Þjóðviljinn - 26.01.1984, Blaðsíða 8
8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Fimmtudagur 26. janúar 1984
Guðsteinn Þengilsson, læknir:
I atómstríði
er engin vörn
Hér birtist síðari hluti er-
indis Um daginn og veginn,
sem Guðsteinn Þengilsson,
læknir hélt í desember s.l.:
„Mestu slysfarir sem þekkjast í
félagsmálum eru styrjaldir. Svo
langt sem sögur ná hafa þær verið
lokaúrræði þjóða við að útkljá á-
greiningsefni stn. Oftast hefur ver-
ið reynt að koma einhverju hug-
sjónanafni yfir tilgang styrjaldar-
innar. En í rauninni hefur oftast
verið barist um eignir og völd, þótt
svo hafi átt að heita, að ágreinin-
gurinn hafi t.d. staðið um það,
hvort við ættum að vera katólsk
eða hafa lúterstrú. Fyrir 40 árum
stóð sem hæst sá hildarleikur, sem
fram til þessa hefur einna hrikaleg-
astur orðið í veröldinni. Þá var
kveðinn niður sá erkióvinur, sem
nasismi kallast, a.m.k. var svo látið
heita, en samt er eins og ekkert hafi
gerst. Styrjaldirnar sem áttu að
vera til að binda endi á allar styrj-
aldir verið háðar til einskis og óvin-
urinn hafi þrátt fyrir allt borið sigur
af hólmi.
Sennilega hefur aldrei ríkt í
heiminum önnur eins dauðans
óvissa og nú um framtíð lífs og
menningar. Undanfarin ár hefur
hver afvopnunarráðstefnan af ann-
arri farið út um þúfur, og það eina
sem menn hafa náð samkomulagi
um er að fjölga í víghreiðrum sín-
um og drita þeim sem víðast niður
með aðstoð leppa sinna. Gagn-
kvæm tortryggni hernaðaraðila
rassskellir þá út í endalausan elt-
ingaleik við sitt eigið skott, og þeir
segja í hvert sinn sem nýrri vfgvél
hefur verið beint gegn andstæð-
ingnum, að það sé gert til að ná
hernaðarlegu jafnvægi. Við sem
búum hér á útjaðri NATO-
svæðisins könnumst vel við þessa
röksemd, því það þykir hin mesta
óhæfa að vopnabúnaðurinn nægi
ekki til að eyða mannkyninu nema
20 sinnum, ef grunur leikur á að
andstæðingurinn geti gert það 21
sinni.
Nú hafa voldugar friðarhreyfing-
ar risið, og þær veiku raddir friðar-
samtaka, sem fyrir voru, hafa
aukist að styrkleika. Nefna má, að
hin kristna kirkja hefur myndar-
lega hrist af sér slenið og gerist nú
ótrúaður friðflytjandi, beitir sér
fyrir afvopnun og vinnur gegn út-
breiðslu kjarnorkuvopna. Vona
menn, að nú sé liðinn sá tími, að
vígðir menn blessi þau áhöld sem
nota á til manndrápa. Þá má nefna
samtök fólks úr ýmsum stéttum,
m.a. samtök þeirra sem menntunar
sinnar vegna ættu öðrum fremur að
geta gert sér allskýra mynd af af-
leiðingum atómhernaðar, en það
eru læknar og eðlisfræðingar. Ber
sérstaklega að fagna þátttöku
hinna síðarnefndu. Smíði ger-
eyðingarvopnanna byggðist á
þeirra verkum, og hefur þeim nú
runnið til rifja, hvernig snilligáfa
þeirra og störf hafa verið notuð til
illra verka, svo að þeir flykkjast nú
þúsundum saman undir merki
friðar og afvopnunar.
Flestum sem hafa fylgst með því,
hvernig kjarnorkusprengingar
verka og hvernig beita má kjarn-
orkunni ásamt tilheyrandi fylgi-
búnaði í hernaði er ljóst, að styrj-
öld með þessum vopnum er at-
burður, sem fyrir engan mun á eiga
sér stað. Mönnum er einnig að
verða ljóst, að allt tal um takmark-
að kjarnorkustríð er blekking. Það
getur enginn heft útbreiðslu slíkrar
styrjaldar, ef hún brýst út. Enginn
getur unnið í atómstríði. Þess
vegna væri vel hugsanlegt fyrir
kjarnorkuvígbúið stórveldi að
leggja niður öll sín vopn einhliða.
Ef á það yrði ráðist með slíkum
vígbúnaði, mundi árásaraðilinn
eyðileggja sjálfan sig um leið, þótt
hinn ætti engin vopn til andsvars.
