Þjóðviljinn - 31.03.1990, Síða 4

Þjóðviljinn - 31.03.1990, Síða 4
þJÓÐVIUINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar. AFMÆLI Gerjun í í þessari viku urðu þau tímamót að mati margra, að Einar Pálsson flutti fyrsta fyrirlestur sinn við Háskóla íslands um rannsóknir á táknmáli íslenskra miðaldabókmennta og tengingar þeirra m.a. við rómverska, gríska og egypska menningu. Einar hefur gefið út fjölda verka um tilgátur sínar en til þessa aðeins flutt fyrirlestra um þær við erlendar menntastofnanir. Það var Félagsvísindadeild Háskólans sem reið á vaðið, og eins og fulltrúi hennar, prófessor Þórólf- ur Þórlindsson benti á, verður það að teljast í samræmi við efni rannsókna Einars, sem tengjast hugmyndaheimi landnámsmanna og afkomenda þeirra, aðferð í skipulags- málum og grundvöllun merkisstaða á landinu. Kenningar og aðferðir Einars hafa verið umdeildar, eins og eðlilegt er, svo mjög sem þær ganga í berhögg við ýmsar viðteknar hugmyndir og skýringar á miðaldamenningunni. Ekki skal dæmt um það hér, hvers virði þær eru, en í Ijósi víðtæks áhuga hjá þjóðinni um fornan menningararf er það gleðilegt, að nú hillir undir að þessar byltingarkenndu hug- myndir verði teknar til umfjöllunar af fleiri fræðimönnum og rannsóknaraðilum. Það er til dæmis einkar athyglisvert, að nýlega birtar niðurstöður yfirmanns arkitektadeildar Róm- arháskóla og athuganir Þórarins Þórarinssonar, arkitekts hjá Reykjavíkurborg, um fornar hefðir í mörkun lands og byggðar, skuli leiða í Ijós samsvaranir við vinnutilgátur Ein- ars Pálssonar af undraverðri nákvæmni. Margt bendir til þess, að um þessar mundir sé nokkur aerjun í viðhorfum og verkefnavali sem tengist fyrstu öldum Islandsbyggðar. Margrét Hermanns Auðardóttir hefur ný- lega varið doktorsritgerð sína um fyrstu byggð í Vestmannaeyjum, sem hún túlkar þannig að land hafi verið byggt hér mun fyrr en áður var ætlað. Gísli Sigurðsson varpar í doktorsritgerð sinni um keltnesk áhrif á íslandi upp spurningum um blómlega Keltabyggð við Breiðafjörð fyrir landnám norrænna manna og Þorvaldur Friðriksson forn- leifafræðingur kynnti á fundi hjá Félagi íslenskra fræða í vikunni forvitnilegar upplýsingar úr bráðabirgðarannsókn- um sínum á Fellsströnd, sem ásamt fornleifagreftri á Græn- landi benda til sterkari keltneskra og kristinna áhrifa um vestanvert landið en almennt hefur verið álitið. Hingað til hafa það að mestu verið leikmenn sem veltu vöngum yfir öðrum skýringum og sjónarhornum í þessum efnum en háskólamenn stundað. Með því að benda á þetta er engri rýrð varpað á merk störf lærðra fræðimanna. Hins vegar er augljóst, að langur vegur er frá því að allir fletir, skýringartilraunir og vinnuaðferðir hafi enn litið dagsins Ijós. í því sambandi má minna á þá nýsköpun í rannsóknum á íslenskum fornbókmenntum sem fram hefur farið erlendis. Útlendingar reiða sig á textarannsóknir íslendinga og aðrar grundvallarathuganir og útgáfur, en hafa hins vegar oft verið fljótari að tileinka sér eða finna upp ný tök og tengingar en við. Þetta hafa íslenskir háskólamenn sjálfir bent á. Hér er ekki um samkeppni að ræða, heldur samvinnu, þegar allt er með felldu. Þessu til staðfestingar er merkileg starfsemi Stofnunar Sigurðar Nordals, sem ekki síst annast tengsl við þá erlenda aðila sem við íslensk fræði fást. Auk fyrirlestraraðar sem nú stendur yfir býður stofnunin í sam- vinnu við aðila innan Háskóla íslands erlendum fræði- mönnum til þriggja viðburða í júní og júlí. Hæst af þessum viðburðum ber „Snorrastefnu", sem er alþjóðleg náms- stefna Stofnunar