tíma að ríkisstarfsmönnum yrðu
sköpuð forréttindi þar sem þeir höfðu ekki
verkfallsrétt þá á að eyða þessu misrétti
þegar verkfallsréttur þessa fólks er kominn í
dag jafnframt biðlaunum og öðru slíku. Fyr-
ir þessa hópa eiga auðvitað að gilda sömu
réttindi og á almenna markaðnum.
Það er vissulega jákvætt í öllu samfloti ef
menn vilja hugsa um að vinna á jafnréttis-
grundvelli en ef samflotið felur í sér að
tryggja þeim áfram forréttindi, sem hafa
þau fyrir, án þess að aðrir fái sömu réttindi
þá er það ekki samvinnuvilji að mínu mati.
Ég hefði verið óhress í þessum hópi,“ segir
Jón.
Framleiðslugreinarnar hafa verið
skildar eftir
- Ef þú berð saman þá kjarabaráttu sem
okkur kemur fyrir sjónir í dag og þá kjara-
baráttu sem uppi var á fyrri árum, til dæmis
þegar þú varst að taka við stjórn Einingar,
hvað hefur breyst á þessu tímabili?
„Það hefur margt breyst til bóta en mér
finnst að með hverju árinu sem hefur liðið
þá hafi misréttið aukist hjá okkur milli
starfshópa. Þegar við hlustuðum á verka-
lýðsforingja fyrri ára þá var hugsjónin sú að
þeir betur settu hjálpuðu hinum til að kom-
ast upp. Mér finnst að þetta hafi breyst hin
síðari ár og þeir sem betur eru settir noti þá
sem verst eru settir til að komast hærra. Inn-
an Alþýðusambandsins var auðvitað ekki
alltaf samhljómur og þar bryddaði oft á að
þegar búið var að skrifa undir samninga við
framleiðslustéttirnar þá komu þjónustu-
stéttirnar á eftir og fengu jafnvel meira en
hinir. Mér fannst því oft að innan ASÍ not-
færðu hinir betur settu sér framleiðslugrein-
arnar til að komast hærra.
Ég tel að misréttið sé orðið alltof mikið
milli launþega og þar hafa framleiðslustétt-
irnar orðið undir. Mér finnst sorglegt til
þess að vita að eftir því sem kostað er meiru
til að mennta fóik og byggja upp gott
menntakerfi þá komi það sífellt meira niður
á þeim sem skapa verðmætin. Nú er það síð-
ur en svo að menntun sé af hinu vonda en
hún ætti að skapa möguleika til að bæta
stöðu hinna lægst launuðu. Kannski stönd-
um við frammi fyrir því núna að hjá okkur
hefur vantað að beina menntuninni meira
að þeim framleiðslugreinum sem skapa
arðinn. Sjávarútvegurinn og fiskvinnslan
hafa verið vanrækt hvað þetta varðar og þó
að nú sé byrjað að stýra menntuninni inn á
þessar greinar þá var byrjað á því alltof
seint.“
Pólitíska forystan er sek
Nú á tímum niðurskurðar í heilbrigðis- og
menntamálum segir Jón ljóst að ekki sé
hægt að ná peningum af þeim stéttum í
landinu sem best hafi kjörin. Embættis-
mannakerfið í landinu standi vörð um þess-
ar stéttir og það verði að viðurkennast að
þar sé barist við sterkari aðilann. „En það
hlýtur að koma sá tími að menn verða að
leggja eitthvað í sölurnar til að breyta þessu
mynstri. Embættismannakerfið er stóri þátt-
urinn í þessu og ég þori hiklaust að segja
það að hver sem hin pólitíska forysta er þá
á hún stóra sök á því hvernig komið er í
þessu landi. Menn verða að hugsa um að ýta
ekki fjármagni að vonlausum aðilum, hvort
sem það eru atvinnurekendur eða almennir
launamenn. Menn verða í það minnsta að
sjá til þess að þessir sömu aðilar skili þessu
fé til baka en aðrir séu ekki látnir svelta
fyrir.“
Bygging verkalýðshallarinnar
Við vindum okkur um stund í samtalinu frá
stöðu launþeganna og á ný að formennsku-
starfi Jóns hjá Einingu. Hann gegndi starf-
inu frá 1974 til 1985 og eins og gefur að
skilja voru mörg verkefnin að takast á við á
þessum tíma. Eitt af þeim sem tóku mikinn
tíma var bygging verkalýðshallarinnar á
Akureyri. Jón segist hafa sett sér sem mark-
mið að láta af formennskunni í Einingu þeg-
ar hallaði að lokum byggingar hússins og við
það stóð hann. Þessi framkvæmd var á sín-
um tíma mikið umtöluð, kostnaðurinn við
framkvæmdina þótti mikill og þær raddir
voru til sem sögðu verkalýðsfélögin bruðla
með fé í þessari stórframkvæmd. Aðrir
bentu á að þarna var ráðist í stórfram-
kvæmd á þeim tíma þegar atvinnulífið á
Akureyri var í lægð og þar með hefðu félög-
in lagt sín lóð á vogarskálarnar til að bæta úr
atvinnuástandinu.
