Þjóðviljinn - 12.10.1986, Síða 2

Þjóðviljinn - 12.10.1986, Síða 2
FLOSI skammtur af tveim toppfundum „Hvað er svo glatt sem...“ Ég hef, svona utanað mér, heyrt því fleygt, að hingað til lands séu komnir gestir frá útlöndum þeirra erinda að ræða hvort ástæða sé til að fresta því enn um sinn að tortíma öllu sem lífs- anda dregur á jarðríki. Það mun viðtekin skoðun allra hugsandi manna að æskilegast sé að komast strax að endanlegri niðurstöðu um þetta mál og hver svo sem niðurstaðan verður, að ganga þá til verks svo hægt sé að snúa sér að næstu viðfangsefn- um. (dag hef ég hugsað mér að skrifa hnitmiðaða grein um þennan toppfund og freista þess að varpa Ijósi á innhverfu málsins og draga af því huglægar ályktanir um hugsanlegar afleiðingar af því sem koma skal. Þetta mál er í raun og veru ekki hægt að taka rökrænum tökum nema reynt sé í leiðinni að gera sér grein fyrir skaphöfn, geðslagi og fín- legri skapgerðarblæbrigðum Ronalds og Mika- els en vitneskja um þetta fæst að sjálfsögðu ekki nema við náin kynni. Nú hafa örlögin hagað því svo til, að vegna fjarlægðar milli landa og ólíks þjóðernis, höfum við heiðurshjónin ekki getað stofnað til náinna vináttutengsla við Ronald og Nansí, þó með okkur sé ágætur kunningsskapur. Hömlur á ferðafrelsi valda því að Ræjsa og Mikael eru ekki heimagangar hjá okkur og við hjá þeim. Við Ronald eigum það sameiginlegt að hafa um langan aldur unnið fyrir okkur með leiklist en við Mikael vorum báðir háskólaborgarar á sjötta áratugnum. Ræjsa, Nansí og konan mín eiga það allar sameiginlegt að vera konur og konur eiga sér allar eitt sameiginlegt áhugamál að fá að teljast til manna. Þetta hefði getað orðið svo ósköp huggulegur hjónaklúbbur ef fjarlægð og ferðahömlur hefðu ekki skilið okkur að. Og nú á semsagt að funda um það, hvort rétt sé að flýta því að sprengja okkur öll í !oft upp og heimsbyggðina í leiðinni. Þá kem ég að hinum geðræna fleti þessa máls, hvernig skaphöfn getur gerbreytt viðhorf- um og ákvörðunum og í þessu greinarkorni ætla ég ennfremur að velta upp hinni húmanísku hlið málsins... En andartak... Nú er friðurinn úti. Konan mín rennir upp rennihurðinni að kont- órnum mínum og enginn smá skruðningur. Hún veit fullvel að þegar ég er truflaður með þessum hætti í miðri ritsmíð veldur hún ekki aðeins mér, heldur líka lesendum, ómældum skaða. Ég verð óvinnufær. Og ekki nóg með það, „topp- fundur“ í uppsiglingu á heimilinu. Ég lít upp og segi, eins blíðlega og mér er unnt: - Hvur djöfullinn gengur eiginlega á? - Hefurðu séð oní skóburstakassann? Og ég hugsa með mér: Nú ríður á að hugsa hratt, bæta vígstöðuna, undirbúa sókn, standa upp, brýna raustina, eða... eða beita háðinu, missa ekki stjórn á sér, vera yfirvegaður en orðhvass, láta hana finna fyrir því að hún hefur eyðilagt fyrir mér daginn, koma á hana höggi, gera hana sakbitna, beita hernaðarlist, stra- degí. Mitt sterkasta vopn í heimilisófriðnum hefur löngum verið kaldhæðnin, hin nístandi írónía. Og ég ákveð að beita stórskotaliðinu fyrst og segi með þunga: - Áttu við skósvertuboxið? - Ég á við skóburstakassann. Nú finn ég að toppfundurinn hérna á heimil- inu er að komast í hnút, hnút sem aðeins verður leystur með ræðustúf. Ég tek svo til orða: - Hér hlýtur að vera um tvo kassa að ræða, skóburstakassann og skósvertuboxið. Ég hef bara séð ofaní skósvertuboxið. Ef hér á heimil- inu er eitthvað sem heitir skóburstakassi, þá hlýt ég að hafa verið leyndur því í þau þrjátíuog- þrjú ár sem við höfum verið að reyna að lafa saman. Þessi aðferð hefur oft gefist vel í heimilis- ófriðnum og endar stundum með því að hún missir stjórn á sér, en ekki alltaf. Stundum verð ég fyrri til að brjálast, en þá er voðinn vís. Þá er hún sko komin með töglin og hagldirnar. Nú er hún ískyggilega róleg og segir: - Ef skósvertuboxið þitt væri skósvertubox, þá væri að sjálfsögðu ekkert nema skósverta í því. í skósvertuboxinu þínu er hinsvegar bæði skóbrúna, skóblákka, skógræna, skógula og skóhvíta. En af því að þú ert litblindur, heldur þú auðvitað að þetta sé allt skósverta. Og þess- vegna kallarðu skóburstakassann alltaf skó- svertubox, aumingja bjálfinn. Nú finn ég að farið er að halla undan fæti hjá mér svo ég segi: - Ég er að skrifa blaðagrein helgaða því að tveir æðstu menn veraldar eru komnir hingað til að bjarga heimsfriðnum. Og hún svarar af stórlæti þess sem hefur komið, séð og sigrað: - Ég held þér væri nær að koma fram, kíkja ofaní skóburstakassann og bjarga með því heimilisfriðnum. Láttu hina vitfirringana um heimsfriðinn. Og lýkur hér greininni um hin fínlegri blæ- brigði húmanismans í friðarviðræðum Ronalds Reagans, Mikaels Gorbatsjoffs og okkar heiðurshjónanna. .2 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 12. október 1986

x

Þjóðviljinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.