Þjóðviljinn - 22.12.1989, Síða 21
HELGARMENNINGIN
Marksæknar sögur
Stórir brúnir vængir og fleiri sögur
Sveinbjörn I. Baldvinsson
Aimenna bókafélagið 1989
Stórir brúnir vængir og fleiri
sögur heitir nýútkomin bók eftir
Sveinbjörn I. Baldvinsson. Sög-
urnar eru fimm. Stórir brúnir
vængir er lengsta sagan í bókinni,
heldur lengri en hinar fjórar til
samans. Hún fjallar um mann á
besta aldri sem fær að vita að
hann á skammt eftir ólifað. Þetta
er í sjálfu sér ósköp hversdagsleg
saga um venjulegan mann sem á
konu og tvö börn og hefur komið
sér nokkuð vel fyrir í lífinu eins
og sagt er. Nema vissan um að
dauðinn er svo skammt undan
breytir auðvitað öllu. Það er tals-
verður munur á því að vita að
maður á að deyja og því að vera
að dauða kominn. Hinum fyrr-
nefndu „finnst dauðinn vera
eitthvað óendanlega fjarlægt eins
og endastöð Síberíulestarinnar
við Kyrrahafið er þeim sem sest
upp í Tvistinn á Hlemmi.“ Jón
þessi Steinsson var hins vegar
kominn til Vladivostok svo notuð
sé samlíking úr sögunni. Afstaða
hans til tveggja kvenna er þung-
amiðja sögunnar. Annars vegar
er það eiginkonan sem hann hef-
ur verið með frá unga aldri, hins
vegar ung kona sem hann kynnist
snöggt og náið þegar hann er á
ferð í Kaupmannahöfn. Dauð-
ann ber að fyrr en búist var við og
Jón deyr einn á sjúkrahúsi í
Höfn. A banabeði lætur hann
dæluna ganga á þessu undarlega
forna tungumáli „sægarpa,
drykkfelldra morðhunda og stór-
skálda“. Danska hjúkrunarkon-
an sem hjá honum situr skilur
ekki eitt einasta orð en hug-
kvæmist að taka orð hans upp á
segulband og sendir konu hans.
Jón á leyndarmál með lesanda
sem konunni hans er ekki ætlað.
Þannig er talsverð spenna í lokin
og sagan nær hámarki hér því að í
þessari lokaræðu hins deyjandi
manns lýkst upp hvað það var í
rauninni sem skipti hann máli.
Þetta er ekki átakamikil saga en
nokkuð áhrifarík. Þó átti ég pínu-
lítið erfitt með að trúa því að
deyjandi maður gæti flutt mál sitt
á svo skýran og skipulegan hátt
en það spillti samt ekki sögunni
fyrir mér.
Dauðinn er efni sem kemur
fyrir í flestum sögunum með ein-
hverjum hætti. í sögu sem nefnist
„Hitt augað“ er það dauði
fuglsunga, kjóa. Það er þrettán
ára strákur sem segir frá. Hann
talar inn á segulband (af ástæðum
sem síðar verða augljósar) til vin-
ar síns og rifjar upp þegar hann
fann vængbrotinn fugl uppi í
sveit. Efni sögunnar er margnot-
að en líka sígilt. En í raun er það
frásagnarhátturinn sem ræður
mestu um hvað þessi saga er
sterk. Höfundi tekst mjög vel að
ná eðlilegum tón í frásögn stráks-
ins; hann er einlægur, svolítið
barnalegur en um leið stórvitur.
Það er mjög djúp sár og þjáning í
þessari sögu og hún snertir mann
á sérstakan hátt vegna þess að
rödd stráksins er svo yfirveguð og
æðrulaus. í lokin verður ljóst að
hans eigið líf endurspeglast í ör-
lögum fuglsins og um leið verður
sú grimma reynsla til þess að
hann sér „að maður þarf ekki
endilega að hafa heila vængi til að
geta flotið. Og að maður þarf
ekki endilega að hafa heil augu til
að geta séð stórkostlega og fal-
lega hluti.“ (104)
Æfing heitir saga þar sem mörk
raunveruleika og hugarheims eru
æði óljós enda fjallar hún í raun
um hin óljósu mörk milli sjálfrar
lífsreynslunnar og þess sem kalla
MARGRÉT
EGGERTSDÓTTIR
SKRIFAR
má listræna reynslu. Hún er um
mann sem kemur inn á leiksvið
og þráir það eitt að finna konuna
sem hann elskar. Hún er þarna og
hann skynjar allt sem gerist sem
raunveruleika. Honum er eigin-
lega þröngvað inn í hlutverkið,
en skynjar sjálfur engan leik,
kann ekkert hlutverk, er bara
fastur í sinni eigin sáru reynslu.
