Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.1968, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.1968, Blaðsíða 7
„Anna María Elísabet Sigurðardóttir frá Syðra-Skógarnesi á Snæfellsnesi. Og vildi ég mega bæta því við, að betri eiginkonu hefði pabbi ekki getað fengið, þótt talsverður aldursmunur væri á þeim. Hún var einstök eiginkona, auk þess sem hún var elskurík og góð móð- ir“. „Hvenær hleyptir þú heimdraganum úr foreldrahúsum, Þórarinn"? „Ég mun hafa verið 19 ára, er ég hélt til Reykjavíkur frá Stóra-Hrauni, en þar var faðir minn þá prestur. Fyrstu tvö árin vann ég hér að verzlunarstörf- um. Síðan var ég afgreiðslumaður hjá Alþýðublaðinu í rúm tvö ár. Ólafur Friðriksson var þá ritstjóri þess. Þarna kynntist ég ýmsum fleiri brautryðjend- um jafnaðarmanna, svo sem Héðni, Sig- urjóni Á. Ólafssyni, Steingrími fisksala og fleirum. Ólafur var indælis húsbóndi og hafði ég svo miklar mætur á honum, að mér þótti einsætt að berjast með honum, eftir því seín vígfimi hrökk til, í slagnum fræga út af rússneska drengn um. Á þessum árum kynntist ég því fyrst hvað fátækt og hörð lífskjör eru í raun og veru. Að vísu upplifði ég þau ekki sjálfur, en í gegnum starf mitt hjá Al- þýðublaðinu hafði ég góða aðstöðu til að kynnast kjörum sjómanna, áður en vökulögin komu. Þegar þeir urðu að standa 2—3 sólahringa hvíldarlaust við vinnuna, til að reyna að forða fjöl- skyldu sinni frá skorti. Síðan þá hefi ég ávallt haft samúð með þeim, sem heyja stranga baráttu í einhverri mynd við erfið lífskjör. „Þú ert þarna kominn yfir tvítugt. Varstu ekkert farinn að gefa kvenfólki auga á þessum árum?“ Ég var nú farinn að sækja böll um þetta leyti, bæði í Bárunni og í Iðnó, það voru samkomuhúsin þá. Ég sá og spjallaði við margar ungar og fallegar stúlkur. Var svo sem ekkert hræddur við kvenfólk. En það varð engin al- vara úr þessu, fyrr en ég kynntist þeirri einu réttu, konunni minni, sem hefur nú staðið mér trúföst við hlið í 46 ár og alið mér 9 dætur, en 6 þeirra eru enn á lífi. Hún heitir Rósa Lárus- dóttir, dóttir Lárusar Halldórssonar, prests á Breiðabólstað á Skógarströnd og hans mætu konu Arnbjargar Einars- dóttur. Hann var merkisklerkur og var meðal annars talinn skrifa fegurstu rit- hönd allra hérlendra manna á sinni tíð. Rósa vann um þetta leyti hjó Félags- bókhaldinu, og kynntist ég henni þar. Er ekki að orðlengja það, að við trú- lofuðum okkur árið 1920 og giftum okk- ur árið eftir. Ég þá tuttugu og þriggja ára, en hún átján ára. Mesta gæfa lífs míns var að kynnast þessari yndislegu konu og eignast hana að lífsförunauti. Fyrst bjuggum við hér í Reykjavík í nokkur ár. Keypti ég þá nýjan vöru- bíl og stundaði akstur um hríð“. „Hvað kostaði nýr vörubíll þá?“ „Hann kostaði 4600,00 krónur. — Ég var einn af stofnendum Vörubílstjóra- stöðvar íslands. Ég held við höfum ver- ið tuttugu og tveir stofnendurnir, og einn þeirra keyrir enn í dag á stöð. Hann heitir Magnús Ólafsson og keyrir hjá B.S.R. Nú svo seldi ég þennan bíl, keypti annan og ek með mínar föggur og skyldulið vestur að Stóra-Hrauni og fer að búa þar í tvíbýli við föður minn. Ég held það hafi verið 1926.