Þjóðviljinn - 13.03.1985, Qupperneq 5

Þjóðviljinn - 13.03.1985, Qupperneq 5
Fullvinnsla sjávarafla Gífurlegir möguleikar Guðmundur J. Guðmundsson: Pví nœr sem við komumst matardisknum, því örari verður hœkkunin á vörunni „Við ættum að setja okkur það markmið að auka hlutfallslegt verðmæti íslensks sjávarafla um a.m.k. þriðjung á næstu fimm árum. Það myndi þýða gjald- eyrisaukningu upp á rösklega 5,4 miljarða króna,“ sagði Guð- mundur J. Guðmundsson á al- þingi, þegar hann mælti þar fyrir tillögu sinni um fullvinnslu sjáv- arafla. Ræða Guðmundar og til- lagan hlaut góðar undirtektir þingmanna úr öllum flokkum og höfðu ýmsir á orði að iangt væri síðan alþingi hefði geflð sér tíma til að ræða vel jafn mikilvægt mál og þetta. Guðmundur vék í upphafi að því viðhorfi margra að mögu- leikar íslensks sjávarútvegs fari nú þverrandi vegna takmarkaðs afla og að sjávarútvegurinn muni gegna æ minna hlutverki í þjóð- arframleiðslunni. „Ég er á ann- arri skoðun,“ sagði hann. „Ekki vegna þess að ég sé andvígur aukinni þróun í íslenskum iðnaði og öðrum atvinnugreinum, öðru nær, heldur vegna þess að það er trú mín og vissa að við getum stóraukið gjaldeyristekjur okkar af íslenskum sjávarútvegi og fjölgað atvinnutækifærum með aukinni vinnslu sjávarafla“. „Ég legg áherslu á að það getur enginn atvinnuvegur borið sig á þeim vaxtakjörum sem íslenskur sjávarútvegur býr nú við. Ef við ætlum að byggja upp íslenskan fiskiðnað enn frekar þá kynnu einhverjir að spyrja: hvar á að fá fé til þess? Svar mitt er eitt og aðeins eitt: Ef það verður ekki gert þá verður ekkert fé til í þessu landi. Við verðum að gera okkur grein fyrir að við þurfum stór- aukið fé til fiskirannsókna og við komum ekki upp fiskiðnaði án verulegrar eflingar rannsókna og þróunarstarfsemi. Engu fé er jafnvel varið. Þróaður fiskiðnað- ur rís ekki án öflugrar rannsóknarstarfsemi. Þetta gildir jafnt um ríki og fyrirtæki. Það eru ekki síður fyrirtækin sem þyrftu að athuga sinn gang í þessu. í markaðsleit og vöruþróun þurfum við að gjörbreyta eða umbylta öllum okkar vinnu- brögðum. Við þurfum fyrst að framleiða fjölbreyttari vöru og við þurfum síðan að kynna hana með öflugri kynningarstarfsemi, fylgjast vel með vöruþróun á hin- um ýmsu mörkuðum í heiminum, við þurfum hóp sérfræðinga, jafnöfluga í útflutningsstarfsemi og þá sem nú starfa í innflutnings- starfsemi. - Getum við ekkert lært af Dönum í umbúðatækni? Við erum hér með hóp af góðum listamönnum. Við erum með prýðilega hæfar auglýsingastof- ur. Af hverju ekki að nýta þetta fólk í þágu útflutnings og gjald- eyrisöflunar? Það er ekki nóg að auglýsa bara hér innanlands vá- tryggingar og kaffisölu. Boðorð dagsins er: Meiri kraft í útflutninginn, meiri kraft í sölu- tækni á íslenskum afurðum, kynna sér betur vöruþróun á hin- um fjölmörgu og ónýttu og van- nýttu markaðslöndum. Meiri matargerðarlist í íslenskan sjáv- arútveg og svo mætti lengi telja. Ég sagði í upphafi að ég teldi að hægt væri að auka verðmæti ís- lensks sjávarafla um 1/3 á fimm árum. Og ég er sannfærður um að þetta er vel framkvæmanlegt og þótt hærra væri stefnt. í dag flýr fólk úr íslenskum sjávarútvegi. Hvert stefnir sú þjóð þar sem fólkið flýr grunnframleiðsluna vegna lélegra launa eða óvissrar atvinnu? Hráefni í hendur Dana og Svía Til loka októbermánaðar á síð- asta ári, 1984, fluttum við út rösk- ar 16 þúsund tunnur að verðmæti tæpar 130 millj. Stærsti hluti þessa magns fór til Danmerkur, en þar er framleiddur kavíar úr hrognum og honum pakkað í litl- ar neytendaumbúðir. Athyglisvert er, að þetta er ekki gert fyrir danskan heima- markað heldur flytja Danir þessa vöru úr landi. Verksvið þeirra er