Og fagnaðarlæti áhorfendanna
breyta engu um það. Þetta er vel
gerð og eftirminnileg saga.
Stjörnur Cesars er dálítið ein-
kennileg saga. Hún er um gamlan
mann og lítinn strák og dauðann.
Hún er eina sagan sem er að
mestu leyti í samtalsformi, það er
enginn söguhöfundur sem læðist
inn í huga persónanna. Samtalið
er frekar vel skrifað en dálítið
langdregið og ég verð að játa að
atvikið sem sagt er frá í lokin
fannst mér of ótrúlegt til þess að
sagan yrði sannfærandi.
Icemaster er sú saga sem höf-
undurinn fékk fyrstu verðlaun
fyrir í keppni Listahátíðar 1986.
Hún er sannarlega rnögnuð. lce-
master er stór, amerískur ís-
skápur sem gegnir lykilhlutverki í
sögunni. Hann vekur upp í huga
fullorðins manns minningu, sem
hafði verið þurrkuð algjörlega út
úr huga hans, vegna þess að hún
var of hryllileg. Það er minningin
um pabba hans, en sagan hefst á
þessum orðum: „Pabbi var aldrei
til. Við systkinin sáum hann
aldrei. Hélt ég.“ (149). Þegar
þetta lokaða herbergi hugans
opnast, hefur það svo mikil áhrif
að hann svo að segja rennur sam-
an við föðurinn og sekt hans. Og
þó er það ekki einsýnt; sögunni
lýkur í algjörri óvissu um hvort
hringurinn lokast eða hvort mað-
urinn kemst lífs af og nær að
brjótast út úr hringnum.
Þetta er fyrsta smásagnasafn
höfundarins en hann hefur áður
skrifað þrjár ljóðabækur, eina
ljóðsögu og handrit fyrir sjón-
varp og kvikmynd. Sögurnar í
þessari bók eru flestar mjög vel
gerðar. Stuttu sögurnar eru á-
hrifameiri en þessi eina langa;
höfundurinn kann ágætlega á hið
knappa, samþjappaða smásögu-
form. Stórir brúnir vængir er þó
alls ekki slæm saga eins og þegar
hefur komið fram, hún er bara
ekki eins sterk og sláandi og
stuttu sögurnar. í svo langri sögu
reynir meira á persónusköpun og
hún er með daufara móti. I stuttu
sögunum er það atvikið sem
skiptir máli eða snögg og áhrifa-
mikil lífsreynsla og á því hefur
höfundurinn gott vald. Þetta eru
vel skrifaðar sögur, stíllinn er
hnitmiðaður, aldrei ofhlaðinn,
samlíkingarnar ekki margar cn
oftast frumlegar. Málfarið er gott
en höfundurinn hikar heldur
aldrei við að láta persónurnar
nota það orðalag sem þeim er
tamt og hæfir þeim.
Helför Bismarcks
Burkard von Múllenheim-Rechberg
barón:
Orrustuskipið Bismarck
Frásögn skipverja sem komst lífs af úr
viðureigninni
Halldór Vilhjálmsson þýddi
Af öllum viðureignum á Atl-
antshafi í heimsstyrjöldinni síðari
hefur engin orðið svo minnisstæð
sem átök breskra og þýskra her-
skipa nokkra daga í síðari hluta
maímánaðar 1941. í þeim orrust-
um var stærstu og öflugustu ovan-
sjávarherskipum beggja aðila,
breska orrustubeitiskipinu Hood
og þýska orrustuskipinu Bism-
arck, sökkt og með þeim fórust
nokkuð á fjórða þúsund manns.
Alla tíð síðan hefur viðureign
þessi í hugum manna verið
þrungin ógn og drama, vegna
stærðar vígdrekanna sem þar átt-
ust við og örlaga þeirra, sem urðu
þau að hverfa í djúpið með fárra
daga millibili.
