Þjóðviljinn - 08.08.1984, Blaðsíða 13

Þjóðviljinn - 08.08.1984, Blaðsíða 13
MINNING Frá setningu 6. þings Verkamannasambandsins. Við háborðið er þingstjórnin Þórir Daníelsson, Karl Steinar Guðnason, Kolbeinn Friðbjarnarson, Óskar Garibaldason, Jóna Guðjónsdóttir, Hermann Guðmundsson og Eðvarð Sigurðsson í ræðustól. (Mynd. Bj. Pálss.) gjalda að verðleikum. Aðstand- endum hans vottum við innilega samúð. Benedikt Sigurðsson Fréttin um að Óskar Gari- baldason væri dáinn kom mjög óvænt, og það svo að menn trúðu varla. Hann hafði að undanförnu virst hress og fullur áhuga eins og venjulega. Hann hafði daginn áður, á 76. afmælisdegi sínum farið út á Engidal, á bernskustöðvarnar, gengið þar um og dvalið við minningarnar. Árla morguns daginn eftir ók hann Sölku, son- ardóttur sinni, sem hjá honum dvaldi um tíma, til vinnu, fór síð- an heim og hóf sína vinnu á lóð- inni við að endurbæta og búa í haginn fyrir nálæga framtíð. En óvænt bar gest að garði. Þeir höfðu reyndar áður hist, jafnvel ást við návígi þar sem að- eins herslumuninn vantaði að Óskar tapaði slagnum. En þá kom til hjálpar þekking lækna og svo hin þrjóska lífsþrá Óskars með kunnáttu til styrktar, að berjast sjálfur fyrir heilsu sinni. - Hinn óvænti gestur brá nú lj ánum svo snöggt og fast að engum vörn- um varð við komið, hann féll til moldar og var allur. Óskar Garibaldason var 76 ára er hann lést. Þau æviár dugðu honum til mikillar lífsreynslu allt frá bernskudögum. Hans hlut- skipti varð að verja drjúgum hluta æviáranna í hugsjónastörf á vegum róttækrar verkalýðshreyf- ingar, og samofið því starf að tónlistar- og menningarmálum. Og eftir að hann hætti föstu starfi helgaði hann sig því hlutverki, að hjálpa þeim, sem illa voru farnir heilsufarslega, lina þrautir þeirra og bæta líðan á margan hátt. Til þessa beitti hann svæðanuddi, en það lærði hann af lestri bóka og á námskeiðum, sem hann sótti hjá áhugafólki um þau efni. Margur þakkaði Óskari bata og betri líð- an í skrokknum, enda lagði hann sig þar allan fram eins og honum var tamt. Ég átti því láni að fagna að kynnast Óskari og fjölskyldu hans. Ég kom á heimili þeirra Anneyjar og Óskars beint af skipi, sem flutti mig hingað norður fyrir um 41 ári, og hjá þeim gisti ég fyrstu dagana hér og var þar síðan heimagangur meira og minna eftir því sem hagir okk- ar stóðu. Seinna urðum við Óskar nánir samstarfsmenn um nokkurt ára bil, hann starfsmaður verka- mannafél. Þróttar og ég Sósía- listafélagsins, í sama húsi. Þá var margt bollalagt og reynt að koma ýmsu í framkvæmd. Óskar var framkvæmdamaður, duglegur og fylginn sér. Hann fann ráð til að eitt og annað gæti skeð. - Þá var Lúðrasveit Siglufjarðar stofnuð, Haraldur Guðmundsson kom og kenndi byrjendum, bjó hjá Óskari og Anneyju, seinna kom Sigursveinn D. Kristinsson og hans hægri hönd var Óskar, upp spratt Tónskóli Siglufjarðar og forráðamaður hans var Óskar. í félagsmálastarfi öðru kom Óskar víða við, en aðallega beitti hann sér að starfi í verkalýðsfé- lögunum og hinum róttæku póli- tísku samtökum, Kommúnista- flokknum, Sósíalistaflokknum og nú síðast Alþýðubandalaginu. Óskari var það mikið £ mun að kynnast af eigin raun sem flestum þáttum í iífi alþýðunnar. Hann varð að vinna hörðum höndum til að framfleyta