Þjóðviljinn - 07.12.1986, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 07.12.1986, Blaðsíða 8
SUNNUDAGSPISTIIl Þungar spurningar, létt form / tilefni skáldsögu Milans Kundera, Óbœrilegur léttleiki tilverunnar „Skáldsagan er hugleiðing um tilveruna, séð í gegnum ímyndaðar persónur. Form hennar er takmarkalaust frelsi." Svo segir Milan Kundera, tékkneskur rithöfundur í út- legð í París. Hann bætir því við, að menn hafi vannotað frelsið - „til að uppgötva það sem skáldsagan ein getur uppgötvað". Sjálfurhefur hann með verkum sínum vilj- að bæta úr slíkri vanrækslu. Ekki síst með skáldsögunni „Óbærilegur léttleiki tilver- unnar“ sem er komin út hjá Máli og menningu í ágætri þýðingu Magnúsar Rafns- sonar. Nokkur lykilorð Hvers vegna „léttleiki tilver- unnar“? Er hún ekki ill og bölvuð og þungbær? Milan Kundera hugsar verk sín gjama sem tónverk, þar sem stillt er saman mörgum röddum, þar sem lykilorð tákna þemu sem leikin eru hvað eftir annað með tilbrigðum. Stundum líkir hann þessum lykilorðum við stólpa sem hús eru reist á. í þessri bók eru slík stef, slíkir stólpar m.a. „samúð“ og „kits“ (samnefnari fyrir alla þá grundvallarþætti til- verunnar sem menn vilja ekki sætta sig við). Andstæðurnar létt- leiki og þyngd eru líka með í stólparöðinni sem ber uppi hús þessarar skáldsögu. En eru, satt best að segja, full „afstrakt“ í úr- vinnslu til að halda sérstaklega vöku fyrir lesendum. Höfum samt í huga eftirfarandi vísbend- ingu Kundera sjálfs um létt- leikann óbærilega: Það hefur lengi veríð metnaður minn að sameina ítrustu alvöru spumingarinnar (hann geturm.a. um spurningu eins og þessa: er ekki best að losa jörðina við mannaskrílinn) og ítrasta léttleika formsins. Þetta er ekki listrcenn metnaður einber. Þessi sameining léttúðugs forms og alvarlegs við- fangsefnis afhjúpar undireins dramatísk átök okkar, hvort sem við upplifum þau í rúminu eða leiknum þau á stórsviði sögunnar - afhjúpa þau í hinu skelfilega markleysi þeirra - menn fá að reyna „hinn óbœrilega léttleika til- verunnar. “ Alvarleg viðfangsefni, létt- Ieiki, jafnvel léttúð í úrvinnslu þeirra (leikur, háð, heimspeki vangaveltur, bein frásögn, til- raunir með hið óvænta - allt í senn kannski) - og svo „mark- leysi“ mannlegrar reynslu. Hvað verður úr þessu? Óskapnaður? Svartagallsraus? Tvœr samhliða sögur Reyndar ekki óskapnaður. Við lesum tvær sögur samhliða (og smærri sögur í sögunum). Önnur er af Teresu og Tómasi, sem geta ekki hvort án annars verið, hvað sem líður látlausum leik Tómasar að öðrum konum. Þau eru í Prag þegar Sovétmenn gera sína innrás 1968, hann virtur skurð- læknir, hún fyrrum gengilbeina úr sveitaborg og nú ljósmyndari við tímarit, og festir innrásina á filmu fyrir heiminn. Þau fara úr landi og til Sviss, en Teresa snýr fljótlega heim aftur og Tómas á eftir henni. Saga þeirra er síðan partur af þeirri niðurlægingu Tékka og Slóvaka sem kölluð var „normalisering“ - þau eru hrakin úr störfum, hún fyrir ljósmynd- irnar, hann fyrir grein sem hann skrifaði á „vorinu í Prag“ um ábyrgð kommúnista á myrkra- verkum Stalíntímans. Hún af- greiðir á bar, hann þvær glugga, að lokum leita þau hælis uppi í sveit þar sem Valdið nennir ekki að ofsækja þau lengur. Hin sagan er af listakonunni Sabinu, sem var ein af mörgum ástkonum Tómasar, fór til Sviss 1968, sest að á Vesturlöndum en á kannski hvergi heima lengur. Af ástum Sabínu og Franz, sem er evrópskur menntamaður og þátttakandi í „göngunni