Sú eyðilegging tæki dálítið lengri
tíma, en hún yrði með þeim hætti,
að hæpið er að nokkur vildi fremur
standa í sporum sigurvegarans en
hins sigraða. Þar að auki sæti árás-
araðilinn einn uppi með skömm-
ina. Við sjáum þvf, hve allt þvaðrið
um hernaðarlegt jafnvægi í skjóli
kjarnorkuvopna er fánýtt.
Raunverulegar varnir eru ekki
til í atómstríði. Skýling bak við
þykka steinsteypuveggi og að-
hlynning á sjúkrahúsum, þar sem
starfsemi lamast fljótt, er aðeins
meiningarlaust fálm eða til þess að
lengja ævina lítillega í ótta og
óvissu. Þeir sem lifa af í fyrstu lotu
munu flestir eða allir deyja um
aldur fram vegna örkumla og ban-
væns umhverfis. Af þessum ástæð-
um eru nú æ fleiri að gera sér grein
fyrir að einu varnirnar, sem hægt er
að tala um í atómstyrjöld eru þær
að koma í veg fyrir hana með öllum
tiltækum ráðum.
Við sem erum alþýða heimsins
megum aldrei sætta okkur við það,
að stjórnmálamenn og hershöfð-
ingjar tveggja stórvelda eða fleiri
semji um það sín á milli, hvort við
eigum að fá að lifa áfram á jörð-
inni, eða hvort börn okkar og
barnabörn eigi þar lífvænlegan
samastað. Vissulega er það hvorki
á valdi lítillar, einangraðrar þjóðar
né tiltölulega fámennrar friða-
rhreyfingar að gera stórvirki í þess-
um málum, en með víðtækum
stuðningi almennings í öðrum
löndum heims og í samvinnu við
aðrar hreyfingar, sem vinna að af-
vopnun og friði, er unnt að byggja
upp stórveldi, sem jafnvel hinir
vígreifu eigendur kjarnavopnanna
verða að beygja sig fyrir. Þeir
verða að gera sér grein fyrir því að
friður skelfingarinnar, friður ógn-
arinnar, er ekki sá friður sem fólk
þolir að búa við til lengdar. Ótryggt
er Iíka það hlé sem mönnum er
búið í skugga helsprengju.
Það verður að teljast mjög
óhugnanlegt fyrirbæri, að hjá
nokkrum hópi fólks hér á landi hef-
ur gætt verulegrar tortryggni í garð
friðarhreyfinga og dregur sig því út
úr öllum samtökum, sem vinna að
friði. Þetta fólk hefur fengið þá
flugu í höfuðið að öllu tali um frið
og afvopnun sé sérstaklega beint
gegn Bandaríkjamönnum. Þess
vegna telur það sér ekki fært að
taka þátt í þeirri starfsemi sem að
framan hefur verið lýst og sýnt þy k-
ir, að sé eina leiðin til að hindra
útrýmingu lífsins. Þeir sem þessa
afstöðu hafa, virðast trúa á
Síðari hluti
erindis
um daginn
og veginn
jafnvægi skelfingarinnar og ógnar-
innar, og stuðla þannig að því fyrir
sitt litla leyti að gefa víxlvígbúnað-
inum byr undir báða vængi uns allt
springur og öllu er lokið. Þessir
Bandaríkjavinir gleyma því að sá
hluti vígvélarinnar sem við íslend-
ingar búum við er bandarískur og
NATO er það hernaðarbandalag,
sem við erum aðilar að. Þess vegna
getum við ekki sagt okkur úr öðr-
um hernaðarbandalögum. Það er
því eðlilegt, að Bandaríkin séu sá
aðilinn, sem við íslendingar hnipp-
um í, þegar við viljum sýna lit á því,
að friður og afvopnun séu líka okk-
ar hugsjónir. Rétt er líka að minna
á í þessu sambandi, að fram til
þessa hefur aðeins ein þjóð hafið
kjarnorkustríð gegn annarri þjóð,
það eru Bandaríkin.
Forystumenn friðarhreyfinga
hérlendis og erlendis hafa aldrei
farið dult með það, að barátta
þeirra hefur engin pólitísk landa-
mæri, heldur beinist jafnt gegn
öllum þeim, sem fara fram með
hermennsku og vígbúnaði. Það er
varla umræðuhæft efni að komm-
únistar eigi sérstaka aðild að þess-
um friðarhreyfingum, slíkt er að-
eins áróðursbragð þeirra, sem vilja
draga úr áhrifum þeirra að láta slíkt
í veðri vaka. Varla munu þeir samt
vera tilbúnir að halda því fram, að
friður og afvopnun séu óskadraum-
ur kommúnista einna.
Að lokum vil ég bera fram þá
einlægu ósk, að sem allra flestum
megi skiljast, að áframhaldandi
vígbúnaður leiðir til glötunar, en
friður og afvopnun sé eina færa
leiðin til lífsins.