„Þetta varð dýrara en menn gerðu sér
grein fyrir,“ segir Jón. „í fyrsta lagi þurftum
við að kaupa húsgrunn sem hér var fyrir og
breyta honum, sem alltaf er kostnaðarsamt
og hönnun auðvitað dýrari fyrir vikið. í
öðru lagi var tíminn sem fór í hönnun of
stuttur og eftirá séð hefði ýmislegt mátt bet-
ur fara í upphafi. En ég held að þegar upp
var staðið og húsið tilbúið þá hafi menn ver-
ið sáttir. Þetta er bygging sem stendur fyrir
sínu um lengri tíma og hér eru öll félögin
komin undir sama þak og þar með gæti orð-
ið meiri samvinna þeirra í milli. Ég hugsaði
húsið þannig að félögin hefðu hér t.d. sam-
eiginlegt sfmakerfi og ýmsa aðra sameigin-
lega þjónustu. En það er ríkt í mönnum að
vera sjálfstæðir og út af fyrir sig en auðvitað
kann svo að fara í framtíðinni að félögin
starfi meira saman og vonandi verður svo
áfram.“
Félagsleg samtök hafa sannað sig
Jón hefur ekki trú á að félagsformið hafi
minna gildi nú en áður. Margoft hafi sýnt sig
að félagsleg samtök, t.d. sveitarfélög og
kaupfélög, hafi bjargað á erfiðum tímum.
„Nú er frjálshyggjan að tröllríða öllu og
menn verða auðvitað að beita sér í samræmi
við það í samkeppninni um fjármagnið því
ekkert er hægt að gera án þess. En hvað
félagsformið varðar þá höfum við kynnst
því hér á Eyjafjarðarsvæðinu að samvinnu-
hreyfingin og verkalýðshreyfingin hafa
fengið miklu áorkað við að byggja hér upp.
Á sínum tíma kom sveitarféíagið og kaup-
félagið inn í Útgerðarfélag Akureyringa til
að efla það og allir sjá árangurinn af því. Á
Dalvík gerðust svipaðir hlutir og þar er
kannski sú byggð hér við fjörðinn sem
stendur hvað traustast í dag.“
Á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar
vegur Eyjafjarðarsvæðið þungt enda nær
félagssvæði Einingar allt frá Ólafsfirði inn
fyrir Akureyri eftir að félög ófaglærðs
starfsfólks á Eyjafjarðarsvæðinu gengu inn í
Einingu. Jón segir að staða félaganna á
stöðunum hafi verið orðin slík að þau hafi
ekki verið fær um að sinna sínum samnings-
bundu skyldum við félagsmenn. Því hafi
innganga í Einingu veitt félagsmönnum á
þessum stöðum öryggi auk þess sem Eining
hafi haft möguleika á að sinna innheimtu á
gjöldum mun betur. Þessi sameining hafi
því verið styrkur fyrir alla aðila.
Endurskipulagning
verkalýðshreyfingarinnar
- Ef þú lítur til baka yfir sögu verkalýðs-
hreyfingarinnar á liðnum árum, ertu sáttur
við hvernig þessi mál hafa þróast?
„Nei, ég get ekki sagt að ég hafi verið
sáttur og kannski var það ein ástæða þess að
ég var ekki lengur í formennskunni. Mér
fannst þetta alltaf þróast til verri vegar. Ég
tel að þurfi að endurskipuleggja verkalýðs-
hreyfinguna og af því að menn eru alltaf að
tala um hagræðingu á öllum sviðum, sam-
einingu fyrirtækja, þá ætti verkalýðshreyf-
ingin að líta sér nær og fækka þeim stofnun-
um sem eru nú við líði. Ég tel t.d. að þess-
um samböndum sem hafa ekkert afmarkað
svið megi fækka. Að mínu mati væri far-
sælla að hverfa til fortíðarinnar og hverfa til
eins deildaskipts Alþýðusambands þar sem
allir sameinuðust undir einu þaki. Þar gætu
allir rætt á eðlilegu tungumáli sín í milli. Sú
skipulagning yrði spor til farsældar í fram-
tíðinni. Menn hafa verið á undanförnum
árum og áratugum að ræða um breytt skipu-
lag og ég tel að það fyrirkomulag sem er í
dag sé orðinn hálfgerður óskapnaður. Það
yrði öllum landsmönnum til heilla að geta
fækkað samböndum innan ASÍ. Ég var t.d.
einn þeirra sem töldu Alþýðusamband
Norðurlands ekki hafa neitt gildi eftir stofn-
un Verkamannasambandsins, nema þá sem
samnefnari um atvinnu- og orlofsmál. Þá
náðu þessi sjónarmið ekki fram að ganga en
mér heyrist núna að margir telji tímabært að
leggja sambandið niður í núverandi mynd.
Þetta kostar auðvitað allt peninga og þeir
verða ekki teknir nema skattleggja fólkið.
Hvað þjónustuna varðar þá held ég að hana
væri hægt að veita betur ef menn sameinuð-
ust undir einu þaki og það eru allar forsend-
ur til þess með nútímatækni. Ef menn vilja
frjálshyggjuna upp á borðið þá tel ég að
verkalýðshreyfingin þurfi meiri miðstýringu
nú en nokkru sinni áður til að rétta sinn
hlut,“ segir Jón Helgason.