Dagur - 09.03.1993, Blaðsíða 14

Dagur - 09.03.1993, Blaðsíða 14
14 - DAGUR - Þriðjudagur 9. mars 1993 Minning JU Ingólfur Krístinsson Fæddur 20. október 1910 - Dáinn 25. febrúar 1993 Fyrstu kynni nn'n af Ingólfi Krist- inssyni, ömmubróður mínum, voru í bernsku minni þegar hann kom frá Akureyri í heimsókn til okkar í Kópavoginn og tók mig og litlu systur mfna í „kleinu“. Þá var mikið hlegið og eftir það kölluðum við hann Kleinukarlinn eða þangað til við fórum að kalla hann Údda frænda. Undir því gælunafni gekk hann í minni fjöl- skyldu. Ég var svo lánsamur að fá að búa hjá þeim hjónum, Ingólfi og Grétu, í Helgamagrastræti 34 meðan ég var í Menntaskólanum á Akureyri, samtals í 5 vetur. Fyrir mig, sem hafði misst föður minn fáum árum áður, var það sérstakt lán að fá Údda frænda sem „plat-pabba“ og þau hjón voru mér í alla staði sem góðir foreldrar. Fyrir það get ég seint fullþakkað. Ingólfur var Akureyringur í húð og hár og var stoltur af bæn- um sínum. Hann kenndi mér m.a. mikilvægi þess að vera trúr uppruna sínum og leggja rækt við heimaslóðir. Það gerði hann svo sannarlega með virkri þátttöku í félagsmálum, menningar- og stjórnmálum bæjarins. Ungur að árum hóf hann að iðka íþróttir með íþróttafélaginu Þór og Fimleikafélagi Akureyrar og fór með því í sýningarferðir til Reykjavíkur og víðar. Hann starfaði og lék með Leikfélagi Akureyrar um árabil og í mörg ár söng hann og starfaði með Karla- kórnum Geysi. Ingólfur var hug- sjónamaður og baráttu fyrir betra lífi og var m.a. formaður Starfs- mannafélags Akureyrar í tólf ár og var fulltrúi þess á þingum BSRB í Reykjavík og gegndi fleiri trúnaðarstörfum fyrir stétt- arsystkini sín. Það segir sína sögu um hann að Starfsmannafélagið gerði hann að heiðursfélaga þess þegar hann varð sjötugur. Þá átti hann sæti fulltrúa á aðalfundum Kaupfélags Eyfirðinga og var um tíma formaður félagsins Karl II. Sem fyrr segir var Ingólfur Akureyringur í húð og hár; hann fæddist þar og ólst upp. Ungur að árum missti hann föður sinn og varð snemma að byrja að vinna fyrir sér. Hann vann m.a. við ullarþvott hjá Gefjuni, síðar skrifstofustörf við póstbátinn Drang en lengst af vann hann í Sundlaug Akureyrar eða þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Ingólfur kvæntist 26. nóvem- ber 1932 Grétu Jónsdóttur, eni hún var fædd 3. október 1910 en lést 25. apríl 1982. Þau hjón eign- uðust sex börn: Hildi, gifta Guð- laugi Tómassyni og eiga þau fimm börn og tíu barnabörn; Örn, kvæntur Elsu Valgarðsdótt- ur og eiga þau þrjú börn og fimm barnaböm; Örlyg, kvæntur Ásu Jónsdóttur og eiga þau fjögur börn og fimm barnabörn; Ingólf, sem er kvæntur Sigrúnu Valdi- marsdóttur og eiga þau fimmi börn og níu barnabörn; Grétu, gifta Sigurði Hallgrímssyni og eiga þau fjögur börn og fimm barnabörn og Örvar, kvæntur Erlu Ólafsdóttur og eiga þau tvö börn. Barnabörnin eru því orðin 23 og langafabörnin 34 og eitt langalangafabarn. Öll börn þeirra Ingólfs og Grétu búa fyrir sunnan nema Örlygur, sem býr á Akureyri. Foreldrar Ingólfs voru Kristinn Jósefsson bóndi á Krónustöðum í Saurbæjarsókn, fæddur 1. ágúst 1863, en bjó á Ákureyri frá 1903, og kona