„Einu varnirnar sem hœgt er að tala um í atómstyijöld eru þœr að koma í
veg fyrr hana með öllum tiltœkum ráðum“
Veðráttan sl. ár
Næst kaldasta ár ald-
arinnar í Reykjavík
í nýfluttu erindi Jónasar Jóns-
sonar búnaðarmálastjóra um
landbúnaðinn 1983, komu fram
margar athyglisvcrðar upplýs-
ingar, þeirra á meðal um veður-
farið á árinu. Kannski við ríkjum
að hér upp með Jónasi, svona í
stórum dráttum.
Óvertju köld veðrátta
í Reykjavík reyndist árið næst
kaldasta ár aldarinnar, meðalhit-
inn 3,4 gr. C., sá sami og 1981.
Kaldast var árið 1979 en þá var
meðalhitinn í Reykjavík aðeins
2,9 gr. C. f Reykjavík var hitinn
1,6 gr. undir meðalhita áranna
1931-1960 og 1,1 gr. undir meðal-
hita áranna 1961-1980.
Á Akureyri 2,8 gr., 1,1 gr.
lægri en meðalhiti áranna 1931-
1960 og 0,4 gr. lægri en áranna
1961-1980. Þar hefur þó oft kom-
ið kaldara á þessari öld en sl. ár.
Steininn tekur þó úr þegar at-
hugaður er meðalhitinn um sunn-
anvert landið í júní, júlí og ágúst.
Hann var aðeins 8,2 gr. í Reykja-
vík og þarf að fara alla leið aftur
til ársins 1886 til að finna slík
dæmi. Sólskinsstundirnar þessa
mánuði urðu aðeins 278,50
stundum færri en áður hefur
mælst, og aðeins helmingur þess,
sem er í meðalári. Hiti var undir
meðallagi alla mánuði ársins á
öllum veðurathugunarstöðvum
landsins, nema í febrúar. Árið
var í heild úrfellasamt þó ekki
mikið umfram meðaltal á sunn-
anverðu landinu, aðeins 7% í
Reykjavík en aftur á móti 37% á
Akureyri.
Einstakir mánuðir
Janúar var illviðrasamur.
Byrjaði með frosti og hríðum.
Asahláku gerði þó um 20. jan.
með eftirminnilegum afleiðing-
um, sbr. snjóflóðið á Patreks-
firði.
Febrúar var hlýr um allt land.
Meðalhiti á Akureyri 1,6 gr., 3,2
gr. yfir meðallag.
Marsmánuður var bæði kaldur
og úrkomusamur.
Aprfl þó enn verri bæði um
kulda og úrkomu og hefur aðeins
einn aprflmánuður verið kaldari í
Reykjavík á þessari öld. Snjó-
þyngsli voru víða, einkum á
Norð-Austurlandi.
Maí var kaldur, alveg sérstak-
lega á Norðurlandi, sífelld
norðanátt og snjóaði norðan- og
vestanlands, allt suður um Dali
og Snæfellsnes. Hiti var allsstað-
ar undir meðallagi, 0,7 gr. í
Reykjavík og 2,9 gr. á Akureyri.
Úrfelli voru ekki mikið sunnan-
lands en tvöföld meðalúrkoma á
Akureyri.
Júní var mjög kaldur og úr-
komusamur um allt land. Tvöföld
meðalúrkoma bæði í Reykjavík
og á Akureyri. Ekki fór að gróa
að marki fyrr en upp úr miðjum
mánuðinum. Versta áhlaup gerði
nyrðra 11. og 12. júní. Urðu
nokkrir fjárskaðar og tjón hjá
kartöflubændum. Illfært var víða
um tún vegna bleytu.
Júlí var kaldur, einkum syðra.
Á nokkrum bæjum þar byrjaði
þó sláttur í fyrstu viku júlí en víð-
ast hvar ekki fyrr en síðar í mán-
uðinum.
í ágúst var stöðug sunnan- og
suðvestanátt, og mjög úrfelia-
samt, einkum sunnanlands. Kald-
asti ágústmánuður í Reykjavík
síðan 1886. Heyskapur gekk
mjög illa einkum um sunnanvert
landið en skárst á Austurlandi.
í september brá til hagfelldari
heyskapartíðar. Úrkoma var
undir meðallagi en hitastigið
einnig.
Október var kaldur og úr-
komusamur. Töluvert snjóaði
norðaustanlands um miðjan
mánuðinn en tók aftur að mestu.
Nóvember var kaldur og um-
hleypingasamur. Allmikinn snjó
setti niður á Norð-Austurlandi.
í desember mátti vetrarveðr-
áttan heita góð en hiti þó undir
meðallagi.
-mhg