framhaldsvinnsla og verslun. Danskur kavíar frá íslandi er fluttur sem lúxusvara til ýmissa landa, en stærsta markaðslandið er Frakkland. Framleiðsla okkar er um 12-20 þús. tunnur, en við höfum sjálfir aðeins unnið kavíar úr 1-3 þús. tunnum. Útflutnings- verðmætið tvö- til þrefaldast við þessa vinnslu. í ljósi þess að 60% heimsframleiðslunnar af grá- sleppuhrognum kemur frá ís- landi og bestu hrognin á heimsmarkaði eru héðan, er ljóst, að við íslendingar ættum að hafa markaðinn í hendi okkar. Hvað mundi gerast ef við hættum að leggja Dönum til þetta hrá- efni? En áfram halda íslendingar að salta grásleppuhrogn í tunnur. Tökum þorskhrogn. Það er af nægu að taka. Álitið er að íslend- ingar framleiði allt að 50% af þorskhrognum á heimsmarkaði, um 3 þús. tonn á ári, en fram- leiðslan gæti verið töluvert meiri ef hráefnið væri nýtt. Meiri hluti þorskhrogna er saltaður. Árið 1984 framleiddum við 1026 tonn af sykursöltuðum þroskhrognum að verðmæti 41 millj. T6 þús. sem gera um 40 þús. fyrir tonnið. Svokölluð iðnaðarhrogn eru hrogn þar sem hrognasekkurinn hefur rifnað. Þau seljum við til Danmerkur fyrir röskar 18 þús. kr. á tonnið. Danir sjóða þessi hrogn niður og selja út um heim, m.a. er mjög auðvelt að fá þau hér í verslunum á íslandi. Við sjóðum sjálfir niður tæpan helm- ing af því sem við seljum Dönum sem iðnaðarhrogn og flytjum mest af því út til Frakklands og Bandankjanna. Verðið er röskar 185 þús. kr. á tonnið eða tífalt það verð, sem fæst fyrir hrognin sem við seljum Dönum til niður- suðu. Bestu hrognin seljum við syk- ursöltuð til Svíþjóðar, og lítils háttar til Grikklands. Fyrir það fáum við 40 þús. kr. á tonnið, á móti 185 þús. ef við sjóðum þau sjálfir niður eða rösklega 1/5 af því verði, sem við fáum fyrir okk- ar eigin niðursuðu. Svíar breyta miklu af þessum hrognum í kaví- ar, setja þau í neytendaumbúðir svo sem túbur með alls konar bragðefnum. Þessi vara er seld á sælkeramarkaði í Svíþjóð og í öðrum löndum. Það er t.d. hægt að fá hana hér í verslunum. Verðmætum hent Ég fæ þær upplýsingar frá bækistöð Sölumiðstöðvarinnar í Grimsby að bæði Bretar og Frakkar séu sífellt að biðja um hrogn, sem Bretar steikja, Frakkar að mestu reykja en okk- ar svar er: Við eigum engin hrogn til að selja! Við hendum hluta af hrognunum sem til falla og okkar eigin niðursuða gefur tífalt verð á móti því hráefni, sem við seljum Dönum. Var einhver að segja, að íslenska þjóðin ætti í gjaldeyris- erfiðleikum? Lifur. Sú lifur sem nýtt er hér á landi er einkum úr fiski sem landað er óslægðum, þ.e. úr afla dagróðrarbáta. Hún er einkum brædd til lýsisframleiðslu, en lítils háttar er þó soðið niður. Sovétr- íkin hafa í tvennum síðustu við- skiptasamningum óskað eftir að kaupa helmingi meira magn af niðursoðinni lifur, ef við hefðum getað afgreitt það. Við framleið- um árlega um 1.5 millj. dósa, en getum auðveldlega tvöfaldað það magn. Gjaldeyristekjur af niður- soðinni lifur eru um það bil fimmfaldar miðað við brædda lifur. Ekki er að sjá af þessu, að gjaldeyrisöflunin sé mikið atriði fyrir íslenskt þjóðfélag. Atvinna flutt úr landi Völsum eitthvað örlítið meira um. Sjólax er framleiddur úr söltuðum ufsaflökum. Fiskurinn er skorinn í lengjur, beinhreinsaður og skorin í sneiðar, litaðar og roðvarðar og líkist þá laxi. Söltuð ufsaflök sem við seljum til Þýskalands, era notuð til sjólaxframleiðslu þar í landi. Aðrir markaðir fyrir sjólax eru í Tékkóslóvakíu og Frakk- landi. Gjaldeyririnn er mun meiri fyrir sjólax en saltaðan ufsa, en ýmsir þeirra, sem aðstöðu hafa til slíkrar framleiðslu hér á landi segja og það á eftir að koma hér fram oftar, að þeir hafa ekki vinn- uafl til þessarar