Dagur - 14.11.1992, Blaðsíða 10

Dagur - 14.11.1992, Blaðsíða 10
10 - DAGUR - Laugardagur 14. nóvember 1992 ÚR DAGBÓK FLAKKARA \ltlaiis kona Ég stóð við barinn og pússaði glös. Leit yfir lítinn sal með allt í bleiku og svörtu, króm og dempuð ljós og neonlist á veggjum. Uppa- bar. Einn lítill bjór á sama verði og þrjár vodka úr búð. Nánast hvert borð setið, skjala- töskur á gólfum, olnbogar á borð- um og áfjáð andlit, brosmild, yfir- lætisleg: fasteignadfllinn í dag upp á fimmtán milljónir og kommi- sjónin tólf og hálft prósent. Kaupi BMW á morgun. Staðgreitt. Eða Benz. Ég sá bjórglös tæmast og hana- stél, sá fingur upp í loft og Tracy við borðið samstundis. Tracy þessa nýju, tvítug eða rétt rúm- lega, rauðhærð og græneyg og með feiknarstóran barm sem hún seldi fyrir tipps. Alltaf í fleginni skyrtu og þunnri, hallaði sér fram og brosti daðrandi, augun loforð um lostkenndar nætur, varimar rakar og kannski tungubroddur; hún fékk enda meira í tipps á einu kvöldi en kaupið sitt þrefalt. Ég afgreiddi pöntun og leit til hliðar, sá manninn sem hafði sest við borð út í homi, sá klæðskerasaum- uð jakkaföt og beinabert, sviplaust andlit. Sá fingur á lofti og Tracy kom til hans, hallaði sér áfram og barmurinn tælandi. Brosti andar- tak en stífnaði, varð svört í framan og rauk í burtu, kom til mín fnæsandi og sagði: Karlandskot- inn. Ég vil hann út. Nú? Já! sagði Tracy blóðrauð og stórfenglegur barmurinn bifaðist. Hann sagði að... En hún þagnaði og leit til dyra og ég leit líka til dyra og svo var eins og muldrið og skvaldrið og hlátrasköllin hættu og allir litu til dyra. Jesús, sagði Tracy og mælti fyrir munn allra og ég kinkaði kolli samþykkjandi því inn hafði komið kona. Sem var ekkert merkilegt í sjálfu sér því inn komu margar konur en engin eins og þessi. Hún var hávaxin og grannvax- in, með ljóst hár og liðað sem flæddi eins og klakabrynjaður foss um bak og herðar svo afskaplega glóbjart. I svörtum frakka niðrá ökkla úr mjúku, drungalegu leðri sem nánast gleypti birtuna og lét hana hverfa, svörtum skóm og buxum, leðurhönskum; hún losaði um belti og tölur og gekk hægt í átt að bamum. Og hún leit á mig, þessi ægifagra kona með andlit sem var eins og höggvið úr ljósum marm- ara og ég sá tvo demanta. Tvo hel- bláa, skæra demanta og enga sál og ég var hræddur. Hún staðnæmdist við barinn, konan sem var látin og þó lifandi, stóð um stund grafkyrr og leit í kringum sig og ég fann lykt. Ein- hverja mjúka angan, eitthvað þýtt sem barst að vitum mér eins og höfgur ilmur. Eitthvað sem stakk svo afskaplega í stúf við dauðann að ég gleymi því aldrei. Ah, sagði Tracy ekki metra í burtu og konan leit á hana og Tracy stóð grafkyrr og hætti að anda og þá leit konan af henni og á manninn í klæðskerasaumuðu jakkafötunum sem sat við borð út í homi. Hún gekk til hans hægum, fjaðrandi skrefum og stillti sér upp á móti honum, glóbjart hárið eins og foss um bak og herðar og svartur frakkinn fráhnepptur. Stóð fyrir framan hann og leit á hann og maðurinn leit upp eftir langa hríð og á konuna. Hún sagði: Þú gerðir mistök. Það var eins og maðurinn væri annars hugar. Eins og hann heyrði ekki hvað hún sagði. Eins og hon- um væri sama um allt. Hún