miklu“ til framfara og frelsis, sem vinstri- menn Evrópu hafa lengi þramm- að. í hans dæmi verða kynnin af Sabínu til þess, að Tékkóslóvakía undif hæl sovésks hervalds bætist við það málstaðasafn, sem haft er á lofti í göngunni. Ofbeldi - hugrekki Þetta ágrip segir reyndar ekki margt um söguna. En því skal slegið hér föstu, að sagan af innrásinni 1968 og eftirmálum hennar (eins og þau bitna á Tom- asi og Teresu) er sterkasti og eftirminnilegasti þáttur verksins. Hér er Milan Kundera með fast land reynslunnar undir fótum. Hann getur greint í gagnorðu formi frá mörgu því sem utanað- komandi átta sig ekki á eða hafa ekki frétt um. Hvernig fyrstu við- brögðin við innrásinni voru eins- konar „hátíð hatursins“, víma, ævintýri. Sem bliknar fljótt fyrir niðurlægingu og vanmætti. Kundera getur, eins og ýmsir aðr- ir tékkneskir höfundar (Kohout, Hável) sagt frá undarlegum þver- stæðum átakanna um persónu- legt hugrekki og reisn. Eins og þegar Tómas stendur frammi fyrir þeim vanda, að afneita grein sinni frá 1968 eða verða að hverfa frá Iífsstarfi sínu og þá er eins og hann geti gert öllum til hæfis með því að sýna iðrun og yfirbót. „Annars vegar var fólk sem gladdist yfir því vegna þess að eftir því sem heigulshátturinn varð útbreiddari, því minna bar á þess eigin heigulshætti og það gerði því kleift að endurheimta mannorð sitt. Hins vegar var fólk sem var orðið vant því að líta á mannorð sitt sem forréttindi, sem það vildi fyrir alla muni ekki missa. Þess vegna þótti því undir niðri vænt um hugleysingjana. Án þeirra hefði hugrekki þeirra verið ómerkilegt og tilgangslaust og enginn hefði sýnt því aðdáun.“ Ekki svo að skilja, að Kundera reyri sig fastan í vangaveltustöðu sem kenna mætti við „annarsveg- ar - hinsvegar". Fólska valdsins, hin útsmogna og sívaxandi frekja þess við að kveða niður viðleitni manna til að ganga uppréttir er alveg nógu skýr. Þessi frekja heimtar ekki aðeins æ afdráttar- lausari stuðningsyfirlýsingar við ástand, sem menn hafa and- styggð á - kannski leggur löggan sig niður við að leiða Teresu í karlafarsgildru til að ná betri tökum á þeim hjónum: einkalífið er afnumið. Óstöðugleikinn Hitt gæti verið, að ýmsum les- endum finnist nóg um það hve mjög Kundera bregður á það ráð, að steypa yfir þá skyndiákvörð- unum persónanna: óstöðugleiki er kannski meira réttnefni fyrir þetta verk en léttleiki. Tómas getur ekki án Teresu verið og elt- ir hana heim til Prag - en sér eftir því um leið og hann er þangað kominn. Sabína vill að Franz sveigi sig undir vilja sinn, hleypi henni aldrei frá sér - en í næstu andrá, um leið og hann hefur ákveðið að fara frá konu sinni og þau elskast með miklum tilþrif- um, hefur hún ákveðið að stinga af úr lífi hans. En þótt menn kunni að nema staðar við þetta ofríki óstöðugleikans, þá sleppur Kundera oftar en ekki vel frá því þema. Hver getur neitað því, að röð tilviljana, sem leiða saman elskendur, eru stundum eins og undur veraldar - og stundum eins og vörðuð slóð inní fangelsi - eins og í dæmi Tómasar og Teresu? Misskilningur Óstöðugleikinn - það að ekki er hægt að höndla merkingu orða og mynda eða taka ákvörðun í eitt skiptir fyrir öll, fær mjög fróðlega afgreiðslu í þætti sem heitir „Misskilin orð“. Hann fjallar bæði um það, hvílíkt djúp getur verið staðfest milli elsk- enda eins og Sabínu og Franz (sem eiga þó fleiri úrræði en gengur og gerist til að setja sig í annarra spor)og svoum þá sundr- ungu Evrópu sem ræður miklu