Þjóðviljinn - 27.03.1986, Blaðsíða 13

Þjóðviljinn - 27.03.1986, Blaðsíða 13
 „Hvenær ætlar mamma þín að eignast barn- ið?“ „Ha, hvað?“ „Ég spurði bara hvenær mamma þín eignaðist barnið,“ endurtók Jói ofur eðlilegur. „Barnið?“ át Lalli upp eftir honum og fann hvernig hann varð eldrauður í framan. „Já, ekki eignast hún hvolp eða kettling eða hvað?“ spurði Jói snúðugt. „Af hverju heldurðu að mamma ætli að fara að eignast barn?“ spurði Lalli. „Hvað er þetta maður, ég hef augu. Það sjá allir hvað maginn á henni er orðinn stór.“ „Sjá allir?“ Eri Jói svaraði honum ekki, því að nú voru þeir komnir að kattarhreiðrinu. „Uss, farðu varlega, þetta eru grimm kvik- indi.“ Jói læddist að kettlingunum. Leir emjuðu og veinuðu, en þegar hann talaði við þá hvæstu þeir illilega. „Mamman hefur farið að leita sér að mat, svo að okkur er alveg óhætt að klappa litlu greyjun- um.“ Jói tók upp kettlingana einn af öðrum og kelaði við þá. f*eir hvæstu og klóruðu, en hann hló að þeim og kallaði þá litla kjána. Lalli stóð kyrr og var annars hugar. Gat það verið að allir vissu að mamma hans ætti von á barni? Honum fannst það eiginlega vera leyndarmál. Aldrei höfðu mamma og pabbi talað um þetta við hann eða aðra svo að hann vissi. „Komdu Lalli og veldu þér einn kettling,“ kallaði Jói. „Þú þarft ekkert að vera hræddur þótt þeir hvæsi. Passaðu þig bara á klónum á þeim. Þeir eru ennþá blindir og með svo pínútl- itlar mjólkurtennur, að þeir geta ekkert bitið. Komdu, maður." Lalli gleymdi maganum á mömmu sinni í bili. Kettlingarnir voru dásamlegir, svo litlir og mjúkir. Jói valdi sér strax stærsta kettlinginn. Hann var alsvartur. „Hann er langfallegastur,“ sagði Jói, „en þú mátt alveg eiga hann ef þér finnst hann fallegast- ur.“ En Lalli sá annan sem honum fannt ennþá fallegri. Það var fínlegur kettlingur, rauðbrúnn með hvíta fætur og hvíta bringu. „Nei, ég vel þennan,“ sagði Lalli og tók kett- linginn upp. „Svei mér þá, þessi kettlingur gæti verið skyldur þér,“ flissaði Jói. „Ha?“ sagði Lalli undrandi. „Já, þið eruð svei mér líkir, báðir svona hreinir og fallegir. “ „Láttu ekki svona,“ sagði Lalli fúll. „Jú, jú, þetta er svolítið sniðugt, skal ég segja þér. Ég vel mér stóran og svartan kettling, af því að ég er stór og svarthærður, en þú velur þér ljósan og fallegan kettling, af því að þú ert ljós- hærður. Amma segir, að dýrin líkist eigendum sínum og þau fái oft sama svip og mennirnir sem eiga þau. Amma er ekki svo galin.“ Lalli kinkaði kolli. „Það er ekkert að marka hvernig hún bölvar og lætur eins og skass. Hún er reglulega ágæt amma. Hún átti nefnilega níu stráka sjálf og hún varð svona skessuleg, því að þeir voru allir svo óþekkir. Svo þegar þeir voru orðnir fullorðnir, þá var amma búin að gleyma því hvernig hún átti að vera og hélt bara áfram að vera skessa. En okkur heima finnst það ágætt. Þú átt ekkert að vera hræddur við hana.“ Lalli strauk kettlingnum og kinkaði kolli. „Jæja, nú fer kisumamma áreiðanlega að koma. Við skulum hvolfa úr vaskafatinu hérna rétt hjá. Hún verður fegin að fá fiskræflana,“ sagði Jói og lagði kettlinginn varlega frá sér. Þeir hvolfdu úr fatinu svolítinn spöl frá kett- lingunum. Það rauk ennþá úr fiskunum. „Þeir verða fljótir að kólna hérna úti,“ sagði Jói. Þeir löbbuðu inn í bæinn. „Viltu ekki koma með mér heim og ná í ein- kunnabókina þína?“ spurði Lalli. „Jú, ætli það sé ekki best. Ætli ég hafi ekki verið lægstur í bekknum eins og venjulega. Varst þú kannski hæstur?“ Jói skotraði augun- um til Lalla. „Já, það er víst,“ muldraði Lalli. „Flott hjá þér. Ég ætla að reyna að verða fluglæs í surnar, því að eg ég ætla að verða skipstjóri, þá verð ég að vera duglegur að læra,“ sagði Jói og sparkaði í steinvölu. „Þú gætir kannski hjálpað mér með reikninginn?“ Jói leit spurnaraugum á Lalla. „Auðvitað, það er miklu skemmtilegra að vera tveir saman að reikna,“ sagði Lalli glaður. Þeir voru nú komnir að húsinu heima hjá Lalla. „Það er eitthvað þarna bakvið trjárunnana/4 kallaði Jói. Lalli ætlaði að fara að segja að það væri bara vitleysa, en Jói var hlaupinn af stað. „Nei, nei, svakalegt hjól maður,“ æpti Jói. „Hver á það?“ Lalli svaraði ekki en horfði bara niður á tærn- ar á sér. „Ég þori að veðja að þú átt það,“ kallaði Jói. Lalli þagði. „Nú, svaraðu maður, áttu það eða ekki?“ spurði Jói óþolinmóður. Lalli kinkaði kolli. „Og ertu ekki glaður?“ Lalli hristi höfuðið. „Ég á gamla hjólið mitt, en mamma segir að það sé drusla og hún ætli að henda því.“ „Ég skal kaupa það af þér,“ sagði Jói æstur. „Ég skal kaupa gamla hjólið þitt.“ „Þú mátt eiga það,“ sagði Lalli og varð nú allt í einu ánægður. Jói hafði aldrei átt hjól, og þess vegna höfðu þeir aldrei getað farið hjólandi út fyrir bæinn eins og svo margir krakkar gerðu. „Nei, ég vil fá að kaupa það, ef þú vilt selja mér,“ sagði Jói ákveðinn. „Allt í lagi,“ sagði Lalli. „Ég get orðið sendisveinn, því að nú hef ég hjól.“ Jói var himinlifandi. Það voru tveir glaðir strákar sem stukku upp tröppurnar heima hjá Lalla. Lalli náði í ein- kunnabókina hans Jóa. Jói hafði fengið sæmi- lega einkunn, en mörg skróp voru skrifuð inn í bókina og einnig kvartanir yfir því, að hann kæmi oft skítugur í skólann. „Það er alveg satt. Ég er óttalegur drullu- sokkur eins og amma segir,“ sagði Jói og saug upp í nefið. Lalli horfði með aðdáun á Jóa. Hann gat ekki hugsað sér Jóa fínan og hreinan. Það væri alls ekki Jói. Fimmtudagur 27. mars 1986 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 13

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.