Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.1957, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.1957, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 275 Mesta rigningarbæli í heimi Á hásléttunni í Assam, 6027 fet yfir sjávarmáli, er lítið þorp, sem heitir Cherrapunji. Þarna er póst- hús og trúboðsstöð, en þorpsins mundi þó að engu getið, ef veður- fræðin hefði ekki gert það frægt sem mesta rigningarbæli veraldar. Vegna þessarar frægðar gerði ensk- ur maður sér ferð þangað til þess að sjá staðinn með eigin augum, og segir hann þannig frá ferðalaginu; Frá þorpinu Dawki, sem er á landamærum Indlands og Austur Pakistan, liggur 150 lcm. langur vegur yfir fjöllin til Shillong, sem er höfuðborgin í Assam. Fyrst í stað liggur vegurinn í ótal hlykkj- um upp skógi vaxnar hæðirnar og víða á hengiflugi. Hvað eftir ann- að má sjá hvítar málningarslettur á klettum, og er það aðvörun til bílstjóra um að hættuleg beygja sé framundan. Þar sem vegurinn er tæpastur er á ytri brún settir gamlir benzíndunkar, fylltir grjóti og málaðir ýmist svartir eða hvít- ir. Þegar hærra dregur sér oft ekki handaskil fyrir þoku, og þegar birtir sér maður hvernig þokan streymir sem geysimikill reyk- mökkur upp úr öllum gljúfrum. Meðfram veginum standa nokk- ur fátækleg hús, en flest þeirra eru með bárujámsþaki, til þess að verj- ast regninu. Á þessum stöðum var fólk að bætast í áætlunarbílinn. Það var fjallafólk af hinum svo- nefnda Khasisþjóðflokki, sem er mjög svipaður fólkinu í Suður Kína, með há kinnbein og skáhöll augu. Margir höfðu yfir sér brekán eða stórt sjal, og einn þeirra kom jafnvel með geit upp í bílinn. Þegar komið er upp á hásléttuna hverfur skógurinn, og djúpt undir fótum manna blasir við Bengal- sléttan, óravíð og nær allt fram að hafi. Þar er komið að vegamótum. Er nú farið af Shillong-veginum og haldið til suðvesturs. Vegamótin eru einkennd með mynd af haus- kúpu og krosslögðum leggjum. Er nú komið inná þröngan götuslóða, sem liggur til Cherrapunji. Á þeim vegi geta bílar ekki ekið hver fram hjá öðrum og vegurinn er mjög hættulegur. Það er ekki margt að sjá í Cherrapunji, en manni verður fljótt ljóst hvernig stendur á því hve mikið rignir þar. Skammt þar fyrir ofan eru há fjöll, og þegar regnskýin, sem koma með monsun- vindinum utan af Bengalflóa reka sig á fjöllin, þá steypist regnið niður. Hinn heimsfrægi regnmælir er geymdur innan voldugrar gadda- vírsgirðingar skammt frá pósthús- inu,og það er hlutverk póstmeist- arans að líta eftir honum. Mér var sagt að girðingin hefði verið sett umhverfis regnmælirinn vegna þess, að menn hefði haft það til áður að hella vatni í geyminn. Þess vegna er sennilegt að eldri vatnsmælingar á þessum stað sé heldur óáreiðanlegar. En síðan girðingin var sett hefir meðalúrkoman mælzt 429 þuml- ungar þá þrjá mánuði ársins, sem monsúnvindur blæs. Mest er úr- koman í júlí, enda gerir þá oft stór- kostleg flóð. Eg átti tal við frú Philips, sem stjórnar trúboðsstöðinni. Hún sagði mér að þau ætti stórt bókasafn, en væri í stökustu vandræðum að verja það fyrir rakanum. Á hverj- um einasta degl verður að þurrka allar bækurnar og hvenær sem sól skín, eru þær bomar út til þess að viðra þær. En um versta rigninga- tímann er húsið kappkynt dag og nótt, bókanna vegna. Forðum höfðu Bretar hér her- stöð, og í litlum kirkjugarði skammt héðan em minnismerki margra herforingja og kvenna þeirra. Fæst þeirra hafa orðið meira en þrítug. Rigningarnar, malaría og aðrir hitabeltissjúkdóm- ar styttu ævi manna hér. Það varð og til þess að Bretar fluttu her- stöðvar sínar héðan 1864 norður til Shillong, þar sem betra loftslag er. Þess vegna er Cherrapunji nú aðeins lítið og ómerkilegt þorp, sem engar sögur færi af, ef það ætti ekki metið í úrkomu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.