um það að tveir einstaklingar, hvor úr sínum hluta, farast á mis um margt. Fyrir Franz eru pólit- ískar mótmælagöngur ímynd Evrópu og sögu hennar, leið til að ná sambandi við aðra. Sabína fékk hinsvegar meira en nóg af skopstælingum á „göngunni miklu“ í Tékkóslóvakíu þegar hún var að alast þar upp, og þegar hún er komin til Vestur-Evrópu getur hún ekki einu sinni tekið þátt í mótmælaaðgerðum þar gegn hemámi lands síns! Franz öfundar Tékka öðrum þræði af því ófrelsi sem ritskoðar og bann- ar bækur, vegna þess að þær of- sóknir gera eina bók „margfalt þýðingarmeiri en allir þeir milj- arðar orða sem háskólar okkar hrækja út úr sér“ í fyrirhafnar- lausu málfrelsi. En Sabínu finnst orð eins og „ofsóknir“ og „bann- aðar bækur“ blátt áfram ömurleg og gersneydd rómantískum blæ. Milan Kundera verður meira úr slíkum samanburði en að minna á valt gengi orða - hann notar reynslu sína til að sýna með lif- andi dæmum þann „misskilning“ sem er á sveimi í okkar gömlu og þröngsetnu Evrópu og margir átta sig ekki á nema að litlu leyti. Vonandi verður það athæfi hans, sem einatt nýtur góðs af háðgáfu höfundarins, til að stækka svið þess skilnings, sem rís undir nafni. Kits og skítur Sabína segir á einum stað, þeg- ar verið er að leggja út af list hennar á Vesturlöndum með banölum hætti: „Það er ekki kommúnisminn heldur kitsið sem er óvinur minn.“ Kits er sem fyrr segir eitt af lykilhugtökum þessarar bókar og kannski einskonar heildarsam- nefnari fyrir allt það sem Milan Kundera finnur ómerkilegt, yfir- breiðandi, auðvelt, fegrað - hvort sem væri í kommúnistaríkj- ’um, hjá evrópskum vinstri- mönnum eða evrópskum borgur- um. Á bak við „kitsið" felst „sú eindregna sátt við tilveruna“ sem í þessu verki er látin vísa á sljó- leika, forheimskun og dauða. Annað lykilorð „skítur“ verður svo samnefnari fyrir það óhrjá- lega, ónotalega í tilverunni, sem margir og ólíkir áhangendur kits- ins geta ekki sætt sig við. Því er , ekki að neita að einhvertómleiki, eyðileiki er yfir úrvinnslu þessara hugtaka. Allt í lagi með „kitsið" reyndar - við skrifum auðveld- lega upp á fyrirlitningu á hinu auðvelda, einfaldaða, fegraða, logna (eins þótt við séum ekki bólusett fyrir þessum freistingum sjálf). En það gengur öllu lakara með „skítinn,“ hvað sem líður skemmtilegum guðfræðilegum og háspekilegum vangaveltum um orð, sem svo mjög er á hlaðið neikvæðum tengslum. Það er ekki ástæða til þess að biðja Kundera eða aðra höfunda að svara þeim spurningum sem þeir vekja upp. En þegar nú er búið að hvetja okkur til þess í skáld- sögunni, beint og óbeint, að hafna „kitsinu“ í pólitík og listum og öllu, þá verður eins og alltof stór eyða fyrir því, sem menn gætu þá haft sér til trausts og halds. Eru þær víddir kannski ekki finnanlegar? Hugmyndin um „markleysi" lífsglímu okkar, hvort sem væri á beði einkamál- anna eða sviði sögunnar, getur að sínu Ieyti verið jafn lamandi og að ánetjast „kitsinu“. - ÁB Norræna eldfjallastöðin auglýsir stööu jaröfræöings lausa til umsóknar. Sérþekking er áskilin í jarðeldafræöum með áherslu á sprengigos. Launakjör eru samkvæmt samningum BHMR og íslenska ríkisins. Forstööumaður stofnunarinnar gefur nánari upp- lýsingar um starfið. Úmsóknarfrestur er til 31. janúar 1987, en starfið hefst 1. júlí 1987. Norræna eldfjallastöðin Jarðfræðahúsi Háskólans 101 Reykjavík 8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 7. desember 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.