Þjóðviljinn - 06.12.1988, Page 6
þj ÓÐVILJIN N Malgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar
landnám
Á síðustu áratugum eru augu okkar íslendinga að opnast fyrir
því að samskiptin við þá náttúru sem við eigum allt undir verða að
byggjast á öðru en skammvinnum einkahagsmunum eða þeirri
afstöðu að náttúra íslands á láði og legi sé einn allsherjar gnægta-
brunnur sem aldrei þverr hvernig sem á er gengið.
Þessi íslenskiskilningurvar raunareinafforsendum þess aðvið
fengum almenningsálitið í heiminum með okkur í landhelgis-
deilunum á sjötta áratugnum og þeim áttunda, og sigur okkar í því
stríði færði okkur ekki aðeins efnahagslega velsæld, heldur einnig
lykillinn að sjálfstæðri tilveru í framtíðinni, þau yfirráð á hafinu að
jafnvægi í lífríki hafsvæðanna í kringum okkur er á okkar ábyrgð.
Okkar hagur ef vel fer, okkar raun ef ekki er að gætt.
Það er heldur ekki seinna að vænna að íbúar á íslandi fari að
opna augun fyrir ástandinu á landi. Nú er talið að frá landnámi hafi
tapast um fjórir fimmtu þeirra landgæða sem fólust í gróðri og
jarðvegi. Skógur og kjarrlendi munu nú vera 1200 ferkílómetrar en
talið er að á fyrstu öldum íslandsbyggðar hafi skógur og kjarr vaxið
á að minnsta kosti tuttugu sinnum stærra svæði. Gróður- og
jarðvegsþekja nær nú yfir tæpan fjórðung landsins, en er talin hafa
þakið vel rúman helming alls landsins í árdaga.
Þessar tölur eru þó ekki órækasti vitnisburðurinn um land-
eyðinguna. Hún er beinlínis sýnileg hverjum manni, hvort heldur
er moldrokið á þurrum vindasömum haustdögum á Suðurlandi
eða rofabörðin sem um allt land vitna um að eyðimerkurnar upp-
blásnu heyra til síðari tímum.
Alþýðubandalagið hefur lengi staðið í fararbroddi í umhverfis-
málum og það kann að marka tímamót um pólitíska afstöðu til
þessara mála að á síðasta miðstjórnarfundi flokksins var sam-
þykkt stefnuályktun þarsem sagt er fullum fetum að rýrnun land-
gæða vegna gróður- og jarðvegseyðingar sé alvarlegasti um-
hverfisvandi hérlendis, svo alvarlegur að flokkurinn hvetur til sam-
stöðu þjóðarinnar um endurheimt þessara landgæða undir kjör-
orðinu „nýtt landnám".
Fyrir landeyðingunni eru margar orsakir, þarámeðal ýmsar sem
lítt verður við ráðið, - misjafnt tíðarfar, eldgos og aðrar náttúru-
hamfarir til dæmis. Hinsvegar er Ijóst að einn helsti áhrifavaldurinn
er það skipulag sem við höfum á nýtingu landsins og í þeim efnum
er ekki við neinn að sakast annan en okkur sjálf.
Það er þannig alveg Ijóst að áherslur í landbúnaði síðustu
áratugina - og raunar lengur - hafa haft mjög vond áhrif á land-
gæði víða. Sauðfé og hrossum hefur verið beitt án nánast nokkurs
skipulags eða tillits til gróðurástands á beitarlandinu, og opinber
landbúnaðarstefna hefur áratugum saman haft flestar aðrar for-
sendur en að taka tillit til landgæða.
í ályktun Alþýðubandalagsins er lögð á það megináhersla að
fyrsta skref í þessum efnum sé að skipuleggja landbúnaðarfram-
leiðslu með tilliti til landgæða. Sum svæði verður að friða varan-
lega fyrir beit, önnur tímabundið, á sumum svæðum nægir betra
skipulag á beitarmálum. Þær búháttabreytingar sem standa yfir
þessi árin eiga auðvitað að taka tillit til framtíðarmöguleikanna á
einstökum svæðum.
Einnig er í samþykktinni gert ráð fyrir stóraukinni landgræðslu
og skógrækt og lögð áhersla á stöðuga og öfluga fræðslu um
þessi mál.
Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur nýverið vakið athygli á
landeyðingunni með sköruglegum hætti og er út af fyrir sig lofsvert
að þingmaður og ráðherra skuli blása nýjum vindum í þá
lognmollu skrifræðis og samtryggingar sem einkennir þau samtök
og fyrirtæki sem telja sig standa vörð um landbúnaðinn í landinu.
Það er alveg Ijóst að tregða og hugmyndaskortur þeirra sem ráðið
hafa ferðinni í þeim atvinnuvegi eiga ólítinn þátt í ófremd land-
eyðingarinnar, á sama hátt og landbúnaðarstefna síðustu áratuga
hefur gert bændur að þeirri stétt í landinu sem býr við jafnverst
kjör.