Sigurðar Nordals um norræna goðafræði og Snorra-Eddu í júlílok. Níu erlendum fræðimönnum er boðið þar til fyrirlestrahalds. Allt ber þetta vonandi merki um þróttmikla og lífvænlega íslenska menningu. Og miðað við þá staðhæfingu sem stundum heyrist, að áhrif Sigurðar Nordals hafi jafnvel um of yfirgnæft önnur sjónarmið eða rannsóknaleiðir, þá er það augljóst að þeir sem vinna í hans nafni opinberlega núna eru á vissan hátt í fararbroddi þeirra sem efla nýsköpun og stuðla að fjölbreyttari hugmyndum og vinnuaðferðum í mið- aldafræðum. Framtak Félagsvísindastofnunar varðandi kenningar Einars Pálssonar er einnig hluti af þessari þróun. ÓHT þJOÐVILJINN Síðumúla 37-108 Reykjavík Sími:68 13 33 Símfax:68 19 35 Útgefandi: Útgáfufélag Pjóðviljans. Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Ritstjórar: Árni Bergmann, Ólafur H.Torfason. Fróttastjóri: SigurðurÁ. Friðþjófsson. Aðrirblaðamenn: DagurÞorleifsson, ElíasMar(pr.),Garðar Guðjónsson, Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Heimir Már Pétursson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristinn Ingvarsson (Ijósm.), LiljaGunnarsdóttir, ÓlafurGíslason, ÞrösturHaraldsson. Skrifstofustjóri: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Svanheiður Ingi- mundardóttir, UnnurÁgústsdóttir. Sfmavarsla: Bára Sigurðardóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Útbreiðslu-ogafgreið8lu8tjóri:GuðrúnGísladóttir. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Ðárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla37, Reykjavík,sími:68 13 33. Símfax:68 19 35. Auglýsingar: Síðumúla 37, sími 68 13 33. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 100 kr. Nýtt Helgarblað: 150 kr. Áskr iftarverð á mánuði: 1100 kr. Stefán Hörður Grímsson sjötugur Það var fyrir nokkrum árum, að Stefán Hörður kom að máli við ungt ljóðskáld sem hafði þeg- ar getið sér nokkurt orð, heilsaði honum með miklum virktum og sagði eitthvað á þá leið, að þeim væri merkilegur hlutur sameigin- legur. Óþarfi er að lýsa þeirri til- finningu sem gagntók skáldið unga þegar sjálfur stórmeistarinn vék að því slíkum orðum, og titr- andi röddu var spurt hvað þetta væri. „Við höfum báðir verið sundkennarar," svaraði Stefán á sinn elskulega hátt. Og gladdi held ég kollega sinn, þótt hann hefði aldrei við slíka kennslu fengist. Það einkennir svo mörg ljóð Stefáns, að varla er nokkur leið að orða lærdóminn af þeim öðru vísi en hann gerir það sj álfur.Hver lesandi hlýtur að túlka þau fyrir sig. Eins er með þessa litlu sögu. En þó er hún í mínum huga tákn þess að Stefán fetar sinn eigin stfg um landslag ljóðlistarinnar, og á fátt sameiginlegt með öðrum ís- lenskum skáldum, að þeimólöst- uðum, annað en sundkennsl- una. Stefán hefur ekki gefið út margar bækur, en verið nýr mað- ur með hverri bók. Samt er það alltaf sama röddin sem hljómar. Fáir hafa gefið út ljóðabækur á seinni árum sem eru frumlegri eða nýstárlegri en síðustu bækur hans. Stefán kann eins og norn- irnar að snúa okkur ljúfan þráð, ekki síst í ástarkvæðum sínum, en um leið eirir hann hvergi „þessu skipulagða víti glysþrælanna". Aldrei hefur hann samt ofgert þeirri lýrísku vatnsorkusálsýki sem Þórbergur skrifaði um forð- um, heldur setur hann iðulega inn í bækur sínar ljóð sem vefjast fyrir lesanda nema hann átti sig á því að þeim er ætlað að rjúfa allan uppgerðar hátíðleika, og fá okk- ur til að líta líf okkar nýjum augum („Maður í regnkápu/ kann að vera rigningarlegur/ en hann er ekki regn“). Nú kann fólk að halda það um menn sem fara eigin slóðir, hafa