“ „Hvernig jörð er stóra-Hraun?“ „Hún er að mörgu leyti góð jörð, hlunnindajörð, en erfið og svolítið hættu leg. Þar er allmikil sjávarhætta fyrir fé, auk þess flói með dýjum skammt frá bænum. Og svo rennur Haffjarðará til sjávar rétt við bæinn“. Svo hafa kreppuárin skollið þarna á þig, þegar þú varst nýlega byrjaður búskap?“ „Já, en einhvernveginn klöngraðist- maður furðuvel yfir erfiðustu kreppu- árin. Mér búnaðist allvel framan af og átti orðið um 200 fjár, þegar flest var.“. En þá kom mæðiveikin, og þá fór að halla undan fæti. Hún hafði það af að lækka kindaeignina niður í 40 stykki. Já, þá fór nú fyrst að syrta verulega í álinn, því að mjólkursölu stundaði ég aldrei. Maður reyndi þó að aura svolítið saman, með því að taka sumardvalargesti, og ýmislegt fleira bar maður við, il að mæta þessum áföllum. — En raunar eyðilagði mæðiveikin minn búskap. Líklega hefði ég aldrei flutt frá Stóra-Hrauni, ef hún hefði ekki borizt hingað“. „Þú hefur haft áhuga á búskap?“ „Upphaflega var ég nú ekki beint náttúraður fyrir búskap. Enda stóð til ég yrði látinn læra til prests, _og ég hafði áhuga á „langskólanámi“. Ég var líka dálítið heilsulítill, þegar ég var unglingur og ekki beint lagaður fyrir stritvinnu af þeim sökum. Pabbi byrjaði að kenna mér heima, og að mörgu leyti var hann ágætur kenn- ari, einkum í vissum fögum, t.d. sögu og reikningi. En hann átti það til að vera nokkuð óþolinmóður við kennslu og gerði held ég fullharðar kröfur til nemenda sinna á stundum. — Hann vildi kenna mér allt undir stúdentspróf, og þegar það kom til tals, að ég færi í Flensborgarskólann til undirbúnings frekara námi, mátti hann ekki heyra slíkt nefnt. — Ég held það hafi verið meðfram af þeim sökum, að ekkert varð úr því, að ég lærði til prests. Kannski hefi ég ekki heldur verið nógu ein- beittur við námið hjá pabba. En þótt ég væri ekki beint náttúr- aður fyrir búskap, þegar ég var ungur, hafði ég að mörgu leyti gaman af bú- skapnum, eftir að ég var byrjaður á honum. Einkum af kindunum. Því hefi ég líklega þolað mæðiveikina enn verr, mér þótti vænt um féð. Af veiðiskap hafði ég og hefi enn hið mesta yndi, og það var nóg veiði á Stóra-Hrauni, lax og silungur í Haf- fjarðará, selur í sjónum. — Þegar kallið kemur, þá vildi ég, ef ég réði þar nokkru um, helzt andast með stöng í hendi, veiðandi lax eða silung. „Hefurðu þá aldrei verið hætt kom- inn við veiðar?" „Ekki við lax- eða silungsveiðar, að ég muni, en eitt sinn lenti ég í hálf- gerðu handalögmáli við sel fyrir vest- an. Ég skaut talsvert aí selum og þótti dágóð skytta, þó ég segi sjálfur frá. Nema ég skýt einu sinni sem oftar á sel skammt undan landi og hæfði hann. Ég var vanur að synda eftir sel- unum, er svo stóð á. Legg mig til sunds, en þegar ég kem út þar sem selurinn er, þá fæ ég heldur ómjúkar viðtökur, því hann var þá ekki meira en svona í mesta lagi hálfdauður. Ræðst hann að mér og býtur mig í hendina, og varð það allmikið sár, enda sérðu hér örið enn“. Og Þórarinn réttir fram hægri hendi og bendir mér á langt hvítt ör, þar sem tennur selsins höfðu rist holdið. „Að sjálfsögðu var selurinn í fullum rétti frá lögfræðilegu sjónarmiði, þar sem hann var aðeins að reyna að verja líf sitt. En það er af mér að segja, að ég lagði á flótta og synti til lands, en þegar ég var kominn í land, sendi ég selsa annað skot, og varð það hans bani. Þetta hefi ég nú líklegast verið hættast kominn við veiðar.