vinnslu. Gífurleg aukning hefur orðið á rækjuveiðum síðustu árin og einkum úthafsrækju. Rækjan er heilfryst að hluta, en stærsti hlutinn er þó pillaður. Talsverð niðursuða er einnig á rækju. Leggja þarf áherslu á báðar þess- ar vinnslugreinar. Stór hluti af frystri rækju er fluttur út í ca. 10 kg pakkningum, en erlendis, t.d. í verksmiðjum SH í Grimsby er henni pakkað í 350-400 gramma neytendaum- búðir. Margir rækjuframleiðend- ur telja sig ekki hafa vinnuafl til að annast smærri pakkningar, þannig að þó nokkur atvinna flyst úr landi af þessum sökum og að sjálfsögðu nokkur gjaldeyrir. Vitað er, að hér við land eru ýmsar skelja- og krabbategundir, sem lítið eða ekkert eru nýttar. Verið er að kanna útbreiðslu á þessum tegundum á vegum Haf- rannsóknastofnunar og þyrfti að veita í þær meira fjármagni þar sem fjárskortur háir þeim. Af skeljum er hörpudiskurinn mest veiddur hér við land og raunar eins mikið og þekking á veiðisvæðum leyfir. Gegna veiðar hans mikilvægu hlutverki í atvinnumálum ýmissa byggðar- laga og gera þar hreint útslag á. Vitað er, að kúskel er mjög út- breidd hér við land. Gengið hefur illa fram til þess að fá viðunandi verð á markaðinn fyrir kúfisk en nú fer fram nokkuð ýtarleg rann- sókn á meðferð og vinnslu þessa hráefnis, og gefur það vissar von- ir, þótt ekkert sé hægt að fullyrða hver niðurstaðan verði. Víða erlendis eru veiðar og vinnsla á ýmsum krabbategund- um stundaðar með góðum ár- angri. Til mikils er að vinna í þessu sambandi, þar sem afurðir af kröbbum eru einhverjar dýr- ustu sjávarafurðir sem þekkjast. Mikil gróska er í þessari grein í Kanada og er talið að þetta sé arðvænlegas'Æ grein í sjávarút- vegi þar í landi. Sömu sögu mætti segja víða frá. Þau krabba- dýr sem veidd eru við ísland eru humar og rækja en það eru ein- mitt dýrustu sjávarafurðir sem við framleiðum. Hér við land eru nokkrar krabbategundir sem til greina gæti komið að veiða og standa nú yfir tilraunir með veiðar og vinnslu. Þarna þarf aukið fé líka. Sem dæmi um tegundir eru trjón- ukrabbi, bogakrabbi, gadda- krabbi, og tröllakrabbi. Góðir markaðir eru fyrir hendi fyrir þessar afurðir t.d. í Frakklandi. Það hefur háð íslenskum sjáv- arútvegi i gegnum tíðina að hér hefur aldrei tekist að ná góðum tökum á lagmetisiðnaði. Þrátt fyrir að við höfum að mörgu leyti bestu skilyrði þar sem er úrvals hráefni. Orsökina fyrir þessu get- ur verið nokkuð erfitt að skýra, en þarna virðast vera margir sam- verkandi þættir. Þetta má kann- ski skýra best þannig að danskt lagmeti úr aðfluttu íslensku hrá- efni virðist oft vera betri vara en tilsvarandi íslenska lagmetið. Hér á landi virðist því vantá fag- lega þekkingu og árvekni. Einnig kann það að vera þáttur í þessu að við leggjum svo mikið kapp á aflamagn frckar en að sér- hæfa okkur í fullvinnslunni. Til skamms tíma var eins mikið keypt af erlendu lagmeti hér á landi og innlendu ef fiskibollur og fiskbúðingur eru frátalin. Eitt af því sem háði lagmetisiðnaði hér á landi var að margir smáir aðilar fluttu það úr landi. Með tilkomu Sölustofnunar lagmetis var ráðin bót á þessum þætti. En þótt um nokkra aukningu hafi verið að ræða á framleiðslu og sölu verður að telja starfsemi Sölustofnunar lagmetis hafi ekki skilað þeim ár- angri sem vænst var við stofnun hennar. Því ber hins vegar ekki að neita, að nú allra síðustu árin virðast hafa orðið framfarir í þessum efnum. Eitt af skilyrðum þess að um verulega verðmætisaukningu verði að ræða í íslenskum sjávar- útvegi er að við náum tökum á lagmetisiðnaðinum og gerum framleiðsluna fjölbreyttari. Framhald á bls. 6. Miðvikudagur 13. mars 1985 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.