stórri fjölskyldu, og því var ekki alltaf um góða kosti að velja hvað atvinnu snerti. Hann var þó afburða dug- legur verkamaður og jafnvígur á störf til sjós og lands, var togara- sjómaður, síldveiðisjómaður á ísl. og sænskum síldveiðiskipum, hann þótti ágætur verkstjóri, planformaður og framkvæmda- stjóri söltunarstöðvar, hann lærði húsgagnasmíði og kynntist þar iðnaðarstörfum, o.fl. o.fl. mætti upp telja af því, sem hann lagði gjörva hönd að. í félagsmála- starfi reyndi oft á lagni og hygg- indi, sérstaklega í samningagerð- um. Hann var góður ræðumaður og vel ritfær. Ég man að mér fannst, fyrst eftir að ég kynntist Óskari og störfum hans, og var þá sjálfur tendraður pólitískum áhuga og lesandi hina pólitísku sögu sósíal- istanna, að Óskar væri ímynd hins sanna bolsévika: harður í stéttabaráttunni og átökum, sem henni fylgdu, vakandi fyrir að ekki væri brotið á þeim, sem minna máttu sín, hjálpsamur við alla, sem á þurftu að halda, flokk- urinn og félagarnir voru númer 1 og hann sjálfur og heimilið komu á eftir, fróðleiksþyrstur með ríka menningarlega þrá í brjósti, að allir gætu menntast, hvort sem væri til hugar eða handar. Þetta fannst mér þá, og nú þeg- ar ævibraut hans er að enda runn- in, sjónarsvið mitt orðið víðara og opnara til margra átta, finnst mér að í Óskari geti ég séð ímynd svo ótal margra annarra, sem af hugsjónaeldi, mannkærleika, frelsis og réttlætisþrá hafa unnið hinum minnimáttar, veiku og of- sóttu allt sem þeir máttu, án tillits til eigin hagsmuna. Óskar átti góða konu, Ann- eyju Jónsdóttur, ættaða úr Ólafs- firði. Hún var harðdugleg til allra verka og mikil húsmóðir og tók virkan þátt í starfi og áhugamál- um manns síns. Þau eignuðust 6 börn, öll myndar- og atgerfisfólk, en einn son misstu þau í æsku. Þegar að kveðjustund kemur er margs að minnast, margt að þakka. Við hjónin eigum bæði þar hlut að. Konan mfn, Þórunn, hefur lengi verið náinn samstarfs- maður Óskars í stjórn og trúnað- armannaráði Verkalýðsfélagsins Vöku. Hún hefur því margt lært og margs notið af kynnum við hann. Horfinn er félagi og vinur. Áratuga vinátta, sem ekki bar skugga á, vekur söknuð og harm í huga. En eftir lifir minning um svo hugsjónaríkan og fjölhæfan mann að fágætt er. Megi sú minning verða leið- sögn okkur öllum, að fylgja sem best og heiðarlegast þeim hug- sjónum, sem gáfu lífi Óskars Garibaldasonar hvað ríkulegast gildi. Við hjónin vottum ástvinum hans og ættingjum okkar innileg- ustu samúð. Einar M. Albertsson. Félagi minn og vinur Óskar Garibaldason lést 2. ágúst sl. 76 ára gamall. Með honum er horf- inn af sjónarsviðinu einn af bestu og skeleggustu forystumönnum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Óskar fluttist ungur til Siglufj- arðar, sem á þeim árum var mikil miðstöð síldveiða og hvers konar síldarvinnslu og því samastaður mikils fjölda verkafólks víða af á landinu. Hér kynntist hann boðskap sósialismans um jafnrétti og bræðralag og einnig harðri bar- áttu fátæks verkafólks fyrir lífsb- rauði sínu. Boðskapur sósialismans og barátta verkafólksins fyrir mannsæmandi lífi var hvort tveggja í samræmi við hina ríku réttlætiskennd Óskars Gari- baldasonar. Upp frá því og þar til yfir lauk var líf hans allt samofið pólitískri og faglegri baráttu