hans Guðlaug Stefanía Benjamínsdóttir, fædd 12. ágúst 1870 á Stekkjarflötum. Jósef afi Ingólfs var bóndi á Krónustöð- um, Sigurðssonar bónda í Suður- Tjarnarkoti, Flóventssonar. Móðir Kristins Jósefssonar hét Friðbjörg, dóttir Þorláks Nikulás- sonar og Friðfinnu Friðfinnsdótt- ur. Guðlaug Stefanía, móðir Ingólfs, var dóttir Benjamíns Jónssonar bónda á Stekkjarflöt- um og konu hans, Guðlaugar Gísladóttur. Ingólfur átti þrjár systur en þær voru: Helga Sigríður, amma mín, fædd 27. júní 1889 í Samkomugerði, dáin 1928; Magnúsína, fædd 11. 1. 1919 á Æsustöðum, dáin 16. desember 1992 og Guðrún, fædd 24. 10. 1904, dáin 22. 5. 1915. Ingólfur var ætíð í miklum metum hjá Guðrúnu, móður minni, enda reyndist hann henni vel, m.a. með því að taka mig að sér og létta þannig með henni á erfiðum tímum. Eftir lát Grétu var Ingólfur svo lánsamur að eignast góða og trausta vinkonu, Þorbjörgu Hansen, en hún og fjölskylda hennar reyndust honum vel síð- ustu árin. Örlygur sonur hans og Ása og fjölskylda þeirra voru honum stoð og stytta, jafnt í blíðu sem stríðu og var Ingólfur ánægður að hafa þau svo nærri. Helst hefði hann viljað hafa öll börnin hjá sér á Akureyri enda var Akureyri besti bær í heimi í hans augum og hann átti alltaf bágt með að skilja hverju fólk gæti verið að sækjast eftir suður. Ég á margar góðar og hlýjar minningar um þau hjón í Helga- magrastræti og þau gáfu mér, óhörðnuðum unglingi, veganesti, sem hefur reynst mér vel á lífs- leiðinni. Ingólfur Kristinsson var góður drengur og sannur sonur Akur- eyrar. Ég kveð hann með þakk- læti og virðingu um leið og ég óska fjölskyldu hans guðs bless- unar. Bæn. Skrifuð á blað verðurhún væmin bænin sem ég bið þér en geymd í hugskoti slípast hún eins og perla í skel við hverja hugsun sem hvarflar til þín. Hrafn Andrés Harðarson. Heiðursmaður er fallinn í valinn. Útför Ingólfs Kristinssonar fv. starfsmanns Sundlaugar Akur- eyrar er gerð frá Akureyrar- kirkju í dag. Þegar ég frétti and- lát vinar míns flaug margt um hugann. Fyrir margt löngu þegar Ingólfur var starfsmaður Póst- bátsins Drangs hófust kynni okkar. Á þeim árum var ég barn og þvældist gjarna á Torfunefs- bryggjunum að leik og við veiðar á smákóðum. Oft var það sem Ingólfur kom út af skrifstofu Drangs við Skipagötuna til að stoppa okkur strákana af þegar glannalega var farið á bryggjun- um og í bátunum, sem dormuðu við bryggjupollana í dokkinni. Síðar er Ingólfur tók við starfi sundlaugarvarðar á Akureyri urðu kynni okkar meiri. Úm árabil var ég fastagestur sund- laugarinnar, æfði keppnissund, og alltaf átti ég hauk í horni þar sem Ingólfur var. Ingólfur var mikill hugsjónamaður og vildi veg okkar sundmanna á Akureyri sem mestan. Á þessum árum var mikill umbrotatími í íþróttamál- um á Akureyri og sundmenn stofnuðu Sundfélagið Óðinn. Undirritaður var fyrsti formaður Óðins, þá óharðnaður unglingur, og ég vil fullyrða að ef Ingólfs hefði ekki notið við, þegar Sund- félagið Óðinn var að slíta barns- skónum, þá hefði félagsstarfið lognast út af. Ingólfur stappaði í okkur krakkana stálinu og fylgdi okkur eftir á æfingum. Já, Ingólf- ur var íþróttamaður góður á