sagði: Þú lamdir vitlausa konu, og lá heill heimur að baki orðanna. Heimur þar sem faðirinn var reið- ur og dóttirin öll í marblettum; heimur þar sem lög og regla em ekki það sem við þekkjum heldur eitthvað annað, eitthvað þar sem misklíð hefur sinn eiginn dómstól, sinn eiginn sækjanda, sinn eiginn geranda. Maðurinn yppti öxlum. Hvað veist þú? Svo leit hann á Tracy. Og þessi. Sérðu hana? Klæða- burðinn? Svívirðilegt. Konan leit hægt við, leit á Tracy og aftur á manninn. Þú hefðir átt að berja hana. Hún er enginn. (She’s a nobody.) Tracy stífnaði og maðurinn glotti. Og hvað með það? Hennar orð gegn mínum. Engin vitni. Og ég var örugglega í L.A. Eða Acapulco. Eða eitthvað. Eg veit, sagði konan, fór inn undir frakkann við vinstri öxl og dró fram skammbyssu. Þess vegna kom ég. Maðurinn fraus og konan rétti út handlegg og hlaupið var kannski metra frá honum og svo heyrðist lítill hvellur sem var eins og fallbyssudrunur og beinaberi maðurinn fékk gat á ennið og seig aftur í stólnum. Konan stóð yfir honum svip- laus, hélt á byssunni í hægri hendi en dró hanskann af hinni með tönnunum og þreifaði á slagæð mannsins á hálsi. Svo fór hún í hanskann og stefndi á barinn. Loftið fór úr Tracy með hvin og mér líka en svo var konan farin hjá, gekk rólegum skrefum á milli gapandi, náfölra uppanna og að dyrunum. Snéri sér við og hélt vopninu á lofti. Hún sagði: Það sá enginn hvað gerðist, stóð andartak grafkyrr og virti gestina fyrir sér frostbitnum augum en hvarf svo út í myrkrið með vopnið þegar inn á sér. Og mínútu síðar var eins og sameiginleg hugsun gripi alla: menn þeyttu seðlum á borð og gripu veski og töskur og hlupu út úr dyrum spólandi og það varð enginn eftir. Enginn nema við Tracy og svo maðurinn í hominu sem horfði brostnum augum til himna líkt og hann væri að biðja sálu sinni ásjár. VÍSNAÞÁTTUR Jón Bjarnason frá Garðsvík Vaxtarræktarkona sendi P. Péturssyni lækni þessar vísur í apríl ’91: Þegar dimmt var og kalt mig dreymdi í vetur drauminn á þessa lund: Mér tækist að hitta Hormóna-Pétur og hlýja ’onum drykklanga stund. Ég vaxtarrækt stunda og veitist því betur er vesalings rolunum. Og þegar ég hitti Hormóna-Pétur hitnar í kolunum. Læknirinn svaraði: Þið bíðið mín brosandi í röðum með brjóst eins og kríuegg, en ofvöxt á ákveðnum stöðum og yfirvaraskegg. Og konan svaraði: Ýmsum kostum yfir býr öðrum körlum betri. Undirvöxtur ekki rýr er hjá honum Pétri. Lokasvar læknis: Bassarödd þín finnst mér flott og fáar dýpri þekki. Mér þykir hól þitt harla gott en hárvöxturinn ekki. Næstu vísur eru heimagerðar. (J. B.) Þrjár stökur: Aldrei gróa öll mín sár, enn í brisin klæjar. Fann þó eftir fimmtán ár fegurð þessa bæjar. Loks er feigðin færist nær fyrnist gæfuleitin. Akureyri er mér kær orðin, líkt og sveitin. Leggur yfir land og haf laufvindana mjúka. Byrjuð eru blöðin af björkinni að fjúka. Steinn Sigurðsson kvað næstu vísur: Æskan: Æskan birtir innstu þrár öllum þeim, sem skilja. Mestu gleði, minnsta tár, mæla börn sem vilja. Þeir gömlu: Mæla títt, sem mark er að menn á eldra reki. Oft ergott sem gamall kvað, glettni jafnt og speki. Rismál: - Letin undir árdagsblund auðnupundið grefur. Gull í mund á marga lund morgunstundin