En það er ekki skynsamlegt og ekki drengilegt hjá Jóni að fara
fram með hótunum gegn bændastéttinni sem slíkri. Bændur eru
helsti hagsmunaaðili í þessu máli. Þeir hafa í heild og til lengdar
helstan hag af róttækum umbótum í þessum efnum, - og vel má
færa að því rök að átak gegn landeyðingu sem ekki nýtur stuðn-
ings bænda sé fyrirfram dauðadæmt. Og það er einmitt einn helsti
styrkur Alþýðubandalagsályktunarinnar að þar er gert ráð fyrir
fullri samvinnu við bændur.
Ályktun Alþýðubandalagsins um „nýtt landnám" hefur sérstakt
gildi vegna þess að Alþýðubandalagsmaður gegnir nú í fyrsta sinn
starfi landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. Steingrím-
ur býr að yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu um landgæði og
nýtingu lands, og hefur einnig vegna málflutnings síns og bak-
grunns óvenjulegt traust bænda og annarra landsbyggðarmanna.
Þrátt fyrir þrengingar í efnahagsmálum eru því óvenjuleg færi til
sóknar.
* - m
KLIPPT OG SKORIÐ
íslensk auðlind?
Þegar menn hafa veriö að velta
fyrir sér nýtilegum auðlindum ís-
lands hefur það stundum borið á
góma, að upplagt væri að gera sér
nokkurn gjaldeyrismat úr
landinu sem leiktjöldum.
Leiktjöldum fyrir kvikmyndir
sem eiga að gerast í einhverju
furðulegu og sjaldgæfu umhverfi.
Sömuleiðis hafa menn hjalað
margt um frægð íslendingasagna
sem auðlind sem menn ættu að
gera sér kvikmyndamat úr. Búa
til „norðra" - hasarmyndir sem
sækja sín mynstur að nokkru í
fornsögur og að nokkru í alþjóð-
lega spennusiði kvikmynda-
smiða. Og eins og kunnugt er rær
Hrafn Gunnlaugsson nú á þau
mið.
Ekkert af þessu er í rauninni
nýtt undir sólinni. Það er langt
síðan erlendir menn, sem settu
saman skáldsögur ( og þá einkum
reyfara) tóku að nota sér ísland
með ýmsum hætti. Og getur verið
skemmtilegt og spaugilegt í senn
að virða það fyrir sér, hvernig
þekking (lítil) og vanþekking
(mikil) blandast þar saman með
forkostulegum hætti.
Róbinson og
Pyrsklingssonur
Frá slíkum sögum segir m.a. í
nýútkomni bindi af Gesti, sem er
safnrit af gömlum og nýjum fróð-
leik sem Iðunn gefur út undir rit-
stjórn Gils Guðmundssonar. Þar
er að finna ritgerð sem Ólafur
Davíðsson setti saman árið 1893
um „elstu skáldsögur sem snerta
ísland á útlendum málum“. Þar
segir fyrst frá skáldsögu af ís-
lenskum Róbinson sem Þjóðverji
nokkur, Johann Georg Fleischer,
setti saman 1755. Sagan kemur
að vísu ekki mikið við íslandi að
öðru leyti en því að Róbinsoninn
(einn af hundruðum eða þúsund-
um sem þá urðu til í látlausri við-
leitni manna til að græða eitthvað
á vinsældum hinnar frægu sögu
Defoes, sem út kom 1719) er ís-
lenskur maður og heitir Gissur
ísleifs. Og lendir í ástarævintýr-
um miklum í Amsterdam og á
Jövu áður en hann verður skip-
reika og er einn á eyðieyju í tíu ár,
Fjárdagslaus meira að segja. Aft-
ur á móti er ísland notað með
miklu virkari hætti í annarri
skáldsögu sem Ólafur Davíðsson
fjallar einnig um og heitir Ás-
mundar saga Þyrsklingssonar og
birtist í dönsku blaði árið 1819.
Þar segir frá Tordenskjöld
nokkrum stiftamtmanni sem fer
til íslands að taka við nýju emb-
ætti og hefur tælt með sér til
Kaldbaks þess frænku sína unga
og fríða, Dínu. Flækjast þau
allvíða um landið, sjá fjörtíu
hveri gjósa í mörgum litum við
Geysi, lenda í hrakningum á
heiðavegum og feiknalegu
Tyrkjaráni. En það verður Dínu
hinni fögru til happs og hamingju
að með í för er vaskur íslending-
ur, Ámundur Þyrsklingsson, sem
bjargar henni úr hverrri raun og
hrekur þá illu Tyrki á flótta. Og
vinnur með því móti ekki aðeins
hug hennar og hjarta, heldur og
samþykki frænda hennar við
þann ráðahag sem við blasir.
í Gesti er einnig birt ritfregn
frá 1892 um skáldsögu eftir H.