yngri árum og gat því liðsinnt okkur jafnt í samskiptum við íþróttahreyfinguna sem á bakk- anum þegar leiðsagnar þurfti með. Með þessum fátæklegu orðum vil ég minnast velgjörðarmanns keppnissundmanna á Akureyri á árum áður um leið ég ég sendi samúðarkveðju til barna, tengda- barna og barnabarna Ingólfs vin- ar míns. Óli G. Jóhannsson. njj=. Steingrímur Eggertsson U Fæddur 23. febrúar 1901 - Dáinn 13. febrúar 1993 Góður vinur, Steingrímur Egg- ertsson, lést á hjúkrunarheimil- inu Seli á Akureyri laugardaginn 13. febrúar s.l. og var jarðsung- inn frá Akureyrarkirkju mánu- daginn 22. sama mánaðar. Hann fæddist að Munkaþverá 23. febrúar 1901, en foreldrar hans voru þá vinnuhjú þar. For- eldrar hans voru Eggert, bóndi í Baugseli í Barkárdal árin 1912- 1914 en í Myrkárdal 1915-1927, Grímsson, og kona hans Anna Manasesdóttir. Eggert var sonur Gríms Friðfinnssonar og Soffíu Ólafsdóttur er bjuggu í Hraun- gerði frammi í Éyjafirði. Anna var dóttir Manasesar Manases- sonar bónda í Ási á Þelamörk og konu hans Guðrúnar Guðjóns- dóttur. Eiður Guðmundsson, bóndi og rithöfundur frá Þúfnavöllum lýsir föður Steingríms svo: „Hann var fátækur. Þó var hann mikill hirðu- og þrifamaður. Eggert var góðmenni og heiðursmaður frá hvirfli til ilja.“ Þessi lýsing Eiðs hefði allt eins getað átt við Steingrím, að því frátöldu að Steingrímur var ekki „fátækur“. Hann var sjálfum sér nógur og átti allt það sem hann kaus að eiga, en fyrst og fremst voru auðæfi hans þeir góðu eiginleikar sem í honum bjuggu, fjöldi vina, góð eiginkona, börn og afkom- endur. Steingrímur kvæntist Jóhönnu Vilhjálmsdóttur frá Máskoti í Reykjadal árið 1922, hinni mæt- ustu konu. Foreldrar hennar voru Vilhjálmur Jónsson, bóndi í Máskoti, og Sesselja Sigurgeirs- dóttir frá Geirastöðum í Mývatnssveit. Um tíma stunduðu þau búskap ásamt foreldrum Steingríms í Myrkárdal og eitt ár réðu þau sig sem vinnuhjú að Myrká, en árið 1927 fluttu þau til Akureyrar. Eignuðust þau 3 börn; Heiðrúnu, sem lengi hefur verið í forsvari fyrir Sjálfsbjörgu á Akureyri, en hún er gift Þor- steini Jónatanssyni, fyrrum rit- stjóra Verkamannsins á Akur- eyri, Karl Hróðmar, vörubifr- eiðastjóra, en kona hans er Katr- ín Guðmundsdóttir, og Ceciliu, húsmóður sem gift er Jóni Hall- grímssyni, sem lengst var afgreið- slustjóri hjá Olíusöludeild KEA. Þau eru öll búsett á Akureyri og eiga fjölda barna og barnabarna. Steingrímur starfaði til fjölda ára hjá KEA, fyrst við Frystihús- ið og frá árinu 1964, er ég kynnt- ist honum, sem birgðavörður hjá Hótel KEA en þar starfaði hann til ársins 1975, er hann lét af störfum, 74 ára gamall. Ég man enn er ég sá hann fyrst, myndarlegan, í meðallagi háan og kraftalegan af langri stritvinnu, en þó teinréttan og hraustlegan. í mínum huga býr minning um glaðværan, opinská- an, skynsaman, en fyrst og fremst góðan og heiðarlegan mann, sem ekki mátti vamm sitt vita í einu eða neinu. í þau 11 ár sem við störfuðum saman minnist ég þess ekki að okkur yrði sundurorða og var Steingrímur þó þekktur fyrir allt annað en að geta ekki sagt meiningu sína. Ef minnast skyldi á galla í fari hans, var sá helstur að hann gat verið