verkalýðs- hreyfingarinnar. Hann var félagi í Kommúnista- flokki íslands frá upphafi og alltaf virkur félagsmaður í verka- mannafélögunum á Siglufirði og valdist þar snemma til forystu- starfa. Hann var formaður Verka- mannafélagsins Þróttar frá 1953 til 1966 og eftir það formaður Verkalýðsfélagsins Vöku til árs- ins 1974 en varaformaður var hann tii dauðadags. Störf Óskars Garibaldasonar í þágu siglfirsks verkafólks spanna yfir meira en 50 ár og verða ekki tíunduð hér en það er ekki of- sögum sagt að fáir menn ef nokk- ur, hefur unnið siglfirsku verka- fólki jafn vel og lengi. Öll sín störf vann Óskar ávallt af stakri samviskusemi og spurði aldrei um laun eða þakkir. Óskar Garibaldason var um margt sérstakur maður, hann var vel menntaður og sjálfmenntaður að mestu, sjálfur lærði hann er- lend tungumál svo sem sænsku og þýsku, sem hann skildi og talaði prýðiiega. Áhugamál hans voru mörg, hann var t.d. mikill tónlistarunn- andi og um langt árabil var hann aðal driffjöðrin í Tónskóla Siglufjarðar, ásamt vini sínum Sigursveini D. Kristinssyni. Störf þeirra Sigursveins að tónlistarmálum báru ríkulegan ávöxt hér á Siglufirði og settu um langt skeið ánægjulegan svip á bæjarlífið. Öskar var hamingjusamur maður í einkalífi sínu, hann kvæntist ungur Anney Jónsdótt- ur frá Ólafsfirði, þau eignuðust sex börn, Hörð, Erlu, Hlyn, Hallvarð, Hólmgeir og Sigurð, sem lést ungur og var mikill harmur kveðinn að þeim hjónum við fráfall hans. Anney andaðist 1975 og syrgði Óskar hana ávallt síðan. Óskar var ákaflega umhyggju- samur fjölskyldufaðir, fjöl- skyldan, börnin og barnabörnin áttu hug hans allan og hjá þeim naut hann ávallt ástar og um- hyggju. Kynni okkar Óskars hófust fyrst að ráði fyrir um það bil 25 árum síðan þegar ég fór fyrst að taka þátt í störfum Verkamann- afélagsins Þróttar, en Óskar var þá formaður félagsins. Þau kynni okkar leiddu til sam- starfs og vináttu, sem aldrei hefur borið skugga á síðan. Það var gott að kynnast Óskari Garibaldasyni og gott að eiga hann að vini, hann var ljúfmenni og drengur góður. Vertu sæll félagi, á kveðju- stund þakka ég þér fyrir sam- fylgdina, fyrir vináttu þína og hjálpsemi í gegnum árin, um leið og ég votta börnum þínum og fjölskyldu þinni allri innilegustu samúð mína og fjölskyldu minnar. Kolbeinn Friðbjarnarson Með Óskari Garibaldasyni er genginn einn traustasti baráttu- maður verkalýðshreyfingarinn- ar, á því tímaskeiði sem liðið er af öldinni. Allt til loka var hugsun hans mest tengd baráttunni fyrir réttindum verkafólks, og framtíð þess, og menningarmálum alþýð- unnar. Með þessum línum vil ég sér- staklega minnast starfa Óskars í þágu Tónskóla Siglufjarðar, á þeim árum sem við störfuðum saman að málefnum hans. Máske er það gott dæmi um víðsýni hans og lagni við lausn góðra málefna. Það var haustið 1957 að Óskar sem þá var starfsmaður verka- lýðsfélaganna á Siglufirði mæltist til þess að ég kæmi til Siglufjarðar í mánaðartíma til að æfa Lúðra- sveit Siglufjarðar, sem þá hafði nýlega verið stofnuð af áhuga- mönnum þar í bænum. Ég varð við þessum tilmælum og við Ólöf Þorláksdóttir, kona mín tókum okkur far til Siglu- fjarðar með flugvél 20. nóvember um haustið. Með í farangri okkar höfðum við nokkrar blokkflautur, til þess ætlaðar að kenna