Dagur - 27.02.1993, Blaðsíða 19
Laugardagur 27. febrúar 1993 - DAGUR - 19
Kaldbakur er tignarlegur. Út með fjallinu er Látraströndin og Látrar sem hin dularfulla Látra-
Björg kenndi sig við.
Pað var einhverju sinni um þessar
mundir, að Látra-Björg var sjónarvottur
að hryllilegum atburði. Maður hrapaði fyr-
ir björg og beið bana, en jafnvel svo
átakanleg sjón gat ekki lengur freistað
hennar til að gefa eðlilegum tilfinningum
lausan taum, heldur varpaði hún fram
þessari alkunnu vísu, sem er jafnminnis-
stæð fyrir hina skörpu skáldsýn sem hina
yfirþyrmandi beiskju og kulda.
Fallega það fer og nett,
flughálkan er undir.
Hann er að hrapa klett afklett,
kominn niður á grundir.
Verður fólki naumast láð, þó að það
hafi lítt kunnað að meta slíka kaldrænu,
enda hefur það sennilega ekki haft í huga
rök, er til hennar lágu. En hvort mun
Látrá-Björg eícki éinmitt hafa séð sjálfa sig
í falli þessa hrapandi manns, sem hún var
að lýsa? Að minnsta kosti er auðsætt, að
eitthvað hefur brostið hið innra með henni
um þessar mundir og orðið þess valdandi,
að los komst á líf hennar. Hún festi ekki
framar yndi á æskustöðvunum, heldur
lagði hún land undir fót.
Þar með hófst sú skuggalega píslar-
ganga, sem lauk fyrst mannsaldri seinna -
í fjarlægum kirkjugarði.
En jafnvel ævilöng helganga lætur ekki
endilega eftir sig þau tíðindi, sem færð séu
í annála. Sá, sem þar er á ferð, leitar sér
sjaldan samfylgdar og verður því að jafn-
aði einn um sögu sína. Þess vegna svarar
það ekki heldur kostnaði að þreifa fyrir sér
um samfelldan æviþráð Látra-Bjargar.
Hann verður aldrei rakinn. En allt að einu
sést sums staðar hilla undir mynd hennar,
þar sem hún lætur svo lítið að staldra við
og hefur ýmist merkt sér viðkomustaðinn
með fleygri vísu eða áhrínsorðum.
Hvergi verður þess vart, að Látra-Björg
hafi neytt ættgöfgi sinnar sér til framdrátt-
ar, en hins þótti tíðum gæta, að hún væri
öðrum djarfmálli við höfðingja. Segir Gísli
Konráðsson af því þessa sögu:
„Þegar Björg var á flækingi - kom hún
eitt sinn á Möðruvelli í Hörgárdal. Var þar
þá kominn Stefán amtmaður Þórarinsson.
Gast honum illa að vergangi og betli.
Spurði hann komu Bjargar og hljóp út.
Var hann maður örlyndur og bráðsinna.
Hún heilsaði honum sem einfaldlegast og
sagði: „Sæll vertu, Stefán minn.“ Reiddist
hann bæði ósnyrtni hennar og flakkinu og
tók nú að vítaí:hana sem harðlegast og
heita henni hö’rðu, ef hún héldi slíku
áfram. Kvað þá Björg þessa vísu:
Þó að gæfan mér sé mót
og mig í saurinn þrykki,
get ég ekki heiðrað hót
hofmóðuga gikki.
Og gekk við það af stað. En eigi var hún
komin nema út fyrir túnið, er amtmaður
kallaði til hennar. En hún ansaði því ekki,
hann hljóp á eftir henni og skipaði að
bíða. Við það stansaði hún, en ógerla
heyrðu menn, hvað þau töluðust við, en
það sáu menn, að þau settust niður,
skammt hvort frá öðru, áður hann hljóp
heim og lét færa henni ull og smjör.
Sagði hann hana eigi vit skorta, en ærin
norn væri hún. Furðaði marga, hve ríflega
hann lét gefa henni...“
Eins og fyrr segir, var flakk Látra-Bjarg-
ar yfirleitt látið afskiptalaust, en þó var að
minnsta kosti ein undantekning frá þeirri
reglu. Þá var sýslumaður norðlenskur, að
sjálfsögðu er Jón hét, Benediktsson, hinn
merkasti maður og bjó að Rauðuskriðu.
Stefndi hann Björgu á sinn fund, ávítaði
hana harðlega fyrir flakk og krafðist þess,
að hún gæfi eiðfest loforð um að leggja
það niður. Svaraði hún fyrst fáu til og
horfði í gaupnir sér, en leit síðan fast og
beint í augu sýslumanns og sagði:
Beiði ég þann, er drýgði dáð
og deyð á hörðum krossi leið,
að sneyða þig af nægt og náð,
ef neyðirðu mig að vinna eið.
Varð sýslumanni felmt við, en lét þó
ekki af uppteknum hætti og hótaði að
kveða upp yfir henni sektardóm, ef hún
bætti ekki ráð sitt.
Svaraði þá Björg fyrir sig með annarri
vísu:
Dómarinn Jón, þú dæmir mig.
Dómarinn sá er skæður.
En dómarinn sá mun dæma þig,
sem dómunum öllum ræður.