mjög skapbráð- ur og lét þá ýmislegt fjúka. Hann var ör í skapi og lundin heit, en fáum hef ég kynnst sem áttu stærra hjarta, og gátu þá hughrif- in allt eins verið á hinn veginn, að honum vöknaði um augu. Hann hafði ríka samúð með þeim er áttu um sárt að binda og minna máttu sín. Fátt var því eðlilegra en að slíkur maður fylkti sér í lið með hinni stríðandi stétt og mun- aði um minna en mann eins og hann. Hann starfaði að málefn- um verkalýðshreyfingarinnar á Akureyri launalaust og af fullum krafti um árabil og var þá oftast í ■ fylkingarbrjósti. Hann vildi betri heim og réttlátari skiptingu arðsins, og lagði krafta sína fram til þess að svo mætti verða. Þetta var ekkert launungarmál enda kom hann ávallt til dyranna eins og hann var klæddur. Starf sitt á Hótel KEA rækti Steingrímur af hinni mestu samviskusemi og dugnaði við afar erfiðar aðstæður þar sem umfang starfseminnar hafði fyrir löngu sprengt af sér gamalt hús- næði. Var um tíma ekki um ann- að að ræða í starfi hans en að bera þunga kassa á milli hæða um þröng húsakynni, auk þess sem kallað var á afgreiðslu oft á tíð- um úr öllum áttum. Þá var krafan um vinnutíma önnur en hún er í dag. Steingrímur mátti sætta sig við tvískiptan vinnudag og einn frídag í hverri viku allan þann tíma sem hann starfaði við Hótel KEA. Þeir skilmálar sem hann gekk að í upphafi skyldu standa og um þá var ekki þrefað. Varð því vinnutími hans oft æði langur eða frá 10 á morgnana til 3 eða 4 að nóttu um helgar, að frátöldu 3 til 4 tíma hléi um miðjan daginn. Þegar stund gafst mili stríða var Steingrímur boðinn og búinn að sinna sjálfboðavinnu af ýmsum toga, til dæmis gjaldkerastörfum fyrir Karlakór Akureyrar, en Steingrímur söng með kórnum um árabil. í byrjun áttunda ára- tugarins veiktist eiginkona hans svo alvarlega af heilablæðingu, að hún varð rúmliggjandi á sjúkrahúsinu til margra ára og notaði Steingrímur þá frí sitt um miðjan daginn til að heimsækja og hlú að henni og gerði það dag- lega. Jóhanna lést 4. nóvember 1979. Steingrímur var heilsugóður í mörg ár eftir að hann hætti störf- um og var síðari árin í nábýli við son sinn oog tengdadóttur, þar sem hann naut hinnar bestu umhyggju. En enginn má sköp- um renna og allir verða um síðir að beygja sig fyrir elli kerlingu. Svo fór að lokum að Steingrímur varð vistmaður að hjúkrunar- heimilinu Seli og þar dvaldi hann fram í andlátið. Ég vil að lokum árétta umsögn sagnaþulsins á Þúfnavöllum og gera hana að mínum orðum um Steingrím heitinn Eggertsson: Hann var hirðu- og þrifamaður, góðmenni og heiðursmaður frá hvirfli til ilja. Góður Guð geymi hann. Ragnar Ásgeir Ragnarsson. AUGLÝSING FRÁ HEILBRIGÐIS- OG TRYGGINGAMÁLARÁÐUNEYTINU Löggildingarnámskeið fyrir fótaaðgerðarfræðinga Dagana 22. mars til 30. mars nk. gengst heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fyrir löggildingarnám- skeiði fyrir fótaaðgerðarfræðinga samkvæmt reglu- gerð nr. 184/1991. Löggildingarnámskeiðið verður haldið í Ármúlaskóla og innritun fer fram dagana 8. til 11. mars nk. Nám- skeiðsgjald er kr. 12.000. Námskeiðinu lýkur með prófi.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.