sín prívatsundtök meðan við hin troðum alltaf þennan sama mar- vaða, að það sé óskaplega erfitt við þá að eiga og til dæmis engin leið að gefa þá út. Því fer fjarri. Með síðasta handriti Stefáns fylg- di til að mynda svohljóðandi miði: „Bókstafurinn z (seta) er eina skilyrðið sem ég set til þess að ég leyfi prentun á bókartexta, sem ég er skrifaður fyrir“ - og var þó bætt við að allt væri þetta skaplyndi útgefanda háð. Það er hægur vandi að uppfylla þetta skilyrði Stefán, en þeim mun meiri sómi að fá að gefa þig út. Til hamingju með afmælið! Halldór Guðmundsson Þegar minnst er á Stefán Hörð er þess gjarna getið, að ekki hafi hann nú sent frá sér margar bækur. Þótt skrýtið sé er engu líkara en sumir menn bendi á þessa staðreynd með ávítunar- svip: rétt sem þeir vilji segja að Stefán Hörður sé ekki nógu dug- legur sjómaður við sinn veiði- skap, við að draga ljóðfiska undan steini. En svo ég nú tali fyrir sjálfan mig: gott er alltaf til þess að vita að þeir skuli vera til sem vísa frá sér með kurteisu fordæmi þeim afkastafyrirgangi sem íslendingar hafa lagst í og er þá raunar lifandi að drepa. Ekki síst vegna þess, að þegar okkur er svo gefinn kostur á að opna nýja bók eftir skáldið, þá erum við hrifin burt úr hávaða og áhrifabrellum og klisju. Við erum stödd í þeim galdri miðjum sem frumleikinn er, ótrúlegur og þó ekki langsóttur, furðulegur en samt nákominn upprunaleikan- um sem við ættum öll að hafa sjálfsagðar taugar til, svo framar- lega sem við höfum ekki svikið allt það sem skást er í okkur. Það vill svo til að við lesum skáldskap í takt við árin sem safn- ast á herðar okkar. Forvitni okk- ar er ekki sú sama og hún var þegar allt sýndist nýtt. Ekki nema von að við látum okkur fátt um finnast þótt einhver komi með írafári og segi að mikil nýmæli hafi brotist út. Ekki nema eðli- legt að þeim skáldum fækki sem við eigum samleið með. Um leið ogsamferðin verðurinnilegri. Og þá viljum við ekki síst vita af þeim í nágrenninu sem ekki ljúga að okkur með tiktúru eða tísku- flandri. Af þeim sem þekkja þversagnir heimsins og óttast þær ekki og gera ekki lítið úr þeim og kunna að vinna úr þeim góðkynj- aðan kraft sem játast lífinu og þess fögru möguleikum. Einn þeirra er Stefán Hörður, það var hann sem sagði: Njótum þess morgunglöð að villast rétta leið! Næsta fótmál skín í undrafirð. Arni Bergmann Þjóðarátak gegn krabbameini Nú um helgina munu sjálfboða- liðar ganga í hvert hús í iandinu og taka við framlögum í „Þjóðar- átak gegn krabbameini - Tii sig- urs!“. Einnig verða sjálfboðaliðar í nokkrum stórmörkuðum. Söfn- unarfólkið mun verða auðkennt merki átaksins og gefa kvittanir fyrir öllum framlögum. Gert er ráð fyrir að safnað Gengið í hús um helgina verði á tímabilinu frá kl. 11 til kl. 19 á laugardag og milli kl. 13 og 19 á sunnudag. Ef enginn er heima á þessum tíma verður skilið eftir umslag með gíróseðli og korti sem setja má ófrímerkt í póst ef óskað er eftir að greiða með greiðslukorti. Greiða má framlag með peningum, ávísun eða greiðslukorti en einnig er hægt að tilkynna framlag með greiðslukorti alla helgina í síma Krabbameinsfélagsins, 62 14 14. Enn vantar fleiri sjálfboðaliða til starfa og fer skráning þeirra fram í þessum sama síma. í húsi félagsins að Skógarhlíð 8 í Reykjavík verður miðstöð starfs- ins en söfnunarskrifstofur verða í öllum kirkjusóknum í höfuð- borginni og á þéttbýlisstöðum um land allt. 4 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Laugardagur 31. mars 1990

x

Þjóðviljinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.