krökkum nótnalestur ef svo bæri undir. Verkalýðsfélögin á Siglufirði, Þróttur og Brynja, áttu hús- eignina Gránugötu 14. Þar var skrifstofa félaganna. Að öðru leyti var þetta hús notað til félags- og menningarstarfsemi á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Þar fengum við Ólöf nú stofu og eld- hús til íbúðar meðan við dveldum í bænum, og fundarsalinn til kennslu og æfinga. Svo var hafist handa. Samæfingar voru á kvöld- in og raddæfingar á daginn eftir því sem við varð komið. Óskari fannst það jafn sjálfsagt að veita krökkum tilsögn í nótna- lestri eins og hinum fullorðnu og eftir nokkra daga hafði hann fundið saman hóp af krökkum sem höfðu áhuga á málinu. Þessir krakkar reyndust góðir nemend- ur og vöktu fljótlega áhuga ann- arra krakka fyrir þessu námi, með áhuga sínum. Óskar sá fyrir því að útvega blokkflautur frá Reykjavík, eftir því sem þurfti og eftir nokkrar vikur var fullsetið kennslurúmið frá morgni til kvölds. Veturinn leið og undir vor höfðu verið skráðir 130 nemend- ur í forskólanámið. Þá var ákveð- ið að stofna skóla í þeim tilgangi að tryggja þeim nemendum sem þess óskuðu aðgang að lengra námi í framhaldi af þessari byrj- un. Lúðrasveit Siglufjarðar gekkst fyrir skólastofnuninni, með stuðningi Verkalýðsfélaganna. Skólinn var nefndur Tónskóli Siglufjarðar og hugsaður sem al- þýðumúsíkskóli. Ég var ráðinn skólastjóri, en Óskar var formað- ur skólaráðsins. Næstu 5 ár starf- aði ég við skólann. Þá höfðu enn ekki verið sett lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Tónskóli Siglufj- arðar naut því ekki opinberra styrkja þessi ár. Um sumarið (1958) var hafin fjársöfnun á Siglufirði meðal al- mennings og fyrirtækja til tækja- kaupa handa skólanum. Árang- urinn bar ríkulegt vitni um góðan hug Siglfirðinga til Tónskólans. Um haustið naut hann góðrar aðstoðar Dr. Hallgríms Helga- sonar tónskálds við innkaup á léttum hljóðfærum og nauðsyn- legum kennslunótum. Tiltölulega fá heimili á Siglu- firði áttu þá píanó og því mjög fáir nemendur, sem höfðu mögu- leika á að læra á það hljóðfæri. Mestur fjöldi nemenda lærði því á blásturs- og strengjahljóðfæri, sem skólinn hafði keypt og gat lánað nemendum án endur- gjalds. Með þessu móti varð þátt- taka nemenda almennari en ann- ars hefði orðið. Við Óskar höfðum átt margs- konar samstarf um áratugi (1930- 1959) um málefni verkalýðs- hreyfingarinnar og sósíalista- flokksins, en þau ár sem nú fóru í hönd og við unnum á sama vinnu- stað að sameiginlegum áhuga- málum við Tónskóla Siglufjarð- ar, kynntist ég betur en áður fá- gætum mannkostum hans og ó- bilandi áhuga fyrir félags- og menningarmálum verkafólks. Þorsteinn skáld Valdimarsson lýkur forspjalli íslandsljóða þannig: „Sönglíf er aflvaki þjóðlífs. Af strengjum hörpunnar stökkva gneistar frelsisins. Fyrir mætti Sigursöngvanna brestur okið. Ráði söngurinn húsum, mun þjóðin ráða landi“. Það var í anda þessara orða skáldsins, sem Óskar Garibalda- son og félagar hans vildu leitast við að vinna þegar þeir stofnuðu Tónskóla Siglufjarðar, vorið 1958 og með þeim kveð ég hann að þessu sinni. Sigursveinn D. Kristinsson Miðvikudagur 8. ágúst 1984 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 13

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.