gefur. Örðugra: Niður á við er gatan greið gæfu og dyggð að farga. Upp í móti er örðug leið æru og sál að bjarga. Næstu vísur orti Hannes Jónsson, Siglufirði. Á borgarafundi: Eykur þrætur seggur sá, saman skreytni tvinnar. Veikur grætur eftir á iðrast breytni sinnar. Kveðja: Lífsins bráðum leik ég finn líða að endamótum. Hafðu þakkir, heimur minn hjartans innst frá rótum. Mér þú hefur mikið kennt, má það síðar gagna, yndi, harma, allt er sent andans þrek að magna. Næstu vísur eru eftir Valdi- mar S. Long. Ólyfjan: Vínið eyðir ást og tryggð, orku deyðir, vit og dyggð, afsér leiðir hel og hryggð, háska, neyð um sæ og byggð. Veðrabrigði: Dimmir höllum Drafnar /, dynja fjöll af veðragný, sveiflast mjöll og sortna ský, sveipa völlinn klæði ný. Hvöt: Enn er tími að hefjast handa, hækka seglin, vinda upp ný. Enn er fært að leita landa löðri mót og stormagný. Guðmundur Eyjólfsson Geir- dal orti næstu vísur. Óðardís ég eftir gekk, oft var stefað hnuðla. 17 ára fyrst ég fékk fellt mín Ijóð í stuðla. Ráðlegging: Seldu engum sannfæring sæld og gull þó bjóði. Er hún hverjum einstakling auðlegð best í sjóði. Barnsaugu: Hugur berst í himinsvé, - hjartað geislar lauga - þegar Drottins svip ég sé saklauss barns í auga. Pétur Jakobsson fyrrum kennari kvað: Kvöldvísa: Hnígur sól að hafsins brún hlés að skjóli bærist. Stígur njóla hægt og hún heims á bólið færist. í læknisstofu: Sjúkleik þjáður sæki þig saklaus, smáður, villtur. Lít í náðarljósi þig læknir, dáðum fylltur. Heimagerðar vísur. (J. B.) Furðulegt: Gerðist ég í æsku ör oft af pólitískum móði. Ennþá hef ég, áttrætt hrör áhyggjur af ríkissjóði. Við sjónvarpið: Lengi má ég horfa á heim hrokafullan glæpum. Hvenær lýkur löstum þeim lífs á vegum tæpum? Að utan: Mér er sagt, í Suðurlöndum séu lóa og þröstur veidd. Netin greidd á grænum ströndum. Grimmdin hefurmikla breidd. Þegar Steingrímur forsætis- ráðherra tók við Borgara- flokknum: Ennþá Steini færir fórn friðarmáls á þingum. Bætir svo í sína stjóm svörnum andstæðingum. Guðmundur Benidiktsson frá Breiðabóli kvað næstu vísur. Til ungrar stúlku: Vertu ætíð vina kær vænst af öllum konum, gangi þér alltaf yngismær allt að bestu vonum. Til vinar: Við þér hlæi veröld blíð vörpulegi maður, að þú megir ár og sfð alltaf vera glaður. Til dugnaðarmanns: Framarlega í fylking stóð og færðir allt til bóta. Fyrir verkin vönd og góð virðingu skaltu hljóta. Til öldunga: Siglið Ijúfan, léttan byr lán og gæði hljótið. Þó að ellin drepi á dyr dýrðar lífsins njótið. Hér kemur vísa sem flækst hefur meðal húsa síðan í „ástandinu". Frá einni plágu til annarrar Anna stökk, dóttir Þorvarðar, frá unnustanum og hljóp í herinn. Helvftis merin... Dýrólína Jónsdóttir á Fagra- nesi kvað. Bending til fépúkans: Sinntu snilldum, sefa hryggð, sæmdarfylgdu vana. Vertu mildur mettu dyggð meira en skildingana. Sæmdarmorð er sérdrægnin, sjást þess skorðuð merki. Sjaldan forðast fépúkinn fals í orði og verki. Niðurnídd jörð: Margt til bóta guð þérgaf, en gæðin hljóta að falla. Þú ert mótuð ágirnd af upp að rótum fjalla. Skepnur snapa snögga jörð, snöltra um krapa vega. Oftast skapa örlög hörð ásýnd dapurlega.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.