Rider Haggard ( þann sem skrif-
aði Námur Salómóns konungs)
þar sem hann smíðar einhvers-
konar fornsögu úr minnum um
Gretti Ásmundarson og Guð-
rúnu Gjúkadóttur.
Trúið ekki
einu orði
í þessum ritsmíðum kemur það
fram strax, sem síðan hefur við
loðað: íslendingar hafa nokkra
tilhneigingu til að hneykslast á
því hve frjálslega, að maður ekki
segi dólgslega, erlendir
skemmtunarmenn umgangast
sögu okkar, sagnahefð, landa-
fræði og fleira. Ólafur Davíðsson
skrifar t.d. svo um Ásmundar
sögu Þyrsklingssonar og Róbin-
son:
„Það þarf varla að taka fram að
tæplega er heil brú í sögum þeim
sem þræddar hafa verið ( Dæmi:
Enginn íslendingur hefur dvalið
tíuáráeyðieyju. Það erfjarstæða
að reykur sjáist frá Skálholti til
Bessastaða og að Snæfellsjökull
hafi gosið á 17. öld. Osfrv.)...
Yfir höfuð verða menn að varast
að trúa nokkru í sögum þessum.*
Allt þetta hefur haldið áfram
síðar. Desmond Bagley bjó sér til
undarlega landafræði, sérhann-
aða fyrir hans þarfir, þegar hann
setti saman þekktan reyfara um
enn eina glímuna milli vestrænna
og sovéskra spíóna. Við urðum
mjög hneykslaðir hér á þessu
góða blaði fyrir einum tuttugu
árum þegar einhver Kaninn bjó
til reyfara um ísland þar sem að-
alskúrkurinn og yfirkomminn hét
Einar Laxness. Þó ku enginn hafa
gantast eins hatrammlega með ís-
lenskan samtímaveruleik og einn
aldraður Fransmaður sem saman
setti æsispennandi íslandsreyfara
fyrir fáum árum, sem enginn man
því lengur hvað heitir.
Kortleggjum dæmin
En hvað sem því líður: ekki
veit þessi Klippari hér til þess að
menn hafi reynt að kortleggja ís-
land í erlendum skáldsögum,
skoða hvernig furður landsins
hafa verið nýttar öðrum til
skemmtunar, fyrr og síðar. Væri
þó ómaksins vert að taka saman
bókarkorn um það efni. Því hér
hafa margir merkir menn komið
við sögu, við hlið alls ómerkra.
Ekki barasta sá frægi Jules Verne
með sína Leyndardóma Snæfells-
jökuls eða þá Victor Hugo með
illfyglið Hans íslenska. Mér dett-
ur til a'ð mynda í hug einn af for-
sprökkum fútúrista austur í Rúss-
landi, Velemír Khlebnikov.
Hann setti saman bækling á árum
heimsstyrjaldarinnar fyrri um
fáránleika stríðsins. Og þar lagði
hann m.a. til, að þeim sem endi-
lega vildu berjast og að bönum
verðast skyldi úthluta landi til
þeirra hluta. Væri upplagt að
velja einmitt ísland til þeirrar
iðju, þar væri fátt fólk fyrir og
fallegt um að litast og þar gætu
menn því eignast „fagran
dauðdaga“ eins og þurfa þykir
ÁB
Þjóðviljinn
Síðumúla 6 108 Reykjavík
Sími 681333
Kvöldsími 681348
Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans.
Rltstjórar:Árni Bergmann, MörðurÁrnason.
Fróttastjóri: Lúðvík Geirsson.
Blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Guðmundur RúnarHeiðarsson,
Heimir Már Pótursson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Kristófer
Svavarsson, Magnús H. Gíslason, Lilia Gunnarsdóttir, ólafur
Gíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðþjófsson (Umsjónarm. Nýs
Helgarb.), Sævar Guðbjörnsson, Þorfinnur Ómarsson (íþr.).
Handrita- og prófarkalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir.
LJósmyndararJimSmart, ÞorfinnurÓmarsson.
Útlitsteiknarar: Kristján Kristjánsson, Kristbergur Ó. Pétursson
Framkvæmdastjori: Hallur Páll Jónsson.
Skrif8tofu8tjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir.
Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir.
Auglýsingastjórl: Olga Clausen.
Auglyslngar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur
Ágústsdóttir, Sigurrós Kristinsdóttir.
Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, Þorgerður Sigurðardóttir.
Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir.
Húsmóðir: Anna Benediktsdóttir
Útbreiðslu-og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson.
Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir.
Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir.
Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn:
Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663.
Auglýslngar: Síöumúla 6, símar 681331 og 681310.
Umbrotog setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð (lausasölu: 70 kr.
Nýtt helgarblað: 100kr.
Áskrlftarverð á mánuði: 800 kr.
6 SlÐA - ÞJÓÐVILJINN Þriðjudagur 6. desember 1988