I bók Múllenheim-Rechbergs
baróns, sem var sjóliðsforingi á
Bismarck í viðureign þessari og
einn rúmlega hundrað manna af
áhöfn hans sem komust lífs af, er
á greinargóðan hátt sagt frá ógn-
aratburðum þessum, að sjálf-
sögðu fyrst og fremst frá þýsku
sjónarhorni, en hvað sem því líð-
ur af hlutlægni. Frásögnin vekur
athygli á sérkennum þessa hluta
heimsstyrjaldarinnar. Um þær
mundir var raunar ekki enn um
heimsstyrjöld að ræða, þar eð
Bretland og Þýskaland áttust við
ein stórvelda. Heimsstyrjöld
varð stríð þetta ekki í orðsins
eðlilega skilningi fyrr en Sovétr-
íkin, Bandaríkin og Japan dróg-
ust inn í hana síðar á árinu 1941.
Þetta stríð Breta og Þjóðverja
einkenndist einkum af því hve
erfitt þeir áttu með að ná tökum
hvorir á öðrum. Þýski landherinn
var of öflugur til þess að Bretar
DAGUR ÞORLEIFSSON
SKRIFAR
hefðu nokkra möguleika á að
ráðast gegn honum á meginlandi
Evrópu og Bretar voru yfirsterk-
ari á sjónum. Það sýndi sig eftir-
minnilega í viðureign þeirri, sem
hér um ræðir. Meginmarkmið
Þjóðverja í sjóhernaði þeirra var
að hindra birgðaflutninga til
Bretlands, einkum frá Norður-
Ameríku. Til þess voru kafbátar
þeirra skæðasta vopnið, og litlu
mun hafa munað að þeim tækist
að sigra Breta með þeim. Ofan-
sjávarherskipin höfðu hinsvegar
ekkert að gera í hendurnar á mar-
gfalt öflugri herskipaflota Breta.
Hætt er við að för Bismarcks og
beitiskipsins Prinz Eugen út á
Atlantshaf, þar sem þeim var ætl-
að að mæta skipalestum Breta,
hafi verið ákveðin í þeim tilgangi
fyrst og fremst að eitthvert gagn
yrði að þessum fyrirferðarmiklu
hernaðartækjum, sem of fjár
hafði kostað að smíða og rándýrt
var að halda við.
Sökum þess hve stór herskipin
voru var vonlaust að leyna för
þeirra, gagnstætt því sem var um
kafbáta, enda fréttu Bretar af
leiðangri Bismarcks og Prinz
Eugen svo að segja jafnskjótt og
þeir voru lagðir af stað og fylg-
dust með ferðum þeirra síðan. f
bardaga sló syðst á Grænlands-
hafi eldsnemma morguns 24.
maí. Það stóð ekki Iengi áður en
Hood sprakk í loft upp. Þar
endurtók sig sagan frá sjóorrust-
unni á Skagerrak 1916, þeirri
mestu í heimsstyrjöldinni fyrri;
brynjan á þilfari Hoods brast
undan sprengikúlunum frá Bism-
arck, er þær skullu á því, með
þeim afleiðingum að ein þeirra
eða fleiri komust niður í skotfær-
ageymslur breska herskipsins.
En Bismarck slapp ekki heill
hildi frá og foringjar um borð ák-
váðu að leita hafnar í Vestur-
Frakklandi, sem Þjóðverjar þá
hersátu. En því undanhaldi lauk
með því að orrustudreki þessi
mikill var umkringdur af tugum
breskra herskipa og gereyði-
lagður.
í viðureign þessari, sem
fleirum í því stríði, sýndi sig
glöggt hversu bjargarvana stór
ofansjávarherskip voru orðin
gagnvart flugvélum og breytti þá
litlu hversu rammlega brynvarin
og vopnuð þau voru. Þrátt fyrir
furðumikla dirfsku bresku flug-
mannanna, sem réðust gegn
Bismarck, tókst þessu skæðasta
orrustuskipi heims með öllum
sínum feiknaskotkrafti ekki að
hæfa eina einustu þeirra. Og flug-
manni einnar árásarvélarinnar
tókst með tundurskeyti að laska
stýri Bismarcks, svo hann lét ekki
lengur að stjórn. Þar með var
hann dauðadæmdur.
Frásögn baróns von
Múllenheim-Rechberg gefur auk
annars ekki eftir bestu spennu-
sögum; flestum finnst jú gaman
að lesa um bardaga, ef vel er frá
sagt og þeir þurfa ekki að koma
mjög nálægt þeim sjálfir. Þýðing-
in er vel af hendi leyst og myndir
margar og uppdrættir auka gildi
bókar þessarar, sem er 327 bls að
stærð.
dþ.
LISTAJÓL
BÖRG
Pósthússtræti 9, Austurstræti 10, sími 24211.