Fleiri landfleygum vísum varpaði Látra-
Björg fram af tilefni þessu, en annars er
ekki vitað, hversu viðskiptum þeirra sýslu-
manns lauk. Hitt var á allra vitorði, að
varla var Björg fyrr farin frá Rauðuskriðu,
í þetta sinn, en að sýslumaður kenndi
verkjar í fótum. Ágerðust þau veikindi,
uns hann lamaðist að mestu, og dró sótt
þessi hann loks til dauða. Kirkja og staðar-
hús, sem hann hafði látið reisa með mikl-
um myndarbrag, voru þá hvort tveggja
rifin, og þótti almenningi einsætt, að þar
væri til fullnustu kominn fram sá eftir-
minnilegi dómur, sem Látra-Björg hafði
kallað yfir hann.
Það er ekki mót von, að þeim Látra-
búendum hafi verið neitt kærkomið að fá
erlend skip eða duggur að þessum
afskekkta stað og síst af öllu Björgu. Eitt
sinn sást á siglingu svart skip og var með
stefnu á Látra. Óhug setti að fólki, því það
taldi að ræningjaskip væri þarna á ferð.
Þá kvað Látra-Björg eftirfarandi vísu:
Sunnan og vestan sendi vind,
sjálfur heilagur andi,
stýri þeirri strauma-hind
strax frá voru landi.
Ekki verður þess neins staðar vart, að
Látra-Björg hafi sjálf haldið því á lofti, að
hún væri kraftaskáld, enda þurfti hún þess
ekki með. Almenningur hafði nægar sönn-
ur fyrir, að svo væri, og trúði því fullum
fetum, eins og mýmörg dæmi sýna. Var og
tíðum leitað til hennar um liðveislu í
vandamálum, sem ofar stóðu mannlegum
mætti, og gat þá oltið á ýmsu um undir-
tektir frá hennar hendi.
En trúin á kynngi og kraftaskáldskap
Látra-Bjargar var ekki einvörðungu til
þess fallin að greiða götu hennar. Hitt gat
líka borið við, að þessi sami átrúnaður yrði
henni til dómsáfellis að ósekju. Þannig
kom hún eitt sinn á gamalsaldri að Skútu-
stöðum, en þar var þá prestur séra Vigfús
Björnsson. Tók prestur henni kuldalega
og veitti henni harðar átölur fyrir fjölkynngi
og vergang. Engar sögur fara af því,
hverju hún svaraði til, og ekki hafði hún
neinn kveðskap yfir í það sinnið, en hitt
var á orði haft, að mjög hefði hún verið
þykkjuþung á svip og augnaráðið hel-
dimmt, en hún hvarf þegjandi á burt og án
þess að kveðja. Prestur átti fósturbarn
ungt, sem hann hafði lagt mikla ást við, en
nú bar svo við, að jafnsnemma og Látra-
Björg var farin, tók barnið sótt svo þunga,
að því var vart hugað líf. Þótti þá einsætt,
að þar væri að verki hin aldna seiðkona, og
hefði hún valið þessa leið til að koma fram
hefndum yfir prest. Dró ekki úr þeirri trú,
þegar fóstru barnsins dreymdi eina nótt-
ina, að Látra-Björg kæmi til sín og byðist
til að vaka yfir barninu. Það andaðist þessa
sömu nótt, og þurfti þá ekki framar vitn-
anna við.
Látra-Björg tók þennan atburð mjög
nærri sér, þó að hún bæri þann harm sem
annan í hljóði.
Ekki verður með sanni vitað, hversu
víða Látra-Björg hefur lagt leið sína, en
sennilega hefur hún gist flest héruð
landsins. Víst er um það, að hún hefur eitt
sinn komið til Viðeyjar og þá sennilega til
Reykjavíkur.
En vorið 1785 er hún aftur komin á forn-
ar slóðir, norður á Langanesi. Þetta er ár
dauðans. Skuggi Móðuharðindanna hvílir
yfir landinu. Þrátt fyrir það gerir hún ná-
grönnum sínum eftirmæli:
Loddarar á Langanesi búa.
Að liðnum þeirra lífdögum
þeir legstað eiga í kvölunum.
Sjálf er Látra-Björg komin að fótum
fram, orðin þreytt og þjáð. Hún er stað-
ráðin í að ljúka helgöngu sinni á sömu
slóðum og hún lagði upp í hana - fyrir
hartnær mannsaldri. Þá yrkur hún eina af
síðustu vísum sínum:
Langanes er Ijótur tangi.
Lygin er þar oft á gangi.
Margur ber þar fisk í fangi,
en fáir að honum búa.
- Nú vil ég heim til sveitar minnar snúa.
Og þetta tekst. Með nærfellt yfirmann-
legum vilja bera hinstu kraftar skininna
beina þennan undarlega einfara og seið-
konu heim á hrikalegar æskuslóðir; þar
deyr hún 26. september um haustið 1785.
Legstaður hennar er í Höfðakirkjugarði í
námunda við sýslumanninn Sæmund
Hrólfsson afa hennar - týnt nútímanum
eins og vera ber.
i VVít t • |
1 w
; : '1
Bláa kápan hjá LA 1961. Frá vinstri: Björg Baldvinsdóttir, Jóhann Ögmundsson, Egill Jónasson, Haraldur Sigurðsson, Sigtryggur Stefánsson, Sigríður P. Jónsdóttir, Ragnhildur Steingrímsdóttir,
Aðalsteinn Jónsson, Brynhildur Steingrímsdóttir, Halldór Helgason, Jóhann Konráðsson og Júlíus Oddsson.