“ „Bjóstu ekki alllengi á Stóra-Hrauni, eftir að mæðiveikin fór að drepa niður féð?“ „Jú, pabbi hætti nú búskap líklega 1935 eða svo, og tók ég þá einn við við allri jörðinni. Ég bjó þar síðan til 1946, en þá fluttum við að Drangs- nesi í Strandasýslu. Þar stundaði ég út- gerð og hótelrekstur um eins árs skeið. Flutti síðan til Reykjavíkur. Hér í Reykjavík vann ég fyrst hjá Ragnari Guðmundssyni, heildsala í rúmlega tvö ár. Þá hóf ég búskap á Tröð á Álftanesi, rak þar einnig prjóna- stofu um hríð og kenndi unglingum í tómstundum. Svo vann ég um tíma hjá Hamiltonfélaginu á Keflavíkurflugvelli. Framhald á bls. 12 Jakob Jónasson: Glataði sonurinn Gangan frá vöggu til grafar grýtt er og víða hál fátækum förusveini með funa í hjarta og sál. En meðan að vonin á vængi og viljinn áfram knýr leitar hugurinn landa, sem lánið og gæfan býr. En víða eru vegamótin og viðsjál hver ókunn leið. Ein er gata til hægri, önnur til vinstri breið. Ég veit ei hvern veginn ég valdi og veit það ei enn í dag, því allir eiga þeir enda á einum og sama stað. Ég gisti höfðingja hallir og hálærða spekinga, heimsótti klerka og kirkjur og kennimenn hér og þar. Þeir allir mér vísuðu veginn og vonin mig áfram bar til glóbjartra gylltra sala. En gæfan bjó ekki þar. Á glösum þar glóðu veigar og gleðin hástemd var, konur á hverju strái, sem kysstu mig sitt á hvað. Ein var þar allra fegurst er unað mér dýrastan gaf. En rétt fyrir miðjan morgun meyjan mér horfin var. Á listanna og lastabrautum ég leitaði sitt á hvað. Ýmist á landi eða legi, en leitin ei ávöxt bar. f glaumnum eyddi ég öllu, undi við falskan hljóm. Vinanna brosið breyttist er buddan var rúin og tóm. Loks gisti ég kerlingu í koti kreppt og Iotin hún var, en bjart var í augunum brosið og blítt hennar spaka tal. „Þú víst hefur leitað lengi, en leit þín ei ávöxt ber. Leitaðu að gæfu og gengi og Guði í sjálfum þér“. Mæddur í miðjum hlíðum mæni ég tindinn á, sem eitt sinn ég ætlaði að klifa og alheims myndina sjá. Bergja af vizkunnar brunni, biðja heiminum frið. Sjá alla höggorma heimsins höggna við sama tré. En hvert sem lífið mig leiðir, að lokum-til livíldar geng, glaður með göngustafinn, þótt gullinu hafi ég eytt. Sál mína góðum Guði glaður í hendur fel, en skjólfötunum ég skila, sem skýlt hafa lengi og vel. Meðan að enn er ei grafin mín gröf get ég leyft mér að dreyma. Við úthafið mikla á yztu nöf átti ég fyrrum heima. Ég sigli ekki framar heimsins höf, í hugann minningar streyma. Barnsskónum týndi við lognbjartan lög, sem líður um dalinn heima. Ég styð mig við geisla frá stjörnu bjartri. Nú stendur veröldin kyrr. Ó Drottinn minn, þessa dúnmjúku tóna dreymdi mig áður fyrr. En hvar er ég staddur, hvert skal halda? Hvar liggur vegurinn heim? Nú ber mig hratt fyrir björtum seglum, báturinn skríður vel. 3. marz 1968 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.